Ketill hét maður og var kallaður þrymur. Hann var Þiðrandason og bjó í Njarðvík. Kona hans hét Þorgerður. Þorkell og Eyjólfur hétu synir þeirra.
Þar var sá sveinn á fóstri er Þiðrandi hét og var Geitisson og þótti vera hinn efnilegasti maður af ungum mönnum í Austfjörðum.
Björn hét maður og var Kóreksson og bjó í Skriðudal. Hann var góður bóndi. Þeir voru fleiri bræður.
Eitthvert sumar er frá því sagt að mælt var til hestaats. Átti annan Ketill bóndi í Njarðvík en annan Björn Kóreksson. Þar var fjölmennt og góð skemmtan. Þar var Þiðrandi Geitisson. Svo lauk hestavígum að Björn átti betra hest.
Síðan veik hann að Þiðranda og mælti: «Við þig vil eg vingast og gefa þér hest þann er eg atti í dag.»
Þiðrandi þakkaði honum gjöfina «og skaltu víst vináttu í móti hafa.»
Björn kvaðst þá hafa það er hann vildi.
Sá maður var á mannamótinu er Þórir hét og var kallaður Englandsfari. Hann mælti og til vináttu við Þiðranda. Hann hafði komið út áður annað sumarið og verið á vist með Brodd-Helga. Hann hafði mikla vináttu við hann.
Þetta haust er frá því sagt að maður kom til gistingar til Bjarnar Kórekssonar og þeirra bræðra. Hann nefndist Ásbjörn vegghamar, mikill maður og sviplegur, sterklegur, svartur á hár og mjög hár, eygður illa og langhálsaður. Hann var spurður hvaðan hann væri.
Hann kvaðst vera sunnlenskur og verið á vist með Ásgrími Elliða-Grímssyni, «vildi eg mér nú vistar leita,» segir það ef menn vilja sér góðan verkmann fá «þá sneiddu þeir eigi hjá mér.»
Þeir kváðust og mjög þann verkmann þurfa er vel væri verkfær. Þar tók hann sér vist með Kórekssonum. Þeim líkaði vel verknaður hans og skapsmunir því betur sem hann hafði verið lengur. Var hann með þeim nokkura hríð, nærri þremur vetrum, og græddi fé og þá vildi hann á burt og beiddi að þeir skyldu fá honum bólstað nokkurn. Þeir bræður sögðu að honum mundi betur hent á griðvist en eiga búsifjar við menn. Hann kvað ekki þurfa illgetur um það að hafa. Síðan fengu þeir honum bólstað skammt frá sér og bjó hann þó mjög um þeirra fé en skuldin óx mjög fyrir honum því að hann var óskuldvar.
Þá mælti Björn til hans: «Það grunaði mig að búið mundi þér eigi hent og vil eg að þú farir aftur til vor og vinnir af þér skuldina.»
Hann kvað enn lítt reynt um bú sitt og bað að svo búið skyldi vera og svo varð. Hann keypti það margt er honum þótti girnilegt. Og er Þórir Englandsfari kom þar í sveit þá kom Ásbjörn á hans fund og kvaðst vilja kaupa af honum varning.
Hann svarar: «Ertu ekki félítill?»
Ásbjörn sagði: «Ekki em eg fémikill en skjótt afla eg á verkum mínum og þrifsemi.»
Þórir kvaðst mundu selja honum varning.
Og er Þórir hitti Brodd-Helga spurði hann að um sölur hans en hann sagði sem farið hafði.
«Þar hefir þú selt þeim manni er mér er óskapfelldur og hroðavænlegur er.»
Og um sumarið fór Þórir að skuldaheimtum sínum og hitti Ásbjörn vegghamar og spurði að um skuld sína. Hann kvaðst eigi vita hvað til mundi verða um tolla slíka og fékk Þórir ekki af honum. En þeir Kórekssynir misstu þó mest við hann.
Og er Ásbjörn sá að hann mundi eigi um kyrrt mega sitja þá hljópst hann í burt og kom ofan í Njarðvík og hitti Ketil og beiddi hann viðurtöku: «Em eg þér hagfelldur því að eg em verkmaður góður og þú ert iðjufullur sjálfur. En eg tek lítið gott upp hjá þeim Kórekssonum.»
Ketill kvað sér lítið um vera að taka við honum, kvað ekki vel spyrjast til hans atferða.
«Haf við raun þína bóndi,» segir hann.
«Óráðlegt mun það vera að gera sér aðra menn að óvinum fyrir þig,» segir Ketill.
«Eigi mun svo mikið illt af standa,» segir Ásbjörn.
Það varð að Ketill tók við honum. Og er Kórekssynir spyrja þetta hitta þeir Ketil í Njarðvík, sögðu að þeir fengu eigi réttar skuldir af Ásbirni og kváðust missa mikils fjár við hann.
Ketill sagði að þeir mundu sannara hafa «en eigi nenni eg að gjalda fé fyrir hann.»
Þiðrandi var þá í Njarðvík og lagði orð til að Ketill fóstri mundi gjalda nokkuð fyrir Ásbjörn.
Ketill svarar: «Eigi mun eg fé gjalda fyrir hann en leyfa mun eg að þeir stefni honum við fá menn.»
«Undarlega líst mér þetta fóstri minn, við oftæki þitt, og vonu betur verður ef þetta fer vel af hendi.»
Ketill svarar: «Mjög fylgir þú máli þessu og muntu launa hestgjöfina.»
Þiðrandi kvaðst þess vilja fýsa er honum gegndi best. Við svo búið ríða þeir í burt en Þiðrandi fór þá norður í Krossavík og var um sumarið á mannamóti. Ræddu Kórekssynir um að þeir mundu þá fara í Njarðvík að stefna Ásbirni ef Þiðrandi færi þangað á kynnisleit. Þótti þá von að betur mundi þá fara með þeim.
Það sama sumar kom skip í Breiðavík, það er á milli Húsavíkur og Borgarfjarðar, og voru þeir stýrimenn að annar hét Gunnar en annar Þormóður. Áttu menn kaup við þá, og ætluðu hér að vistast. Ketill reið til skips og tók við stýrimönnum. Fóru þeir til vistar með honum. Gunnar var manna vasklegastur, mikill og sterkur og manna vænstur að sjá.
En Þiðrandi kom til Kórekssona um sumarið. Tóku þeir við honum einka vel. Var hann þar um nóttina. Þeir buðu að gerast fylgdarmenn hans og til allrar þjónustu við hann. Hann tók því vel. Þeir kváðust nú vilja fara til Njarðvíkur með honum að stefna Ásbirni. Þiðrandi játaði þeim því.
Kórekur karl mælti: «Eigi segir mér vel hugur um þessa ferð og hafið þið synir mínir góðan dreng í hættu en eigið við allbráðan mann um þar er Ketill er en annan illan.»
Þrír voru þeir bræður Kórekssynir, Björn og Þorfinnur og Halldór. Þórir Englandsfari var í ferð með Þiðranda og tveir menn þeir er eigi eru nefndir og voru þeir sjö saman. Nú fara þeir til þess er þeir komu í skóg þann er skammt er frá Njarðvík og fóru þar af baki og gerðust í leik og skutu skógvöndum í millum sín.
Þá mælti Þiðrandi: «Það hygg eg að fóstra mínum munum vér þykja helsti liðmargir og styggist hann.»
Það sá Ásbjörn vegghamar þar sem hann var á mýri nokkurri og gróf torf. Ásbjörn sá á þá og þekkti hverjir voru og þóttist vita hvert erindið var. Ásbjörn kastar nú niður verkfærum sínum og tekur á skeiði miklu heim til bæjarins. Einn af þeim bræðrum skaut til hans skotvendinum og kom á kvið Ásbirni. Ekki hljóp hann að seinna. Þiðrandi kvað það betur ógert. Ásbjörn hljóp heim og kom í eldahús og fór felmtur mjög en Ketill bakaðist við eldinn og spurði hví hann fór svo hart.
Hann svarar: «Spyrja er best til válegra þegna. Ertu kallaður garpur mikill og hefnir mín eigi en spjót stendur í gegnum mig.»
En þeir Þiðrandi urðu seinni er þeir máttu eigi ríða hið gegnsta yfir mýrarnar. Þiðrandi kveðst gruna hversu Vegghamar mundi túlka fyrir þeim.
Ketill bakaðist við eldinn og kenndi ekki heitt af eldinum og kvaðst það undarlegt þykja. Ásbjörn bað hann hefna sín ef hann væri vaskur karlmaður.
En Ketill varð við skapbráður og mælti: «Sjaldan hefir þurft að frýja mér hugar.»
Ketill hleypur út og þrífur spjót mikið. En þeir Þiðrandi voru þá komnir í túnið og allir saman. Þiðrandi bað sína menn hlífast við fóstra sinn. Ketill hljóp þegar að Birni Kórekssyni og lagði hann spjóti í gegnum því að hann var næstur honum. Og er Þórir Englandsfari sér það hljóp hann að Katli og hjó framan í fang honum og var það þegar banasár. Og þar féll Þórir Englandsfari fyrir heimamönnum Ketils.
Þjóðgeir hét maður og Þórir kringur. Þeir voru heimamenn Ketils og féllu. En Þiðrandi vildi þá í burt ríða úr geilunum suður frá bænum og félagar hans með honum þeir er eftir voru og eru þeir fimm saman.
Heimakona hljóp inn og sagði það Gunnari og Þormóði og vissu þeir ekki af þessum tíðindum er svo skjótt hafði að borist.
Hún mælti: «Undarlegir menn eruð þið er þér sitjið hér en bóndi sé drepinn úti og nokkurir menn með honum og mun aldrei dáð í ykkur,» segir hún.
Gunnar kvað hana taka mikinn af og kvað þess litla þörf «eða hver er sá í þeirra liði er mestur skaði er að?»
«Það er hann Þiðrandi,» segir hún, hin auma kona, «og kemur þá nokkuð fyrir bónda vorn ef þú drepur hann.»
Gunnar skaut spjóti í flokk þeirra og kom spjótið á bak Þiðranda og í gegnum hann. Var það hans bani og féll hann dauður af hestinum. En Þorgerður húsfreyja og synir hennar létu illa yfir þessu verki og kváðu þetta hið mesta óhapp. Gunnar kvað nú svo búið vera mundu. Þau kváðust ætla að hér mundi mikið eftirmæli verða og mikil ræki að ger og hétu þeim í burt Austmönnum. Þorgerður kvað þeim hvergi fritt mundu vera. En litlu síðar hurfu þeir á burt og vissi engi maður hvað af þeim varð.
Allir menn hörmuðu þessa atburði því að Þiðrandi var manna vinsælastur og þótti mikils verður. Fréttust nú þessi tíðindi um öll héruð.
Og litlu síðar kom í Njarðvík Þorkell Geitisson með nokkura menn að leita eftir Austmönnum og fé þeirra og kvað nauðsyn á hvorumtveggjum, eftir leita og sinna harma að reka. Þorgerður húsfreyja kvað það nauðsynjamál að leita eftir þeim og kvaðst þá burt hafa rekið. Þeir Þorkell fóru í burt og heim við svo búið.
Líður nú á veturinn og hafði Þorkell Geitisson mikinn grun á að þeir Gunnar, er síðan var kallaður Þiðrandabani, og Þormóður félagi hans mundu vera í varnaði þeirra bræðra Ketilssona, Þorkels og Eyjólfs.
Um veturinn kemur Þorkell Geitisson að máli við heimamann sinn þann er Þórður hét og mælti svo: «Sendiför hefi eg ætlað þér ofan til Njarðvíkur að segja þeim bræðrum að hross eitt var horfið frá stóðhrossum þeirra.»
Þórður svarar: «Það eitt erindi vil eg þangað bjóða að þeim bræðrum sé ekki misboðið í minni ferð.»
«Til öngra svika skal þetta gera.»
Þórður fer ofan til Njarðvíkur og segir þeim bræðrum um hrossin. Þeir kváðu hann sýna góðvilja enn í þessu. Skilja þeir nú við svo búið.
Litlu síðar fóru þeir bræður Þorkell og Eyjólfur Ketilssynir til stakkgarðs þar er hrossin voru vön að vera í. Logndrífa var á um daginn og var dimmt veðrið. Og er þeir bræður voru við garðinn komu að þeim fimm menn. Var þar Þorkell Geitisson. Þeir tóku þá bræður höndum og bundu hvorntveggja. Þorkell bað þá segja til Austmanna, kvaðst vita að þeir væru á þeirra valdi. Þeir þrættu og kváðust eigi vita til þeirra. Þá leiddi Þorkell sérhvorn þeirra í burt. Þorkell Geitisson hafði feld yfir sér. Hann lét höggva þar kálf einn undir garðinum og lét blæða úr kálfstrjúpanum og á Þorkel Ketilsson.
Þá bar hann aftur af honum feldinn og mælti til Eyjólfs og bað hann segja til Austmanna «ella mun hann drepinn sem bróðir hans» og sagði að þar var blóðið hans á feldinum.
Eyjólfur svarar: «Frekur er hver til fjörsins, og mun eg heldur segja til þeirra en eg sé drepinn. Þeir eru hér að geitahúsum vorum og höfum við bræður jafnan fært þeim þangað mat í vetur þá er við höfum farið til hrossa.»
Og er Eyjólfur hafði þetta mælt þá var Þorkell Ketilsson þangað leiddur og var heill.
Þá mælti Eyjólfur: «Bragð hefir þú nú haft í við okkur Þorkell,» sagði hann, «en það vildi eg Þorkell Geitisson að eg mætti segja þér þá sögu eitthvert sinn að þér væri eigi minni skapraun í móti því er þú sagðir mér bróður minn dauðan.»
Þorkell Geitisson lét binda þá bræður bæði að höndum og fótum og lágu þar undir stakkgarðinum. Þorkell Geitisson og félagar hans fóru til geitahússins.
Gunnar tók til orða: «Ófriðsamlega hefir mig dreymt í nátt Þormóður félagi,» segir hann, «nú vil eg að við göngum út og stefnum upp til fjalls því að eigi mun okkur rjúfast ófriðurinn bráðlega.»
Síðan gengu þeir út og var á logndrífa myrk. Nú sáu þeir mennina og áttu skammt til hússins. Þeir hlupu undan í drífunni. Þorkell Geitisson skaut spjóti og kom það á Þormóð miðjan og dapraði honum undanferðin og bað Gunnar hjálpa sér og halda undan. Gunnar kvaðst því óvanur að renna frá félögum sínum.
«Sjá nú félagi hversu spjótið stendur og mun eg skjótt deyja.»
Gunnar sá að Þormóður var að bana kominn og sótti Gunnar þá undan. Einskírt gerði veðrið. Og er Þorkell kom að Þormóði veitti hann honum skjótan dauða og dvaldi það heldur ferð þeirra er þeir styrmdu yfir honum dauðum.
Gunnar kom að bæ þeim er á Bakka hét í Borgarfirði. Þar bjó sá maður er Sveinki hét, garpur mikill og hinn ódælasti viðureignar. Hann var úti og kvöddust þeir.
Gunnar mælti: «Skjótt mun eg þurfa hjálpræða nokkurra þinna bóndi því að hér fer Þorkell Geitisson við fimmta mann að leita eftir lífi mínu en hefir drepið áður félaga minn.»
Hann svarar: «Ekki höfum vér áður margt við ást en lítt ertu nú við kominn en sýnt þig áður í góðri karlmennsku og hefndir húsbónda þíns en vinar vors. Nú munu þér að litlu trausti verða tillög vor en slíkir menn sækja vel eftir. En gakk inn fyrst í anddyrið.»
Og svo gerði hann. Síðan hvelfdi Sveinki yfir hann elditorfi er inn var borið í framhúsið. Og eftir það komu þeir Þorkell að bænum og hans menn og hittu Sveinka úti. Þorkell spurði hvort Gunnar væri þar kominn og þóttist svip hafa af að hann væri þar kominn.
Nú er það sumra manna sögn að í þessari ferð hafi verið Helgi Droplaugarson með Þorkeli frænda sínum en eigi vitum vér hvort satt er.
«Nú vildum vér,» sagði Þorkell, «að þú seldir hann fram og ættumst vér gott við.»
Sveinki kvaðst ætla að eigi mundi hann þar finnast nema hann væri til stofu genginn «nú megið þér þangað leita en eigi hefi eg orðið fyrir rannsókn af nokkurum mönnum eða óspektarferðum slíkum.»
Síðan gengu þeir Þorkell til stofu.
Þá mælti Sveinki við þann mann er útidyr geymdi, sá var af förunautum Þorkels: «Eg mun hér vera að eigi komist maðurinn út ef hann er hér inni en þú gakk til stofu.»
Nú hljóp þessi til stofu en Sveinki bað Gunnar upp standa og út fara en rak slagbrand fyrir hurðina.
Þá mælti Sveinki: «Nú skulum við ganga ofan til skips er eg á niður í fjöru.»
Svo gerðu þeir. Þar hvolfdi skip eitt. Það var lítil skúta og hafði látið bræða.
«Hér skaltu fara inn undir skipið og verður nú skjótt að taka til ráða.»
Sveinki rak þá lömb sín til fjöru í farið að eigi mætti sjá tveggja manna far. Gunnar fór inn undir skipið.
Nú er að segja frá þeim Þorkeli að þeir fóru fram úr stofunni og voru nú inni byrgðir og komust út og þó heldur seint. Og er þeir koma út var Sveinki kominn heim í túnið og hafði þá rekið lömb sín neðan frá sjó.
Þorkell mælti: «Óvináttu gerir þú til vor eða hvað hefir þú nú gert af Gunnari?»
«Til Gunnars kann eg ekki að segja,» segir Sveinki, «en ekki er þess örvænt,» segir Sveinki, «að eg láti nokkurn prett koma í mót óspektarferðum slíkum.»
«Förum nú ofan til sjóvar,» sagði Þorkell.
«Það má vel,» segir Sveinki.
Þá komu þeir til skipsins það er hvolfdi.
Þá mælti Þorkell: «Fylgsni væri það að fara hér undir skipið.»
Sveinki mælti: «Því em eg vanur að geyma þar undir skipreiða minn eða hví fer eigi nokkur yðar inn undir skipið og rannsakið enn hér? Ella fer eg ef þér þorið eigi.»
Síðan fór hann inn undir skipið. Þá lagði Þorkell upp undir skipið og kenndi að kvikt var fyrir og lagði í lær Gunnari.
Og er Sveinki sá það þá brá hann hnífi og stakk í lær sér áður hann fór undan skipinu og sneri hnífinum svo sem með spjóti hefði lagt verið og mælti er hann kom út: «Ekki hygg eg að þér hafið hlíft mér í þessari ferð og það ætla eg, ef jafnir málendur eru að, að þessa mundi eigi óhefnt.»
Þorkell mælti: «Ekki vildi eg þér mein hafa gert en varla vitum vér hver svipan í er.»
Síðan gengu þeir Þorkell heim til bæjar og rannsökuðu enn og fóru í burt síðan.
Þá mælti Sveinki við Gunnar: «Á brott munum við nú héðan leita og margra bragða verðum við nú í að leita og veit eg eigi hvað drjúgast úr gerir með oss.»
Síðan fylgdi hann honum heim í fjóshlöðu og tók þar laust hey úr stálinu er holt var innan og býr þar um sem vandlegast. Þá er Gunnar var þar í kominn þá stóð Sveinki fyrir og duslaði þar. Þá hvarf Þorkell enn aftur og kom þá enn til hlöðunnar.
Sveinki spurði hverju gegndi enn um þeirra ferð «er hér gengur á öngvu nema á rannsóknum.»
Þorkell kvaðst eigi vita við hver brögð er þeir voru í komnir en kvaðst eigi nenna að leggja hann við velli að óreyndum sökum.
Sveinki svarar: «Þess er að von að þér megið drepa mig en þykja mun það skjótræði mikið að saklausu en þess mun eg á leita að hafa mann fyrir mig áður en eg hníg að grasi.»
Og þá skilur með þeim og fóru í burt.
Þá mælti Sveinki: «Í burt skulum við enn héðan og ofan til sjóvar eftir nautaferlinum.»
Og er þeir koma ofan til sjóvar þá mælti Sveinki: «Hólmur liggur hér fyrir landinu sem þú sérð og er það mikið sund ef þú værir heill og ósár en nú er það enn meiri mannraun. Þangað vildi eg að þú legðist út í hólminn ef þú þykist til fær og verður þú nú að reyna þrótt en eg skal sækja þig þegar er óhætt er.»
Gunnar kvað honum vel fara «og væri mér vandlaunuð þessi liðveisla. En á það munum við hætta að eg leggist til hólmsins og þótt nokkuru væri lengra.»
Gunnar leggst nú út í hólminn með öllum vopnum sínum og gengur honum það vel og var stirður mjög. Eftir það lagðist hann þar niður og grefur sig í brúkið og firrir sig svo við kulda.
Og er Sveinki þykist vita að Þorkell er á brottu þá reri hann skipi sínu út til hólmsins og hitti Gunnar og kvað mál vera að veita honum nokkura hjálp. Gunnar var þá mjög dasaður svo að hann gat varla gengið. Sveinki flutti hann heim til sín og var hann þar nokkurar nætur og hvíldi sig.
Þá mælti Sveinki: «Nú munu hér eigi verða langvistir þínar því að eg ber eigi traust til að halda þig hér og því vildi eg senda þig á fund Helga Ásbjarnarsonar vinar míns. Og vil eg að þú komir þar á náttarþeli og skaltu ganga að norðurdyrum að húsi því er Helgi sefur í og er það siðvenja þeirra manna er hann sækja að trausti að klappa á þær dyr. Gengur hann þá sjálfur til dyra. Og oft hafa þessi dæmi orðið.»
Síðan vísaði Sveinki Gunnari á leið og sagði hvar hann skyldi fara og skildu við svo búið.
Gunnar fór til þess er hann kom í Mjóvanes. Þar bjó Helgi þá. Gunnar drap á norðurdyr á húsi því er Helgi svaf í.
Helgi vaknaði og mælti: «Skjóls þykist sá þurfa er þar ber.»
Helgi gengur út sjálfur og kvöddust þeir. Gunnar segir honum allan sinn málavöxt og orðsending Sveinka og jarteiknir að sanna sögu hans.
Helgi svarar: «Eigi er sá forsjálaus er Sveinki hjálpar. Nú mun eg eigi við þér taka því að mjög standast hugir vorir í móti. En þó á eg margt gott Sveinka að launa og gakk inn í útibúr mitt.»
Þar var Gunnar um veturinn og vel haldinn.
Um vorið eftir átti Helgi Ásbjarnarson heimanferð fyrir hendi ofan í fjörðu og mælti áður við Þórdísi konu sína: «Svo er háttað,» segir Helgi, «að hér liggur við allt gott okkart vinfengi hversu trú þú ert mér um mál Gunnars meðan eg em í burtu.»
Hún kvað þá vitað vera er reynt er. Síðan fór Helgi heiman.
Eitt kveld er það sagt að menn ríða að bænum í Mjóvanesi, tólf. Þórdís húsfreyja gekk út og heimamenn hennar. Og var þar kominn Bjarni Brodd-Helgason bróðir hennar. Hún býður þeim öllum þar að vera.
«Það er vel boðið,» segir Bjarni, «en svo er háttað að það er erindi mitt hingað að leita eftir Gunnari Þiðrandabana er drepið hefir frænda vorn og fóstbróður. Er mér svo sagt að hann muni hér vera í útibúri og munum vér brjóta það upp ef þú vilt ekki upp lúka.»
Þórdís svarar: «Þú skalt eigi svo að þessu fara bróðir og máttu þó hafa þitt erindi. En ver hér í nátt frændi og er þá frændsamlega gert við mig. Og var mér Þiðrandi svo ásthugaður að mér þætti því betur sem hans væri fyrr hefnt og því hefir Helgi bóndi minn við mér séð í vetur því að hann vissi það að eg vildi Gunnar feigan mann. Og þess skulum við á leita áður þú ferð héðan.»
Þeir Bjarni stigu af hestum sínum og voru þar um náttina. Sendir Þórdís tvo menn í byggðina og stefnir að sér mönnum. Um morguninn komu þar þrír tigir manna, nábúar hennar og vinir Helga. Bjarni stendur í klæði sín um morguninn og sagði svo að hann vill að systir sín selji fram Gunnar.
Þórdís svarar: «Eigi veit eg bróðir hví þú vildir með slíku fara að sækja heim systur þína og unna mér svo ills hlutar að selja þann mann undir vopn þín er bóndi minn seldi mér til geymslu og á eg ekki þann mun ykkar að gera. Og mun þér allt annað betur fara en þetta og muntu eigi fá vald á Gunnari að sinni nema þú vinnir fullt til.»
Bjarni svarar: «Nú erum vér við brögð um komnir og kanntu annað að mæla frændkona en þér er í skapi.»
Fer Bjarni í burt þaðan við svo búið. Þórdís gengur nú til útibúrs þess er Gunnar var í og lýkur upp og spurði hversu hann hygði til að ganga á vald Bjarna. Gunnar svarar og kvað það mundu ekki reynt ef Helgi bóndi væri heima.
Þórdís svarar: «Og eigi skal enn reyna það,» segir hún.
Gunnar þakkaði henni. Nú kom Helgi heim og er honum sagt hversu þetta hefir farið.
Helgi svarar: «Vissi eg að eg var vel kvæntur og er það vel að hún sagðist í ætt sína.»
Nú var Gunnar þar um sumarið með Helga og það sumar varð hann sekur á þingi og lét Þorkell Geitisson sækja hann til sekta.
Og eigi miklu síðar tókust til skipti þeirra Helga Ásbjarnarsonar og Gríms Droplaugarsonar, að Helgi var veginn, og þá sagði Þórdís að hún vill senda Gunnar vestur til Helgafells til Guðrúnar Ósvífursdóttur til halds og trausts og skildi hún vel við hann. Og kom hann vestur þangað í það mund er Guðrún var föstnuð Þorkeli Eyjólfssyni.
Það sumar er Gunnar reið til Helgafells reið Þorkell Geitisson ofan í Njarðvík og ætlaði að taka upp sektarfé Gunnars. Þeir bræður riðu í mót honum við nokkura menn, Þorkell og Eyjólfur Ketilssynir.
Eyjólfur mælti til Þorkels Geitissonar er þeir fundust: «Þú munt ætla að taka sektarfé Gunnars.»
«Það er ætlan,» segir Þorkell.
«Bæði er féið mikið og gott,» segir Eyjólfur, «en það vil eg segja þér að féið er allt á brottu af Íslandi og skaltu öngvum peningi ná.»
Þorkell skilur að þetta mun satt vera og skilja þeir við svo búið.
Nú er að segja frá Þorkeli Eyjólfssyni að hann ríður til brullaups síns til Helgafells og kemur þar margt manna. Og um kveldið er menn taka handlaugar þá heldur Gunnar Þiðrandabani vatni fyrir boðsmönnum og Þorkeli Eyjólfssyni og hefir hatt síðan á höfði. Þorkell þykist kenna manninn og spyr hann að nafni. Hann nefndist því nafni sem honum líkaði en eigi því er hann hét. Þorkell sendir eftir Guðrúnu Ósvífursdóttur. Hann sagði að hann vill að Gunnar Þiðrandabani fari á burt og þeir mundu eigi þar báðir vera.
Og er þessa er getið fyrir Guðrúnu um þetta segir hún að henni þykir jafnvel þótt hún eigi ekki hann Þorkel Eyjólfsson að bónda «og fari hann á burt sem hann kom. En ekki vinn eg það til hans að selja þá menn undir vopn er eg vil halda.»
Snorri goði var þar, vinur Guðrúnar, og höfðu þau hundrað manns bæði saman. Sá Þorkell það á sínu ráði að láta vera sem kyrrast. Tókust þá ráð með þeim Þorkeli og Guðrúnu. En Guðrún Ósvífursdóttir kom Gunnari Þiðrandabana utan með fulltingi Snorra goða og leysti hann vel af hendi.
Fór Gunnar utan og kom aldrei til Íslands síðan. Hann sendi góðar gjafir Guðrúnu Ósvífursdóttur og sendi orð Sveinka að hann skyldi fara utan með allt sitt. Og svo gerði hann og tók Gunnar við honum ágæta vel og fékk honum góða kosti og var hann í Noregi til elli ævi sinnar.
Og lýkur hér sögu Gunnars Þiðrandabana.
Текст с сайта Netútgáfan