Svarfdæla saga

1. kafli

Það er upphaf að þessari sögu að Haraldur kóngur hinn hárfagri réð fyrir Noregi. Í þann tíma hafði sá maður forræði fyrir Naumudölum er Þorgnýr hét. Hann átti tvo sonu og hét Þórólfur hinn eldri en Þorsteinn hinn yngri. Þeir uxu upp með föður sínum þar til er þeir voru frumvaxta. Þeir voru ólíkir í skaplyndi. Þórólfur var mjög við alþýðuskap, vitur maður og forsjáll, vinsæll og gerðist kaupmaður og fór landa í milli og þótti hinn besti drengur. Hann var ekki mikill maður og vel á sig kominn, vænn að áliti. Þorsteinn var óvær við alþýðu, mikill vexti. Hann byggði eldahús og fékk mikið ástleysi af föður og móður og öllum frændum sínum en Þórólfur fékk því meiri virðing sem hann flutti meira heim. Þorsteinn var því leiðari föður sínum sem hann fágaði þá iðn lengur og ei vildi Þorgnýr láta hann sinn son kalla.

Fór nú svo þar til sem þeir voru rosknir menn. Þá var Þorsteinn svo mikill að hann lá milli setstokka sem hann var langur til. Öskuhaugur var á aðra hönd honum en eldur á aðra hönd og féllu menn um fætur honum.

2. kafli

Þessu næst er það sagt að Þórólfur kom heim í land til föður síns með mikinn fjárhlut og margar gersemar og gerði faðir hans veislu í móti honum með svo marga menn sem honum þótti sinn sómi meiri en áður. Nú fór Þórólfur heim með föður sínum.

Það var síð um kvöld. Gekk hann inn einn saman því honum voru göng kunnig. En leið hans lá um eldhúsið þar Þorsteinn bróðir hans lá í. Í þann tíma dags var Þorsteinn vanur að leggjast til svefns. Þórólfur gengur nú um eldahús. Þorsteinn lá í milli setstokkanna. Þórólfur gekk að og ætlaði trédrumb vera.

En þar barst svo að að hann lá fallinn um Þorstein og hraut á öskuhauginn öðrumegin en Þorsteinn skellti upp, hló og þá mælti Þórólfur: «Til ills höfum vér þig upp dregið er þú hlærð að óförum vorum.»

«Djarfur ertu,» sagði Þorsteinn, «að þú krytur um þó að þú hafir fallið um fót mér þar sem eg get ei þótt þú farir með eign okkra alla og hafir sem þú eigir. Skaltu það vita að mér þykir þú einn eyða því sem við eigum báðir og kaupir þér með því orðlof og vinsæld.»

Þórólfur sagði: «Vittu það fyrir víst að eg vildi gefa minn eyri til og risir þú upp úr fletinu og færir á brott úr þessu húsi.»

Þorsteinn sagði: «Seint ætla eg mig fyrirláta húsið fyrir því að ekki fæ eg mér æðri athöfn en liggja hér í fletinu.»

Þórólfur sagði: «Það vildi eg að þú gerðir fyrir mín orð og skal eg þér því meiri vera sem eg á meira kosti en aðrir frændur þínir ef þú lætur að orðum mínum.»

Þorsteinn sagði: «Engi þökk get eg að föður þínum sé á fleipri þessu en mér lítil því mér er meiri von að hann gjaldi þér fjandskap fyrir því að hann vill mig ei sinn frænda láta kalla fyrir ástleysis sakir við mig.»

Þórólfur sagði: «Engu þykir mér varða hvort honum þykir vel eða illa fyrir því að mér þykir ekki undir hvort eg er hér lengur eða skemur. Hinu mun eg heita sem eg skal efna að við þig mun eg aldrei skilja meðan við lifum báðir.»

Þorsteinn sagði: «Von þykir mér bróðir að þú munir það efna er þú heitir fyrir því að þú ert reyndur að drengskap. En þó vil eg fyrir skilja um það mál ef við kaupum saman.»

«Hvað er það?» segir Þórólfur. «Eg mun til vinna flest það er þú beiðir ef þú gerir nú minn vilja.»

Þorsteinn sagði: «Kynlegt mun þér þykja hvers eg beiði. Vil eg einn ráða ef okkur skilur á jafnan.»

Þórólfur sagði: «Kynlegs hlutar beiðist þú frændi og þykir mér það meiri vandi en virðing. En þó vil eg það gjarna til vinna að þú mættir sæmdarmaður verða.»

«Svo er þó,» segir Þorsteinn, «að eg hygg mig það mæla meir í þína þörf en mína og munum við nú þessu kaupa ef þú vilt þessu játa. En grunur er mér á að þú munir þetta ei efna þá mér þykir mestu máli skipta.»

Þórólfur sagði: «Ei ætla eg að vanvirða svo orð mín því það hefi eg aldrei gert áður.»

«Hversu sem það fer,» segir Þorsteinn, «þá munum við nú þessu kaupa.»

Hann tekur þá upp hnakk sinn og gengur út með og brýtur í sundur, segir að ei skal konum gagn að verða. Þórólfur gekk til móður sinnar og bað hana kerlaug gera. Hún spurði hvað skyldi.

Þórólfur sagði: «Þorsteinn son þinn rís nú upp úr fletinu og vill hafa kerlaugina.»

«Góðu heilli,» sagði hún.

Og nú færir hún Þorstein af klæðum, vararvoðarstakki og hökulbrókum þeim er hann var vanur í að vera. Var honum nú þvegið og kembt hár hans og skorið. Kom Þórólfur nú með klæði og bað hann í fara. Klæddist Þorsteinn nú skjótt. Eftir það tók Þórólfur af sér seilamöttul, það var skarlatsmöttull og undir gráskinn, og lagði yfir Þorstein. En er hann stóð upp tók hann honum ei meir en á bróklinda. Tók hann þá af sér skikkjuna og bað hann sjálfan með fara en bað hann fá sér aðra yfirhöfn þó hún væri ei jafngóð. Þórólfur fékk honum þá eina loðkápu og bað hann í fara. Hann steypir yfir sig kápunni og var hún hvorki síð né of stutt. Þá tók Þórólfur af sér sverð og gaf honum. Það var góður gripur og vel búið. Þorsteinn tók við sverðinu og brá þegar, tók blóðrefilinn og dró saman milli handa sér svo uppi lá blóðrefillinn við hjöltin. Þá lét hann aftur hlaupa og var þá úr allur staðurinn.

Seldi hann þá Þórólfi aftur sverðið og bað hann fá sér annað vopn sterkara «og skal mér ekki sneis þessi.»

Þórólfur tók við sverðinu og þótti spillt, bað hann þá ganga til vopnakistu sinnar um morguninn og kjósa þar af það vopn er honum þætti vænlegast. Eftir það gengu þeir til borðs og settist Þórólfur næst föður sínum en Þorsteinn á aðra hönd honum. Þorgnýr sér þá bræður og lætur síga brún á nef og kvaddi Þorstein engu en Þórólfur orti orða á hvern mann og var hinn kátasti.

En um morguninn gengu þeir bræður til vopnakistu Þórólfs og fann Þorsteinn þar bolöxi þá er honum þótti við sitt skap vera og færir hana á breiðöxarskaft, gekk síðan til lækjar og hvatti hana. Þessa öxi bar hann síðan að vopni.

3. kafli

Nú eftir þetta sátu þeir með föður sínum um veturinn.

En um vorið spurði Þórólfur Þorstein hvað hann vildi ráða sinna en hann bað Þórólf ráða: «Þykir mér vel að þú sjáir fyrir hið fyrsta sinn er við förum báðir saman.»

Bjó Þórólfur þá skip sitt og réð til háseta. Síðan héldu þeir skipi sínu til kaupstaða. Er það ei sagt í hverja þeir héldu en hitt er greint að þeir komu heim að hausti. Tók Þorgnýr við Þórólfi eftir vana virktavel en hann lét sem hann sæi ei Þorstein og ekki höfðu þeir viðmæli á hinum fyrrum misserum síðan hann reis úr fletinu. Þar voru þeir þann vetur og var samt með þeim feðgum, Þorgný og Þorsteini, svo fátt að aldrei mæltust þeir við. Nú lagðist engi mannvirðing á Þorstein meðan svo búið var.

Þá spurði Þórólfur Þorstein bróður sinn hvað hann vildi að hafast um sumarið: «Mér virðist svo sem þér þyki lítið gaman að kaupferðum.»

«Rétt getur þú,» sagði Þorsteinn, «þykja mér kaupferðir vera manni meir til prýði og ágætis en til hreysti.»

Þá sagði Þórólfur: «Hvað skulum við þá fyrir okkur leggja?»

Þorsteinn sagði: «Hugsað hef eg nokkuð til þess. Eg vildi að þú keyptir okkur langskip tvö en þú héldir knerri okkrum í kaupstaði sem þú ert vanur.»

«Annað ætla eg fyrri,» sagði Þórólfur, «því það skal eg enda sem eg hefi heitið að við þig mun eg aldrei skilja meðan við lifum báðir.»

Þorsteinn sagði: «Þetta gerir þú illa því faðir þinn mun svo virða ef þú kemur ei aftur sem eg hafi setið um líf þitt og er það mikill skaði ef þér verður nokkuð en alls engi um mig. En þetta er mikil háskaferð.»

Eigi að síður keypti Þórólfur tvö langskip og seldi knörrinn. Héldu þeir þeim í hernað og varð gott til fjár um sumarið, héldu heim um haustið og höfðu fimm skip. Ekki er getið hvar þeir herjuðu. Svo fór fram þrjá vetur og höfðu þeir þá tólf skip og auð fjár.

4. kafli

Svo er sagt að hið þriðja haust gekk Þorgnýr í móti Þorsteini og heilsaði honum fyrri. Hann tók vel föður sínum og voru þeir þar um veturinn bræður en hásetar vistuðust annarstaðar.

Þorgnýr bauð þeim bræðrum að þeir tækju við búi og fjárforráðum en þeir bræður sögðu báðir sem einum munni og kváðust ekki vilja fylgja nema hans ráðum meðan hann væri til «enda höfum við enn ekki reynt okkur,» sagði Þorsteinn, «í einvígum eða víkingu og munum enn freista lengur. Vildi eg faðir þú vísaðir okkur til víkings nokkurs þess er mér væri nokkur frægð í og biði eg annaðhvort bót eða bana og væri mín síðan getið að nokkru.»

«Það er líkast og,» segir Þorgnýr, «að það fáir þú þegar þú beiðist ef þér þykir allmikið undir að deyja skjótt. Nú mun eg vísa þér til þess manns að uppi mun vera meðan heimurinn stendur ef þú sigrar hann.»

«Lúk heill munni í sundur,» segir Þorsteinn, «og vísa mér til hans sem skjótast.»

«Svo skal vera,» segir Þorgnýr. «Ljótur hinn bleiki heitir maður. Hann er austur í Svíaskerjum við Gautland og hefir fimmtán skip og dreka þann er járni er varður allur ofan. Hann siglir í gegnum hvert skip, kallar hann drekann Járnbarða. Ljótur er mikill maður vexti, vænn að áliti en segja sumir menn að hann bíti ei vopn.»

«Nú hefur þú vel sagt,» sagði Þorsteinn, «og skal eg annaðhvort bíða hel eða hafa felldan Ljót að hausti.»

Bjó Þorsteinn þegar skip sitt úr landi en keypti knörr einn svo Þórólfur vissi ei.

Að sumri bjuggust þeir til ferðar og er þeir komu til skips sagði Þorsteinn Þórólfi fyrirætlan sína: «Knörr þennan er eg hefi keypt ætla eg að þú skulir halda í kaupferðir í sumar en eg mun fara í hernað.»

Þórólfur segir: «Hví viltu bróðir að við skiljum þar sem eg hefi því heitið að við skyldum aldrei skilja?»

Þorsteinn segir: «Nú er þar komið frændi að eg vil ráða eftir því sem eg hefi skilið fyrir því að mörgum mun þykja mikill skaði um þig ef þér verður nokkuð til meins en alls engi um mig þó eg komi ei aftur.»

Þórólfur segir: «Ekki þarftu að mælast undan þessu. Mér þykir verra líf en hel ef eg skil við þig.»

Þorsteinn segir: «Fór sem mig varði að þú mundir ei efna það er þú hést. En þó mun eg ei láta letjast ferðarinnar og segir mér svo hugur að við munum ei báðir aftur koma og ei örvænt að hvorgi komi.»

Þórólfur segir: «Engi má komast yfir sitt skapadægur. Þykir mér meiri sæmd að deyja með þér en lifa við skömm og hneisu eftir.»

«Þú munt nú ráða,» sagði Þorsteinn.

Og héldu síðan skipunum til Gautelfar og gáfu nú engan gaum að víkingum. Þeir sigldu að skerjunum og sáu þar kastala einn. Þorsteinn bað þá þar að leggja. Þetta var síð um kveld er þeir lögðu undir skerin þar sem kastalinn var uppi á. Þorsteinn bað þá hljóða vera og tjalda yfir sér. Þorsteinn bað menn sína nokkura fara um þvert skerið og vita ef þeir sæju tíðindi nokkur. En er þeir komu upp á skerið sáu þeir hvar drekahöfuðið kom upp. Var sem á gull eitt sæi. Þar töldu þeir fimmtán skip hjá drekanum og var tjaldað yfir svörtu. Ljós var undir tjöldunum. Þar sátu menn við drykkju. Síðan fóru þeir aftur og létu ekki verða vart við sig. Sögðu þeir Þorsteini slíkt er þeir höfðu séð.

«Þá skulum vér í starfi í nátt og færa varnað allan af skipi og grafa niður nokkuð en flytja út grjót í staðinn fyrir því að eg ann þeim einskis eyris að njóta og þegar skulum vér leggja að þeim er vígljóst er.»

5. kafli

Þá er ljóst var um morguninn lagði Þorsteinn farm sinn og lét greiða atróður og sagðist vilja tala með víkinga. En er þeir komu að þeim stóð upp maður á drekanum og gekk út á borðið. Sá var í rauðum skarlatskyrtli og heklu blá yfir sér, hlaðbúna húfu á höfði. Sá kallaði á drekanum og spurði hver þar gerði svo gildan atróður.

Þorsteinn sagði til sín «eða hver spyr að?»

«Sjá heitir Ljótur,» sagði hann.

«Það er vel,» segir Þorsteinn, «að við höfum hér fundist því að þín hefi eg lengi leitað.»

Ljótur mælti: «Hvað hefur þú mér nú hugað? Hefi eg þig eigi séð fyrri en heyrt hefi eg þín getið.»

Þorsteinn sagði: «Skjót eru erindi við þig. Eg vil gera við þig félag.»

Ljótur spurði: «Hversu er félagsgerð sú?»

«Skjótur er kostur,» sagði Þorsteinn. «Þú skalt ganga á land upp og hafa vopn þín og klæði en menn þínir í skyrtu og línbrókum.»

Ljótur sagði: «Ójafnlegur kostur líst mér þessi eða hver er annar?»

«Sá er annar,» sagði Þorsteinn, «að við skulum berjast.»

Ljótur sagði: «Hvar er liðskostur sá er þú hefir til þess að þú megir mér slíka afarkosti gera?»

«Hér er liðskostur sá er eg hefi,» sagði Þorsteinn, «þessi tíu skip.»

Þá brosti Ljótur og mælti: «Allólíklegt þykir mér þetta og vil eg miklu heldur eiga bardaga við þig en láta fé mitt svo skammsamlega.»

«Þá leggi fram skip öll,» sagði Þorsteinn, «móti mínum skipum.»

Ljótur sagði: «Ei uni eg við þann kost að láta fleiri skip til en þú því það hef eg aldrei fyrr gert heldur hef eg jafnan haft færri skip og hefi eg þó sigur haft.»

Þorsteinn sagði: «Eigi þarftu að spara mig til þess.»

Ljótur sagði: «Ei mun eg þó fleiri fram leggja en jafnmörg en ef þú vilt berjast við liðsmun þá mun eg láta annað til þá annað er hroðið meðan til eru.»

«Svo skal vera,» sagði Þorsteinn.

Brugðu þeir nú tjöldum og leggja saman skipum sínum tíu hvorir. Tóku þeir til bardaga. Gekk fyrst grjóthríð mikil af skipum Þorsteins en hver steinn er Þorsteinn sendi gekk annaðhvort í gegnum skipin eða hafði mann. Börðust þeir nú þann dag allan en frá lyktum er það að segja að þá hafði Þorsteinn hroðið fjórtán skip af Ljóti en Ljótur fimm af Þorsteini og margir mjög sárir en sumir drepnir. Voru þá sett grið í millum þeirra til morguns.

Ljótur bað Þorstein burtu færa öll þau skip sem hann hafði fengið um daginn af honum «og ertu svo frækinn maður að engi hefur mér svo á bug ekið sem þú og mun engi þér þetta til ámælis leggja.»

Þorsteinn sagði: «Eftir munu þó enn gripir góðir nokkurir á drekanum og ætla eg annaðhvort að eignast allt eða liggja hér eftir.»

Ljótur mælti: «Dulinn ertu að þér að þú hyggur að vinna drekann með fimm skipum þar sem mér þætti mitt vænna þó að þú legðir að með tíu skip og fýsi eg þig frá að leggja.»

Þorsteinn sagði: «Sé eg að þú þorir ei að berjast við mig og far þú leið þína og ber níðingsorð hvar sem þú ferð.»

Ljótur sagði: «Verra beiðist þú en þú átt kosti enda skaltu það hafa að þú liggir hér eftir áður annað kvöld komi ef eg má ráða.»

Fór Þorsteinn nú til lands með skip sín og tjalda yfir sér og bundu sár sín, gengu síðan til borðs eftir það.

Þá mælti Þorsteinn: «Ei munum vér í kyrrðum mega sitja í nátt ef vér skulum geta unnið drekann á morgun. Skulum vér leggja að eyju þeirri sem hér er nær oss. Hún er skógi vaxin. Vér skulum höggva stór tré og fella á annað borð drekanum. Get eg að hann hallist við og má vera að vér komumst þá upp á drekann.»

Og nú gera þeir svo og leggja að drekanum og veita harða atsókn. En er þeir höfðu fellt viðuna á drekann þá hallaðist hann eftir en þeir á drekanum skutu skjaldborg. Nú fór sem að Þorsteinn gat að þeir gengu á annað borð drekans, þeim megin sem sóknarinnar var að von. Lét þá skipið eftir. Var nú ei of hátt að vega.

Það er sagt að Þorsteinn komst fyrst upp á drekann og Þórólfur bróðir hans. Tókst nú harður bardagi af hvorumtveggjum. Þá kastaði Þorsteinn öxi sinni og þótti hún of seinfeng til vopns en liðsmunur mikill. Greip hann þá ásstubba einn og barðist með. Þórólfur bróðir hans gekk fram á aðra hönd honum og hlífði þeim báðum því Þorsteinn sá fyrir engu öðru en drepa allt sem fyrir verður. Þeir börðust allt til kvölds. Var Þorsteinn nú kominn aftur að lyftingu. Ljótur sér nú hvar komið var og fleygir frá sér sverðinu til þeirra bræðra en ætlar að steypa sér útbyrðis og sér þá ei undanbragð annað. En Þorsteinn lýstur hann niður við skipborðinu með ásstubbanum svo hart að höfuð og herðar féll útbyrðis en fótahluturinn inn í skipið. Þá var svo myrkt af nótt að hvorki mátti ryðja skipið blóði né búkum. Þá svipaðist Þorsteinn um og sá ei fleiri menn upp standa af liði sínu en tólf og eftir það reru þeir til lands og ætluðu til herbúða sinna.

En er þeir voru skammt frá ströndu komnir þá tók Þórólfur til orða: «Nú mun eg gera lykkju á leiðinni og nenni eg ei að ganga lengra.»

Þorsteinn sagði: «Ertu sár bróðir?»

«Ekki dyl eg þess,» sagði Þórólfur, «því að þá er Ljótur kastaði sverðinu stefndi hann á þig meir og brá eg við skildinum og var eg þá ber fyrir og bar sverðið að kviðnum fyrir neðan bringspölu og hljóp á hol svo út féllu iðurin. Sveipaði eg þá að mér klæðunum og svo hef eg gengið síðan. Mun nú og lokið minni göngu.»

Þá sagði Þorsteinn: «Þá hefir farið sem eg gat að annar hvor okkar mundi eigi aftur koma og vildi eg hafa gefið til mikið að við hefðum för þessa aldrei farið.»

Þórólfur sagði: «Ekki má nú sakast um það fyrir því að engi getur komist yfir sitt skapadægur og þykir mér betra að deyja við góðan orðstír en lifa við þá skömm að hafa ei fylgt þér,» sagði hann, «en þó vil eg biðja þig bænar ef þú vildir veita og kennir það metnaðar.»

«Hvað er það frændi?» sagði Þorsteinn.

Þórólfur sagði: «Það mun eg segja þér. Mér þykir nafn mitt ei til lengi hafa uppi verið og mun það falla niður sem sina og mun mín að engu getið þegar þú ert liðinn. En eg sé að þú munt auka ætt vora og lifa langan aldur. Muntu verða hinn mesti heillamaður. Vildi eg ef þér yrði sonar auðið að þú létir Þórólf heita en allar þær heillir sem eg hefi haft vil eg honum gefa fyrir því þá vænti eg að mitt nafn muni uppi meðan heimur er byggður.»

Þorsteinn sagði: «Þetta vil eg veita þér gjarna því eg vænti að það sé vor sæmd og góð heill mun fylgja nafni þínu meðan í vorri ætt er.»

Þórólfur mælti: «Nú þykist eg hafa beitt þess sem mér þykir á liggja.»

6. kafli

Eftir þetta andast Þórólfur. Binda þeir nú sár sín og sofa af náttina. En um daginn eftir fóru þeir til drekans og ruddu hann búkum og blóði en fluttu fjárhlut í kastalann. Þar voru þeir viku og græddu sár sín. Þeir gerðu kistu að líki Þórólfs. Kvað Þorsteinn hann þar ei jarða skulu.

Þá er þeir þóttust færir tóku þeir eina róðrarskútu og höfðu af fé það er honum þótti best, héldu síðan til Svíþjóðar og höfðu lík Þórólfs með sér en allur þorri fjárins var eftir í kastalanum. Þeir komu þar við land í Svíþjóð er jarl einn réð fyrir sá Herrauður er nefndur. Hann var skammt á land upp.

Þorsteinn gekk á land upp og til hallar jarls með ellefta mann og kom þar að dagverðardrykkju. Dyrverðir sögðu það engan vana að ókunnir menn gengju þar inn með vopnum í drykkjustofu jarls.

Þorsteinn kvaðst ekki það hirða «og högg eg þar hvern sem kominn er ef þið farið ei frá.»

Þeir fóru skjótt frá dyrunum því þeim sýndist maðurinn ógurlegur og þorðu ei fyrir að standa. Síðan gekk Þorsteinn inn með alvæpni fyrir jarl og þeir ellefu saman. Þorsteinn kvaddi jarl. Hann tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri. Hann kvaðst Þorsteinn heita og vera Þorgnýsson norðan úr Naumudölum.

Jarl sagði: «Heyrt hefi eg þín getið að þú sért ágætur maður og mun tíðindum gegna um þínar ferðir og gakk til sætis og drekkum báðir saman í dag og seg mér tíðindi og sit gegnt mér í öndvegi.»

Þorsteinn gerir nú svo og drekka nú um hríð. Jarl spurði hvar Þorsteinn hafði herjað um sumarið.

Þorsteinn sagði: «Ekki hefi eg víða herjað í sumar en við Ljót hinn bleika hefi eg nú barist fyrir skemmstu og látið fyrir honum alla mína menn utan þessa ellefu og þar með Þórólf bróður minn er eg mun aldrei bætur bíða.»

«Slíks var von,» sagði jarl, «og er það mikil gæfa að þú komst undan heill því engan veit eg þann verið hafa annan en þig.»

Þorsteinn sagði: «Eg bið að þér ljáið mér höll yðar og mínum mönnum. Vil eg drekka erfi eftir bróður minn og heygja hann hér með yðru lofi. Skal eg kosta fé til svo yður skaði ekki í því.»

Jarl kvaðst það gjarnan vilja «af því að eg hygg mína höll ei betur skipaða en þó þú skipir eða þínir menn.»

7. kafli

Þorsteinn tekur nú til haugsgerðar og hans menn. Gekk það skjótt. Var Þórólfur í haug lagður og nokkurt fé honum til sæmdar. Síðan bjó Þorsteinn veislu og bauð til jarli og mörgum öðrum dýrum mönnum. Sátu menn að henni þrjár nætur sem siður var til. Leysti Þorsteinn menn á burt með góðum gjöfum og aflaði sér svo vinsælda.

Jarl spurði nú Þorstein hvað hann vildi ráða sinna «því nú er mjög sumar liðið en þú átt farveg langan.»

Þorsteinn sagði: «Eg veit ei hvers eg á kost.»

Jarl segir: «Til reiðu er yður hér veturvist ef þér viljið og kann eg yður þökk fyrir.»

Þorsteinn sagði: «Þetta er vel boðið herra og skal gjarnan þiggja.»

Er Þorsteinn þar um veturinn og hans menn í góðu yfirlæti. Virðir jarlinn hann fram yfir hvern mann og svo gerðu aðrir eftir.

Nú leið að jólum og gerðist skipan á lund manna. Þar hafði verið glaumur og gleði mikil en nú tókst það af og gerist hljóðlæti mikið í höllinni. Var það af því að jarl gerði svo fyrir.

Það var einn dag að Þorsteinn spurði hirðmann einn hvað til bæri um ógleði manna.

Hirðmaðurinn sagði: «Vorkunn mun þér á þykja ef þú veist en þó þykir mér þú héraðsdaufur maður er veist ei hvað til ber.»

«Ekki hefi eg að því hugað,» sagði Þorsteinn, «en stórtíðindum þætti mér eiga að gegna er tignir menn láta sér svo mikils fá.»

Hirðmaður sagði: «Gesta eigum vér von að jólum, þeirra sem oss er mikil óþurft í.»

«Hverjir eru þeir?» sagði Þorsteinn.

Hirðmaðurinn sagði: «Maður heitir Moldi. Hann er víkingur eða hálfberserkur ef svo vill kalla. Þeir eru tólf saman og hafa komið hér tvisvar áður. Molda bíta ei járn. Þeir vaða eld og bíta í skjaldarrendur.»

Þorsteinn sagði: «Hverja kosti gera þeir jarli?»

Hirðmaður sagði: «Moldi vill mæla til mægða við jarl en til samfara við dóttur hans, Ingibjörgu, ellegar býður hann honum á hólm þrem náttum eftir jól en skal ráðast hvað jarl vill. Mundi hann skjótt kjósa ef hann væri ungur maður en nú er hann úr bardögum fyrir aldurs sakir.»

Þorsteinn sagði: «Engin vorkunn þykir mér á að honum fái slíkt svo mikils.»

Þessu var svo snúið að Þorsteinn hefði boðist til að ganga á hólm fyrir jarl. Og litlu síðar fundust þeir jarl og Þorsteinn og spyr jarl hvort það gegndi nokkuru að hann hafði boðist til að leysa hann undan og ganga á hólm við Molda.

Þorsteinn sagði: «Við því geng eg ei en það sagði eg að mér þætti líklegt að maður mundi til verða að leysa þig undan hólmgöngu ef þú leggur nokkur gæði til við hann.»

«Það hefi eg talað,» segir jarl, «að þeim manni mundi eg gifta dóttur mína er þenna mann gæti af ráðið.»

Þorsteinn sagði: «Ekki spurði eg þessa af því að eg ætli mér þetta heldur fyrir það eg veit fleiri munu til verða svo sem fleiri vita.»

Hætta þeir nú þessu tali og líður að jólum. Gladdist jarl nú heldur við orð Þorsteins. Lét jarl búast við veislu fjölmennri og bauð þangað frændum sínum og vinum og öllum hinum bestu mönnum í hans ríki.

Aðfangadag jóla drífa flokkarnir að bænum. Jarl lét autt tólf manna rúm utar frá öndvegi. Gleði var mikil í höllinni. En þá eldarnir voru sem bjartastir var jarli sagt að Moldi riði að höllinni og menn hans. En er þeir komu stigu þeir af baki, gengu síðan inn í höllina tólf saman og óðu þegar eldana og bitu í skjaldarrendur. Moldi gekk fyrir jarl og kvaddi hann vel og virðuglega. Jarl tók vel kveðju hans og bað hann ganga til sætis.

Hann kvaðst ekki mundu þiggja veislu að honum «og er mér jafnt í hug við þig sem fyrr.»

Jarl sagði: «Eg mun nú og segja þér. Eg vil að þú drekkir með mér um jólin en eg leita við menn mína hvort nokkur vill mig undan leysa þessu vankvæði.»

Moldi sagði: «Eg vil þá að þú leyfir mér að ganga um höllina fyrir hvern mann og spyrja hvort nokkur þykist mér jafnsnjallur og er það mikil gleði að skemmta sér með því en eigi mun eg það til þín tala jarl því eg vil ekki það mæla er þér þyki metnaðarskarð í vera.»

Jarl kvaðst ei mundu banna honum það að mæla slíkt er hann vildi og honum þætti gaman að. Síðan gengur hann utar frá öndvegi fyrir hvern mann og spurði hvort nokkur teldist honum jafnsnjallur þar til er hann kom fyrir öndvegismann. Sá lét dragast fætur af stokki og hafði breiddan feld yfir höfuð sér. Moldi spurði hver sá herkinn væri er þar lægi en sæti ei upp sem aðrir menn í öndvegi. Þorsteinn kvað hann engu skipta.

Moldi sagði: «Þú ert drjúglátur eða telst þú jafnsnjallur mér?»

Þorsteinn sagði: «Ei nenni eg því að kallast jafnsnjallur þér því eg kalla þig þess kvikindis læti hafa sem gengur á fjórum fótum og vér köllum meri.»

Moldi sagði: «Þá skora eg á þig til hólmgöngu þrem nóttum eftir jól.»

Þorsteinn sagði: «Að heldur eftir jól að mér þykir því betur sem við berjumst fyrr og þó þú viljir þegar í stað.»

Moldi sagði: «Ekki vil eg spilla goðahelginni og er mér ekki ótt um þetta.»

Síðan gekk hann í brott og þeir allir úr höllinni og stigu á hesta sína og riðu í braut.

8. kafli

Nú þakka menn Þorsteini fyrir er hann tókst þessa hólmgöngu á hendur og urðu menn fegnir, drukku nú glaðir og kátir um jólin.

Eftir jólin fjölmennti jarl mjög til hólmstefnunnar og komu þeir Þorsteinn fyrr til hólms og settust niður á völlinn. Þá spurði jarl Þorstein hvar sverð það væri er Þorsteinn ætlaði að berjast með.

Þá brá Þorsteinn undan skikkju sinni einu sverði og sýndi jarli og mælti: «Hér er sverð það er eg mun hafa.»

Jarl brá sverðinu og leit á og mælti: «Hversu komstu að sverði Ljóts hins bleika?»

Þorsteinn sagði: «Hann gaf mér það á deyjanda degi með öðru góssi sínu.»

Jarl sagði: «Segir þú mér hann dauðan?»

Þorsteinn sagði: «Dó hann um sinn.»

Jarl mælti: «Þessa varði mig eigi og seg mér hversu fóru ykkur skiptin.»

Þorsteinn sagði sem farið hafði.

Jarl mælti: «Frægðarmaður ertu mikill Þorsteinn en sverð þetta dugir þér ei við Molda. Mun eg sýna þér hvað það dugir,» tók í blóðrefilinn og dró svo oddurinn lá í hjöltunum, lét síðan hlaupa aftur. Var þá úr staðurinn.

Jarl mælti þá: «Hér er sverð Þorsteinn er eg vil gefa þér. Þetta skaltu bera í móti Molda og taka eigi fyrr upp en þú ert búinn að höggva en haf hitt til sýnis er þú berð áður.»

Þorsteinn tók við og brá sverðinu og sýndist ryðfrakki einn vera. Jarl bað hann fá sér. Hann gerði svo. Jarl laust niður hjöltunum á stein og féll af ryð allt. Var þá bjart sverðið sem silfur.

«Þetta sverð mun bíta Molda,» sagði jarl, «en hann deyfir hvert vopn er hann sér. Fyrir því skaltu gæta að eigi verði hann var við fyrr en þú höggur til hans.»

9. kafli

Þorsteinn tekur nú við sverðinu og reið Moldi þá að með flokk sinn og mælti: «Eigi hefir svo tekist fyrr að eg hafi orðið seinni á þetta leikmót en aðrir heldur hefir hitt verið að eg hefi orðið nokkrum mönnum skjótari.»

Þorsteinn sagði: «Því seinna skaltu í burtu komast sem þú komst síðar» og sprettur upp eftir það.

Jarl bauð að halda skildi fyrir Þorstein en hann sagði að enginn mann skyldi sig í hættu hafa fyrir hann: «Mun eg sjálfur bera skjöld minn.»

Síðan gengu þeir þar til sem þeir skyldu berjast og kveðst Moldi mundi segja upp hólmgöngulög «því eg hefi á þig skorað. Sínum feldi skal hvor okkar kasta undir fætur sér. Skal hvor standa á sínum feldi og hopa ei um þveran fingur. En sá sem hopar beri níðingsnafn en sá sem fram gengur skal heita vaskur maður hvar sem hann fer. Þrem mörkum silfurs skal sig af hólmi leysa sá er sár verður eða óvígur.»

Þorsteinn sagði: «Þó þar liggi við sex merkur heldur en þrjár þá þykir mér því betur sem eg tek meira.»

«Ekki er þér því heitið,» sagði Moldi, «fyrir því að eg hefi það oftar átt að taka en gjalda.»

Þorsteinn sagði: «Eigi mun nú svo þó.»

Nú kasta þeir feldum undir fætur sér og ganga þar á.

«Það er vandi vor,» segir Moldi, «að þrjá skjöldu skal taka hvor og hlífa sér með ef höggnir verða eða hversu er sverð það er þú ætlar að vega með?»

Þorsteinn seldi honum sverðið en hann tók við og brá því.

Hann mælti: «Hversu komstu að sverði Ljóts hins bleika bróður míns?»

Þorsteinn sagði: «Ljótur sendi þér kveðju á deyjanda degi og það með að honum þótti þú líkastur til að hefna hans.»

Moldi sagði: «Segir þú mér líflát Ljóts bróður míns og að þú hafir verið hans skaðamaður?»

«Ekki má þess dylja,» sagði Þorsteinn, «og muntu nú vilja hefna hans og fresta eigi lengur.»

Moldi sagði: «Mér þykir mikill skaði að drepa svo vaskan mann.»

Þorsteinn sagði: «Það er þó satt að segja að eigi má geta til. Það var sagt að þú kynnir ekki að hræðast, hver ógn sem þér væri boðin. Nú skil eg að þú vilt bera bleyðiorð fyrir mér hvar sem þú ferð.»

«Ei skaltu þess bíða,» sagði Moldi, «og högg nú þegar því mér er annt að drepa þig síðan þú vilt ekki annað en deyja.»

Þorsteinn hjó til hans með sverði og klauf skjöld hans allan niður í mundriða. Moldi hjó í móti til Þorsteins og klauf skjöld hans …


(Eyður eru í söguna og hafa afritarar fyllt í þær á ýmsa vegu. Hér eru tvær fyllingar í þessa eyðu, hin fyrri er í handritinu Ny kgl. sml. 1714 4to.)

… og svo gekk lengi dags að ei sá fyrir hvors hlutur lægri yrði. En þó um síðir varð sá endir á þeirra einvígi að Moldi féll með öngvum góðum orðstír en Þorsteinn gekk til hallar og þakkar jarl honum þennan sigur með mörgum fögrum orðum og virti hann nú miklu framar en áður og var Þorsteinn þar um hríð í miklu eftirlæti hjá jarli.


(Elsta handrit hinnar síðari er AM 402 fol.)

Taka þeir nú aðra skildi. Höggur þá Þorsteinn með sverðinu jarlsnaut en Moldi ætlar að slá við flötum skildinum. Þorsteinn sér það, lætur því hendur síga svo höggið kemur á utanverðan fótinn og tekur af kálfann, ökklann og jarkann. Hopar nú Moldi út á feldarskautið svo hann hallast við. Í því slamrar Þorsteinn á háls Molda svo að hausinn fauk af. Varð þá óp mikið af jarli og hans mönnum en þegar fylgjarar Molda sjá fall hans vilja þeir undan halda en jarl biður menn að láta þá ekki ná undanhlaupi. Voru þeir þar allir drepnir nema einn sem Þorsteinn kúgaði til sagna hvar fólgið væri fé Molda. Var það heilmikill auður því Moldi hafði verið mikill hólmgöngumaður og hinn mesti ræningi. Féll þetta fé undir Þorstein því jarl vildi ekkert af hafa. Þakkaði hann Þorsteini sigur þenna og frelsi sem unnið hafði sér og dóttur sinni. Varð nú Þorsteinn mjög frægur af þessu öllu. Halda síðan heim til hallar. Lætur jarl stofna til ágætrar veislu og drekka hana glaðir.

10. kafli

Það var einn tíma er þeir voru tveir á tali, jarl og Þorsteinn, og spurði jarl hver laun Þorsteinn vildi hafa fyrir það mikla þrekvirki er hann hafði unnið «og er oss orðin mikil sæmd að þér í öllu.»

Þorsteinn sagði: «Það viljum vér af yður þiggja sem þér viljið frammi láta en varla er von að vér fáum það sem hugurinn stendur til fyrir mannvirðingar sakir,» sagði hann.

Jarl mælti: «Raunmjög mun undir þér vera hvers þú beiðist því það skal til reiðu af mér sem þú beiðir.»

Þorsteinn sagði: «Auðkveðin eru þá launin ef eg skal ráða. Það er Ingibjörg dóttir yðar með þvílíkri heimanfylgju sem henni sómir og yður úti að láta.»

Jarl sagði: «Fyrir löngu vissi eg það og hefur lengur frestast en eg hugði. Skal eg allt efna við þig það eg hefi heitið en þó vil eg mæla nokkuð mínu máli þar um og þínu. Mun eg auka þína sæmd í því og að þú ráðir ríki þessu eftir minn dag og komir aldrei til Noregs.»

Þorsteinn sagði: «Því vil eg heita að vera hér þrjá vetur en eftir það vil eg kjósa hvort eg vil hafa jarldóm fyrir því þá mun eg sjá hvort eg þá þykist mega halda ríkið eða eigi.»

«Viturlega er kjörið,» sagði jarl, «og mun eg því samþykkur verða ef Ingibjörg vill sem eg.»

Þorsteinn kvaðst ei mundu bekkjast til þess ef henni væri eigi ljúft. Þeir gengu nú til tals með hana og sögðu henni sína fyrirætlan og spurðu hversu henni væri um gefið en hún sagði að faðir hennar skyldi fyrir ráða, kvað sér það vel mundu gegna. Var þetta nú að ráði gert og var búin til sæmileg veisla og mörgum mönnum til boðið. Sátu menn að veislu til þess að lokið var. Leiddi Þorsteinn menn í burt með góðum gjöfum og varð hann af því vinsæll og víðfrægur.

Nú situr Þorsteinn þar um veturinn og gátu þau sér barn þegar það mátti verða. Og er að þeirri stundu kom sem hún skyldi léttari verða ól hún sveinbarn og var hann vatni ausinn og kallaður Þórólfur. Hann óx þar upp og var allbráðger og líkur hinum fyrra Þórólfi.

En er Þorsteinn hafði þar verið þrjá vetur sagði hann jarli: «Nú hefi eg hér verið alla þá stund sem eg hef heitið og mér er hugur á.»

Jarl sagði: «Ekki megum vér halda á þér ef þú vilt burtu fara og far þú hvert er þú vilt.»

Þá lét jarl búa skip með þeim farmi sem Þorsteinn hafa vildi til Noregs og leiddi dóttur sína út með sæmdum miklum.

Þorsteinn mælti: «Þess beiði eg yður herra ef svo ber við að yðvar missi við að mínir erfingjar af dóttur yðvarri til komnir taki lönd og lausa aura eftir yður ef eg sendi þá til.»

Jarl segir það skuli svo vera sem hann vildi að væri…


(Erfitt er að ráða í hvað staðið hafi í stórri eyðu sem hér er í söguna. Í skýringum Björns á Skarðsá við fornyrði lögbókar er tvisvar vitnað til Svarfdælu og kann það að vera sótt í þennan hluta sögunnar. Þær skýringar eru á þessa leið samkvæmt eiginhandarriti Björns, AM 216cß 4to.)

Hérað: Item Svarfdæla: Þér hafið ókænlega haldið hér að óbyggðum því mitt hérað er inn frá (það var Svarfaðardalur).

Kaldakol: Hann hafði nú farið eldi og arni um lendur sínar.

Les Svarfdælu:

Þegar þessir allir eldar eru slökktir þá er kaldakol, etc.


(Hér fylgir eyðufylling úr handritinu Rask 37. Kaflatal er eins og þar.)

Eftir það bjóst Þorsteinn til brottferðar og fylgdi jarl honum til strandar.

Hann mælti þá við Þorstein: «Svo kveð eg að orði sem þú hafir hér mestur maður komið á Gautland síðan eg til vissi. Get eg að við munum ei oftar sjást og er það mikill harmur að missa þín af ættjörðu vorri en alls staðar muntu mesti maður þykja hvar sem þú ferð og uppi mun nafn þitt meðan heimurinn er byggður og far þú heill og vel.»

Eftir það skildu þeir og hélt Þorsteinn skipi sínu norður til Noregs og kom að hausti í Naumudal. Og sem Þorgnýr vissi komu sonar síns fór hann á móti honum og varð þar hinn mesti fagnaðarfundur. Bauð Þorgnýr syni sínum heim með konu hans og alla fylgdarmenn. Var þar ger hin besta veisla og að henni var mest til skemmtunar haft að Þorsteinn sagði frá ferðum sínum og hreystiverkum. Mátti þar heyra mörg afreksverk hans. Þorgnýr frétti mjög að um Þórúlf son sinn, hversu hann hefði varist mót Ljóti.

En Þorsteinn sagði allt sem farið hafði: «Þótti mér sem eg mundi verða yfirbugaður af Ljóti,» sagði hann, «þá hann hafði fellda alla menn mína utan tólf en eg var sár og hlífarlaus fyrir honum.»

Þorgnýr mælti: «Mjög var þá sem eg gat til að þú mundir fá þig fullreyndan fyrir Ljóti bleika og hefur mjög að svorfið fyrir ykkur báðum. Mun eg nú auka við nafn þitt sem siður er til við stórmenni og mun eg kalla þig Þorstein svarfað og gefa þér að nafnfesti bæ þenna og bú og þar með umráð þau er eg hefi haft yfir Naumudölum. Er eg nú mjög að elli kominn og ei fær til umsýslu en þú virðist mér vel til þess fallinn fyrir hvervetna sakir.»

Þorsteinn þakkaði föður sínum með mörgum fögrum orðum og var með honum um vetrin.

En að vori komanda tók hann við búi og umsýslu og gerðist brátt vinsæll og góður forstjóri. Hann átti annan son við konu sinni en Þórúlf og var sá nefndur Karl og sem hann eltist gaf faðir hans honum auknafn og kallaði hann Karl hinn rauða. Dóttur áttu þau er Guðrún hét (eða Þórarna). Öll voru börn þeirra efnileg.

13. kafli

Tveim vetrum síðar en Þorsteinn tók við búi tók Þorgnýr sótt og andaðist. Þorsteinn lét efla haug og lagði þar í föður sinn og mikið fé hjá honum. Síðan drakk hann erfi eftir föður sinn og bauð til mörgu stórmenni og að henni liðinni leysti hann alla menn út með gjöfum því hann var hinn mesti rausnarmaður. Átti hann og gnótt fjár síðan er hann felldi Ljót hinn bleika og eignaðist allt hans góss.

Þar eftir bjó Þorsteinn nokkur ár að föðurleifð sinni og óx æ meir og meir virðing hans. En er hann hafði lengi búið þá tók Ingibjörg kona Þorsteins þunga sótt og lá ei lengi áður hún andaðist. Þótti Þorsteini það hinn mesti skaði sem von var að. Lét hann leggja hana í haug hjá föður sínum. Harmaði Þorsteinn hana mjög og bar þar ei yndi síðan og fýstist brott þaðan fyrir þessa skuld. Höfðu þá margir tignir menn í Noregi flúið óðul sín undan ofríki Haralds konungs hárfagra og fóru sumir vestur um haf til Hetlands og Orkneyja og byggðu þar en margir fóru til Íslands og tók það nú að verða mjög albyggt. Og fyrir því Þorsteinn þóttist ei verða varhluta skuldalúkningar og hlýðni að Haraldi konungi, þess og annars að hann undi ei eftir dauða konu sinnar, þá bjó hann skip sitt til Íslandsferðar. Börn hans voru þá fullþroskuð. Réðst Karl hinn rauði til ferðar með föður sínum en menn segja hann sendi Þórúlf son sinn til Gautlands og að hann hafi tekið þar ríki litlu eftir dauða Herrauðs móðurföður síns og aukið þar kyn sitt.

Ljótur hinn bleiki hafði áttan son þann er Hafþór (Snækollur) hét. Hann var víkingur og er Þorsteinn svarfaður var búinn til Íslandsferðar og var að ráðstafa eignum sínum kom hann til bæjar Þorsteins og hertók þaðan Þórörnu dóttur hans og rændi fé miklu. En er Þorsteinn kom heim þá vissi hann ekki hvert Snækollur hafði haldið og varð ei af neinni eftirför. Hélt Snækollur síðan við Þórörnu og átti við henni tvö börn. Verður frá þeim sagt síðar í sögunni.

Þorsteinn lét í haf eftir þetta. Byrjaði honum seint og bar norður fyrir Ísland og tóku land vestanvert við Eyjafjörð og réðu skipi sínu til hlunns.

14. kafli

Helgi hinn magri son Eyvindar austmanns Bjarnarsonar Hrólfssonar frá Ánu bjó þá að Kristnesi í Eyjafirði. Hann var höfðingi yfir öllu því héraði og mikils virður. Hann hafði komið út hingað vestan um haf. Var hann uppalinn í Suðureyjum og síðan á Írlandi af móðurföður sínum Kjarvali Írakonungi. En þá hann var í Suðureyjum að fóstri var hann sveltur og sá ei á honum hold og sem faðir hans og móðir komu þar kölluðu þau hann Helga hinn magra. Helgi var prímsigndur og trúði á Krist og kenndi við hann bæ sinn en þó hét hann á Þór til allra stórræða. Helgi átti tvo sonu, Hrólf og Ingjald, og eina dóttur er hét Ingunn. Hana átti Hámundur heljarskinn.

En er Helgi frá útkomu Þorsteins reið hann til skips með marga menn og bauð Þorsteini til sín. Var þá mjög komið að vetri. Þorsteinn tók þessu boði með þökkum og fór heim til Helga og voru þeir Þorsteinn og Karl með honum um veturinn í góðu yfirlæti en hásetar vistuðust þar nærri um fjörðinn.

15. kafli

Um vorið bað Þorsteinn Helga vísa sér bústað.

Helgi mælti: «Mjög er nú albyggt um hérað og veit eg ei annarstaðar ónumið en í dal þeim er liggur upp í land fyrir utan Hrísey. Er það mikið hérað. En þar hefur tekið sér bústað Ljótúlfur goði er út kom austur í Sandvík með Hróðgeiri hvíta Hrappssyni frænda sínum» — en svo voru þeir skyldir að Hróðgeir var bróðir Alreks föður Ljótúlfs — «og það ætla eg hann muni vilja helga sér dalinn og verja hann fyrir búsetu stórmenna.»

«Ei munum vér að því fara,» segir Þorsteinn.

Og eftir þetta fara þeir Þorsteinn og Karl með sínum mönnum út til dalsins og tóku menn að efna sér til bæja. Byggði Þorsteinn sér þar bæ sem hann kallaði að Grund en Karl hinn rauði tók sér bústað að Karlsá. Fór hann síðan landa á milli hvert sumar en hélt þó ávallt bú. Þetta var þeim megin ár er Ljótúlfur átti ei byggð en það hét að Hofi er hann bjó. Honum líkaði stórilla aðgerðir þeirra Þorsteins og Karls og amaðist við þeim. Gerðist hér af óvinskapur þeirra á millum.

Það var einn tíma er Þorsteinn hafði farið að sækja varnað sinn en Karl son hans og fylgdarmenn þeirra nokkrir voru að skógarhöggi í dalverpi einu litlu. Voru þá menn gervir af hendi Ljótúlfs að ráða að þeim. Hét sá Björn digri er að þeim fór með marga menn en þar voru ei hjá þeim utan bolaxir þeirra og höfðu menn ekki vopn nema lurka og börðust með þeim.


(Styttri eyðufylling er í handritinu Lbs. 266 fol.)

Þorsteinn svörfuður, son Rauðs ruggu, átti Hildi Þráinsdóttur, þeirra son Karl rauði. Þeir feðgar fóru til Íslands, námu Svarfaðardal og bjuggu á Grund. Ljótólfur goði bjó að Hofi. Amaðist hann við Þorsteini og börðust þeir sem hér segir. Karl gerði bú að Karlsá.

11. kafli

… og höfðu menn engi vopn nema lurka og börðust þeir þar. Voru sumir drepnir en sumir lamdir. Þar féllu sautján menn. Þar heitir Stafsholt síðan en dalurinn Deildardalur. Uni hélt til liðveislu þar sem Ljótólfur var en þeir bræður þar sem þeir Karl og Þorsteinn eru, því Uni er jafnskyldur Ljótólfi sem þeir bræður Þorsteini og er þess síðar getið í sögunni.

Nú er að segja hverjir til liðs snerust með Þorsteini: Ólafur úr Ólafsfirði, Héðinn úr Héðinsfirði, þeir voru bræður og Svarthöfði … er drukknaði og heita þar Svarthöfðasteinar er hann drukknaði, því Siglunes að þar rak seglið, því Siglufjörður að þar rak siglutréð. Héðinn átti son er Svarthöfði hét. Ólafur átti tvo sonu, Þórð og Vémund. Þessir hnigu allir til liðs við Karl hinn rauða og margir aðrir göfugir menn.

Sá maður bjó í dalnum er Höskuldur hét. Hann var lögmaður. Þar voru jafnan þing og má enn sjá þar merki. Hann átti þann son er Ögmundur hét. Þessir hníga enn til með Þorsteini og Karli og slíkir bægja þeim Ljótólfi og leggja undir sig allan dalinn öðrumegin því þá var dauður B. digri, afi Ljótólfs.

Þorsteinn garpur fór nú millum fjalls og fjöru og lagði undir sig allan dalinn öðrumegin ár. Hann fer til fjalls og gerir þar kennimark sem hann kom framast og braut þar í sundur kamb sinn og kastaði niður kambsbrotunum og lætur eftir silfur í þremur stöðum, hálfa mörk í hverjum stað, og er sá rimi kallaður að Kambi. Og nefnir Þorsteinn sér votta og fyllir hann með því dalinn sér til vistar og gaf af sér nafn og kallaði Svarfaðardal.

En þó fátt hefði verið með þeim Þorsteini og Ljótólfi þá var nú í dátt efni komið svo að þeir leggja félag með sér, einn Þorsteinn, Ljótólfur, Nefglita og Bárður greypur frá Hrauni og Þorkell Skeggjason af Skeggjastöðum og Ögmundur Höskuldsson. Það var félagsgerð þeirra að þeir gera skip og hafa í ánni og veiða fyrir hvers manns landi fiska. Þetta var kært fyrir Höskuldi lögmanni hversu þeir ætluðu að fara. Hann sagði að land skal taka fjórðung veiðar þar sem þeir veiddu, og sögðu engum til og tóku það hrafnar. En menn höfðu þá ei heldur en áður og þóttust þeir þá gjalda mundu álits sem Höskuldur hafði dæmt.

Þá tóku þeir upp leika í dalnum og vildu reyna knáleik sinn og var Karl knástur. Óx nú sundurlyndi í dalnum af nýju.

12. kafli

Í þenna tíma kom sá maður í dalinn er Grís hét og fyrr var getið. Hann var nýkominn út og fer hann til vistar með Ljótólfi frænda sínum og var þar um veturinn. Um vorið fór hann til Steindyra og setti þar bú saman og hafði mjög skapast um byggðir síðan meðan hann hafði burtu verið. Urðu flestir að leita til vináttu þar sem voru aðrir hvorir, Þorsteinn eða Ljótólfur.

Nú leitar Grís þar til sem Þorsteinn er en hann tekur honum ekki fljótt en sagði þó ef Grís kynni hóf sitt að hann mundi ekki amast við byggð hans «en þó er mér lítið um byggð frænda Ljótólfs þessu megin ár.»

(Hér er eyða, líklega ekki stór.)

Grís var vel til Ásgeirs rauðfelds.

Ásgeir hafði selför það sumar … hafði kona hans þar umsýslu bús og smalaferðar.

Sá atburður varð að hún varð léttari í smalaferðinni og fæddi sveina tvo í Vatnsdalshólmum þeim er Víðihólmar hétu. Heim kom hún með sveinana um kvöldið og tók Ingvildur dóttir hennar með þeim og vann sveinunum og fann að öðrum blæddi og hafði þar komið við króklykill er hún hafði haft á sér.

Það varð henni á munni er hún sá þetta: «Sjá ben markar spjóti spor.»

Þessir sveinar vaxa þar upp og hét sá Þorleifur er benina hafði fengið en hinn Ólafur.

Eftir þetta fer Grís af landi burt og var um veturinn í Þrándheimi. En eftir um vorið bjó hann skip sitt til Íslands og gekk honum ei lengra en út til Niðaróss og lá þar um stund. Kona kom til fundar við Grís og hafði tvö börn meðferðar og beiddi Grís að hann mundi flytja börnin til Íslands.

Hann sagði: «Hvað eiga börnin þar?» segir hann.

Hún kvað móðurbróður barnanna í því héraði sem hann átti bú «og heitir Þorsteinn svörfuður.»

Grís mælti: «Hvað heitir þú?»

«Eg heiti Þórarna.»

«Ei mun eg það gera vitnalaust,» sagði Grís.

Hún vatt þá undan yfirhöfn sinni kefli og seldi honum. Voru þar á mörg þau orð er kennd voru Þorsteini svörfuði.

«Frekur mun þér eg þykja til fjár,» sagði Grís.

«Mæl og slíkt er þú vilt,» sagði hún.

«Fjögur hundruð silfurs,» sagði hann, «af allgóðu silfri og skaltu þó sjálf fylgja börnunum.»

«Þess er ekki að leita að eg fylgi þeim en greiða mun eg fé það sem þú beiddir.»

Og þá sagði hún honum nöfn barnanna og hét sveinninn Klaufi en mærin Sigríður.

Grís mælti: «Því ertu svo dáleg orðin af svo góðum ættum?»

Hún sagði: «Eg var hertekin af Snækolli Ljótssyni og hann á börn þessi við mér. Síðan rak hann mig frá sér nauðga.»

Þegar gaf Grísi byr er hann hafði börn þessi í skip tekið og sigldi til Íslands í sama ós sem hann var vanur. Og þegar hann var landfastur færði hann af hendi bæði börnin svo engvir vissu fyrir hans komu. Á því kvöldi kom hann á Grund til Þorsteins og tók hann forkunnar vel við honum og kom það mest til að Karl son hans hafði utan farið á því méli er Grís hafði utan verið og vildi hann spyrja að ferðum hans. Grís var fár heldur. Þorsteinn spurði hvort hann hefði þyngd nokkra.

Grís sagði að honum kvaðst ei þykja örvænt að honum þætti nokkuð að um tiltekjur hans «því eg hefi flutt hingað systurbörn þín tvö.»

«Hversu má það vera?» sagði Þorsteinn, «og geng eg ekki við frændsemi þeirra vitnalaust.»

Þá sýnir Grís honum keflið og kennir Þorsteinn þar orð sín þó langt hafi verið síðan.

Hann sagði þá: «Lítið mun eg að þessu gera kvöldlangt en við mun eg ganga frændsemi barna þessara.»

Um morguninn er þeir sátu undir borðum bað Þorsteinn færa sér börnin og gerði hann meyjunni þann þykk að hún grét þegar en sveininn lék hann miklu harðara og þagði hann.

Grís mælti: «Nú þykir mér sem þú hafir við gengið frændsemi barnanna.»

Þorsteinn mælti: «Þér ætla eg börn að annast og fulla fúlgu með. Eg mun láta fylgja meyjunni tuttugu hundraða en með sveininum fjóra tigi hundraða.»

Grís sagði: «Því gerir þú svo mikinn mun barnanna?»

Þorsteinn sagði: «Kjós við þig og annast hvort þú vilt.»

Þá steypti Þorsteinn silfri úr sjóði en Grís taldi sér fjóra tigi hundraða. Þorsteinn lýsir kaupi með þeim undir votta og bað Grís ábyrgjast fyrir Klaufa orð og verk. Grís kvaðst vildu þrælka Klaufa. Þorsteinn kvað það vel vera ef hann kæmi því við. Fer Klaufi heim með Grís. Var hann þá tvævetur en Sigríður fjögurra.

13. kafli

Nú verður þess að geta hversu Ljótólfur lét laust skipið fyrir Karli það sem þeir áttu báðir saman. En skip það hafði gert verið uppi í Tungunni og var þar höggvinn viðurinn því þar var skógur þykkur. En til kjalarins var höfð eik sú er stóð niðri í Eikibrekku fyrir ofan Blakksgerði, og færðu eikina í síki það sem suður er og ofan frá Grund og lá hún þar þá vetur og er það kallað Eikisík síðan en skip það var kallað Íslendingur. En er skipið var algert var það fært ofan eftir ísum um veturinn gegnt Hofi og létu þar standa skipið og skorðuðu. Heitir þar Skorðumýr síðan og á því skipi hefir Karl utan farið.

Sá maður var á vist með Ljótólfi er Þórður fangari hét.

Ekki hefir gerst til tíðinda í dalnum síðan Klaufi kom og til þess nú er komið sögunni og er Klaufi nú á ellefta vetur.

Það varð til nýlundu að Þórður fangari bauð Klaufa til glímu með ragmæli og var sá maður sendur til Klaufa með rúnakefli er Heklu-Skeggi hét en Skeggi var vinur Klaufa. Hann tók við keflinu og varðveitti. En um morguninn kallar Klaufi til öxar við Grís og fékk ei fyrr en hann ógnaði honum til. Þá fer hann á Grund og réðst um við Þorstein frænda sinn hvort hann skyldi glíma við Þórð.

Þorsteinn sagði: «Það vil eg að þú ráðir sjálfur. Er þér kunnigra afl þitt en mér.»

Klaufi sagði: «Þó eg sé ungur aldri þá er mér þó leitt að liggja undir ragmæli þræls þess og vil eg að þú farir með mér og prófum hversu gengur.»

Þorsteinn sagðist það mundu veita honum og eftir það stefna þeir fjölmennan fund að Hofi því Þórður vill hvergi glíma nema þar og fylgja þeir Klaufa, Grís og Þorsteinn. Þeir takast fangbrögðum og glíma lengi þar til ambátt ein kom í stofudyrnar og kallar þetta ambáttafang er hvorgi féll og bað þá kyssast og hætta síðan. Klaufi reiddist við þetta og tekur Þórð upp á bringu sér og keyrir niður fall mikið svo allir ætluðu hann meiddan. Eftir það gyrðir Klaufi hann svo fast að hélt við meiðsl. Kerling ein sat í stofuhorni og lét allvel yfir þessu verki.

Grís mælti: «Nafn mun eg gefa þér Klaufi og kalla þig böggvi og skaltu hafa glófa að nafnfesti.»

Þórður komst til bekkjar með fulltingi annarra manna.

Þá drífa menn út og er Klaufi kom út mælti hann: «Illa kann sá feginn að verða er hann lætur eftir handagervi sína þó hann þiggi aðra.»

Gekk hann þá inn í stofu og sá hvar Þórður sat. Hann færði þá öxina í höfuð honum og fékk hann bana. Klaufi gekk út þegar. Þorsteinn spurði því öxin væri blóðug.

Klaufi mælti: «Eg bannaði Þórði að bjóða fleirum mönnum fang.»

Þá urðu menn þegar vísir vígsins og leituðust um hver svara ætti sökinni en Grísi bárust bæturnar og galt hann sex hundruð silfurs. Fóru menn nú heim og var kyrrt það sem eftir var vetrarins.

14. kafli

Þessa menn nefnum vér til sögunnar: Hávarð í Þorvaldsdal og sonu hans Vigfús og Þorvald. Sá maður var undir hans vernd er Hrani hét. Hann bjó í Birnunesi. Hann var bróðir Birnu er Birnunes er við kennt en Þorkatla hin gamla var móðir Hrana er Kötlufjall er við kennt því Helgi hinn magri deyddi hana þar og kól hana í hel svo hann sat henni þar mat þar til hún dó.

Sá hinn sami Hrani bauð ójafnað mikinn bónda þeim er bjó á Hellu og Þórarinn hét. Hann beitti upp engjar hans og akra. En fyrir því að Þórarinn var skyldur mjög Klaufa þá sendi hann honum orð og fer Klaufi þegar inn þangað og fundu þeir Hrana á akri Þórarins með féð sitt og sat hann á hesti sínum með alvæpni. En er Klaufi fann hann sækir Klaufi þegar að Hrana vopnum svo hann hefur ekki að gera nema hefjast undan þar til er hann fékk bana. Þar heitir síðan að Hranaríki er hann var veginn.

Heim fara þeir Þórarinn og Klaufi því þeir vilja gera fúlguföll Grísi í brautvistinni. En er Klaufi fór heim þá fann hann mann og reið sá hrossi Gríss og drap Klaufi hann. Sá maður hét Örn og var húskarl Höskuldar lögmanns, náfrændi hans. Nú fór hann og mætti Grís honum og spurði því öx hans væri blóðug og klæði.

«Mat minn vil eg,» sagði Klaufi, «en ekki hirði eg um þetta.»

Að liðnu matmáli Klaufa ríða tólf menn að garði. Kenndu þeir þar Þorstein svörfuð og með honum Hávarð úr Þorvaldsdal og mæla eftir Hrana. Grís var þá til andsvara og galt hann tólf hundruð fyrir vígið hans Hrana. Í þann tíma kom Höskuldur lögmaður og heimti fyrir víg frænda síns og varð Grís að gjalda sex hundruð fyrir víg Arnar.

Síðan fóru hvorirtveggju heim. En Klaufi var nú miklu verri viðureignar en áður og hélt þá Grís hræddum en ei að síður kvaddi Grís hann til fiskiveiðar í ána og fer Heklu-Skeggi með honum. Hrólfur átti hálfa ána og veiðina við Grís. En er Klaufi kom til og Björn húskarl Hrólfs þá greindi þá þegar á, því Klaufi vildi hafa alla ána til veiðarinnar. Björn hleypur á Klaufa þveran og ætlar að fella hann út á ána því hann var bæði mikill og sterkur. En Klaufi leitar nú eftir en Björn undan og finnast með því að Klaufi drepur Björn og fer síðan heim. Og brátt kom Hrólfur nefglita og beiddi bóta fyrir Björn og varð Grís enn að gjalda sex hundruð silfurs.

15. kafli

Á þessu sumri bjó Grís skip sitt til utanferðar.

Klaufi spurði: «Hver skal hér fyrir búi sjá meðan?

Grís mælti: «Þér hef eg það ætlað,» sagði hann.

«Ei ætla eg það þó,» segir Klaufi, «því eg vil utan með þér.»

Grís fer nú og hittir Þorstein svörfuð og spyr hversu með slíku skal fara.

Þorsteinn segir: «Það legg eg til að þú flytjir hann því hann á alla kynslóð austur þar. Þætti mér af því líklegt að hann mundi ekki fýsast út hingað.»

Grís tók þessu vel og varð Klaufi í ferð með honum.

Þorsteinn bað þá frétta af Karli syni hans «því langan tíma hefur ekki frést til hans.»

Nú héldu þeir skipi til hafs og komu til Þrándheims. Var Grís þar um veturinn en um sumarið bjó hann skip sitt til Íslands og gekk ei lengra en til Niðaróss, lögðu síðan út undir Sólskel og gaf næst byr af útnorðri og mælti Klaufi með allillu skapi að þeir mundu sigla suður með landi.

Grís sagði að afglapi sá skal ekki því ráða «að eg sigli svo langt afleiðis.»

Klaufi svaraði: «Svo skal sigla sem eg vil eða siglir þú aldrei héðan lífs.»

Og Klaufi varð að ráða og sigla nú suður með landi þar til þeir koma að einum hólmi. Þar lágu tvö skip og voru öngvir menn á. Þeir hlupu upp á annað skipið.

Klaufi mælti: «Segðu Grís hver skipi þessu hefur stýrt því hér eru rúnir þær er segja.»

Grís kvaðst ei vita það.

«Þú veist það,» sagði Klaufi, «og skaltu verða að segja.»

Nú verður Grís að segja hvort hann vill eða ei en svo segja rúnir: «Karl réð þá skipi að rúnar voru ristnar.»

Hljóp Klaufi þegar í bát og reri að landi. Svo var hann þá reiður að hann rak öxi sína í jörð niður svo stóð á hamri. Þá reif hann upp mikla kylfu svo að öngvum sýndist hún vopnhæf nema honum einum. Þeir heyrðu þá mannamál mikið og komu þar að að tólf menn voru bundnir en fjöldi manns var þar hjá og leystu menn úr böndum og var hver höggvinn sem leystur var. Þeir menn sem í böndum voru var Karl hinn rauði og hans félagar. Einn maður gekk mest að berbrynjaður að höggva fólkið. Hann reiddi sverð um öxl, alleigulegt. Þar sneri Klaufi að þeim manni og spurði hver hann væri. Sá maður svaraði allstórmannlega og kvað hann það engu skipta. Klaufi sneri að honum og barði á báðar hendur … allvel að hlaupa. Fer Atli nokkura hríð. Svo hét víkingur sjá er barist hafði við Karl.

En þá er Klaufi náði til hans þá hlífði hann honum ei heldur en öðrum og gekk af honum dauðum, tók síðan sverðið og hjó á tvær hendur allt til þess er Grís kallaði hátt og mælti: «Klaufi, Klaufi, kunn þú hóf þitt.»

Þá gerðist Klaufi svo óknár að hann gat ei valdið klumbu þeirri er áður barði hann með. Þeir Karl voru nú leystir. Varð þar mikill fagnafundur.

Um vorið eftir fara þeir Grís og Klaufi í hernað og eru í víkingu þrjú sumur og fengu jafnan sigur. Og þá er þeir leggja af hernaðinn halda þeir til Noregs og sigla í Þrándheimsmynni og eru þar svo um veturinn.

En um vorið búa þeir Klaufi skip sitt til Íslands og fóru á því skipi Karl og Ögmundur. Koma þeir í þær stöðvar sem þeir Grís áttu vanda til og lögðu skipið undir Melshöfða og fóru allir heim á Grund og fengu þar góðar viðtökur.

Þá mælti Grís til Þorsteins: «Misjafnt verða farir til manna.»

Klaufi mælti: «Kenn þú þér það ekki skræfan er þú veldur engu um en Karl má þar nokkuð af segja með hverjum atburðum hann er heim kominn.»

Karl sagði sem farið hafði. Þorsteinn þakkaði Klaufa frænda sínum.

Vel samir að segja frá yfirlitum Klaufa. Hann var þverrar handar og fimm alna hár. Armleggi hafði hann bæði langa og digra, kinnur miklar og þreklegar greipur. Hann var úteygður og ennisbrattur, mjög munnljótur og neflítill, hálslangur og hökumikill, skolbrúnn og skarpleitur, lágu hátt kinnarbeinin. Manna var hann svartastur, bæði á brýn og hár. Hann var opinmynntur og skögðu tvær tennur fram úr höfðinu og allt var hann að áliti sem hann væri krepptur og knýttur.

Nú fara þeir heim Grís og Klaufi og er hann nú átján vetra.

Þenna vetur bar ekki til tíðinda nema það að maður kom til Hofs eitt kvöld sá er Skíði var nefndur. Hann hafði stokkið undan annars manns ánauð, þess er Þorgrímur hinn grái hét. Hann bjó á Óslandi í Skagafirði. Skíði bað Ljótólf veita sér traust nokkurt. Ljótólfur kvaðst mundu veita honum fyrir sakir Una frænda síns. Skíði bar þræls nafn. Ei bar hann það nafn af því að hann hefði til þess ætt eða eðli. Hann var manna mestur og fríðastur. Ljótólfur skipaði hann fyrir verkstjóra og mannaforræði.

Um vorið eftir kom Þorgrímur vestan með þrjá tigi manna að vitja þessa manns og sömdu þeir Ljótólfur svo og Þorgrímur að Ljótólfur galt fé fyrir það hann hafði haldið Skíða um veturinn og kölluðust sáttir og hafði Þorgrímur með sér þrælinn að sinni því að Ljótólfur hafði fámennur heima verið. Þá koma sex tigir manna til móts við Ljótólf og snýr hann þá málinu öllu til heimsóknar. Þetta voru ráð Hrólfs nefglitu og krepptu þeir svo að Þorgrími að hann varð að selja Ljótólfi sjálfdæmi og lét laust bæði féð og þrælinn og fór heim við það.

16. kafli

Að liðnum vetri þá er menn voru á vorþingi á Höskuldsstöðum varð mönnum viðrætt mjög um komu Karls.

Þá gekk Grís til tals við Ljótólf frænda sinn og mælti: «Vel samir nú að tala um launin skipsins við Karl hinn rauða því nú eru margir góðir menn við.»

Skíði var þar viðstaddur og mælti: «Hygg að því Grís að þú leggir það eina til með mönnum að þá sé ei verr með mönnum eftir en áður.»

Og eftir það spyr Ljótólfur Karl eftir hvað hann vill leggja að launum fyrir skipið það þeir létu gera báðir saman.

Karl mælti: «Eg hygg að þú megir þar engvar heimtur fyrir hafa því þú baðst mig ráða verðinu.»

Grís mælti: «Gott þætti oss hér að gera Ljótólf þér að vin og leggja fram fé nokkuð.»

Karl mælti: «Ekki mun fram koma fyrir þín orð og einskis annars að þessu sinni.»

Og svo varð. En þeir frændur, Karl og Klaufi, heimtu að Grís fjögurra vetra forgift og þá greiddi hann fúlgu hans og fengu þeir honum land til ábúðar og ekki skildu þeir um ábyrgð verka hans þaðan í frá og fór hann byggðum til Mela og sat þar um sumarið.

Þá voru lögréttir út í Tungunni og ráku féið til réttarinnar feðgar tveir úr Teigsfjalli. Hét annar Björn en annar Sigurður og mislíkaði Klaufa fjárreksturinn því hann átti á eina með og líkaði honum illa er hún var elt afvega. Og er þeir komu gegnt honum hljóp Klaufi til í allillu skapi og drap þar hvorn sem kominn var og fór með það til réttanna og mætti þar Karli frænda sínum og hlupu þeir á réttargarðinn. Ljótólfur spyr hvað hann sæi til þeirra manna er féð ráku.

Klaufi sagði: «Sá eg um stund hvar þeir ráku féið en nú far þú og vit hvar hvor hefir staðar numið.»

Þá varð víst að Klaufi hafði drepið þá báða. Eftir þetta varð Klaufi laust að láta Melaland og fékk Karl honum nú aftur aðra jörð og tuttugu húskarla og reistu þar bæ fyrir norðan ána upp í dalnum þar sem nú heitir á Klaufabrekkum er þá hét fyrst í Klaufanesi því það stóð fyrst niður við ána og þótti þar kominn illa því mjög bar á hann stórum, sem síðar bar raun á. Og eftir þetta gerðist fullur fjandskapur með mönnum í dalnum.

Á þeim vetri vænti hvorutveggi sér liðs norðan úr dalnum af sínum frændum, Kolbeinn og Uni, því að sundurþykki þeirra var þá sem mest en fyrir fórst það þó þau misseri og var þá kyrrt að kalla í dalnum.

En að liðnu sumri bað Grís konu til handa sér, Sigríðar Klaufasystur. Þorsteinn svörfuður var þar til andsvara og veik hann öllu til Klaufa. Þá fór Grís að finna Klaufa og bað hann konunnar.

Klaufi svaraði skjótt: «Mun þá ei hraust kona illum manni gefin en þó læt eg það mitt ráð sem frændur hennar vilja fyrir sjá.»

Grís mælti: «Koma muntu til boðs míns ef þeim sýnist að gifta hana.»

«Koma mun eg víst,» sagði Klaufi.

Og síðan var þessu keypt og var Ljótólfur ekki við þessa ráðagerð. Nú var boðið búið á Grund og kom ekki margt manna en þá var sem mest vinfengi þeirra Ljótólfs og Ásgeirs rauðfelds því að Ingvildur fagurkinn var frilla Ljótólfs og var öngum boðið frá Brekku. Varð mönnum skipað í sæti á Grund. Sátu allir hinir eldri menn á annan bekk en Þorsteinn svörfuður og Karl son hans og Klaufi frændi þeirra á annan.

Grís tók þá til orða: «Vel samir það í svo góðu samsæti að tala mest það eftir megi hafa og strengja heit eða taka sér jafnaðarmenn.»

Þorsteinn sagði það óviturlega til lagið «og mun þaðan jafnan margt koma sem Grís er.»

Ei að síður halda þeir á þessu tali og hóf Karl hinn rauði það fyrst og tók sér jafnaðarmann Ljótólf goða og strengdi þess heit að hann skyldi hafa heimilað ragmæli á hendur honum á þriggja vetra fresti. Grís tók sér jafnaðarmann og nefndi til þess Skíða og strengdi þess heit að hæfa þá höfn sem hann vildi hvert sinn er hann sigldi landa í milli. Ögmundur sagðist eigi mundu þá sigla lengra en um þveran hroftann. Klaufi tók sér jafnaðarmann Ólaf Ásgeirsson og strengdi þess heit að koma í sömu rekkju Ingvildi fagurkinn án vilja Ljótólfs goða.

Grís mælti: «Ekki vita slík orð lítils og ekki mundu þreklausir menn slíkt tala og látum þetta nú ei að engu verða og förum þegar út í Brekku eftir Ingvildi fagurkinn og setjum hana á brúðbekk hjá Sigríði.»

Þeir gera svo, standa upp átján saman og ganga út til Brekku. Grís settist á tal við Ingvildi og Þórhildi móður hennar en þeir Karl tala við Ásgeir bónda og báðu þau öll samt koma suður síðar dagsins og fóru þeir heim fyrir og mættu þeim manni fyrir heima er Þórður gapa hét.

Grís gekk að honum og mælti í eyra hljótt: «Allillt er það að hann Karl er svo matspar að hann býður ei slíkum mönnum sem þú ert. Far nú til Hofs og svo muntu ei hafa þar verri viðtöku ef þú segir hvað hér er í ráðagerð.»

Þórður hljóp þegar. Karl þekkti þegar að maðurinn hljóp frá veislunni og bað hlaupa eftir honum og elta hann en hann hljóp á ána undan og létti ei fyrri en hann kom til Hofs og sagði hvað í leikum var. Ljótólfur brá þegar við og safnaði að sér mönnum og reið vestur yfir ána til Brekku.

Maður sá var úti á Grund er hjó eldivið. Hann hljóp inn og sagði að tuttugu menn riðu yfir ána og til Brekku. Þá standa þeir upp átján saman og fóru út til Brekku og urðu við það varir að margir menn voru í húsunum en byrgðar dyr. Þá kom Karl og beiddi Ljótólf út ganga. Þá heyrðu þeir hlátur mikinn inn í bæinn er þau hlógu Ingvildur og Hrólfur nefglita. Ingvildur fagurkinn gekk þá fyrir dyrnar.

Þá gekk Klaufi upp að dyrunum og kvað vísu:

Hygg eg að heiti
Hrólfur nefglita,
sá býður Klaufa
kvon að verja.
Munattu Böggvir
brúðar njóta
nema Nefglitu
næmir lífi.

Og enn kvað hann:

Hlær mest að því
Hrólfur nefglita,
nærgi er greppi
gjöldum þetta.

Þá gekk Karl hinn rauði að dyrunum og kvað vísu:

Veit eg að seggir sátu,
slíkt er minnilegt, inni.
Ræðir sá er lof leiðir
Ljótólfur fyrir óskjóta.
Brims get eg enn að ýmsir
eldskerðandar verði,
hlátur skal herðinjótum
hegna, brögðum fegnir.

17. kafli

Karl brá þá sverði og setti í dyrustafinn og nefndi sér votta og heimilaði ragmæli á Ljótólf goða er hann vildi ei út ganga og fyllti svo orð sín er hann hafði talað á Grund.

Hann bauð Ljótólfi enn útgöngu «og munum vér ganga frá dyrunum,» sagði Karl.

Ljótólfur vill ei út hætta mönnum sínum og fór Karl heim og sátu þeir að boðinu. Eftir það fór hver til sinna heimkynna. Var þá kyrrt í dalnum þann vetur.

En um vorið eftir ætluðu hvorutveggju til liðs við þá Una og Kolbein sem þeir höfðu hið fyrra vorið. Ljótólfur varð fyrri búinn en Karl og fóru synir Ásgeirs með Ljótólfi. Þá spurði Þorsteinn svörfuður Karl son sinn því hann léti svo seint við um ferðina. Karl kvaðst ei hirða þó þeir brytu snjó fyrir honum um heiðina. Í þann tíma hafði Ásgeir farið upp í dalinn að rýja gemlinga. Og nú fer Karl til heiðarinnar og kemst ei lengra en upp í heiðina. Þá varð það til tíðinda að Klaufi féll af baki. Þá drápu þeir hross eitt er laust hljóp með þeim og flógu af skinn og þöndu um Klaufa og bundu hann um þvert bak á hrossi og snúa við það ofan eftir dalnum og fundu Ásgeir fyrir neðan Vatnsdalsá. Ásgeir spurði því þeir færu svo hverft.

«Sjá máttu,» sagði Karl, «að vér förum hér með Klaufa veginn.»

«Ei er það illa,» sagði Ásgeir, «því hann hefir mörgum manni mikinn ójafnað sýnt meðan hann lifði.»

Karl sagði: «Ei þarftu að hrósa því svo mjög því að nú skaltu láta líf þitt eða fastna Ingvildi dóttur þína Klaufa vegnum.»

Það kjöri Ásgeir að rétta fram höndina og nú sprettir Karl til handar Klaufa og verður Ásgeir þar í að taka og fara festar fram.

Þá kom kveðlingur úr húðinni:

Mál er í meyjar hvílu,
mjög emk snögglega höggvinn,
flýgur í faðm mér eigi
fögur drós, gala mögrum.
Munat oss um þrá þessa,
það kváðu hjú, batna.
Rétt, þann er reisa áttu,
rauðkinn, hana inni.

Þá mælti Ásgeir: «Segir þú Klaufa dauðan?»

Karl svaraði: «Það segi eg ei. En það sagði eg að hann væri veginn.»

Ásgeir sagði: «Við því átti eg ekki gert að þú færir með prettum eða ráðkrókum eða lygi.»

«Eigi laug eg,» sagði Karl, «þótt eg segði hann veginn því það er sagt vegið sem reitt er.»

Og nú fara þeir ofan til Brekku og færir Karl þau í eina sæng, Klaufa og Ingvildi fagurkinn, en Ásgeir hafðist við upp í dalnum á meðan þetta fór fram.

18. kafli

Nú halda þeir vestan eftir þingið Ljótólfur og hans menn og hafði Þorgrímur hinn grái mjög verið í mót þeim Ljótólfi og Una. Og nú koma þeir í dalinn í þann tíma er þeir Karl og Klaufi fara neðan með konuna. Ásgeir var þá kominn í för með Ljótólfi og hafði sagt honum það sem í hafði gerst á meðan þeir voru vestur. Nú fara þeir Ljótólfur yfir ána hjá Teigarhöfða en þeir Karl og Klaufi neðan eftir eyrunum að Urðarhúsum. Var Ljótólfur við þrítugasta mann en Karl við fimmtánda mann.

Karl hrópaði mikið á Ljótólf og bað hann heyra til þess er hann talaði: «Hér er Ingvildur frilla þín í för með mér.»

Ljótólfur lætur ei sem hann heyri og fer heim við svo búið. Var Karl með Klaufa svo að voru um það almæli um dalinn að Karl bæri ægishjálm yfir Ljótólfi en þó má kalla kyrrt um sumarið.

Geta verður þess hversu fór með þeim Una og Kolbeini, að Uni hlaut það er þeir deildu um því allir voru í móti Kolbeini. Og svo varð Kolbeinn reiður að hann stökk á skip og sigldi í haf og braut skipið við klett þann er liggur í útnorður undan Grímsey og týndist Kolbeinn þar og er eyin við hann kennd og kölluð Kolbeinsey. En Hjalti situr þar eftir og minnkar ekki virðing sína.

Um haustið eftir tókst deila með þeim Klaufa og Ljótólfi. Þótti Klaufa menn Ljótólfs óskilsamlega reka fé þeirra Þorsteins svörfuðar og Karls. Klaufi bað Karl fara upp í dalinn til réttanna en Karl kvaðst verða að fara út á strönd til rétta. Klaufi ríður upp eftir dal en Karl út á strönd.

Ekki er sagt frá ferðum Klaufa fyrr en hann kemur upp að Krókamelum gegnt Búrfellshúsum og þar er hann fyrir fjallmönnum við vaðið. Nú er féið rekið að vaðinu en Klaufi ver vaðið og er við fimmta mann en réttamenn margir og tekst þar bardagi en lögréttin var á Hæringsstöðum og bjó þar Hæringur. Hann sér að féð dreifist þar við ána og hleypur heiman með tíunda mann og komast þeir ei yfir ána því að Klaufi réðst í móti og var þá kominn að honum berserksgangur og berjast þeir nú fyrir austan ána. Í þann tíma kom Ljótólfur að með þriðja mann og snýr að með Hæringi. Klaufi lætur nú sem ekki sé annað að sækja en Ljótólf og hopar Klaufi nú undan út á ána og berjast þeir nú á miðri ánni. Í þessu bili ríða níu menn utan eftir eyrunum hvatlega. Var þar kominn Karl hinn rauði.

Hann kallar hátt: «Klaufi frændi kunn þú hóf þitt.»

Klaufi mælti: «Illra heilla komstu nú því að nú hefði eg sigrast og drepið Ljótólf ef þú hefðir ei komið og hefðum við þá einir ráðið dal þessum.»

«Það skaltu ei mæla frændi,» sagði Karl, «því að Ljótólfur á marga frændur göfga um allt Ísland og mundum við sitja fyrir afarkostum ef honum væri nokkuð til meins gert og sel honum nú sjálfdæmi fyrir allan saman ójafnað þann sem þú hefir gert honum.»

Klaufi reiddist þá og kvaðst það aldrei skyldu gera. Eru þeir nú skildir og var Hæringur fallinn og fimmtán menn aðrir og skildu við svo búið.

19. kafli

Á þessu sama hausti sóttu þeir litgrös bræður úr Brekku, synir Ásgeirs, upp á Klaufahlíð er móðir þeirra sendi þá eftir og komu þeir heim í Klaufanes er þeir höfðu sótt grösin og vildu finna Ingvildi systur sína og lögðu niður úti baggana meðan þeir dvöldust. Var annað verja en annað hít mikil. Þá kemur Klaufi að og saxar í sundur baggana með páli og gekk í burt síðan. En er þeir bræður komu út sáu þeir að belgirnir voru ekki tiltækir og fara þeir heim og mæta móður sinni. Hún spurði því þeir hefðu ekki með að fara.

Þá varð Þorleifi vísa á munni:

Belg hjó fyrir mér
Böggvir snöggvan
en fyrir Ólafi
ál og verju.
Svo skal verða
ef vér lifum b(ræður).
við böl búinn
Böggvir höggvinn.

Það var eitt sinn að Ingvildur fagurkinn settist í kné Klaufa og var við hann allblíð og bað hann lofa sér að fara ofan til Brekku á kynni og kvaðst ei lengur skyldu í burtu vera en hann vildi og bað að Heklu-Skeggi skyldi fara með henni. Klaufi leyfði það. Hún fór síðan og var ei lengur í burtu en hann leyfði.

En er hún kom heim settist hún í kné honum og var blíð við hann og mælti: «Ei ætla eg að önnur kona sé betur gefin en eg. En það líkar mér illa við bræður mína er þeir hafa drepið yxni mitt er mest gersemi var og vildi eg gjarna Klaufi minn að þú létir þér þetta mislíka og sæktir yxnið þar sem það liggur til gert í húðinni gegnt dyrum í Brekku niður.»

Klaufi svaraði: «Hvað mun það varða? Ei mun þig hér mat skorta.»

Hún svarar: «Ei varði mig þess að þú mundir vilja vera ræningi bræðra minna.»

Klaufi spratt þá upp og gyrti sig sverðinu Atlanaut og var hinn reiðasti og gekk ofan í Brekku og kom ekki á Grund og fann þegar húðina liggja í dyrunum og tók upp allt saman yxnisfallið og kastaði á bak sér og hugðist mundu ganga út með. En það gekk ei því að við nam dyrigættunum og frá hafði hann þau öll saman og gekk með þá suður að garði og hristi þar af sér dyrigættin öll og þar hurðina með og gekk síðan heim. En er hann kom heim var langt af nótt. Var þar borinn mjög snjór að dyrunum. Gekk hann þá inn í snjóbyrgið. Þá kom Ingvildur í mót honum og var allblíð við hann og svo rann Klaufa þá reiðin að hann gat þá þeim bagga ei valdið sem hann hafði áður lengi borið.

Hann laut mjög í dyrunum er hún fagnaði honum og renndi sverðið Atlanaut fram með slíðrunum og tók hún það og kastaði út í snjóbyrgið og mælti: «Neyti sá sem neyta þorir.»

Hún dvaldi fyrir Klaufa þar til að hann var laginn í gegnum svo hann fékk þegar bana. Þessu verki ollu þeir Ásgeirssynir og tóku þeir Klaufa og drógu undir heygarð að húsbaki. Ingvildur fór þá í rekkju sína en þeir bjuggust burt. Þegar kom Klaufi til sængur Ingvildar er þeir voru burtu. Hún lét þá kalla á þá bræður og hjuggu þeir þá af honum höfuð og lögðu neðan við iljarnar.

Þeir bræður komu heim um kvöldið í Brekku og spurði faðir þeirra þá hvað þeir hefðu annast.

Þorleifur kvað þá vísu:

Rauð eg á randa gæði
rítorm sakar vítis.
Meiður, í málma veðri,
mens, tók sverð að grenja.
Söng hættlega hringa
hnitsólar, á fitjar,
felli-Gunnur meðal fjalla,
fetils trolls hlóð eg þolli.

Ásgeir sagði: «Finn eg nú hvað þið hafið gert en ekki ber eg traust til að halda ykkur hér og farið þið til Ljótólfs.»

Þeir fóru þegar til Hofs og gerðu Ljótólfi kunnigt hvað þeir höfðu gert.

Ljótólfur tók því verki allvel og bað þá fara til Gríss «því vér vitum allir saman þessi ráð.»

Og Grís tók því allvel en þó treystist hann ei til að geyma þá svo að Sigríður vissi ei, kona hans, og var hún nú vör við ger hvað til tíðinda var orðið og mælti hún kaup til að leyna þeim og bað selja sér sverðið Atlanaut til geymslu og kvaðst eigi mundi segja til þeirra fyrr en nokkur segði annar og það varð nú kaup þeirra.

20. kafli

Það var á öðru kvöldi að Karl hinn rauði sat við eld og fylgdarmenn hans átta. Þeir heyra að nokkuð nauðar á húsinu og kom kviðlingur:

Sit eg á húsi,
sé eg til þess,
héðan munum vér
oss hefnda vænta.

Karl mælti: «Alllíkt er þetta róm þeim er Klaufi frændi vor hafði þá er vér heyrðum til hans og má vera að hann þykist nokkurs mikils við þurfa. Fellur mér svo í hug kveðskapur sjá að víst er þetta fyrir stórtíðindum hvort sem þau eru fram komin eða eigi.»

Og fara þeir út eftir þetta alvopnaðir og ætla að snúa yfir til Hofs.

Þá sáu þeir ekki lítinn grepp suður við garðinn og var það Klaufi og hafði höfuðið í hendi sér og mælti:

Suðr er og suðr er,
svo skulum stefna.

Þeir snúa nú þangað eftir Klaufa og fara til þess er þeir koma til Steindyra og nam Klaufi þar staðar og laust höfðinu á dyrnar og mælti:

Hér er og hér er,
hví skulum lengra?

Þá snýr Karl heim til húsanna og kom þar að opnum dyrum og voru inni eldar. Trapisa stóð á gólfinu en mikið slátur var fært upp og soðið.

Grís stóð upp á gólfinu og fagnaði vel Karli «og sestu niður mágur,» sagði Grís, «og tak snæðing.»

Karl svarar: «Annara er oss að tala um tíðindi þau er orðin eru.»

Grís svarar: «Engi koma nú ný tíðindi að oss eða hvað kanntu að segja?»

«Það er víst,» segir Karl, «að eg ætla að Klaufi sé dauður.»

«Hvað mun annað til vor koma en láta illa yfir því?» sagði Grís.

Karl svarar: «Þig hyggjum vér vita hver unnið hefir verkið.»

Karl settist nú niður og semst heldur með þeim og snæða nú mennirnir. Gluggur var á húsinu norðan og skyldu þeir sitja Ásgeirssynir þar við og sjá hvað komið væri. Þeir eru nú við glugginn og sjá að þeir Karl eru komnir.

Það varð Þorleifi á munni: «Glöggt þykist eg nú vita hversu til mun ætlað. Sent mun eftir Ljótólfi og munu þeir veita Karli atgöngu en eg þoli það aldrei að svo ágætur maður sé svikinn.»

Þorleifur kvað þá vísu þessa:

Kvaðat sendir mig mundu
mundhyrs rekast undan
dyggur er sá er drjúgt mun eggja
dólg, minn rúni, sinna.
Og böðreyndan bendi
blóðorm um kné góðan
hræva gífurs með hreifum
heggr og bítur á skeggi.

Og enn kvað hann:

Hér sit eg og hvet hvassan
hlymbrand jöru randar
meðan óvinir órir
oss leiða matreiður.
Eigum bernsklegt báðir
ból það er lítt nýtur sólar,
oss hlægir það eigi,
út um hellisskúta.

Þetta heyrir Karl og kennir Þorleif að máli og kvað þá vísu þessa:

Hér gelr hvass á húsi
hyrlundr mikils styrjar.
Fleinhríðar vekur fæðir
ferð sá er hræddr skal verða.
Því munu ljóð, en, leiðar
linnsveigir, renndu eigi,
bíð þú gunnstara grennir,
Grísi hætt, er eg vætti.

Eftir þetta sprettur Karl upp en Sigríður Klaufasystir gekk að honum og fékk honum sverðið Atlanaut. Hann brá sverðinu en kastaði umgerðinni á öxl sér. Grís var þá úti og bar flot á spjótskefti þeirra.

Karl hljóp þá út að Grísi og hjó hann í sundur í tvo með sverðinu og mælti: «Svo brytjum vér grísuna Grundarmenn.»

Hann sá þá að floti var riðið á öll spjótskefti þeirra. Hann tók spjót og rak í skaflinn og dró út að fjöðrinni og þerrði þann veg af með snjónum og svo gerðu þeir allir og snúa síðan úr garðinum og sáu þar fara grepp harðla mikinn gagnvart sér og var þar Klaufi kominn.

Þá kvað hann vísu:

Ganga hér fyrir garð fram
gunnhvöt enni,
eruð vanir vígum
sem vér fyrri.
Séð höfum sólheim,
sjá munum annan.
Eruð þér sem vér,
alls um duldir,
alls of duldir.

«Í urð ætla eg nokkurum í kveld Karl frændi,» sagði Klaufi.

Og nú sjá þeir að fimmtán menn fara frá Bakkavaði. Þeir mætast þar sem heitir Kumlahóll eða Kumlateigur. Var þar kominn Ljótólfur goði og voru engar kveðjur með þeim. Hlupust menn þegar að og varð hinn harðasti bardagi.

Og er þeir höfðu barist um hríð mælti Ögmundur Höskuldsson við Karl: «Gættu þín vel því að eftir standa skór þínir í fönninni og mun eg standa fyrir þér á meðan þú kippir á þig.»

Karl kvað þá vísu:

Þoku sé eg upp, við ekka
oss hlífir sjá drífa
kols, að Klaufahvoli,
kornél, gróið vélum,
nærgi er þeyr af þeirri,
það er meinlegra einu,
ræð eg þó að rigni blóði
randelds í böð standa.

Þá kom Klaufi í bardaga og barði blóðgu höfðinu á báðar hendur bæði hart og tíðum og þá kom flótti í lið Ljótólfs. Því var líkast sem þá er melrakki kemur í sauðadún. Þeir Ljótólfur héldu nú undan og eru nú níu eftir en fimmtán héldu til en sjö voru hinir. Og ætlar Ljótólfur að snúa ofan Bleikudal fyrir ofan Bakkagarð en þar var Klaufi fyrir og bannaði þeim þar að fara. Út snúa þeir undan og ætla ofan Nafarsdal fyrir utan teiginn. Eigi var þess kostur. Klaufi var þar fyrir. Þá bar Karl að og tókst bardagi í annað sinn. Undan varð Ljótólfur að halda er þeir höfðu skamma stund barist því að Klaufi var þá í bardaganum. Sjö voru þeir Ljótólfur er þeir héldu undan en hinir fjórir. Allt fór Ljótólfur til þess er hann kom heim að garðinum að Hofi. Eigi var þá kostur að fara í hliðið því að Klaufi var þar fyrir. Þá bar Karl að og urðu þeir að berjast í annað sinn þegar er þeim laust saman.

Þá kvað Klaufi vísu:

Dynur er um allan
dal Svarfaðar.
Eru vinir vorir
vals of fylldir.
Knýjum, knýjum,
Karls um liðar,
látum liggja
Ljótólf goða
í urð
og í urð.

Þá mælti Ljótólfur að þeir skyldu æpa upp allir senn «því að þá mun Skíði heyra og mun hann koma til liðs við oss með þá menn sem hann hefir til.»

Skíði heyrði ópið og stökk upp og út í garðinn við hinn þriðja mann og átti hann þó eigi kost að fara til bardagans. Klaufi var þar fyrir og varði þeim stiginn. Heim fór Skíði og fékk sér eldibrand mikinn og vafði að næfrum og hljóp upp í garðinn og við þetta stökk Klaufi til bardagans. Skíði hljóp og þangað við þriðja mann og sá að bæði var á grundinni göltur og hvítabjörn og gengust þeir að en Skíði gekk að og skildi með þeim og lét eigi kost að berjast lengur «því að tveir eru hvorir.»

Ljótólfur hófst undan og hlífði Skíði honum og þeir þrír saman förunautar en horfinn var bæði gölturinn og svo bersi. Nú fara þeir svo þar til er Ljótólfur náði dyrunum á útibúri sínu því er hann átti. Þeir voru með Ljótólfi Ásgeirssynir rauðfelds. Karl bar þá að dyrunum og var hann við annan mann. Hann átti eigi kost inngöngu því að Skíði var þar fyrir. Skíði eggjar Karl atgöngu en Karl eggjar Ljótólf útgöngu og lét honum eigi vænna í annað sinn til afburðar. Ljótólfur kveðst nú mundu vera láta að sinni og fer Karl heim eftir þetta og Ögmundur með honum.

Þorsteinn svörfuður fagnaði vel Karli frænda sínum og mælti: «Sest niður frændi og seg frá tíðindum og þykist eg eigi vita hví erfiði þetta hefir á mig fengið sem eg hafi verið með yður í bardaganum og eigi má eg héðan ganga.»

Karl mælti: «Vissi eg faðir að þú varst í bardaganum og veittir oss lið.»

Þá voru bundin sár Karls og Ögmundar.

Þorsteinn svörfuður var færður í rekkju sína af vanmætti og lá hann þá nótt alla og um morguninn eftir og veitti Karli syni sínum mörg heilræði og bað hann bregða búi á Grund og fara til Upsa: «Þess vil eg og biðja þig son minn, ver vinfastur við þá menn er þér eru hollir í sveitinni.»

Nú mátti kalla kyrrt í sveitinni um veturinn eftir þann aga er þeir höfðu haft. Þá komu til fylgdar við Karl Vémundur og Þórður og Svarthöfði Héðinsson.

En um vorið lét Þorsteinn svörfuður af berast og var hann grafinn niðri á melnum gegnt Blakksgerði. Eftir andlát Þorsteins lét Karl gera mikla veislu á Grund og bauð til Hávarði og sonum hans og öllum vinum sínum innan dals. Það tóku menn þá ráðs er þar voru komnir margir góðgjarnir menn að leita um sættir með þeim Ljótólfi. Karl varð því samþykkur um síðir og fóru menn til Hofs eftir veisluna og leituðu um sættir við Ljótólf og gekkst það svo við að hvorirtveggju fundust á Grund og inntu nú mál sín og var Ljótólfur í öllu tregari að sættast enda voru öll mál meir dregin undir Karl. Þeir urðu utan að fara synir Ásgeirs rauðfelds.

Skíði gekk að og beiddi Karl að hann legði til við Ásgeir rauðfeld hagjörð nokkura «því að sú er fjarlæg er hann á.»

Karl gerði nú svo að hann gaf honum hagmýrar miklar. Sú varð sættin að Ljótólfur hlaut að gjalda sex hundruð silfurs. Í Siglufirði stóð skip uppi og fóru þeir þar á Ásgeirssynir.

Svo gengu sættir saman sem sagt var og má þá kalla kyrrt í dalnum og fer Karl byggðum til Upsa.

21. kafli

Þessu næst er það að segja að Ljótólfi er kona ætluð innan úr Eyjafirði af Möðruvöllum, Þórdís dóttir Guðmundar gamla.

Það bar að að skip braut í Fljótum og komst ekki mannsbarn af svo að alþýða manna vissi.

Einn morgun var Heklu-Skeggi kominn að Steindyrum. Hann var á vist með Sigríði Klaufasystur. Hann sá að tveir menn höfðu vaðið yfir ána en því sá hann það glöggt að snjóföl var fallið og kallaði hann þá á Sigríði. Og þá kenndu þau sporin að þeir Ásgeirssynir höfðu þar farið því að táin var miklu meiri á Ólafi en öðrum mönnum. Og þá bað hún hann fara til Upsa og segja Karli. Hann brá við þegar og fer til Hofs við hinn fimmtánda mann en Ljótólfur var ekki heima og var hann farinn inn til fjarðar. Þau voru fyrir búi meðan, Ragnhildur og Skíði. Þar var Ingvildur fagurkinn. För þeirra gat Skíði litið.

Nú voru sveinarnir nýkomnir. Þeir Ásgeirssynir stóðu hjá Skíða er hann ók á völl. Ekki sá hann annað fangaráð en þeir settust í haugstaðinn og drap hann að þeim mykinni er frerið hafði en síðan mokaði hann að blautri myki. Síðan fór hann suður á völlinn og bar þá Karl að og frétti hvað komið væri til hans.

Hann kvað það ekki að sínu viti «að neinir menn séu hér komnir.»

«Leyndu eigi Skíði,» sagði Karl, «því að hér eru komnir synir Ásgeirs.»

«Sagt er það er eg mun segja,» sagði Skíði.

«Förum vér heim,» sagði Ögmundur, «og þæfum ekki Skíða. Rannsökum bæinn.»

Og svo gerðu þeir.

Fyrir sunnan hús lést Ögmundur sjá rauðan kyrtil hanga úti á ási og diglaði niður úr og brá hann í munn sér og kenndi að salt var. Síðan hljóp hann suður um húsin með kyrtilinn og dró með sér tík mikla og hjó af henni höfuðið og færði í kyrtilinn og lét taka strjúpann niður úr höfuðsmáttinni og dró að dyrunum þar sem þær voru Ragnhildur og Ingvildur.

Hann mælti þá: «Hér megið þið sjá hvað við höfum fundið. Illa hefir sá er slíkan vin hefir svo ótrúr sem Skíði er því að hann hefir sagt til þeirra bræðra og megið þið sjá hér annan þeirra.»

Þær létu eigi sem þær heyrðu.

Þeir hlaupa nú suður á völlinn og var þar Skíði fyrir.

Karl hljóp að honum og tekur Skíða og rekur niður fall mikið og mælti: «Seg nú ef þér er betra nú en fyrr. Vísir erum vér nú orðnir að þeir eru hér Ásgeirssynir.»

Skíði mælti: «Það segja þeir sem vilja. Sagt hefi eg það er eg mun segja.»

Þá tók Karl reip og renndi rúmsnöru að fótum Skíða og knýtti í tagl hestinum og sté á bak og ríður fyrir ofan Skorðumýri. Skíði dragnaði eftir og var þá eytt skógunum og stóðu stofnar eftir. Hann hlaut að gnötra þar um til þess er Ögmundur hjó í sundur taglið í hestinum.

«Illa munum vér það er faðir þinn mælti, því að hann var vinur hans, er vér kveljum Skíða svo.»

Þeir sáu þá hvar riðu þrír tigir manna utan að bænum. Skíði var mjög meiddur því að honum blæddi hvervetna, hökubeinið var rifið og hakan með, úr tennur tvær. Þeir fara þá yfir ána en Skíði fer heim. Allt var jafnskjótt, að Skíði kom heim og Ljótólfur og spurði hví hann væri svo leikinn illa.

Skíði svarar: «Engi veldur því nema haldinyrði mín.»

Þá búast þeir Karl við á hólnum gegnt Grundarhúsum en hinir ríða þangað þrír tigir manna og tveir um fram því að Ásgeirssynir voru þá með Ljótólfi. Venda þeir yfir ána að Karli og tekst þar bardagi og lýkur svo að nokkurir menn féllu af Ljótólfi en tveir af Karli. Bárður sterki lyfti Ljótólfi í söðul upp og bað hann undan ríða og svo gerði hann því að fátt gafst vel af liði hans og skildust við svo búið. Fór Karl heim.

En Ljótólfi varð það á munni er hann sá Skíða: «Kjóstu sjálfur laun fyrir haldinyrði þína.»

Skíði svarar: «Þú skalt gera sæmd mína slíka sem þú vilt en auðkjörin eru launin ef eg skal ráða.»

Ljótólfur svarar: «Hver eru þau?»

«Eg vil að þú gefir mér Ingvildi,» sagði Skíði, «og eigir hlut að. Þykist eg maklegastur að njóta hennar fyrir hrakning þá er Karl fékk mér.»

«Því beiðir þú þess er mig varði síst? Og ætla eg að þér verði það ekki að glysi að eiga hana.»

Skíði svarar: «Hversu sem það er þá vil eg þetta verðkaupið en þú ráð hverja sæmd þú leggur henni.»

«Þá skulum við leita við hana,» segir Ljótólfur, «því að eg vil eigi gefa hana nauðga.»

Þeir gengu þá til Ingvildar og vekja þetta mál við hana, hvort hún vildi ganga með Skíða.

En hún mælti til Ljótólfs: «Lítils þykir mér þú vilja virða mig er þú vilt gifta mig þræli þínum.»

Ljótólfur svaraði: «Eg mun það bæta þér. Eg gef honum frelsi og fé svo mikið að þið séuð ei meiri menn þó þið hafið meira.»

«Nær er þá,» sagði Ingvildur, «og mun eg þá mæla nokkuð mínu máli.»

Ljótólfur spurði hvað það væri.

Hún sagði: «Hann skal hafa fyllt skarðið í vör sinni á fimm vetra fresti svo mér þyki vel fullt vera.»

Þessu játar Skíði og var þetta að ráði gert og gaf Ljótólfur Skíða dal þann til forræðis er síðan er kallaður Skíðadalur. Mörk var svo þykk upp frá Tungunni að aldrei var rjóður í. Skíði hefir reistan bæ sinn þar sem síðan heitir á Möðruvöllum. Ljótólfur fékk honum búfé svo að þau voru vel birg. Þau Skíði og Ingvildur áttu þrjá sonu. Þorkell hét hinn elsti, annar Björn, þriðji Grímur. Þá er Þorkell var nokkurra vetra gamall býður Ljótólfur honum til sín til fósturs og vex hann þar upp.

22. kafli

Nú verður þess að geta er vér hvurfum frá, að þá er Karl hafði heima verið eina nótt þá ríður hann út á strönd en þoka var mikil. Ljótólfur hafði og riðið út á sand að vita um viðu og skyldi draga heim. Fóru þeir fimm saman.

Karl reið til þess er hann kom í Holt hið ytra og mætti Geirdísi er hún gekk frá goðahúsi. Hún fagnaði vel Karli. Hann frétti hvort Geiri son hennar væri heima. Hún kvað hann genginn að fé upp í Holtsdal. Karl reið úr garði og sneri upp í hlíðina. Karl spurði ef þeir sæju nokkuð manna fyrir sér. Þeir sögðu að maður rak fé út eftir hlíðinni.

«Þann veg munum vér stefna,» sagði Karl.

Þeir mæta Geira við gerði það er upp er og suður frá Böggvisstöðum. Karl lét taka Geira og drepa og er það kallað á Geiravöllum. Þá reið Karl heim til Upsa. Ei lét Ljótólfur sem hann vissi hvað í hafði gerst og sitja nú hvorutveggju um kyrrt þrjá vetur.

Ögmundur var einatt með Karli og Svarthöfði Héðinsson, og tóku mjög að eyðast féin fyrir Karli af kostnaði þeim er hann hafði og gerðist eigi hægt til bændunum og varð hann ei jafn vinsæll sem verið hafði.

Eitt sumar kom skip af hafi í Svarfaðardalsárós og hét Gunnar stýrimaður fyrir skipinu. Hann var víkverskur maður og mikill vin Karls. Ljótólfur var á þingi er skipið kom. Karl reið til skips og bauð Gunnari til vistar með sér við svo marga menn sem hann vildi.

Gunnar tók því vel «en bíða mun eg Ljótólfs goða. Er mér sagt að mikið missætti sé með ykkur og mun eg ráðast þangað til vistar. Þykir mér þá vænst að eg komi nokkru á leið um sætt með ykkur.»

Karl ríður heim til Upsa en Gunnar bíður þar nokkra hríð og kemur Ljótólfur ei heim.

Karl elur á málið að Gunnar mundi til hans fara «og mun fara að auðnu um sætt með okkur Ljótólfi.»

Gunnar ræður nú til Upsa með Karli og nokkrir menn með honum. Litlu síðar kom Ljótólfur heim. Er nú kyrrt um veturinn. Austmaður fór jafnan upp til Hofs um veturinn að leita um sættir með þeim Karli og Ljótólfi og því kom hann á leið að sættarfundur var lagður með þeim niðri á brekkunum hjá Grafarhúsum. Til þess fundar kom Skíði og Ingvildur fagurkinn. Og þá er mjög var ráðin sættarstefna með þeim Karli og Ljótólfi þá sagði Ingvildur að seint mundi verða fyllt skarð í vör Skíða ef sjá sætt skyldi takast.

Skíði mælti: «Mæl þú allra kvenna örmust og vesulust.»

Gunnar svaraði: «Oft stendur illt af tali kvenna og kann vera að af hljótist þessu tali sem þá verst hefir af hlotist.»

Nú var lokið öllu um sættina og skildust ósáttir.

23. kafli

Ólafur kemur nú utan úr Ólafsfirði til Upsa og beiðir Karl að synir hans mundu fara heim með honum því hann mæddist mjög fyrir aldurs sakir. Fóru þeir nú heim með honum synir hans, Þórður og Vémundur, og voru þeir ekki með Karli síðan.

Um vorið eftir bjuggu Austmenn skip sitt þar til þeir voru búnir en Gunnar var að Upsum.

Það var einn morgun er þeir voru úti staddir, Karl og Gunnar, og horfði Karl upp í himininn og fór annar litur í hann en annar úr. Gunnar spurði hví hann væri svo litverpur.

Karl svarar: «Lítið bragð mun á því vera en fyrir bar nokkuð.»

«Hvað var það?» segir Gunnar.

«Eg þóttist sjá Klaufa frænda minn ríða í loftinu yfir mér og sýndist mér hann á gráum hesti og dragnaði þar eftir sleði. Þar þóttist eg sjá ykkur Austmenn mína og sjálfan mig í sleðanum og skögðu út af höfuðin og get eg mig þá litum brugðið hafa er eg sá þetta.»

Gunnar sagði: «Ekki ertu svo mikill fyrir þér sem eg ætlaði. Sá eg slíkt allt og hyggðu nú að hvort eg hefi nokkuð brugðið lit.»

«Ekki sé eg það,» sagði Karl.

En þá er þeir ræddu þetta þá kvað Klaufi í loftinu:

Mikið mun mönnum þykja,
margur sér þar til bjargar,
svo greiðist, lok lýða,
langr heimfjötur þangað.
Koma mun sáð um síðir,
síð hygg eg að það líði,
jafnt læt eg við ský skrimta
skin grams og ríð framsi
og ríð framsi.

Og enn kvað hann:

Kól aldregi Ála
éldrauga ske vélum,
beit á seggja sveitum,
svimm eg nú við ský grimmum,
svimm eg nú við ský grimmum.

Og þá mælti hann svo að þeir heyrðu báðir: «Heim ætla eg þér með mér í kvöld Karl frændi.»

Þá mælti Gunnar að þeir mundu til skips um daginn.

Karl mælti: «Ekki er annt um það því ekki er byrlegt.»

Gunnar lét ekki letjast.

Karl gekk til Þorgerðar konu sinnar og sagði henni: «Nú mun eg flytja Austmenn mína til skips í dag en eg mun segja þér hversu hátta skal ef eg kem ei heim í kvöld því ei veit hverju heilli heiman fer.»

Hann sagði henni fyrirburðinn.

«Nú verði svo að eg látist þá vil eg að þú færir byggð þína upp á Grund og hefir mér allt þyngra fallið síðan eg fór þaðan. Eg vil láta færa mig yfir á þá er hér er út á ströndinni ef eg læst á fundi okkrum Ljótólfs. Þykir mér þar gott tilsýni er skip sigla út eða inn eftir firðinum. Eg vil og að þú látir heita eftir mér ef þú átt svein því þú ert ei heil kona og vænti eg að nokkur heill fylgi.»

Þorgerður svaraði: «Gjarnan vildi eg að þú færir hvergi og er mér ekki að skapi fyrirburður sjá.»

Karl svaraði: «Ekki verður að gert. Svo verður að vera sem vera vill.»

Og eftir það búast þeir heiman Gunnar og Karl, Svarthöfði og Ögmundur. Tveir voru Austmenn aðrir en Gunnar, og Karl var við hinn sétta mann. Og er þeir komu ofan á hólana fyrir sunnan Brimnessá og til dælar þeirrar er ofan er og suður er frá ánni þá spretta þar upp fyrir þeim þrír tigir manna og var þar Ljótólfur. Tekst þar bardagi mikill og harður.

Þá mælti Ljótólfur: «Grið viljum vér gefa Austmönnum.»

Gunnar svaraði: «Annaðhvort munum vér hafa grið allir eða engi.»

Og er þeir höfðu barist lengi þá geta þeir gert Karl fráskila sínum mönnum og sækja sjö menn en hann hörfar undan þar til er hann kom til Hyltinganausta. Þar felldi hann þá alla er hann sóttu. Og þá kom Skíði að við tólfta mann. Karl hljóp upp á naustið.

Skíði mælti: «Það er vel Karl að við höfum hér fundist.»

«Eigi lasta eg það,» sagði Karl, «og kann eg drengskap þínum að því að þú munt vilja sækja einn að mér og er það þá nokkur frami en ef þú sækir mig með fleiri mönnum þá þykir mér þú ekki enda skildagann við Ingvildi, þann er þú hést þá er þú fékkst hennar, og þykir mér því að eins fullt skarðið í vör þinni ef þú berð einn af mér.»

Skíði mælti: «Njóta mun eg nú liðsmunar og mun nú verða að leggja til slíkt hver sem sýnist. Kalli sá fullt skarð Skíða sem það vill en sá öðru vísu er það vill mæla.»

Nú veita þeir Karli atsókn en hann verst vasklega. Er svo sagt að hann Karl vegur þrjá menn Skíða en særir flesta þá sem eftir voru. Þeir Skíði létta nú ei fyrr en þeir drepa Karl.

Þeir Ljótólfur og Austmenn berjast í öðrum stað og falla þeir fyrir Ljótólfi allir og svo Svarthöfði og Ögmundur fylgdarmenn Karls. Það er sögn manna að hálfnað hafi lið Ljótólfs. Og eftir það fer hann heim.

Og er þetta fréttist til Upsa þá lætur Þorgerður færa Karl og Austmennina upp til Karlsár og voru þar lagðir í skip og fé mikið með þeim og því heitir þar að Karlsá síðan.

24. kafli

Eftir þessi tíðindi færir Þorgerður bú sitt upp á Grund og hefur þó annað bú að Upsum.

Nú líður af sumarið. Frá því er sagt að Þorgerður kennir sér sóttar og elur hún sveinbarn. Er sá sveinn nefndur Karl eftir föður sínum. Hann vex þar upp og er snemma mikill vexti. En er hann var nokkurra vetra gamall þá uxu þó eigi mikið vitsmunir hans. Hann mælti ekki orð og því var hann kallaður ómáli og ekki maður mikill.

Þorkell Skíðason fer þá heim til föðurs síns og vaxa þeir þar upp allir bræður, synir Skíða, og eru efnilegir menn allir.

Nú líður svo fram nokkra vetur að ekki gerist til tíðinda. Ljótólfur amast ekki við byggð Þorgerðar og hefir einn mannvirðing alla. Karl Karlsson vex upp með móður sinni uns hann var tólf vetra gamall og töluðu það flestir að hann væri fífl. Þorgerði óhægðist fjárhagurinn mjög því hún hafði mjög í kostnaði en voru verk jafnan lítil en enginn fyrir utan stokk til umsýslu.

Það var því næst að hestaþing var nefnt uppi fyrir Tungugerði. Skyldu þeir etja hestum Ljótólfur og Þorkell Skíðason. Mörgum var þar öðrum hestum til mælt þó þeir menn séu ei nefndir er þá áttu.

Á Grund voru rekin að hross um daginn þau er menn skyldu ríða. Þar var eitt hross þrevett ótamið. Það var svo mikið sem þau stærst eru og fax á mikið. Karl ómáli var úti er hrossin voru heim komin. Hann sá hrossið ótamda og hleypur á og þrífur taglið. Hann les sig fram með og fær þrifið hálsinn en það æðist við og hleypur víða um völlinn. Karl fylgir vel og léttir ei fyrr en hann komst á bak og krækir fótunum niður undir kviðinn en heldur sér í faxið. Hrossið hleypur aftur og fram til þess að þeir eru búnir sem fara ætla. Þá reið Karl með þeim upp eftir hólmunum. Hljóp þá hrossið ýmist fyrir þeim eða eftir og gerðu menn óp mikið að honum. Upp koma þeir til mannamótsins og hleypur Karl af baki hrossi sínu og settist niður einn saman. Þar hafði maður kastað niður glófum og þar lá hjá öx silfurrekin. Karl tekur upp og leggur í kné sér hvorutveggja. Hann strauk einatt öxina. Ekki gekk hann til hestavíga.

En Þorkell Skíðason hafði þar niður kastað og þá er lokið var hestvígum þá svipast hann um hvar hann hafi lagt handagervi sína og þá sá hann hvar Karl sat og strauk öxi hans.

Þá gekk Þorkell að honum og mælti: «Þykir þér góð öxin Karl?»

Hann þagði og leit frá honum við.

«Sjá þykist eg að þér þykir góð öxin og ræð eg að þú þiggir allt saman og glófana í föðurbætur.»

Karl spratt upp og kastar frá sér öxunni og kom í stein og brotnaði úr allur muðurinn og sest niður annarstaðar.

En Þorkell gekk til Ljótólfs og sýndi honum hversu sá afglapi hefði leikið öxina «og hefir hann nú sýnt hver fóli hann er.»

Ljótólfur svarar: «Heimskur sýnist yður hann vera en mér líst hann hyggnari en þér og svo mun reynast.»

«Þetta hefur þú aldrei fyrr mælt,» sagði Þorkell.

«Ekki hefi eg lagið til þess,» sagði Ljótólfur.

«Þetta skal reyna,» sagði Þorkell, «hvor okkar vitrari er. Eg hefi hér þrjár merkur silfurs er eg skal bjóða honum í föðurbætur og hefi eg það að marki að hann er fífl ef hann þegir við en ef hann svarar þá er hann ekki jafn heimskur sem hann lætur.»

«Freista máttu ef þú vilt,» sagði Ljótólfur, «en ráðlegra þætti mér að þér ættuð ekki við hann meðan hann talar ekki til yðvar.»

Þorkell sagði: «Freista mun nú verða um sinn.»

Og gengur Þorkell nú þar að sem Karl situr og hefir sjóðinn í hendi og réttir að honum og mælti: «Viltu fé Karl?»

En Karl þagði við.

Hann spurði í annað sinn hins sama.

Karl svaraði: «Viltu fé Karl?»

Þorkell mælti: «Það vissi eg að þú mundir mæla kunna. Eg vil nú gjalda þér fé þetta í föðurbætur, þrjár merkur silfurs.»

Síðan setti hann sjóðinn á nasir Þorkels svo fast að brotnuðu tvær tennur úr höfðinu og stóðu blóðbogar úr andlitinu og gekk Þorkell burt við svo búið en Karl fór til sinna manna. Og er Ljótólfur sér þetta á honum spyr Ljótólfur því hann er svo.

Hann svaraði: «Karl laust mig með sjóðnum.»

Ljótólfur svarar: «Þér var engin þörf á að eiga við hann og munuð þið ekki jafnir menn reynast ef þið skuluð nokkuð við eigast.»

25. kafli

Nú hlaupa menn í tvo staði og ríða síðan heim af hestaþinginu. Þeir Karl ríða þar til er þeir koma út yfir á.

Þá nam Karl staðar og mælti: «Hverjir munuð þér vera með þingmönnum mínum ef eg þarf nokkurs við?»

Þeir spurðu hvers hann beiddi.

Hann sagði: «Ei meira en eins dags verks þá eg kref yður til en yður skal ekki í skaða.»

Þeir svöruðu: «Hvað muntu fram leggja að verkalaunum?»

Hann sagði: «Hundrað silfurs mun eg fá hverjum yðrum og mun eg kjósa dag til nær þér skuluð vinna mér. Mun eg þá gera yður vara við.»

«Varði oss þess,» sögðu þeir, «að þú mundir góður drengur vera en ekki kom oss það í hug að þú mundir svo mikið verðkaup gefa á einum degi. Viljum vér það gjarna.»

«Hversu margir viljið þér vera?» sagði Karl.

«Ei færri en átján,» sögðu þeir.

«Eg mun yður afgreiða féið þá þér viljið en ráðið kalla eg kaupið,» sagði hann.

Þeir játa nú þessu og skildu við svo búið.

Og reið Karl á Grund og sat þar um veturinn þar til voraði.

Þá sendi hann eftir þeim bræðrum sínum, Þorgrími, Þorsteini og Þorvaldi. Og er þeir koma þá fagnar Karl þeim vel og þá lætur hann breiða úti eina öldungshúð mikla og steypir þar niður á gulli og silfri því sem innan veggjar var því þeir bræður vildu skipta láta og þótti þeim horfa til auðnu ef ei væri skipt. Karl stóð hjá meðan þeir skiptu og lagði ekki til en þá er skipt var þá rótar Karl saman fénu og gekk burt þegjandi. Þeir spurðu því hann gerði svo en hann þagði. Þeir skiptu þá enn aftur en Karl rótaði jafnan saman.

Þeir spyrja því hann geri svo «og viljum við að þú skiptir en við kjósum.»

«Hvað þá?» sögðu þeir.

«Þið skuluð gera annaðhvort, hafa fé allt og hefna föðurs vors eða eg mun hefna hans og hafa allt eftir því sem þá vill auðna til falla og skuluð þið úr öllum vanda þar um.»

Þeir kjöru heldur að hafa ekki af fénu og fara þeir bræður heim.

Og líða nú stundir frá og heimtir Karl að sér þá menn sem honum höfðu verkum heitið. Þeir brugðu við skjótt og ætla að þeir skulu fara til verks nokkurs, ganga að garðlagi eða húsan fyrir því að margt hús var komið að falli. En er þeir komu tók Karl vel við þeim og eru þeir þar um nóttina.

Um morguninn er Karl snemma á fótum og biður menn upp standa.

Og er menn eru klæddir biður Karl þá ganga til dagverðar «og vil eg …»

Hann var frammi á meðan þeir mötuðust og ber út í tún alls konar herklæði. Og er þeir koma út sjá þeir að Karl var herklæddur. Þá skaut þeim skelk í bringu og vildu nú gjarna hafa engu keypt.

26. kafli

Þeir stíga nú á hesta sína. Veðri var svo varið að þoka var svo mikil að hvergi sá bæja milli. Karl ríður nú suður úr garði og upp á hólma og allir þeir eftir. Hann ríður þar til hann kemur í Skíðadal á Möðruvöllu. Það var snemma morguns og var Ingvildur ei upp risin. Karl ríður að hússbaki og segir að þeir skyldu bíða hans þar. Karl ríður að dyrum og gengur griðkona ein út. Karl spurði hvort Skíði væri heima.

Hún svarar: «Hann er farinn upp til rétta undir hlíðina og þar eru synir hans.»

Hann spyr: «Er Ingvildur heima?» sagði Karl.

«Hún er í rekkju sinni,» sagði hún.

Karl og þeir förunautar hans ríða nú upp til réttanna og handtaka þeir þá feðga þegar og leiða heim í tún. Og þá gengur Karl inn í bæ og biður Ingvildi upp standa. Hún stóð upp og vildi klæðast og komst ei í fleira en í serk sinn. Karl tók í hönd henni og leiddi hana út í tún og setti niður einhvers staðar í túninu. Hún var faldlaus og hafði hárið bæði mikið og fagurt.

Karl brá þá sverði og mælti til Ingvildar: «Hversu mikið er nú skarð í vör Skíða?»

«Nei,» sagði hún, «aldrei er þar nú skarð.»


(Hér er eyða sem margir hafa spreytt sig á að fylla í og er það flest keimlíkt. Eitt elsta afbrigðið er í handritinu Thott 976 fol.)

Hann tók þá Þorkel son þeirra hinn elsta og hjó höfuð af honum, gekk síðan til Ingvildar og spurði hvort fullt væri skarðið í vör Skíða. Hún kvað það fullt með öllu. Tók hann þá annan son hennar og hjó af honum höfuðið. Hann gekk til hennar og spurði hins sama. Hún kvað ekkert skarð í vera og svaraði hinu sama.

En hún svaraði hinu sama.

Þá tók hann son þeirra hinn yngsta, Björn, og höggur höfuð af honum, gengur síðan til Ingvildar, þerrir nú sverðið eftir miðri … og spyr hvort fullt væri skarð í vör Skíða.

Hún sagði að hann þyrfti ekki jafnan að klifa hins sama «og hefir það allvel gróið.»

Þá gekk Karl að Skíða og spurði hvort hann vildi þiggja líf að sér.

Hann kveðst það gjarnan vilja þiggja «þó eg þægi að miklu verra manni.»

«Þá máttu fara hvert er þú vilt en eg mun taka bú þetta. En eg mun fá þér fararefni svo þú megir fara hvert er þú vilt en ekki vil eg að þú finnir Ljótólf.»

«Hvað leggur þú þá til?» sagði hann.

«Þú skalt fara utan á einhverju skipi. Eg mun fá þér fé það er eg vil.»

Hann fékk honum tvo hesta.

Karl mælti: «Þú skalt fara upp úr … og svo vestur. Far sem eg kenni þér ella mun eg gera til þín og drepa þig.»

Skíði fór sem Karl bauð honum til þess er hann kom suður á Eyrar og fór þar utan, og er hann úr sögunni fyrst.

Karl tók upp búið og færði á Grund. Hann lét Ingvildi fara með sér og setti hana hið næsta sér. Jafnan gekk Karl með bert sverðið, það sem hann hafði vegið sonu hennar með, og spurði hana jafnan hvort fullt væri skarð í vör Skíða. Hún sagði það aldrei jafn vel gróið hafa verið sem nú.

Karl sat á Grund þann vetur. Ljótólfur lét ei sem hann vissi hvað fram hafði farið. Og um veturinn réðu það vinir Karls honum að hann mundi færa byggð sína af Grund og þótti seta hans þar óvarleg svo nærri Ljótólfi og báðu hann fara til Upsa og svo gerði hann. Karl bjó að Upsum einn vetur og tók að þverra fjárkostur hans. Móðir hans spurði hann hversu hann ætlaði til um bú sitt en hann gekk undan þegjandi.

Um vorið einn morgun gekk Karl í burt og hafði heim hest sinn og ríður upp til Hofs. Ljótólfur var í hvílu. Karl drap á dyr og gekk út verkakona. Hún heilsaði Karli og spurði hvert hann skyldi fara. Hann kveðst ei lengra mundu fara og spyr hvort Ljótólfur væri heima.

Hún sagði hann heima «og far þú í burtu hvatlega því hann vill öngvan mann feigari en þig.»

«Eg vil finna hann,» segir Karl.

«Hvað er manna með þér?» segir hún.

«Eg er einn saman,» segir Karl, «og bið þú Ljótólf út ganga.»

Hún gengur inn og kallar á Ljótólf og sagði að Karl ómáli vill finna hann.

«Hversu fjölmennur er hann?» sagði Ljótólfur.

«Hann er einn saman,» segir hún.

Margir menn stóðu upp og vildu ganga út með honum.

«Ei þurfið þér upp að hlaupa. Eg vil einn út ganga og vita hvað hann vill.»

Nú gengur Ljótólfur út og heilsar Karli. Hann tók því vel.

«Hvað viltu mér Karl?» segir Ljótólfur.

«Eg vil að þú gangir á götu með mér því við þig er erindið.»

Ljótólfur mælti: «Eru nokkrir menn með þér?»

«Eg er einn saman,» sagði Karl.

«Skammt mun eg fara,» sagði Ljótólfur, «því eg á lítt vanda til að leiða menn á götu, allra helst ef ei eru vinir mínir.»

Karl veik hestinum ofan fyrir hlaðið. Ljótólfur gekk með honum ofan til árinnar og út með ánni til Þingavaðs.

Hann kvaðst ei mundu fara lengra «og lúk erindum þínum.»

«Eg vil að þú takir við öllu fé mínu, löndum og lausum eyri, og haf af ávöxt og far með sem þú eigir þar til sem eg kem til.»

«Hvað ætlar þú fyrir þér?» sagði Ljótólfur.

«Eg ætla utan,» sagði Karl.

Ljótólfur sagði: «Margir eru aðrir menn til að taka við fé þínu og er ei víst að þú náir þá er þú vilt.»

Karl svaraði: «Því hefi eg þessa leitað að mér þykir mitt hvergi jafn vel komið sem hjá þér.»

Ljótólfur svarar: «Undarlegur maður þykir mér þú vera en þó vil eg játa að taka við fé þínu og mun það flestra manna mál að þú verðir heimskur af þessu.»

Þrjá vetur var ráðið umboð Ljótólfi ef Karl kæmi eigi til fyrr, en laust þegar hann kæmi til. Hann sagði móður sinni þessa ráðagerð.

Hún svarar: «Þó verður þér illt til manna að varðveita fé þitt og er það vænna að þú náir aldrei.»

Karl svarar: «Eg sé fyrir því en ekki þú.»

27. kafli

Þá reið Karl vestur til Skagafjarðar og keypti skip í Kolbeinsárósi að þeim manni er Bárður hét og gerði félag við Bárð og réðst til skips þegar hann var búinn. Hann lét fara með sér Ingvildi fagurkinn og gerði hann það til skapraunar við hana en eigi fyrir ræktar sakir. Eftir það sigla þeir í haf og komu að Þrándheimi. Bárður spyr hvað Karl ætlar fyrir sér.

Karl svarar: «Eg vil afla mér fjár því langt er sumars eftir. Ætla eg að halda til Danmerkur.»

Bárður sagði: «Það líkar mér vel og vil eg fara með þér.»

Þeir halda til Danmerkur og koma þar síð um haustið. Og er þeir hafa skamma stund þar verið koma tveir menn af landi ofan, miklir og illilegir. Og er þeir koma í kaupstefnu spurðu þeir hvort nokkur maður hefði ambátt að selja þeim. Karl spurði hvað þeir mundu við gefa.

«Það sem vill,» segja þeir.

Karl sagði: «Á eg ambátt og mun ykkur dýr þykja og ei veit eg hvort þið getið þjáð hana því hún er óvön verknaði.»

Þeir segjast mundu það ábyrgjast «og met þú hana,» sögðu þeir.

Karl sagði: «Hún skal vera fyrir þrjú hundruð silfurs.»

«Þess þyrfti,» sögðu þeir, «að hún ynni mikið og vel, svo dýr sem hún er og viljum við sjá hana.»

Karl gengur á skip út og bregður sverði og spyr Ingvildi hvort fullt væri skarð í vör Skíða. Hún sagði það aldrei jafnfagurt verið hafa sem nú.

«Þá skaltu ganga á land með mér,» sagði hann og tók í hönd henni og leiðir hana og sýnir þeim ambáttina.

Þeir kváðust öngva ambátt jafnfagra séð hafa. Þeir töldu honum nú silfrið.

Karl mælti: «Það vil eg skilja að kaupa hana þvílíku verði ef mér sýnist.»

Þeir sögðu: «Ekki muntu í raun koma um það og er það líkara að vér sjáumst aldrei.»

Síðan gengu þeir á land en hún sperrðist við og tók annar í hár henni og leiddi hana en annar hafði svipu í hendi og keyrði hana. Karl gengur til skips. Bárður spyr hvað hann vildi að þeir legðu fyrir sig.

Karl sagði: «Hér munum við í vetur vera.»

Bárður spyr að vori hvað Karl vildi að hafast.

Hann svarar: «Spurt hefi eg til víkings þess er Björgólfur heitir. Hann hefir langskip og lið vandað. Þar vil eg fara í sveit með honum og afla svo fjár og frægðar.»

Bárður sagði: «Þá munum við skilja félagið því eg er enginn hermaður.»

Karl mælti: «Þú skalt fara með skip okkart sem þú eigir en er við finnumst gerum við sem okkur sýnist.»

Nú skiljast þeir góðir vinir og fer Karl leiðar sinnar.

28. kafli

Svo er sagt að Karl fær sér eina skútu og heldur suður með landi þar til að þeir koma að einni eyju. Þar var Björgólfur fyrir. Karl reri þar að skipunum og spyr hver réði fyrir.

Einn maður gekk út á vígið og sagði að sá héti Björgólfur «eða hvað heitir þú?»

«Eg heiti Karl.»

«Hvaðan ertu af löndum?» segir Björgólfur.

«Eg er af Íslandi,» segir Karl.

«Hvert ætlar þú að fara?» segir Björgólfur.

Hann svaraði: «Eg hefi nú sótt mitt erindi er eg hefi þig fundið og vildi eg ráðast í föruneyti með þér og afla mér svo fjár.»

Björgólfur tók við honum og gengur Karl á skip og setur Björgólfur hann hið næsta sér. Þeir halda síðan í Suðurríki og herja víða um landið og hafa sigur hvar sem þeir koma. Þeir liggja tvo vetur í víkingu.

Það var einu sinni að Karl mælti við Björgólf: «Nú mun eg létta hernaði og fara norður í lönd til áttjarða minna.»

Björgólfur svarar: «Þú munt ráða en gjarnan vildi eg að við skildum ei því eg hefi engan slíkan dreng reyndan sem þig.»

Nú fara þeir báðir saman til Danmerkur og situr Karl þar um veturinn. En um vorið kaupir Karl knörr einn og á einn allan farminn. Og er hann var mjög búinn sér hann hvar tveir menn ganga og leiddu konu í millum sín. Þar kennir hann kaupunauta sína og Ingvildi og hékk annar trefill fyrir en annar á bak.

Þeir sögðu Karli: «Hér förum við með ambátt þá er þú seldir okkur og höfum við engu kaupi verr keypt. Við börðum hana aldrei svo að hún vilji vinna fyrir okkur og viljum við nú gjarna selja þér hana aftur.»

Karl sagði: «Eg vil og nú kaupa hana.»

Hann taldi þeim nú jafnmikið silfur sem þeir fengu honum. Hann leiddi hana til skips og lét gera henni laug og klæddi hana góðum klæðum og gerði hana svo sæla sem þá hún var sælust. Eftir það heldur hann til Íslands og kemur skipi sínu í Svarfaðardalsárós og færir varnað sinn til Upsa. Bú hans hafði þar staðið meðan hann var utan. Urðu menn fegnir mjög hans heimkomu.

Þá er hann hafði heima verið um stund gengur hann til Ingvildar og bregður sverði því sem hann hafði vegið með sonu hennar og mælti: «Hvort er fagurt skarð í vör Skíða?»

Hún kvað það aldrei jafnfagurt verið hafa.

Karl reið til Hofs einn dag og hittir Ljótólf goða. Ljótólfur fagnar honum vel og spyr hvert hann ætlar að fara.

Hann kveðst ei lengra fara mundu: «Vil eg nú taka við fé mínu.»

Ljótólfur svaraði: «Hefir þú eigi meðtekið áður og sest í búið?»

Karl svaraði að engu væri eytt að svo búnu «og muntu nú skipta af þínum hlut því eg veit að þú munt eiga búið að helmingi eða meir.»

Ljótólfur sagði: «Það þykir mér ráð að í vor sé skipt fénu og vil eg að þú farir með sem þú eigir.»

Karl sagði: «Það mun vera verða.»

Þeir skilja nú við þetta og reið Karl heim til Upsa og sat þar um veturinn með fjölmenni. Að liðnum vetri reið Karl til Hofs og hittir Ljótólf. Hann spurði hvað Karl vildi.

«Eg vil að við skiptum fénu,» sagði Karl, «og er nú óhægra en næst er eg beiddi því eg hefi eytt miklu fé í kostnaði í vetur.»

Ljótólfur sagði: «Hvað ætlar þú fyrir þér ef fénu er skipt?»

«Eg ætla utan,» sagði Karl, «því mér er lítt hent búið.»

Ljótólfur mælti: «Hver skal þá hafa umboð þitt meðan þú ert burt?»

Karl svaraði: «Þér hef eg ætlað ef þú vilt.»

Ljótólfur sagði: «Þá þætti mér ei skipta þurfa. En kynlegt þykir mér er þú vilt jafnan fá mér í hendur fé þitt því óvíst er að eg verði jafn drengur í hvert sinn.»

«Hversu sem það fer,» sagði Karl, «þá mun eg þér mitt umboð fá.»

«Ei þarf þá að skipta,» segir Ljótólfur og tekur hann við umboðinu Karls í annan tíma.

Nú ríður Karl heim og lætur búa skip sitt.

En er hann var búinn leiddi hann Ingvildi fagurkinn til skips með sér og voru skapsmunir hennar hinir sömu. Karl hélt í haf og gaf vel byri og tóku Þrándheim. Var Karl þar um veturinn en um vorið hélt hann til Svíþjóðar. Og er hann kom í einn kaupstað kemur maður af landi ofan, mikill og illilegur, og falar ambátt ef nokkur væri föl.

Karl sagði: «Eg hefi að selja og mun þér dýr þykja eða hvað heitir þú?»

«Rauður heiti eg,» sagði hann, «og mettu ambáttina.»

Karl svarar: «Fyrir sex hundruð silfurs.»

Og þessu kaupa þeir.

«Þykir mér því betur,» sagði Karl, «sem þú gerir hana vesalli.»

Síðan gengur Rauður á land upp með hana en Karl fer í kaupferðir til ýmsra landa og var þrjá vetur í þessari iðn. Karl var um vetur í Noregi og fór um vorið í kaupstefnu þangað sem Haleyri heitir.

Og einhvern dag gengur maður af landi ofan og leiðir eftir sér konu svo nakta að aldrei beið á henni ríðanda ræksn. Hún var alblóðug öll. Karl spurði með hvað hann færi.

«Þetta er ambátt, ill og aum, er eg keypti hinn fyrra dag en þessi ambátt fer mjög að kaupum og þykist sá betur hafa er lausa lætur en hinn er við tekur og vildi eg gjarnan selja hana.»

Karl mælti: «Hvað heitir þú?»

«Eg heiti Brynjúlfur.»

«Þú munt gera ambáttina ódýra,» sagði Karl.

Brynjúlfur sagði: «Ei nenni eg að selja hana með afföllum, heldur mun eg kvelja hana til dauða.»

Karl kaupir nú ambáttina og telur Brynjúlfi sex hundruð silfurs en Karl leiðir hana til skips og var þar Ingvildur fagurkinn. Hún lagði þá hendur um háls Karli og grét en það hafði Karl aldrei áður séð að henni hefði nokkurs fengið hvað sem að henni hafði borist. Karl lætur gera henni laug og fá henni góð klæði. Þá gekk Karl til tals við hana og brá sverði því hann hafði vegið með sonu hennar og spurði hvort fullt væri skarð í vör Skíða. Hún sagði það aldrei fullt mundu verða.

Karl sagði: «Þá mun eg af leggja héðan í frá og svo mundi eg gert hafa ef þú hefðir þetta fyrr mælt. Skal eg nú færa þig Skíða bónda þínum því eg veit nú hvar hann er niður kominn.»

29. kafli

Þegar byri gaf siglir Karl til Írlands og hefir frétt af hvar Skíði var. Hann hafði þá unnið undir sig mikinn hluta af Írlandi. Karl kom þar að landi sem Skíði var fyrir. Hann var þar genginn á land að berjast við Íra og ætlaði að þá skyldi til skarar skríða með þeim. Þá er Karl kom til orustu var Skíði búinn að flýja. Karl gengur þegar í lið með Skíða og hans menn og berjast þann dag allan og gekk Karl jafnan í gegnum lið Íra. Er og svo sagt að hann felldi höfðingja þann er fyrir því liði var er Skíði hafði barist við og nálega allt það lið. Eftir bardagann gengur Skíði að Karli og spyr hver honum hefði lið veitt.

«Þessi maður hefur verið óvinur þinn mikill og heiti eg Karl son Karls hins rauða. Það var mest erindi mitt hingað að veita þér lið og bæta þér svo sonu þína.»

Þá fagnaði Skíði honum vel og býður honum allar sæmdir með sér að þiggja.

Skíði sagði: «Ei vannstu það framar að drepa sonu mína en þú áttir, þó að þú hefndir föður þíns.»

Karl sagði: «Hér hefi eg Ingvildi fögurkinn konu þína.»

Skíði svaraði: «Eg vil ei að hún komi í augsýn mér. Eg hefi ekki verra verk unnið en það eg af henni hlaut er eg drap föður þinn.»

Karl var þar um veturinn en Ingvildi var fengin önnur vist.

Um vorið býst Karl burt af Írlandi með miklum sæmdum er Skíði fékk honum og skildust góðir vinir. Karl hafði Ingvildi með sér og heldur skipi sínu til Noregs og er þar vetur annan. Síðan hélt hann til Íslands og kom skipi sínu í Svarfaðardalsárós. Bú hans stóð að Upsum og annað á Grund og höfðu kvikfén mikið fram gengið að hvorutveggi búinu. Karl reið upp til Hofs. Ljótólfur fagnar honum vel.

Karl mælti: «Nú er hér komin Ingvildur fögurkinn. Vil eg að þú takir með henni. Máttu nú gifta hana hverjum er þú vilt því að öngum mun hún nú of stór þykjast.»

Ljótólfur svaraði: «Þar er sú kona er eg vildi aldrei sjá því það verk hefi eg verst unnið er af henni leiddi til þá eg lét drepa föður þinn.»

Karl sagði: «Nú vil eg að þú skiptir fé með okkur. Vil eg taka við jafn miklu sem þú tókst af mér en eg ætla þér ávöxt þann sem orðið hefir.»

Ljótólfur svaraði: «Það eina stendur saman að Upsum og á Grund að eg ætla mér ekki af.»

Karl sagði: «Gott þykir mér að þiggja sæmdir af þér. Sé eg að þú gefur mér allan ávöxtinn.»

Ljótólfur mælti: «Ríð nú til Upsa og tak þar við búi þínu.»

Síðan sættust þeir heilum sáttum og héldu vel sína vináttu. Reið Karl til Upsa. Ljótólfur tók við Ingvildi fögrukinn og kunna menn það ei að segja hvort hún hefir gift verið en sumir segja að hún hafi tortýnt sér af óyndi.

Ljótólfur bjó að Hofi þar til er hann lést og fannst hann í óþokkadæl nokkurri á ofanverðum vellinum og stóð í gegnum hann saxið er gert var úr sverðinu Atlanaut er Klaufi hafði átt og Ljótólfur fékk eftir bardaga þeirra Karls hins rauða. Ljótólfur var færður suður og ofan á völlinn.

Yfirgangur Klaufa gerðist svo mikill að hann meiddi bæði menn og fénað. Karli þóttu mikil mein á um Klaufa frænda sinn er hann gekk aftur. Karl fór til haugs hans og lét grafa hann upp. Var hann þá enn ófúinn. Hann lét gera bál mikið á steini þeim sem er fyrir ofan garð að Klaufabrekku og brennir hann til ösku. Karl lét gera blýstokk og koma í öskunni og rekur á tvo járnhanka. Síðan sökkur hann stokkinum í hver þann sem er fyrir sunnan garð á Klaufabrekku. Steinn sá er Klaufi var brenndur á sprakk sundur í tvo hluti og varð aldrei mein að honum Klaufa síðan.

Karl sat á Upsum lengi ævi og er það sumra manna sögn að hann hafi utan farið og aukið þar ætt sína en fleiri segja hann hafi átt Ragnhildi Ljótólfsdóttur og mörg börn með henni. Böggvir hét son hans er bjó á Böggvisstöðum, annar Hrafn er bjó á Hrafnsstöðum. Ingvildur hét dóttir hans er bjó á Ingarastöðum.

En er eyddist fé fyrir Karli þóttist hann ei búa mega að Upsum fyrir kostnaðar sakir og sakir Ljóts Ljótólfssonar. Ljótur tók við mannaforræði eftir föður sinn og bjó á Völlum. Tók þá að greinast með þeim Ljóti og Karli og vildi Karl víkja burt úr dalnum og segja menn að hann hafi farið til Ólafsfjarðar og verið þar í elli sinni og hefir Karl sett þar bæ sem heitir á Karlsstöðum og lét þar líf sitt og þótti hinn besti drengur. Margir menn eiga að telja til Karls unga en Ljótur hafði mannaforræði um allan dalinn.

Böðvar hyggjum vér að búið hafi að Urðum, sonur Eyjólfs Breiðhöfða er Urðamenn eru frá komnir. Eyjólfur breiðhöfði var sonur Þorgils mjögsiglanda.

Margar eru sögur af Valla-Ljóti og var hann hinn mesti höfðingi. Ljótur lét drepa Eyglu-Halla bróður Karls unga.

Nú lýkur hér Svarfdæla sögu með þvílíku efni.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann