Haralds saga gráfeldar

1. Upphaf Eiríkssona

Eiríkssynir tóku þá konungdóm yfir Noregi síðan er Hákon konungur var fallinn. Var Haraldur mest fyrir þeim að virðingu og hann var elstur þeirra er þá lifðu. Gunnhildur móðir þeirra hafði mjög landráð með þeim. Hún var þá kölluð konungamóðir.

Þá voru höfðingjar í landi Tryggvi Ólafsson austur í landi og Guðröður Bjarnarson á Vestfold, Sigurður Hlaðajarl í Þrándheimi en Gunnhildarsynir höfðu mitt land hinn fyrsta vetur. Þá fóru orð og sendimenn milli þeirra Gunnhildarsona og þeirra Tryggva og Guðröðar og var þar allt mælt til sætta, að þeir skyldu hafa þvílíkan hlut ríkis af Gunnhildarsonum sem þeir höfðu áður haft af Hákoni konungi.

Glúmur Geirason er maður nefndur. Hann var skáld Haralds konungs og hreystimaður mikill. Hann orti vísu þessa eftir fall Hákonar:

Vel hefir hefnt, en hafna
hjörs berdraugar fjörvi,
fólkrakkr, um vannst, fylkir,
framlegt, Haraldr Gamla,
er dökkvalir drekka
dólgbands fyr ver handan,
roðin frá eg rauðra benja
reyr, Hákonar dreyra.

Þessi vísa varð allkær.

En er þetta spurði Eyvindur Finnsson kvað hann vísu er fyrr er ritin:

Fyrr rauð Fenris varra
flugvarr konungr sparra,
málmhríðar svall meiðum
móðr, í Gamla blóði,
þá er óstirfinn arfa
Eiríks of rak, geira
nú tregr gæti-Gauta
grams fall, á sjá alla.

Var sú vísa og mjög flutt.

En er það spyr Haraldur konungur þá gaf hann Eyvindi þar fyrir dauðasök, allt til þess að vinir þeirra sættu þá með því að Eyvindur skyldi gerast skáld hans, svo sem hann hafði áður verið Hákonar konungs. Var frændsemi milli þeirra mikil, svo að Gunnhildur var móðir Eyvindar dóttir Hálfdanar jarls en móðir hennar var Ingibjörg dóttir Haralds konungs hins hárfagra.

Þá orti Eyvindur vísu um Harald konung:

Lítt kváðu þig láta
landvörðr, er brast, Hörða,
benja hagl á brynjum,
bugust álmar, geð fálma,
þá er ófólgin ylgjar
endr úr þinni hendi
fetla svell til fyllar
fullegg, Haraldr, gullu.

Gunnhildarsynir sátu mest um mitt land því að bæði þótti þeim ekki trúlegt að sitja undir hendi Þrændum eða Víkverjum er mestir höfðu verið vinir Hákonar konungs en stórmenni mart í hvorumtveggja stað. Þá fóru menn að bera sættarboð í milli þeirra Gunnhildarsona og Sigurðar jarls því að þeir fengu engar skyldir áður úr Þrándheimi og varð það að lyktum að þeir gerðu sætt sína, konungar og jarl, og bundu svardögum. Skyldi Sigurður jarl hafa slíkt ríki af þeim í Þrándheimi sem hann hafði fyrr haft af Hákoni konungi. Voru þeir þá sáttir kallaðir.

Allir synir Gunnhildar voru kallaðir sínkir og var það mælt að þeir fælu lausafé í jörðu. Um það orti Eyvindur skáldaspillir:

Bárum, Ullr, um alla,
ímunlauks, á hauka
fjöllum Fýrisvalla
fræ Hákonar ævi.
Nú hefir fólkstríðir Fróða
fáglýjaðra þýja
meldr í móður holdi
mellu dólgs um fólginn.

Fyllar skein á fjöllum
fallsól bráavallar
Ullar kjóls um allan
aldr Hákonar skaldum.
Nú er álfröðull elfar
jötna dólgs um fólginn,
ráð eru ramrar þjóðar
rík, í móður líki.

Þá er Haraldur konungur spurði vísur þessar sendi hann orð Eyvindi að hann skyldi koma á fund hans.

En er Eyvindur kom þá bar konungur sakar á hann og kallaði hann óvin sinn. «Og samir þér það illa,» segir hann, «að veita mér ótrúnað því að þú hefir áður gerst minn maður.»

Þá kvað Eyvindur vísu:

Einn drottin hefi eg áttan,
jöfur dýrr, en þig fyrri,
belli, bragningr, elli,
bið eg eigi mér hins þriðja.
Trúr var eg tiggja dýrum.
Tveim skjöldum lék eg aldrei.
Fylli eg flokk þinn, stillir.
Fellr á hendr mér elli.

Haraldur konungur lét festa sér fyrir mál þetta sinn dóm. Eyvindur átti gullhring mikinn og góðan er kallaður var Moldi. Hann hafði verið tekinn löngu áður úr jörðu. Hring þann segir konungur að hann vill hafa og var þá engi annar kostur á.

Þá kvað Eyvindur:

Skyldi eg, skerja foldar
skíðrennandi, síðan
þursa tæs frá þvísa
þinn góðan byr finna,
er, valjarðar, verðum,
veljandi, þér selja
lyngva mens, það er lengi,
látr, minn faðir átti.

Fór þá Eyvindur heim og er ekki þess getið að hann fyndi síðan Harald konung.

2. Frá Gunnhildarsonum

Gunnhildarsynir tóku kristni á Englandi sem fyrr var ritið. En er þeir komu til forráða í Noregi þá fengu þeir ekki áleiðis komið að kristna menn í landi en allt þar er þeir komu því við þá brutu þeir niður hof og spilltu blótum og fengu af því mikla óvináttu.

Var það á þeirra dögum að árferð spilltist í landi því að konungar voru margir og hafði hver þeirra hirð um sig. Þurftu þeir mikils við um kostnað og voru þeir hinir fégjörnustu en ekki héldu þeir mjög lög þau er Hákon konungur hafði sett nema það er þeim þótti fellt.

Þeir voru allir hinir fríðustu menn, sterkir og stórir, íþróttamenn miklir.

Svo segir Glúmur Geirason í drápu þeirri er hann orti um Harald Gunnhildarson:

Kunni tólf, sá er, tanna,
tíðum, Hallinskíða
ógnarstafr, um jöfra,
íþróttir, fram sótti.

Oftlega voru þeir bræður allir saman en stundum sér hver. Þeir voru menn grimmir og hraustir, orustumenn miklir og mjög sigursælir.

3. Ráðagerð Gunnhildar og sona hennar

Gunnhildur konungamóðir og synir hennar voru oft á tali og málstefnum og réðu landráðum.

Og eitt sinn spyr Gunnhildur sonu sína: «Hvernug ætlið þér að láta fara um ríki í Þrándheimi? Þér berið konunganöfn svo sem fyrr höfðu haft langfeðgar yðrir en þér hafið lítið lið og land og eruð margir til skiptis. Víkina austur hafa þeir Tryggvi og Guðröður og hafa þeir þar nokkura tiltölu fyrir ættar sakir en Sigurður jarl ræður öllum Þrændalögum og veit eg það eigi hver skylda yður ber til þess að láta jarl einn ráða ríki svo mikið undan yður. Þykir mér það undarlegt er þér farið hvert sumar í víking á önnur lönd en látið jarl innanlands taka af yður föðurleifð yðra. Lítið mundi Haraldi þykja, er þú ert eftir heitinn, föðurföður þínum, að setja jarl einn af ríki og lífi er hann vann allan Noreg undir sig og réð síðan til elli.»

Haraldur segir: «Það er eigi svo,» segir hann, «að taka Sigurð jarl af lífdögum sem að skera kið eða kálf. Sigurður jarl er ættstór og frændmargur, vinsæll og vitur. Vænti eg ef hann spyr með sönnu að hann á ófriðar von af oss, þá eru þar allir Þrændir sem hann er. Eigum vér þar þá ekki erindi nema illt eina. Líst mér svo sem engum vorum bræðra þyki tryggt að sitja undir hendi þeim Þrændum.»

Þá segir Gunnhildur: «Vér skulum þá fara allt annan veg með voru ráði, gera oss minna fyrir. Haraldur og Erlingur skulu sitja í haust á Norð-Mæri. Mun eg og fara með yður. Skulum vér þá öll saman freista hvað að sýslist.»

Nú gera þau á þessa leið.

4. Ráðagerð Gunnhildarsona og Grjótgarðs

Bróðir Sigurðar jarls hét Grjótgarður. Hann var yngri miklu þeirra og virður minna. Hafði hann og ekki tignarnafn en hann hélt þó sveit og var í víking á sumrum og fékk sér fjár.

Haraldur konungur sendi menn inn í Þrándheim á fund Sigurðar jarls með vingjöfum og vinmælum, segir að Haraldur konungur vill leggja við hann þvílíka vináttu sem áður hafði Sigurður jarl haft við Hákon konung. Það fylgdi og orðsending að jarl skyldi koma á fund Haralds konungs, skyldu þeir þá binda að fullu vináttu sína. Sigurður jarl tók vel sendimönnum og vináttu konungs, segir það að hann mátti ekki fara á fund konungs fyrir fjölskyldum sínum en sendi konungi vingjafir og orð góð og blíð í móti vináttu hans. Fóru sendimenn í brott. Þeir fóru á fund Grjótgarðs og fluttu til hans hið sama erindi, vináttu Haralds konungs og heimboð og þar með góðar gjafir. En er sendimenn fóru heim þá hét Grjótgarður ferð sinni.

Og að ákveðnum degi kemur Grjótgarður á fund Haralds konungs og Gunnhildar. Var þar við honum tekið allfeginsamlega. Var hann þar hafður í hinum mestum kærleikum svo að Grjótgarður var hafður við einkamál og marga leynda hluti. Kemur þar niður að sú ræða var uppi höfð til Sigurðar jarls sem þau höfðu áður samið, konungur og drottning. Töldu þau fyrir Grjótgarði hversu jarl hafði hann lítinn mann gert en ef hann vildi vera í þessu ráði með þeim þá segir konungur að Grjótgarður skyldi vera jarl hans og hafa ríki það allt er áður hafði Sigurður jarl haft. Kom svo að þau sömdu þetta með einkamálum, að Grjótgarður skyldi halda njósn til nær líkast væri að veita atferð Sigurði jarli og gera þá orð Haraldi konungi. Fór Grjótgarður heim við svo búið og þá gjafir góðar af konungi.

5. Dauði Sigurðar jarls

Sigurður jarl fór um haustið inn í Stjóradal og var þar á veislum. Þaðan fór hann út á Ögló og skyldi þar taka veislur. Jarl hafði jafnan mikið fjölmenni um sig meðan hann trúði illa konungum. Með því að þá höfðu farið vináttumál með þeim Haraldi konungi þá hafði hann nú ekki mikla sveit manna.

Grjótgarður gerði þá njósn til Haralds konungs að eigi mundi í annað sinn vænna að fara að jarli.

Og þegar á sömu nótt fóru konungarnir, Haraldur og Erlingur, inn eftir Þrándheimi og höfðu skip fjögur og lið mikið, sigla um nóttina við stjörnuljós. Kom þá Grjótgarður til móts við þá, komu ofanverða nótt á Ögló þar sem Sigurður jarl var á veislu, lögðu þar eld í hús og brenndu bæinn og jarl inni með öllu liði sínu, fóru braut árdegis um morguninn út eftir firði og svo suður á Mæri og dvöldust þar langa hríð.

6. Upphaf Hákonar jarls Sigurðarsonar

Hákon sonur Sigurðar jarls var þá inn í Þrándheimi og spurði þessi tíðindi. Var þegar herhlaup mikið um allan Þrándheim. Var þar á vatn dregið hvert skip er herfært var. En er her sá kom saman þá tóku þeir til jarls og höfðingja yfir liðið Hákon son Sigurðar jarls. Héldu þeir liði því út eftir Þrándheimi.

En er þetta spyrja Gunnhildarsynir þá fara þeir suður í Raumsdal og á Sunn-Mæri. Halda þá hvorir njósnum til annarra.

Sigurður jarl var drepinn tveim vetrum eftir fall Hákonar konungs.

Eyvindur skáldaspillir segir svo í Háleygjatali:

Og Sigurð hinn
er svönum veitti
hróka bjór
Haddingja vals
Farmatýs,
fjörvi næmdu
jarðráðendr á
Öglói.

Og öðlingr
í ölun jarðar
alnar orms
ófælinn varð
lífs um lattr,
þar er landrekar
Týs áttung
í tryggð sviku.

Hákon jarl hélt Þrándheim með styrk frænda sinna þrjá vetur svo að Gunnhildarsynir fengu engar tekjur í Þrándheimi. Hann átti nokkurar orustur við Gunnhildarsonu en drápust marga menn fyrir.

Þess getur Einar skálaglamm í Velleklu er hann orti um Hákon jarl:

Og oddneytir úti
eiðvandr flota breiðan
glaðr í Göndlar veðrum,
gramr svafði bil, hafði,
og rauðmána reynir
rógsegl Héðins bóga
upp hóf jöfra kappi
etju lund að setja.

Varat ofbyrjar örva
odda vífs né drífu
sverða sverrifjarðar
svanglýjaði að frýja.
Brak-Rögnir skók bogna,
barg óþyrmir varga,
hagl úr Hlakkar seglum,
hjörs, rakklega fjörvi.

Margt varð él, áðr, Ála,
austr lönd að mun banda
randar lauks af ríki
rækilundr um tæki.

Enn getur Einar hvernug Hákon jarl hefndi föður síns:

Ber eg fyr hefnd, þá er hrafna,
hljóms lof, toginn skjóma
það nam, vörðr, að vinna,
vann síns föður hranna.
Rigndi hjörs á hersa
hríðremmis fjör víða,
þrimlundr um jók Þundi
þegns gnótt, méilregni.

Og hald-Viður hölda
haffaxa lét vaxa
laufa veðr að lífum
lífköld Hárs drífu.

Eftir þetta fóru milli beggja vinir og báru sættarorð milli þeirra því að bóndum leiddist hernaður og ófriður innanlands. Og kemur svo með ráði ríkra manna að sætt var ger milli þeirra svo að Hákon jarl skyldi hafa þvílíkt ríki í Þrándheimi sem haft hafði Sigurður jarl faðir hans en konungar skyldu hafa þvílíkt ríki sem Hákon konungur hafði haft fyrir þeim og var það þá bundið fullum trúnaði.

Þá gerðist kærleikur mikill með þeim Hákoni jarli og Gunnhildi en stundum beittust þau vélræðum. Leið svo fram aðra þrjá vetur. Sat þá Hákon um kyrrt í ríki sínu.

7. Frá Gráfeld

Haraldur konungur sat oftast á Hörðalandi og Rogalandi og svo þeir fleiri bræður. Þeir sátu oftlega í Harðangri.

Það var á einu sumri að hafskip kom af Íslandi er áttu íslenskir menn. Það var hlaðið af vararfeldum og héldu þeir skipinu til Harðangurs því að þeir spurðu að þar var fjölmenni mest fyrir. En er menn komu til kaupa við þá, þá vildi engi kaupa vararfeldina.

Þá fer stýrimaður á fund Haralds konungs því að honum var hann áður málkunnigur og segir honum til þessa vandræða. Konungur segir að hann mun koma til þeirra og hann gerir svo. Haraldur konungur var maður lítillátur og gleðimaður mikill. Hann var þar kominn með skútu alskipaða.

Hann leit á varning þeirra og mælti við stýrimann: «Viltu gefa mér einn gráfeldinn?»

«Gjarna,» segir stýrimaður, «þótt fleiri séu.»

Þá tók konungur einn feldinn og skikkti. Síðan gekk hann ofan í skútuna. En áður þeir reru í brott hafði hver hans manna feld keyptan.

Fám dögum síðar kom þar svo mart manna, þeirra er hver vildi feld kaupa, að eigi fengu hálfir, þeir er hafa vildu. Síðan var hann kallaður Haraldur gráfeldur.

8. Fæddur Eiríkur jarl

Hákon jarl fór einn vetur til Upplanda og á nokkura gisting og lagðist með konu einni og var sú lítillar ættar. En þá er þaðan liðu stundir gekk sú kona með barni. En er barn það var alið var það sveinn og var vatni ausinn og hét Eiríkur. Móðirin flutti sveininn til Hákonar jarls og segir að hann var faðirinn.

Jarl lét sveininn upp fæðast með manni þeim er kallaður var Þorleifur hinn spaki. Hann bjó uppi í Meðaldal. Hann var ríkur maður og auðigur og vinur mikill jarls. Var Eiríkur brátt mannvænn, hinn fríðasti sýnum, mikill og sterkur snemma. Jarl lét fátt um til hans.

Hákon jarl var og allra manna fríðastur sýnum, ekki hár maður, vel sterkur og íþróttamaður mikill, spakur að viti og hermaður hinn mesti.

9. Dráp Tryggva konungs

Það var á einu hausti að Hákon jarl fór til Upplanda. En er hann kom út á Heiðmörk þá kemur þar í móti honum Tryggvi konungur Ólafsson og Guðröður konungur Bjarnarson. Þar kom og Dala-Guðbrandur. Þeir áttu stefnulag með sér og sátu lengi á einmæli en það kom upp að hver þeirra skyldi vera vinur annars og skiljast síðan. Fór hver heim til síns ríkis.

Þetta spyr Gunnhildur og synir hennar og er þeim grunur á að þeir muni hafa gert landráð nokkur við konungana. Tala þau oftlega þetta sín á milli.

En er voraði þá lýsa þeir Haraldur konungur og Guðröður konungur bróðir hans að þeir munu fara um sumarið í víking vestur um haf eða í Austurveg sem þeir voru vanir. Þá draga þeir lið að sér og hrinda skipum á vatn og búast.

En er þeir drukku brottferðaröl sitt þá voru drykkjur miklar og mart mælt við drykkinn. Þá kom þar er mannjöfnuður varð og þá var rætt um konunga sjálfa. Mælti maður að Haraldur konungur væri framast þeirra bræðra að öllum hlutum. Því reiddist Guðröður mjög, segir svo að hann skal í engu hafa minna hlut en Haraldur, segir og að hann er búinn að þeir reyni það. Var þá brátt hvortveggi þeirra reiður svo að hvor bauð öðrum til vígs og hljópu til vopna. En þeir er vitrir voru og miður drukknir stöðvuðu þá og hljópu í milli.

Fóru þá hvorir til skipa sinna en engi var von þá að þeir mættu allir saman fara. Sigldi þá Guðröður austur með landi en Haraldur stefndi til hafs út, sagði að hann mundi sigla vestur um haf. En er hann kom út um eyjar þá stefndi hann austur hafleið með landi.

Guðröður konungur sigldi þjóðleið austur til Víkur og svo austur yfir Foldina. Þá sendi hann Tryggva konungi orð að hann skyldi koma til móts við hann og færu þeir báðir um sumarið í Austurveg að herja. Tryggvi konungur tók því vel og líklega. Hann spurði að Guðröður hafði lítið lið.

Fór þá Tryggvi konungur á fund hans með eina skútu. Þeir fundust fyrir vestan Sótanes við Veggina. En er þeir gengu á málstefnu þá hljópu að menn Guðröðar og drápu Tryggva konung og tólf menn með honum og liggur hann þar sem nú er kallað Tryggvahreyr.

10. Fall Guðröðar konungs

Haraldur konungur sigldi mjög útleið. Hann stefndi inn í Víkina og kom um nótt til Túnsbergs. Þá spurði hann að Guðröður konungur var á veislu þar skammt upp á land. Fóru þeir Haraldur konungur upp þannug, komu þar um nóttina og taka hús á þeim. Þeir Guðröður konungur ganga út. Varð þar skömm viðurtaka áður Guðröður konungur féll og mart manna með honum. Fer þá Haraldur konungur heim og til fundar við Guðröð konung bróður sinn. Leggja þeir þá undir sig Víkina alla.

11. Frá Haraldi grenska

Guðröður konungur Bjarnarson hafði sér fengið gott kvonfang og maklegt. Þau áttu son er Haraldur hét. Hann var sendur til fósturs upp á Grenland til Hróa hins hvíta, lends manns. Sonur Hróa var Hrani hinn víðförli. Voru þeir Haraldur mjög jafnaldrar og fóstbræður.

Eftir fall Guðröðar föður síns flýði Haraldur er kallaður var hinn grenski fyrst til Upplanda og með honum Hrani fóstri hans og fáir menn með þeim. Dvaldist hann þar um hríð með frændum sínum.

Eiríkssynir leituðu mjög eftir þeim mönnum er í sökum voru bundnir við þá og þeim öllum mest er þeim var uppreistar af von.

Það réðu Haraldi frændur hans og vinir að hann færi úr landi í brott. Haraldur grenski fór þá austur til Svíþjóðar og leitaði sér skipanar og að koma sér í sveit með þeim mönnum er í hernað fóru og fá sér fjár. Haraldur var hinn gervilegsti maður.

Tósti hét maður í Svíþjóð er einn var ríkastur og göfgastur í því landi, þeirra er eigi bæru tignarnafn. Hann var hinn mesti hermaður og var löngum í hernaði. Hann var kallaður Sköglar-Tósti. Haraldur grenski kom sér þar í sveit og var með Tósta um sumarið í víkingu og virtist Haraldur hverjum manni vel. Haraldur var eftir um veturinn með Tósta.

Sigríður hét dóttir Tósta, ung og fríð og svarkur mikill. Hún var síðan gift Eiríki Svíakonungi hinum sigursæla og var þeirra sonur Ólafur sænski er síðan var konungur í Svíþjóð. Eiríkur varð sóttdauður að Uppsölum tíu vetrum síðar en Styrbjörn féll.

12. Frá Hákoni jarli

Gunnhildarsynir buðu út liði miklu úr Víkinni, fara svo norður með landi og hafa lið og skip úr hverju fylki, gera það bert að þeir munu her þeim stefna norður til Þrándheims á hendur Hákoni jarli. Þessi tíðindi spyr jarl og safnar her saman og ræður til skipa.

En er hann spyr til hers Gunnhildarsona, hversu mikinn þeir hafa, þá heldur hann liði sínu suður á Mæri og herjar allt þar er hann fór og drap mikið mannfólk. Og þá sendi hann aftur Þrændaher, bændalið allt, en hann fór herskildi um Mæri hvoratveggju og Raumsdal og hafði njósnir allt fyrir sunnan Stað um her Gunnhildarsona. Og er hann spurði að þeir voru komnir í Fjörðu og biðu byrjar að sigla norður um Stað þá sigldi Hákon jarl norðan fyrir Stað og útleið svo að ekki sá af landi segl hans, lét svo ganga hafleiðis austur með landi og kom fram í Danmörk, sigldi þá í Austurveg og herjaði þar um sumarið.

Gunnhildarsynir héldu liði sínu norður til Þrándheims og dvöldust þar mjög lengi, tóku þar skatta alla og skyldir. En er á leið sumarið þá settust þar eftir Sigurður slefa og Guðröður en Haraldur og aðrir þeir bræður fóru þá austur í land og leiðangurslið það er farið hafði um sumarið.

13. Frá Hákoni jarli og Gunnhildarsonum

Hákon jarl fór um haustið til Helsingjalands og setti þar upp skip sín, fór síðan landveg um Helsingjaland og Jamtaland og svo austan um Kjöl, komu ofan í Þrándheim. Dreif þegar lið til hans og réð hann til skipa.

En er það spyrja Gunnhildarsynir þá stíga þeir á skip sín og halda út eftir firði. En Hákon jarl fer út á Hlaðir og sat þar um veturinn en Gunnhildarsynir sátu á Mæri og veittu hvorir öðrum árásir og drápust menn fyrir.

Hákon jarl hélt ríki sínu í Þrándheimi og var þar oftast á vetrum en fór á sumrum stundum austur á Helsingjaland og tók þar skip sín og fór í Austurveg og herjaði þar á sumrum en stundum sat hann í Þrándheimi og hafði her úti og héldust þá Gunnhildarsynir ekki fyrir norðan Stað.

14. Dráp Sigurðar slefu

Haraldur gráfeldur fór á einu sumri með her sinn norður til Bjarmalands og herjaði þar og átti orustu mikla við Bjarma á Vínubakka. Þar hafði Haraldur konungur sigur og drap mart fólk, herjaði þá víða um landið og fékk ófa mikið fé.

Þess getur Glúmur Geirason:

Austr rauð jöfra þrýstir
orðrakkr fyr bý norðan
brand, þar er bjarmskar kindir,
brennanda, sá eg renna.
Gott hlaut gumna sættir,
geirveðr, í för þeiri,
öðlingi fékkst ungum,
orð, á Vínu borði.

Sigurður konungur slefa kom til bús Klypps hersis. Hann var sonur Þórðar Hörða-Kárasonar. Hann var ríkur maður og kynstór. Klyppur var þá eigi heima en Ólöf kona hans tók vel við konungi og var þar veisla góð og drykkjur miklar.

Ólöf kona Klypps hersis var Ásbjarnardóttir, systir Járn-Skeggja norðan af Yrjum. Hreiðar var bróðir Ásbjarnar, faðir Styrkárs, föður Eindriða, föður Einars þambarskelfis.

Konungur gekk um nóttina til hvílu Ólafar og lá þar að óvilja hennar. Síðan fór konungur í brott.

Eftir um haustið fóru þeir Haraldur konungur og Sigurður bróðir hans upp á Vörs og stefndu þar þing við bændur. En á þinginu veittu bændur þeim atför og vildu drepa þá en þeir komust undan og fóru í brott síðan. Fór Haraldur konungur í Harðangur en Sigurður konungur fór á Alreksstaði.

En er það spyr Klyppur hersir þá heimtast þeir saman frændur og veita atferð konungi. Var höfðingi fyrir ferðinni Vémundur völubrjótur. En er þeir koma á bæinn þá ganga þeir að konungi. Klyppur lagði konung með sverði í gegnum og varð það bani hans en þegar í stað drap Erlingur gamli Klypp.

15. Fall Grjótgarðs

Haraldur konungur gráfeldur og Guðröður konungur bróðir hans draga saman her mikinn austan úr landi og héldu liði því norður til Þrándheims.

En er það spyr Hákon jarl þá safnaði hann liði að sér og hélt suður á Mæri og herjar. Þar var þá Grjótgarður, föðurbróðir hans, og skyldi hafa landvörn af Gunnhildarsonum. Hann bauð her út svo sem konungar höfðu orð til sent. Hákon jarl hélt til fundar við hann og til bardaga. Þar féll Grjótgarður og tveir jarlar með honum og mart lið annað.

Þessa getur Einar skálaglamm:

Hjálmgrápi vann hilmir
harðr, Lofts vinar, barða,
því kom vöxtr í Vínu
vínheims, fjandr sína,
og forsnjallir féllu
fúrs í Þróttar skúrum,
þat fær þjóðar snytri,
þrír jarlssynir, tírar.

Síðan sigldi Hákon jarl út til hafs og svo útleið suður með landi. Hann kom fram suður í Danmörk, fór þá á fund Haralds Gormssonar Danakonungs, fær þar góðar viðtökur, dvaldist með honum um veturinn.

Þar var og með Danakonungi maður sá er Haraldur hét. Hann var sonur Knúts Gormssonar, bróðursonur Haralds konungs. Hann var kominn úr víking, hafði lengi herjað og fengið óf lausafjár. Hann var kallaður Gull-Haraldur. Hann þótti vel til kominn að vera konungur í Danmörk.

16. Fall Erlings konungs

Haraldur konungur og þeir bræður héldu liði sínu norður til Þrándheims og fengu þar enga mótstöðu, tóku þar skatt og skyld og allar konungstekjur og létu bændur gjalda stór gjöld því að konungar höfðu þá langa hríð lítið fé fengið úr Þrándheimi er Hákon jarl hafði þar setið með fjölmenni miklu og átt ófrið við konunga.

Um haustið fór Haraldur konungur suður í land með það lið flest er þar átti heimili en Erlingur konungur sat þar eftir með sínu liði. Hann hafði þá enn miklar krafir við bændur og gerði harðan rétt þeirra en bændur kurruðu illa og báru eigi vel skaða sinn.

Og um veturinn söfnuðust bændur saman og fá lið mikið, stefna síðan að Erlingi konungi þar sem hann var á veislu og halda við hann orustu. Féll Erlingur konungur þar og mikil sveit manna með honum.

Þá er Gunnhildarsynir réðu fyrir Noregi gerðist hallæri mikið og var því meira að sem þeir höfðu lengur verið yfir landi. En búendur kenndu það konungum og því með að konungar voru fégjarnir og varð harður réttur bónda. Svo kom um síðir að nálega missti landsfólkið víðast korns og fiska. Á Hálogalandi var svo mikill sultur og seyra að þar óx nálega ekki korn en snjár lá þá á öllu landi að miðju sumri og bú allt inn bundið.

Svo kvað Eyvindur skáldaspillir, hann kom út og dreif mjög:

Snýr á Svölnis váru.
Svo höfum inn sem Finnar
birkihind um bundið
brums að miðju sumri.

Eyvindur orti drápu um alla Íslendinga en þeir launuðu svo að hver bóndi gaf honum skattpening. Sá stóð þrjá peninga silfurs vegna og hvítur í skor.

En er silfrið kom fram á alþingi þá réðu menn það af að fá smiða til og skíra silfrið. Síðan var ger af feldardálkur en þar af var greitt smíðarkaupið. Þá stóð dálkurinn fimm tigu marka. Hann sendu þeir Eyvindi en Eyvindur lét höggva í sundur dálkinn og keypti sér bú með.

Þá kom og þar um vor við útver nokkur broddur af síld. Eyvindur skipaði róðrarferju húskörlum sínum og landsbúum og reri þannug til sem síldin var rekin.

Hann kvað:

Látum langra nóta
lögsóta verfótum
að spáþernum sporna
sporðfjöðruðum norðan,
vita ef akrmurur jökla,
öl-Gerðr, falar verði,
ítr, þær er upp um róta
unnsvín, vinum mínum.

Og svo vendilega var upp gengið allt lausafé hans er hann hafði keypt til bús sér að hann keypti síldina með bogaskoti sínu.

Hann kvað:

Fengum feldarstinga
fjörð og galt við hjörðu,
þann er álhimins utan
oss lendingar sendu.
Mest seldi eg mínar
við mæörum sævar,
hallærið veldr hvoru,
hlaupsíldr Egils gaupna.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann