Um daga þeirra Eysteins konungs kom utan af Íslandi sá maður er Þórður er nefndur, austfirskur að kyni og félítill, gervilegur maður og fróður og orti vel.
Og er hann kom í kaupbæinn átti hann þar fátt til forgiftar, kom um kveld eitt í garð konu þeirrar er Ása hét. Hún var ættstór kona og auðig, skyld mjög þeim Bjarkeyingum, Víðkunni Jóanssyni. Hún tók við Þórði fyrst um skamma vist. Skemmti hann vel og kunni gott umstilli um ráð hennar. Og reitist á um vist hans og er hann þar um veturinn og í því meira haldi af húsfreyju sem hann var lengur og mæla menn það að hjal þeirra beri oft saman en Ása var þá ekki ung kona.
Og er vor kemur segir hún Þórði að henni hefir vel líkað við hann: «Mun eg nú fá þér fé,» segir hún, «til Englandsfarar og eigum bæði saman.»
Svo gerir hann og tókst vel til um ferðina. Kom hann heim að hausti og er með Ásu um veturinn. Svo fer nú fram nokkur sumur og gengur mjög í vöxt hans mál og fer hann kaupferðir jafnan og gerist því meiri hans þroski sem hann hafði þar lengur verið og haft þessa athöfn og er nú kallaður Ásu-Þórður. Frændum hennar þótti óvirðing í þessu og lögðu á hann óþokka. Hann var vænn maður og vörpulegur og gerist það alræmt að vinskapur sé með þeim Þórði og Ásu. Hann græðir mikið fé og er vinsæll.
Og nú einu sinni kemur maður að máli við Þórð og segir honum að þangað var von Víðkunns Jóanssonar «og vildi eg,» segir sá, «að þú ortir um hann kvæði ef þú ert við því látinn og kæmist svo í tryggð við hann því að eg veit að hann er þér nokkuð ofskynja. Eru slíkir og mest verðir af frændum Ásu og væri gott ef þú kæmist í vinfengi við hann.»
Þórður svarar: «Haf þökk fyrir þín tillög og við skal eg leita að yrkja kvæðið.»
Skiljast þeir og yrkir Þórður kvæðið. Og er að því kemur er Víðkunns var þangað von þá kom hann með mikla sveit og tók sér skytning.
Og einnhvern dag kom Þórður þar og kvaddi Víðkunn en hann svarar fálega. Og síðan hefur Þórður kvæðið og kveður og er hljótt meðan.
Og er lokið var mæltist vel fyrir kvæðið og þótti Víðkunni vel ort og mælti: «Skipt hefi eg nú skaplyndi til þín Þórður og mun eg gera að því nokkura raun,» tekur gullhring og gefur Þórði.
En Þórður lést eigi þurfa féið og kvaðst heldur vilja vingan hans að kvæðislaunum og því heitir Víðkunnur honum og skiljast nú vinir.
Líða nú stundir og eitt haust er Þórður kom vestan af Englandi lagði hann skip sitt upp í ána Nið og veik frá því skipi er áður lá í læginu og var það fyrir garði Þórðar.
Þá var Eysteinn konungur í bænum og mart stórmenni. Þar var Sigurður Hranason og Víðkunnur Jóansson, Ingimar af Aski. Hann var hinn ríkasti maður og ofsamaður mikill. Hann hafði lagið í lægið Þórðar og ræddu menn um við Þórð að honum mundi eigi hlýða er hann hafði skipinu Ingimars lagt úr læginu en Þórður gáði ekki að því hvað um var rætt. Og nú er þeir Þórður ruddu skipið þá finnur hann eigi stafntjald sitt, gengur síðan á skip Ingimars og finnur þar svein einn er svipt hafði undir sig tjaldinu. Þórður tekur sveininn höndum og rekur heim fyrir sér í garðinn og lætur þar varðveita, flytur heim síðan allt fé sitt.
Og þetta allt saman kemur fyrir Ingimar og verður hann reiður mjög og kveður slíkt mikil firn, gengur þegar með nokkura menn að garðinum Þórðar og biður selja fram skjótt manninn. Þórður svaraði, kvað sér mundu það ekki varlegt að láta ganga ódæmdan þjóf um bæinn. Ingimar svaraði, kvaðst það ætla að hann landi mundi eigi dæma menn hans til dauða og kvaðst svo skyldu koma öðru sinni að skyldi ná manninum og Þórður skyldi aldrei verri för farið hafa, lést eigi mega heita lendur maður ef hann hefði eigi við stafkarlinum einum íslenskum.
Þá kvað Þórður þetta:
Nú tekr ýgr að ægja
ofkúginn mér drjúgum.
Þinn hefir höldr um hlannað
hjaldrgegninn mig tjaldi.
Trautt mun eg lausan láta,
lindbóls gjafi, að sinni
vísan þjóf þótt vofi
von mín um hlut þínum.
Ingimar gengur í brott reiður mjög.
Og er hann var brottu biður Ása að Þórður sendi eftir Víðkunni og lét eigi svo búið hlýða mundu. Koma Víðkunni orðin og brást hann við skjótt og kemur í loftin von bráðara með mikla sveit manna. Og litlu síðar heyra þeir gný mikinn og kemur þar Ingimar með mjög marga menn og biður láta manninn í brott eða ella mun hann til sækja.
Víðkunnur hafði þá svör fyrir þeim og lét það sannlegast að þetta mál kæmi í dóm lögmanna «og hefir Þórður það að gert sem hann átti því að honum væri sök að gefa ella og munum vér nú þess að bíða.»
Ingimar sagði: «Stikk í mér,» kvað reka, og er það mikið mál ef vér skulum við þig eiga Víðkunnur. Og það ætla eg vel sama að vér reynum með oss lendir menn og er það og miklu maklegra en við Þórður ættum saman» og snýr á brott.
Víðkunnur mælti til sinna manna: «Farið nú og hittið Sigurð Hranason og biðjið hann hér koma og ef hann hefir nokkura undanfærslu þá minnið hann á það hver honum dugði best þá er Finnar tóku bú hans.»
Nú fara þeir, koma og segja Sigurði orðsending Víðkunns.
Sigurður sagði: «Eg ætla þetta vel á komið að þeir Ingimar reyni með sér því að þar þykist hvor öðrum meiri.»
Sendimenn minnast ályktarorða Víðkunns og bera þau upp.
Þá segir Sigurður: «Það var satt að engi veitti mér jafnmikið sem Víðkunnur og stöndum upp og förum.»
Komu síðan í loftin. Og brátt verða þeir við það varir að fjöldi manna er kominn á strætin og var þar Ingimar með flokki en liðið Víðkunns hafði dreifst hér og hvar um bæinn.
Og er Ingimar kom að loftunum mælti hann: «Nú munum vér eftir leita manninum Víðkunnur ef eigi er fram seldur.»
Þá svaraði Sigurður: «Förum að vægilega Ingimar og eftir sannindum því að menn munu það ætla að hafa rétt af þér þótt þú sért kappi mikill.»
Ingimar svaraði: «Erat héra að borgnara að hæna beri skjöld, og mikið kaupist nú í ef þið eruð tveir móti mér og hvortveggi lendur maður og enn skal koma þriðja sinni og það vildi eg að þið drægjuð eigi manninn af mér.»
Gengur í brott síðan og dregur að sér lið sem mest má hann og fær mikið fjölmenni.
En í öðru lagi sendir Sigurður menn til Eysteins konungs og biður hann til koma og lét að þar mundi ellegar gerast af mikil vandræði «og ef konungur hefir nokkurar tregður í að fara, segið honum að eg ætla að síðasta lagi skildist eg við föður hans vestur á Írlandi.»
Sendimenn koma á konungs fund og segja honum orð Sigurðar.
Konungur svaraði: «Það þykir mér þeim vera æfis ofurefli tveimur lendum mönnum að eiga við Ingimar og kann eg eigi sjá að eg þurfi þar til að koma. Allir þykjast þeir miklir fyrir sér.»
Þá mæltu sendimenn: «Herra, hverjir fylgdu best föður þínum vestur á Írlandi efsta sinni?»
Konungur svaraði: «Sigurður og Víðkunnur og undir þykir þeim að eg komi og svo skal vera.»
Fer konungur fjölmennur í loftin og því næst kemur þar Ingimar og hefir örhóf manna og lét meiri von að þeim mundi saman lenda ef þeir láta eigi manninn lausan.
Konungur svaraði: «Eigi samir það Ingimar að gera hér svo mikið hervirki í bænum um svo lítinn hlut og vondan mann og munum vér eigi upp gefast fyrir þér.»
Ingimar mælti: «Nú gerist mikið málið er konungur sjálfur er til kominn og munum vér þá frá verða að snúa að sinni.»
Konungur biður taka þjófinn og leiða á mót og var svo gert og var bundið tjaldið á bak honum sem siður er til. Síðan var hann dæmdur og festur upp út á Eyrum.
Þá mælti konungur: «Hvað ætlar þú Ingimar hvað þjófurinn mun hafa í öðrum heimi?»
«Gott,» segir Ingimar.
«Nei,» segir konungur, «beint helvíti.»
Ingimar svarar: «Eigi mun það en mislagðar eru þér hendur, dregur fram hluta mörlandans en þorir eigi að hefna föður þíns er drepinn var á Írlandi sem hundur á beinum og hann hygg eg heldur hafa munu helvíti.»
Sprettur upp síðan og snýr þegar til skips síns og fór austur í Vík og drap þar konungs mann, fór eftir það úr landi og suður til Danmerkur. Eysteinn konungur tálmar ekki för hans, gefur að öngan gaum fíflskuorðum þeim er hann mælti, lét þá enn ríkri verða gæsku sína og vit sem hann gerði jafnan.
En Þórður fylgdi þessu ráði og þótti mikilmenni í marga staði og var maður vinsæll og skorti þau Ásu eigi auð.
Og lýkur hér þessi frásögn.
Текст с сайта Netútgáfan