Um daga Eysteins konungs Magnússonar berbeins kom utan af Íslandi sá maður er Þórður hét, austfirskur að ætt og félítill. Hann var gervilegur maður og föðurbetringur og hélt sínum hluta fyrir jafnaðarmönnum sínum. Skáld var hann gott.
Og sem hann kom í bæinn var fátt til forgiftar að taka. Hann kom um kveldið í garð konu þeirrar er Ása hét. Hún var ættstór og auðug mjög. Hún var náskyld þeim Bjarkeyingum og Víðkunni Jónssyni og öðrum frændum þeirra. Hún tók við Þórði um stund. Hann skemmti vel og kunni gott umstilli á skapsmunum Ásu. Vel rættist um vist hans og var hann þar um veturinn með kærleikum og æ því meira sóma sem hann var lengur og mæltu því margir menn að með þeim væri hin nákvæmasta vinátta. Sátu þau löngum saman á einmæli. Ása var ekki ung kona.
Um vorið sagði hún Þórði að henni hefði vel til hans líkað «og mun eg fá þér fé nokkuð til Englandsfarar og eigum bæði saman ef nokkuð á grónar.»
Og svo gerir hann. Tekst honum vel kaupferðin, kom heim að hausti og sat heima um veturinn. Svo fer nokkur sumur. Gengur mjög í vöxt efni þeirra og gerist því meiri hans frami sem hann var lengur með Ásu. Er hann nú kallaður Gull-Ásu-Þórður. Frændum hennar þótti óvirðing í þessu og lögðu á Þórð óþokka mikinn en hann lætur sem hann heyri ekki.
Það var einn dag að Ása kom að máli við Þórð og mælti: «Hingað er von Víðkunns frænda míns. Vil eg að þú leitir honum allrar virðingar í þjónustu þinni og þætti mér ráð þú yrtir um hann drápu og bærir fram áður hann fer í brottu og sæmdir hann mjög í kvæðinu því að höfðingjum flestum þykir lofið gott en við munum þurfa að stilla til ef honum skal allvel líka en þér þó ekki minna á liggur nokkurum orðum. En þú ert hólpinn ef þú færð hans vináttu við hvern sem þú etur kappi hér í Noregi.»
Þórður kveðst mundu til hætta og yrkir síðan kvæðið. Eftir það kemur Víðkunnur með mikla sveit manna og tekur sér skytning.
Og einn dag gekk Þórður fyrir Víðkunn, kvaddi hann og mælti: «Kvæði lítið hefi eg að færa yður er eg hefi kveðið og vil eg þér hlýðið.»
«Það skal vera,» segir Víðkunnur, «og hefir þú fyrstur orðið til að kveða um mig. Mun þér nokkuru skipta Þórður hvern veg mér virðist kvæðið, og mun eg hlýða, því að ekki ann eg þér svo mikið sem Ása frændkona mín.»
Síðan hóf hann kvæðið og var það fimmtug drápa og var þetta stefið:
Hart rýðr Hildar kerti,
hjálm í fólk gunna,
Jóans ættstuðill einart
allfróðr í styr þjóða.
Og sem úti var kvæðið lögðu margir lofsorð til en Víðkunnur þakkaði mest og skipti skjótt skaplyndi við Þórð og gaf honum gullhring er stóð mörk. Þórður lést eigi fé þurfa en beiðist vináttu hans og því hét Víðkunnur og var hann út leiddur með góðum gjöfum.
Líða nú stundir. Og eitt sumar er Þórður kom af Englandi lagði hann upp í ána Nið. Eysteinn konungur var þá í bænum og margt stórmenni með honum, Sigurður Hranason og Víðkunnur Jónsson og Ingimar af Aski, hinn ríkasti maður og hinn mesti ofsamaður. Hann hafði lagið í lægið áður en Þórður kom að. Menn ræddu um að honum væri vænast að leggja upp í öðrum stað. Þórður kvaðst ekki mundu til saka og lét vera kyrrt. Og er þeir ræddu um þetta og ruddu skipið finnur Þórður eigi stafntjaldið. Hann gengur þá á skip Ingimars og finnur þar svein einn og hafði sá sveipað undir sig tjaldinu. Þórður tekur sveininn með tjaldinu og rekur heim í garð sinn og skipar upp síðan farmi sínum. Brátt kemur þessi saga fyrir Ingimar og verður hann reiður mjög og gengur að garði Þórðar og biður hann skjótt selja fram manninn.
Þórður segir svo: «Það mun varla hlýða að sleppa þjófnum» þó að hann væri hans maður.
Ingimar svarar: «Ekki muntu Gull-Ásu-Þórður lengi halda mínum mönnum eða gera þá að þjófum. Má eg þá og varla lendur maður heita ef eg læt göngumann þinn draga mann af mér.»
Þá svarar Þórður og kvað:
Nú tekr ýgr að ægja
ofrkúginn mér drjúgum.
Þinn hefr höldr of hlannað
hjaldrgegninn mig tjaldi.
Trautt mun eg lausan láta,
linnbóls gjafi, að sinni
vísan þjóf þótt vofi
von þín of hlut mínum.
Ingimar gengur þá í brott og er mjög reiður.
Ása bað Þórð senda eftir Víðkunni og reyna vináttumálin og kvæðislaunin «því að þungt er að etja þar sem Ingimar er.»
Þórður gerir nú svo og brást hann við hið besta og kvað skylduferð og kemur í loftið til Þórðar með mikla sveit manna. Eigi líður langt áður en þeir heyra gný mikinn og fer þar Ingimar og biður Þórð lausan láta manninn ella mun hann að sækja.
Víðkunnur mælti þá: «Það er sannlegast að mál þetta komi í lögmanns dóm og hefir Þórður það að gert er hann átti er hann batt þann er stolið hafði ella var hann sekur.»
Ingimar mælti: «Stingið mér hér í,» kvað reka, hún stóð ein saman, og Víðkunnur er kominn hér. Það er og mátulegra að við eigum saman heldur en Þórður mágur þinn enda muntu ætla að launa honum dræplinginn er hann flimti um þig» og snýr þegar í brott.
Þá mælti Víðkunnur: «Nú skal senda til Sigurðar Hranasonar vinar míns og biðja hann hér koma og ef hann hefir nokkur mótmæli minnist hann hver honum dugði best þá er Finnar tóku bú hans í Bjarkey.»
Síðan fara þeir og segja orðsending hans.
Hann lét vel á komið þó að þeir Ingimar reyndu með sér «því að þar þykist hvor öðrum meiri.»
Þeir minntu hann þá ályktar Víðkunns.
Sigurður segir: «Satt var það að enginn dugði mér svo vel sem hann og víst þykir honum varða að komið sé og stöndum upp.»
Síðan gengu þeir til lofts Þórðar. Innan lítils tíma verða þeir við mannsöfnuð varir um strætin því að lið Ingimars hafði dreifst víða um bæinn. Kom þá hinn mikli flokkur allur til lofts Þórðar.
Þá mælti Ingimar: «Nú munum við eftir leita manninum Víðkunnur ef hann er eigi fram leiddur og er nú ekki betur en fyrr.»
Þá segir Sigurður: «Förum að vægilega Ingimar. Það er of mikill óréttur ef þú brýtur hús á oss og rænir oss ofan á það eftir konungs fanga. Munu menn ætla að hafa rétt af þér þótt þú sért kappi mikill.»
Ingimar mælti: «Eigi er hana að borgnara þótt hæna beri skjöld, og kaupist nú þó mikið í er þið eruð í móti mér einum og hvorutveggju þó lendur maður og hinn vaskasti. Og mun eg enn frá hverfa en koma skal eg í þriðja sinn.»
Eftir það sendir Sigurður menn til Eysteins konungs og biður hann koma til með þeim «og segið honum svo, að í síðasta lagi ætla eg að eg skildist við föður hans vestur á Írlandi.»
Þeir koma og segja konungi orð Sigurðar en hann lét þeim afburðarmönnum það eigi ofurefli tveimur að eiga við Ingimar. Þeir sögðu konungi þá öll orð Sigurðar.
Konungur mælti þá: «Undir þykir honum þá að eg komi enda skal það og vera.»
Síðan fór konungur með mikið fjölmenni og hittir Sigurð. Litlu síðar kemur Ingimar og hefir nú fjögur hundruð manna og gengur síðan að loftinu og lætur nú meiri von að þeim mun saman lenda ef þeir láta eigi lausan manninn.
Konungur segir þá: «Eigi sómir þér Ingimar að gera hér svo mikla styrjöld í bænum eða draga að mönnum stóra flokka og reisa svo hernað í landinu og munum vér eigi upp gefast að óreyndu.»
Ingimar segir: «Úrt járn,» kvað kerling og átti kníf deigan. Nú gerast mikil efnin að konungur sjálfur er til kominn að skakka með oss og mun eg enn verða frá að hverfa að sinni.»
Og svo varð. Síðan lætur konungur kveðja þings. Var þá þangað leiddur þjófurinn og var tjaldið á baki honum. Síðan var hann dæmdur og eftir það upp festur út á Eyri.
Þá mælti konungur: «Hvað ætlar þú nú Ingimar hvað þjófurinn mun hafa?»
«Það vil eg ætla,» segir Ingimar, «að þessi muni gott hafa maðurinn er drepinn var fyrir litlar sakir.»
«Nei,» segir konungur, «hann mun hafa helvíti.»
Ingimar mælti: «Mislagðar eru þér hendur konungur er þú dregur fram hluta mörlandans en svívirðir sjálfs þín menn en hefir enga framkvæmd né hug til að hefna föður þíns er drepinn var á Írlandi sem hundur á hræi nýbitnu. Og það hygg eg að hann hafi helvíti er hann er, er barðist til þess er hann átti eigi í.»
Og eftir það sneri hann til skipa sinna og fór austur og drap þrjá konungsmenn í Víkinni. Síðan fór hann suður til Danmerkur og staðfestist þar.
En það er sagt af Þórði að hann átti síðan Ásu með ráði Víðkunns og konungs og þótti vera hinn vaskasti maður og var hann í Noregi til deyjanda dags.
Og lýkur hér þætti Gull-Ásu-Þórðar.
Текст с сайта Netútgáfan