Magnússsona saga

1. Upphaf Magnússona

Eftir fall Magnúss konungs berfætts tóku synir hans konungdóm í Noregi, Eysteinn, Sigurður, Ólafur. Hafði Eysteinn hinn nyrðra hlut lands en Sigurður hinn syðra. Ólafur konungur var þá fjögurra vetra eða fimm. En þann þriðjung lands er hann átti höfðu þeir báðir til varðveislu. Sigurður var þá til konungs tekinn er hann var þrettán vetra eða fjórtán en Eysteinn var vetri eldri. Sigurður konungur lét eftir fyrir vestan haf dóttur Írakonungs.

Þá er synir Magnúss voru til konunga teknir komu utan úr Jórsalaheimi og sumir úr Miklagarði, þeir menn er farið höfðu út með Skofta Ögmundarsyni og voru þeir hinir frægstu og kunnu margs konar tíðindi að segja. En af þeim nýnæmum girntist fjöldi manns í Noregi þeirrar ferðar. Var það sagt að í Miklagarði fengju Norðmenn fullsælu fjár, þeir er á mála vildu ganga. Þeir báðu konungana að annar hvor þeirra, Eysteinn eða Sigurður, skyldi fara og vera fyrir því liði er til útferðar gerðist. En konungarnir játtu því og bjuggu ferð þá með beggja kostnaði. Til þeirrar ferðar réðust margir ríkismenn, bæði lendir menn og ríkir bændur. En er ferðin var búin þá var það afráðið að Sigurður skyldi fara en Eysteinn skyldi hafa landráð af hendi beggja þeirra.

2. Frá Orkneyjajörlum

Einum vetri eða tveim eftir fall Magnúss berfætts kom vestan af Orkneyjum Hákon sonur Páls jarls en konungar gáfu honum jarldóm og yfirsókn í Orkneyjum svo sem jarlar höfðu haft fyrir honum, Páll faðir hans eða Erlendur föðurbróðir hans. Fór Hákon vestur til Orkneyja.

3. Ferð Sigurðar konungs úr landi

Fjórum vetrum eftir fall Magnúss konungs fór Sigurður konungur liði sínu úr Noregi. Þá hafði hann sex tigu skipa.

Svo segir Þórarinn stuttfeldur:

Svo kom fylkis
framt lið saman
margspaks mikið,
mildingi vilt,
að skip við skip
skarfögr við lög
hreins grams héðan
hnigu, sex tigir.

Sigurður konungur sigldi um haustið til Englands. Þá var þar konungur Heinrekur sonur Vilhjálms bastarðs. Var Sigurður konungur þar um veturinn.

Svo segir Einar Skúlason:

Vosöflugr réð vísi
vestr helmingi mestum.
Óð að ensku láði
ægis marr und harra.
Stál lét hilmir hvílast
heiftglaðr og var þaðra,
né gramr af val Vimrar,
vetrlengis, stígr betri.

4. Ferð Sigurðar konungs

Sigurður konungur fór eftir um vorið liðinu vestur til Vallands og kom fram um haustið út á Galissuland og dvaldist þar annan vetur.

Svo segir Einar Skúlason:

Ok sá er æðst gat ríki
ól þjóðkonungr, sólar,
önd á Jakobslandi
annan vetr, und ranni.
Þar frá eg hilmi herjar,
hjaldrs, lausmæli gjalda
gramr birti svan svartan,
snarlyndr, frömum jarli.

En það var með þeim atburð að jarl sá er þar réð fyrir landi gerði sætt við Sigurð konung og skyldi jarl láta setja Sigurði torg til matkaupa allan veturinn. En það entist eigi lengur en til jóla og gerðist þá illt til matar því að landið er skarpt og illt matland. Þá fór Sigurður konungur með miklu liði til kastala þess er jarl átti og flýði jarl undan, því að hann hafði lítið lið. Sigurður konungur tók þar vist mikla og mikið herfang annað og lét flytja til skipa sinna, bjóst síðan í brott og fór vestur fyrir Spán.

Þá er Sigurður konungur sigldi fyrir Spán barst það að, að víkingar nokkurir, þeir er fóru að féfangi, komu í móti honum með galeiðaher. En Sigurður konungur lagði til orustu við þá og hófu svo hina fyrstu orustu við heiðna menn og vann af þeim átta galeiður.

Svo segir Halldór skvaldri:

Og fádýrir fóru,
Fjölnis hróts, að móti,
vígásum hlóð vísi,
víkingar gram ríkum.
Náði her að hrjóða,
hlaut drengja vinr fengi,
fyrðum hollr, þar er félla
fátt lið, galeiðr átta.

Síðan hélt Sigurður konungur til kastala þess er Sintré heitir og barðist þar aðra orustu. Það er á Spáni. Þar sat í heiðið fólk og herjaði á kristna menn. Hann vann kastalann og drap þar allt fólk, því að ekki vildi kristnast láta, og tók þar fé mikið.

Svo segir Halldór skvaldri:

Stór skal eg verk þau er voru,
Vánar dags, á Spáni,
prútt lét slöngvir sóttan
Sintré, konungs inna.
Gerðist heldr við harðan
hermönnum gram berjast
grátt, en gerva neittu
guðs rétti sér boðnum.

5. Unnin Lissibón

Eftir það hélt Sigurður konungur liðinu til Lissibónar. Það er borg mikil á Spáni og hálf kristin en hálf heiðin. Þar skilur Spán kristna og Spán heiðna. Eru þau héruð heiðin öll er vestur liggja þaðan. Þar átti Sigurður konungur hina þriðju orustu við heiðna menn og hafði sigur, fékk þar fé mikið.

Svo segir Halldór skvaldri:

Suðr vóst sigr hinn þriðja,
snjallr, við borg þá er kalla,
lofðungs kundr er lenduð,
Lissibón, að fróni.

Þá hélt Sigurður konungur liðinu vestur fyrir Spán heiðna og lagði til borgar þeirrar er kölluð er Alkasse og átti þar fjórðu orustu við heiðna menn og vann borgina, drap þar mart fólk svo að hann eyddi borgina. Þeir fengu þar ófa mikið fé.

Svo segir Halldór skvaldri:

Út frá eg yðr, þar er heitir
Alkasse, styr hvassan,
fólkþeysandi, fýsast
fjórða sinn að vinna

Og enn þetta:

Unnið frá eg í einni
eyddri borg til sorga,
hitti her á flótta,
heiðins vífs, að drífa.

6. Orusta í Forminterru

Þá hélt Sigurður konungur fram ferðinni og lagði til Nörvasunda. En í sundunum var fyrir honum víkingaher mikill og lagði konungur til orustu við þá og átti þar hina fimmtu orustu og hafði sigur.

Svo segir Halldór skvaldri:

Treystust ér fyr austan,
yðr tjóði guð, rjóða,
náskári fló, nýra,
Nörvasund, til unda.

Síðan lagði Sigurður konungur herinum fram hið syðra með Serklandi og kom til eyjar þeirrar er kölluð er Forminterra. Þar hafði þá sest her mikill heiðinna blámanna í helli nokkurn og sett fyrir framan hellisdyrnar steinvegg. Þeir herjuðu víða á landið og fluttu til hellisins allt herfang.

Sigurður konungur veitti uppgöngu í þeirri ey og fór til hellisins og var í bergi nokkuru og var hátt að ganga upp í hellinn til steinveggsins en bjargið skútti yfir steinvegginn fram. Heiðingjar vörðu steinvegginn og hræddust ekki vopn þeirra Norðmanna en þeir máttu bera grjót og skot niður undir fætur sér ofan á Norðmenn. Norðmenn réðu og ekki til uppgöngunnar að svo búnu. Þá tóku heiðingjar pell og aðra dýrgripi og báru út á vegginn og skóku að Norðmönnum og æptu á þá og eggjuðu þá og frýðu þeim hugar.

Þá leitaði Sigurður konungur sér ráða. Hann lét taka tvo skipbáta er barkar eru kallaðir og draga upp á bergið yfir hellisdyrnar, og drengja með strengjum digrum allt undir innviðuna og um stafnana. Síðan gengu þar í menn, svo sem rúm hafði, létu þá síga skipin ofan fyrir hellinn með reipum. Þá skutu þeir og grýttu er á skipunum voru svo að heiðingjar hrukku af steinvegginum. Þá gekk Sigurður konungur með herinn upp í bergið undir steinvegginn og brutu vegginn og komust svo upp í hellinn en heiðingjar flýðu inn um steinvegginn þann er settur var um þveran hellinn. Þá lét konungur flytja í hellinn viðu stóra og kasta bál mikið í hellisdurunum og slá eldi í. En heiðingjar, er eldur og reykur sótti þá, þá létu sumir lífið, sumir gengu á vopn Norðmanna en allt fólk var drepið eða brennt. Þar fengu Norðmenn hið mesta herfang, þess er þeir hefðu tekið í þessari ferð.

Svo segir Halldór skvaldri:

Varð fyr stafni
styrjar gjörnum
friðraskaði
Forminterra.
Þar varð eggjar
og eld þola
blámannalið
áðr bana fengi.

Og enn þetta:

Böðstyrkir, léstu barka,
bragnings verk á Serkjum
fræg hafa gerst, fyr gýgjar
gagnstíg ofan síga.
En í hall að helli,
hernenninn, fjölmennum,
Göndlar þings, með gengi,
gný-Þróttr, neðan sóttir.

Enn segir Þórarinn stuttfeldur:

Bað gramr guma
gunnhagr draga
byrvarga á bjarg
blásvarta tvá,
þá er í reipum
ramdýr þrama
sigu fyr hellis
hliðdyr með lið.

7. Orusta

Þá fór Sigurður konungur fram á leið og kom til eyjar þeirrar er Ívissa heitir og átti þar orustu og fékk sigur. Sú var hin sjöunda.

Svo segir Halldór skvaldri:

Margdýrkaðr kom merkir
morðhjóls skipastóli,
fús var fremdar ræsir
friðslits, til Ívissu.

Eftir það kom Sigurður konungur til eyjar þeirrar er Manork heitir og hélt þar hina áttu orustu við heiðna menn og fékk sigur.

Svo segir Halldór skvaldri:

Knátti enn hin átta
oddhríð vakið síðan,
Finns rauð gjöld, á grænni,
grams ferð, Manork verða.

8. Frá Sigurði Jórsalafara

Sigurður konungur kom um vorið til Sikileyjar og dvaldist þar lengi. Þar var þá Roðgeir hertogi. Hann fagnaði vel konungi og bauð honum til veislu. Sigurður konungur kom þannug og mikið lið með honum. Þar var dýrlegur fagnaður og hvern dag að veislunni stóð Roðgeir hertogi og þjónaði að borði Sigurðar konungs. Og hinn sjöunda dag veislunnar, þá er menn höfðu tekið laugar, þá tók Sigurður konungur í hönd hertoganum og leiddi hann upp í hásæti og gaf honum konungsnafn og þann rétt að hann skyldi vera konungur yfir Sikileyjarveldi en áður höfðu þar jarlar verið yfir því ríki.

9. Frá Roðgeiri konungi

Roðgeir Sikileyjarkonungur var hinn ríkasti konungur. Hann vann Púl allan og lagði undir sig og margar aðrar stóreyjar í Grikklandshafi. Hann var kallaður Roðgeir ríki. Hans son var Vilhjálmur konungur í Sikiley er lengi hafði ófrið mikinn haft við Miklagarðskeisara. Vilhjálmur konungur átti þrjár dætur en engan son. Hann gifti eina dóttur sína Heinreki keisara, syni Fríreks keisara, en þeirra sonur var Frírekur er nú var keisari í Rúmaborg. Aðra dóttur Vilhjálms konungs átti hertogi af Kýpur, hina þriðju átti Margrít yfirkussari. Heinrekur keisari drap þá báða. Dóttur Roðgeirs Sikileyjarkonungs átti Manúli keisari í Miklagarði. Þeirra sonur var Kirjalax keisari.

10. Jórsalaferð Sigurðar konungs

Um sumarið sigldi Sigurður konungur út um Grikklandshaf til Jórsalalands, fór síðan út til Jórsalaborgar og hitti þar Baldvina Jórsalakonung. Baldvini konungur fagnaði Sigurði konungi forkunnarvel og reið með honum út til árinnar Jórdanar og aftur til Jórsalaborgar.

Svo segir Einar Skúlason:

Húf lét hilmir svífa
hafkaldan, lof skaldi
esat um allvalds risnu
einfalt, í Grikksalti,
áðr við einkar breiða
úlfnestir skip festi,
öld beið öll með stilli,
Akrsborg, feginsmorgun.

Get eg þess er gramr fór vitja,
glyggs, Jórsala byggðar,
meðr vitut öðling æðra,
ógnblíðr, und sal víðum,
og leyghati laugast,
leyft ráð var það, náði
hauka fróns í hreinu
hvatr Jórdanar vatni.

Sigurður konungur dvaldist mjög lengi á Jórsalalandi um haustið og öndurðan vetur.

11. Unnin Sætt

Baldvini konungur gerði veislu fagra Sigurði konungi og liði miklu með honum. Þá gaf Baldvini konungur Sigurði konungi marga helga dóma og þá var tekinn spánn af krossinum helga að ráði Baldvina konungs og patríarka og sóru þeir báðir að helgum dómi að þetta tré var af hinum helga krossi er guð sjálfur var píndur á. Síðan var sá heilagur dómur gefinn Sigurði konungi með því að hann sór áður, og tólf menn aðrir með honum, að hann skyldi fremja kristni með öllum mætti sínum og koma í land erkibiskupsstóli ef hann mætti og að krossinn skyldi þar vera sem hinn helgi Ólafur konungur hvíldi og hann skyldi tíund fremja og sjálfur gera.

Sigurður konungur fór síðan til skipa sinna í Akursborg. Þá bjó og Baldvini konungur her sinn að fara til Sýrlands til borgar þeirrar er Sæt heitir. Sú borg var heiðin. Til þeirrar ferðar réðst Sigurður konungur með honum. Og þá er þeir konungarnir höfðu litla hríð setið um borgina gáfust heiðnir menn upp og eignuðust konungarnir borgina en liðsmenn annað herfang. Sigurður konungur gaf Baldvina konungi alla borgina.

Svo segir Halldór skvaldri:

Borg heiðna tókstu, bræðir
benja tíkr, af ríki,
háðist hver við prýði
hildr, en gafst af mildi.

Einar Skúlason segir og hér frá:

Sætt frá eg Dæla drottin,
drengr minnist þess, vinna.
Tóku hvasst í Hristar
hríð valslöngur ríða.
Sterkr braut válegt virki
vals munnlituðr Gunnar.
Fögr ruðust sverð en sigri
snjallr bragningr hlaut fagna.

Eftir það fór Sigurður konungur til skipa sinna og bjóst brott af Jórsalalandi. Þeir sigldu norður til eyjar þeirrar er Kýpur heitir og dvaldist Sigurður konungur þar nokkura hríð, fór síðan til Grikklands og lagði öllu liðinu út við Engilsnes og lá þar hálfan mánuð og var hvern dag hraðbyri norður eftir hafinu. En hann vildi bíða þess byrjar er þverskytningur væri og seglum mætti aka að endilöngu skipi því að öll segl hans voru sett pellum, bæði það er fram vissi og aftur, fyrir því að hvorirtveggju, frambyggjar eða þeir er aftar voru, vildu eigi sjá hið ófegra seglanna.

12. Ferð Sigurðar konungs í Miklagarð

Þá er Sigurður konungur sigldi inn til Miklagarðs sigldi hann nær landi. Þar eru allt á land upp borgir og kastalar og þorp svo að hvergi slítur. Þá sá af landi í bug allra seglanna og bar hvergi í milli svo sem einn garður væri. Allt fólk stóð úti, það er sjá mátti sigling Sigurðar konungs.

Spurt hafði og Kirjalax keisari til ferðar Sigurðar konungs og lét hann upp lúka borghlið það á Miklagarði er heitir Gullvarta. Það hlið skal inn ríða keisari þá er hann hefir lengi áður í brott verið af Miklagarði og hafi vel sigrast. Þá lét keisari breiða pell um öll stræti borgarinnar frá Gullvörtu og til Laktjarna. Þar eru keisarahallir hinar ágæstu.

Sigurður konungur mælti við sína menn að þeir skyldu ríða drambsamlega í borgina og láta sér lítið um finnast alla nýbreytni er þeir sáu og svo gerðu þeir. Reið Sigurður konungur og allir hans menn með þvílíkan prís til Miklagarðs og svo til hinnar ágæstu konungshallar og var þar fyrir þeim allt búið. Sigurður konungur dvaldist þar nokkura hríð.

Þá sendi Kirjalax konungur menn til hans, hvort hann vildi þiggja af keisara sex skippund af gulli eða vildi hann að konungur léti efna til leiks þess er keisari var vanur að láta leika á Paðreimi. Sigurður konungur kaus leikinn og sendimenn sögðu að keisarann kostaði eigi minna leikinn en þetta gull.

Þá lét konungur efna til leiksins og var þá leikið að vanda og veittu allir leikar betur konungi það sinn. Drottning á hálfan leikinn og keppast í öllum leikum menn þeirra. Og segja Grikkir að þá er konungur vinnur fleiri leika á Paðreimi en drottning þá mun konungur vinna sigur ef hann fer herferð.

13. Frá ferð Sigurðar Jórsalafara

Eftir þetta bjóst Sigurður konungur til heimferðar. Hann gaf keisara öll skip sín og höfuð gullbúin voru á því skipi er konungur hafði stýrt. Þau voru sett á Péturskirkju. Kirjalax keisari gaf Sigurði konungi marga hesta og fékk honum leiðtoga um allt ríki sitt. Fór þá Sigurður konungur brott af Miklagarði en eftir dvaldist mikill fjöldi manna og gekk á mála.

Sigurður konungur fór utan fyrst á Bolgaraland og þá um Ungaraland og um Pannoniam og um Sváfa og Býjaraland. Þar fann hann Lossarium keisara af Rúmaborg og fagnaði hann honum forkunnarvel, fékk honum leiðtoga allt um sitt ríki og lét halda þeim torg svo sem þeir þurftu til allra kaupa.

En er Sigurður konungur kom í Slésvík í Danmörk þá veitti Eilífur jarl honum dýrlega veislu. Það var um miðsumarsskeið. Í Heiðabý fann hann Nikulás Danakonung og fagnaði hann honum afar vel og fylgdi honum sjálfur norður á Jótland og gaf honum skip með öllum búnaði, það er hann hafði í Noreg.

Fór þá Sigurður konungur heim í ríki sitt og var honum vel fagnað og var það mál manna að eigi hafi verið farin meiri virðingarför úr Noregi en þessi var og var hann þá tvítugur að aldri. Hann hafði þrjá vetur verið í þessari ferð. Ólafur bróðir hans var þá tólf vetra gamall.

14. Frá athöfn Eysteins konungs

Eysteinn konungur hafði mart gert í landinu, það er nytsamlegt var, meðan Sigurður konungur var í ferð. Hann hóf munklífi í Björgyn í Norðnesi og lagði þar fé mikið til. Þar lét hann gera Mikjálskirkju, hið veglegsta steinmusteri. Hann lét og gera í konungsgarði Postulakirkju, trékirkju. Þar lét hann og gera höll hina miklu er veglegast tréhús hefir gert verið í Noregi. Hann lét og gera kirkju á Agðanesi og þar virki og höfn sem áður var öræfi. Hann lét og gera í Niðarósi í konungsgarði Nikuláskirkju og var það hús allmjög vandað að skurðum og allri smíð. Hann lét og gera kirkju í Vogum á Hálogalandi og lagði próventu til.

15. Frá Eysteini konungi

Eysteinn konungur gerði orð hinum vitrustum mönnum til Jamtalands og hinum mestum, bauð þeim til sín en fagnaði öllum er komu með blíðu mikilli og leiddi brott með vingjöfum en teygði þá svo til vináttu við sig. En er þeir vöndust margir að fara til hans og þágu gjafir hans, en sumum sendi hann gjafir þeim er eigi komu þar, þá kom hann sér í fullkomna vináttu við alla þá menn er réðu fyrir landinu.

Síðan talaði hann fyrir þeim og sagði að Jamtur höfðu það illa gert er þeir höfðu snúist í brott frá Noregskonungum í hlýðni eða í skattgjöfum, tók þar til máls er Jamtur höfðu gengið undir ríki Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra og verið síðan lengi undir Noregskonungum, innti og það hversu mörg þarfindi þeir máttu hafa af Noregi eða hversu mikill ómaki þeim væri að sækja til Svíakonungs það er þeir þurftu. Og kom hann svo sínum ræðum að Jamtur sjálfir buðu honum og báðu hann að þeir vildu snúast til hlýðni við Eystein konung og kölluðu það þurft sína og nauðsyn. Dró svo saman þeirra félagsskap að Jamtur gáfu land allt undir ríki Eysteins konungs. Tóku fyrst til þessa máls ríkismenn þar trúnaðareiða af öllu fólkinu. Síðan fóru þeir til Eysteins konungs og sóru honum land og hefir það haldist jafnan síðan. Vann Eysteinn konungur Jamtaland með viti en eigi með áhlaupum sem sumir hans langfeðgar.

16. Frá Eysteini konungi

Eysteinn konungur var maður hinn fríðasti sýnum, bláeygur og nokkuð opineygur, bleikhár og hrokkinhár, ekki hár meðalmaður, spekingur að viti, að öllu fróður, lögum og dæmum og mannfræði, ráðsnjallur og orðspakur og hinn snjallasti, manna glaðastur og lítillátastur, hugþekkur og ástsæll allri alþýðu. Hann átti Ingibjörgu dóttur Guttorms Steigar-Þórissonar. Þeirra dóttir hét María er síðan átti Guðbrandur Skafhöggsson.

17. Frá Sigurði konungi

Sigurður konungur var mikill vexti og jarpur á hár, skörulegur, ekki fagur, vel vaxinn, snöfurlegur, fámæltur og oftast ekki þýður, vingóður og fastúðigur, ekki talaður mjög, siðlátur og veglátur. Sigurður konungur var stjórnsamur og refsingasamur, hélt vel lögin, mildur af fé, ríkur og ágætur.

Ólafur konungur var maður hár og mjór, fríður sýnum, glaður og lítillátur, vinsæll.

Þá er þeir bræður voru konungar í Noregi tóku þeir af margar álögur þær er Danir höfðu lagt á lýðinn þá er Sveinn Alfífuson réð landi og urðu þeir af því stórum vinsælir við alþýðu og stórmenni.

18. Dauði Ólafs konungs

Ólafur konungur tók sótt, þá er hann leiddi til bana, og er hann jarðaður að Kristskirkju í Niðarósi og var hann hið mesta harmaður. Síðan réðu þeir tveir konungar landi, Eysteinn og Sigurður, en áður höfðu þeir þrír bræður verið konungar tólf vetur, fimm síðan er Sigurður kom til lands en sjö áður. Ólafur konungur var sautján vetra er hann andaðist en það var ellefta Kalendas Januarii.

Þá er Eysteinn konungur hafði verið einn vetur austur í landi, en Sigurður konungur var norður, þá sat Eysteinn konungur lengi um veturinn í Sarpsborg.

19. Fæddur Magnús blindi

Búandi ríkur er nefndur Ólafur í Dali, auðigur maður. Hann bjó í Aumorð í Dali mikla. Hann átti tvö börn. Sonur hans hét Hákon faukur en Borghildur dóttir hans. Hún var kvinna fríðust og vitur kona og fróð mjög. Þau Ólafur og börn hans voru lengi um veturinn í Borg og var Borghildur jafnan á tali við konung og mæltu menn allmisjafnt um vináttu þeirra.

En eftir um sumarið fór Eysteinn konungur norður í land en Sigurður fór austur og annan vetur eftir var Sigurður konungur austur í landi. Hann sat löngum í Konungahellu og efldi mjög þann kaupstað. Þar gerði hann kastala mikinn og lét grafa um díki mikið. Hann var ger af torfi og grjóti. Hann lét húsa í kastalanum. Hann lét gera þar kirkju. Kross hinn helga lét hann vera í Konungahellu og hélt í því eigi eiða sína er hann sór á Jórsalalandi en hann framdi tíund og flest allt annað það er hann hafði svarið. En það er hann setti krossinn austur við landsenda hugði hann það vera mundu alls lands gæslu. En það varð að hinu mesta óráði að setja þann helgan dóm svo mjög undir vald heiðinna manna sem síðan reyndist.

Borghildur Ólafsdóttir heyrði þann kvitt að menn illmæltu þau Eystein konung um tal sitt og vináttu. Þá fór hún til Borgar og fastaði þar til járns og bar járn fyrir mál þetta og varð vel skír.

En er þetta spurði Sigurður konungur þá reið hann það á einum degi, er miklar voru tvær dagleiðir, og kom fram í Dali að Ólafs, var þar um nótt. Þá tók hann Borghildi frillutaki og hafði hana brott með sér. Þeirra sonur var Magnús. Hann var brátt brott sendur til fósturs norður á Hálogaland í Bjarkey til Víðkunns Jónssonar og fæddist hann þar upp. Magnús var allra manna fríðastur og bráðger á vöxt og afl.

20. Kvonfang Sigurðar konungs

Sigurður konungur fékk Málmfríðar dóttur Haralds konungs Valdimarssonar austan úr Hólmgarði. Móðir Haralds konungs var Gyða gamla drottning, dóttir Haralds Englakonungs Guðinasonar. Móðir Málmfríðar var Kristín dóttir Inga Svíakonungs Steinkelssonar. Systir Málmfríðar var Ingilborg er átti Knútur lávarður sonur Eiríks góða Danakonungs, sonar Sveins Úlfssonar. Börn þeirra Knúts og Ingilborgar voru Valdimar, er konungdóm tók í Danmörk eftir Svein Eiríksson, Margrét, Kristín og Katrín. Margrétu átti Stígur hvítaleður. Þeirra dóttir var Kristín er átti Karl Sörkvisson Svíakonungur. Þeirra sonur var Sörkvir konungur.

21. Mannjafnaður konunga

Eysteinn konungur og Sigurður konungur voru einn vetur báðir á veislu á Upplöndum og átti sinn bæ hvor þeirra. En er skammt var milli þeirra býja er konungar skyldu veislu taka þá gerðu menn það ráð að þeir skyldu vera báðir samt á veislunum og sínu sinni að hvors búum. Voru þeir fyrst báðir samt að því búi er Eysteinn konungur átti. En um kveldið er menn tóku að drekka, þá var mungát ekki gott og voru menn hljóðir.

Þá mælti Eysteinn konungur: «Þó eru menn hljóðir. Hitt er ölsiður meiri að menn geri sér gleði. Fáum oss ölteiti nokkura. Mun þá enn á rætast gaman manna. Sigurður bróðir, það mun öllum sæmst þykja að við hefjum nokkura skemmtanarræðu.»

Sigurður konungur svarar heldur stutt: «Ver þú svo margur sem þú vilt en lát mig ná að þegja fyrir þér.»

Þá mælti Eysteinn konungur: «Sá ölsiður hefir oft verið að menn taka sér jafnaðarmenn. Vil eg hér svo vera láta.»

Þá þagði Sigurður konungur.

«Sé eg,» segir Eysteinn konungur, «að eg verð hefja þessa teiti. Mun eg taka þig bróðir til jafnaðarmanns mér. Færi eg það til að jafnt nafn höfum við báðir og jafna eign. Geri eg engi mun ættar okkarrar eða uppfæðslu.»

Þá svarar Sigurður konungur: «Manstu eigi það er eg braut þig á bak ef eg vildi og varstu vetri eldri?»

Þá segir Eysteinn konungur: «Eigi man eg hitt síður er þú fékkst eigi leikið það er mjúkleikur var í.»

Þá mælti Sigurður konungur: «Manstu hversu fór um sundið með okkur? Eg mátti kefja þig ef eg vildi.»

Eysteinn konungur segir: «Ekki svam eg skemmra en þú og eigi var eg verr kafsyndur. Eg kunni og á ísleggjum svo að engan vissi eg þann er það keppti við mig en þú kunnir það eigi heldur en naut.»

Sigurður konungur segir: «Höfðinglegri íþrótt og nytsamlegri þykir mér sú að kunna vel á boga. Ætla eg að þú nýtir eigi boga minn þótt þú spyrnir fótum í.»

Eysteinn svarar: «Ekki em eg bogsterkur sem þú en minna mun skilja beinskeyti okkra og miklu kann eg betur á skíðum en þú og hafði það verið enn fyrr kölluð góð íþrótt.»

Sigurður konungur segir: «Þess þykir mikill munur að það er höfðinglegra að sá er yfirmaður skal vera annarra manna sé mikill í flokki, sterkur og vopnfær betur en aðrir menn og auðsær og auðkenndur þá er flestir eru saman.»

Eysteinn konungur segir: «Eigi er það síður einkanna hlutur að maður sé fríður og er sá og auðkenndur í mannfjölda. Þykir mér það og höfðinglegt því að fríðleikinum sómir hinn besti búnaður. Kann eg og miklu betur til laga en þú og svo, hvað sem við skulum tala, em eg miklu sléttorðari.»

Sigurður konungur svarar: «Vera kann að þú hafir numið fleiri lögprettu því að eg átti þá annað að starfa. En engi frýr þér sléttmælis en hitt mæla margir að þú sért eigi allfastorður og lítið mark sé hverju þú heitir, mælir eftir þeim er þá eru hjá og er það ekki konunglegt.»

Eysteinn konungur svarar: «Það ber til þess, er menn bera mál sín fyrir mig, þá hygg eg að því fyrst að lúka svo hvers manns máli að þeim mætti best þykja. Þá kemur oft annar sá er mál á við hann og verður þá oft dregið til að miðla svo að báðum skuli líka. Hitt er og oft að eg heiti því sem eg em beðinn því að eg vildi að allir færu fegnir frá mínum fundi. Sé eg hinn kost ef eg vil hafa, sem þú gerir, að heita öllum illu en engi heyri eg efndanna frýja.»

Sigurður konungur segir: «Það hefir verið mál manna að ferð sú er eg fór úr landi væri heldur höfðingleg en þú sast heima meðan sem dóttir föður þíns.»

Eysteinn konungur svarar: «Nú greipstu á kýlinu. Eigi mundi eg þessa ræðu vekja ef eg kynni hér engu svara. Nær þótti mér hinu að eg gerði þig heiman sem systur mína áður þú yrðir búinn til ferðar.»

Sigurður konungur segir: «Heyrt muntu hafa það að eg átti orustur mjög margar í Serklandi er þú munt heyrt hafa getið og fékk eg í öllum sigur og margs konar gersemar, þær er eigi hafa slíkar komið hingað til lands. Þótti eg þar mest verður er eg fann göfgasta menn en eg hygg að eigi hafir þú enn hleypt heimdraganum.»

Eysteinn konungur svarar: «Spurt hefi eg það að þú áttir orustur nokkurar utanlands en nytsamlegra var hitt landi voru er eg gerði meðan. Eg reisti fimm kirkjur af grundvelli og gerði eg höfn við Agðanes er áður var öræfi og hvers manns för, þá er fer norður eða suður með landi. Eg gerði og stöpulinn í Sinhólmssundi og höllina í Björgyn meðan þú brytjaðir blámenn fyrir fjandann á Serklandi. Ætla eg það lítið gagn ríki voru.»

Sigurður konungur segir: «Fór eg í ferð þeirri lengst út til Jórdanar og lagðist eg yfir ána. En út á bakkanum er kjarr nokkuð en þar á barrinu reið eg knút og mælti eg svo fyrir að þú skyldir leysa bróðir eða hafa ellegar þvílíkan formála sem þar var á lagður.»

Eysteinn konungur segir: «Eigi mun eg leysa þann knút er þú reiðst mér en ríða mátti eg þér þann knút er miklu síður fengir þú leyst, þá er þú sigldir einskipa í her minn, þá er þú komst í land.»

Eftir það þögnuðu þeir báðir og var hvortveggi reiður.

Fleiri hlutir urðu þeir í skiptum þeirra bræðra er það fannst á að hvor dró sig fram og sitt mál og vildi hvor vera öðrum meiri. En hélst þó friður milli þeirra meðan þeir lifðu.

22. Frá kerlaugu

Sigurður konungur var á Upplöndum að veislu nokkurri en þar voru laugar gervar. En er konungur var í laug og var tjaldað yfir kerið þá þótti honum renna fiskur í lauginni hjá sér og þá sló á hann hlátri svo miklum að þar fylgdi staðleysi og kom það síðan mjög oftlega að honum.

Ragnhildi dóttur Magnúss konungs berfætts giftu þeir bræður hennar Haraldi kesju. Hann var sonur Eiríks góða Danakonungs. Voru synir þeirra Magnús, Ólafur, Knútur, Haraldur.

23. Skipsmíð Eysteins konungs

Eysteinn konungur lét gera skip mikið í Niðarósi. Það var gert að vexti og með hætti eftir því sem Ormur hinn langi hafði verið er Ólafur Tryggvason hafði gera látið. Var þar og drekahöfuð á fram en krókur á aftur og hvorttveggja gullbúið. Skip var borðmikið en stafnarnir þóttu nokkuru minni en best bæri. Hann lét og gera þar í Niðarósi naust bæði svo stór að afrek var í og ger með hinum bestum föngum og smíðuð ágæta vel.

Eysteinn konungur var á veislu á Stim á Hússtöðum. Þar fékk hann bráðasótt þá er hann leiddi til bana. Hann andaðist fjórða Kalendas Septembris og var lík hans flutt norður til Kaupangs og er hann þar jarðaður í Kristskirkju. Og er það mál manna að yfir einskis manns líki hafi svo margur maður í Noregi jafnhryggur staðið sem Eysteins konungs síðan er andaður var Magnús konungur, sonur Ólafs hins helga konungs.

Eysteinn var konungur tuttugu vetur að Noregi. En eftir andlát Eysteins konungs var Sigurður einn konungur í landi meðan hann lifði.

24. Kristnuð Smálönd

Nikulás Danakonungur Sveinsson fékk síðan Margrétar dóttur Inga er fyrr hafði átt Magnús konungur berfættur og hét sonur þeirra Nikuláss Magnús hinn sterki.

Nikulás konungur sendi orð Sigurði konungi Jórsalafara og bað hann veita sér lið og styrk allan af sínu ríki og fara með Nikulási konungi austur fyrir Svíaveldi til Smálanda að kristna þar fólk því að þeir er þar byggðu héldu ekki kristni þótt sumir hefðu við kristni tekið. Var þann tíma víða í Svíaveldi mart fólk heiðið og mart illa kristið því að þá voru nokkurir þeir konungar er kristni köstuðu og héldu upp blótum, svo sem gerði Blót-Sveinn eða síðan Eiríkur hinn ársæli.

Sigurður konungur hét ferð sinni og gerðu konungar stefnulag sitt í Eyrarsundi. Síðan bauð Sigurður konungur almenningi út af öllum Noregi, bæði að liði og að skipum. En er saman kom her sá þá hafði hann vel þrjú hundruð skipa.

Nikulás konungur kom fyrr miklu til stefnunnar og beið þar lengi. Þá kurruðu Danir illa og sögðu að Norðmenn mundu ekki koma. Síðan rufu þeir leiðangurinn. Fór konungur brott og allur herinn.

Síðan kom Sigurður konungur þar og líkaði honum illa, héldu þá austur í Svimrarós og áttu þar húsþing og talaði Sigurður konungur um lausyrði Nikuláss konungs og kom það ásamt að þeir skyldu nokkuð hervirki gera í landi hans fyrir þessar sakir. Þeir tóku upp þorp það er heitir Tumaþorp og skammt liggur frá Lundi og héldu síðan austur til kaupbæjar þess er heitir Kalmarnar og herjuðu þar og svo á Smálöndum og lögðu vistagjald á Smálönd, fimmtán hundruð nauta, og tóku Smálendingar við kristni. Síðan venti Sigurður konungur aftur herinum og kom í sitt ríki með mörgum stórum gersemum og fjárhlutum er hann hafði aflað í þeirri ferð og var þessi leiðangur kallaður Kalmarnaleiðangur. Það var sumri fyrr en myrkur hið mikla. Þenna einn leiðangur reri Sigurður konungur meðan hann var konungur.

25. Draumur Sigurðar konungs

Sigurður konungur var eitthvert sinn að búi sínu en um morguninn þá er konungur var klæddur var hann fámálugur og ókátur og hræddust vinir hans að þá mundi enn að honum komið vanstillið. En ármaðurinn var vitur maður og djarfur og krafði konung máls og spurði ef hann hefði nokkuð tíðinda spurt, það er svo væri mikið að honum stæði fyrir gleði, eða væri það að veislan hugnaði honum eigi vel eða nokkurir þeir hlutir er menn mættu ráða bætur á.

Sigurður konungur segir að engi hlutur héldi þar til, sá er hann ræddi um. «En það heldur til,» segir hann, «að eg hugsa draum þann er fyrir mig bar í nótt.»

«Herra,» segir hann, «góður draumur skyldi það vera en heyra vildum vér gjarna.»

Konungur mælti: «Eg þóttist hér á Jaðri vera úti staddur og sá eg út í haf og leit eg þar sorta mikinn og var för í og nálgaðist hingað. Þá sýndist mér sem það væri mikið tré eitt og óðu limarnar uppi en ræturnar í sjá. En er tréið kom að landi þá braut það og rak brot trésins víða um landið, bæði um meginland og úteyjar, sker og strandir, og þá gaf mér sýn svo að eg þóttist sjá um allan Noreg hið ytra með sjá og sá eg í hverja vík að rekin voru brot af þessu tré og voru flest smá en sum stærri.»

Þá segir ármaðurinn það líkast um þenna draum «að þér sjálfir munuð best skipa og vildum vér gjarna heyra að þér réðuð.»

Þá mælti konungur: «Það þykir mér líkast að vera muni fyrir tilkomu nokkurs manns í land þetta og mun hann hér staðfestast og hans afspringi mundi víða dreifast um land þetta og vera mjög misstórt.»

26. Haraldur gilli kom í Noreg

Hallkell húkur, sonur Jóns smjörbalta, var lendur maður á Mæri. Hann fór vestur um haf og allt til Suðureyja. Þar kom til fundar við hann utan af Írlandi sá maður er hét Gillikristur og sagðist vera sonur Magnúss konungs berfætts. Móðir hans fylgdi honum og sagði að hann hét Haraldur öðru nafni.

Hallkell tók við þessum mönnum og flutti með sér til Noregs og þegar á fund Sigurðar konungs með Harald og móður hans. Þau báru fram sitt erindi fyrir konung. Sigurður konungur ræddi þetta mál fyrir höfðingjum að hver legði til eftir sínu skaplyndi en allir báðu hann sjálfan fyrir ráða. Þá lét Sigurður konungur kalla til sín Harald og segir honum svo að hann vill eigi synja Haraldi að hann fremji skírslu til faðernis síns, með því að hann vill það vera láta í festu, þó að honum berist það faðerni er hann segir, að Haraldur skal eigi beiðast konungdóms meðan Sigurður konungur eða Magnús konungsson lifir, og fóru þessar festur fram með svardögum. Sigurður konungur sagði að Haraldur skyldi troða slár til faðernis sér en sú skírsla þótti heldur frek því að hann skyldi þá skírslu fremja til faðernis en eigi til konungdóms. Hann hafði áður þar fyrir svarið. En Haraldur játti þessu.

Hann fastaði til járns og var sú skírsla ger er mest hefir verið ger í Noregi að níu plógjárn glóandi voru niður lögð og gekk Haraldur þar eftir berum fótum og leiddu hann biskupar tveir. Og þremur dögum síðar var skírslan reynd. Voru þá fætur hans óbrunnir.

Eftir það tók Sigurður konungur vel við frændsemi Haralds en Magnús sonur hans óþokkaðist mjög við Harald og margir höfðingjar sneru eftir honum. Sigurður konungur treystist svo vinsæld sinni við allt landsfólk að hann beiddist þess að allir skyldu það sverja að Magnús, sonur Sigurðar konungs, skyldi vera konungur eftir hann og fékk hann þá svardaga af öllu landsfólki.

27. Veðjan Haralds og Magnúss

Haraldur gilli var maður hár og grannvaxinn, hálslangur, heldur langleitur, svarteygur, dökkhár, skjótlegur og frálegur, hafði mjög búnað írskan, stutt klæði og léttklæddur. Stirt var honum norrænt mál, kylfdi mjög til orðanna og höfðu margir menn það mjög að spotti.

Haraldur sat í drykkju eitt sinn og talaði við annan mann, sagði hann vestan af Írlandi. Var það í ræðu hans að þeir menn voru á Írlandi að svo voru fóthvatir að engi hestur tók þá á skeiði.

Magnús konungsson heyrði þetta og mælti: «Nú lýgur hann enn sem hann er vanur.»

Haraldur svarar: «Satt er þetta,» segir hann, «að þeir menn munu fást á Írlandi að engi hestur í Noregi mun hlaupa um þá.»

Ræddu þeir um nokkurum orðum. Þeir voru báðir drukknir.

Þá mælti Magnús: «Hér skaltu veðja fyrir höfði þínu ef þú rennur eigi jafnhart sem eg ríð hesti mínum en eg mun leggja í móti gullhring minn.»

Haraldur svarar: «Ekki segi eg það að eg renni svo hart. Finna mun eg þá menn á Írlandi að svo munu renna og má eg veðja um það.»

Magnús konungsson svarar: «Ekki mun eg fara til Írlands. Hér skulum við veðja en ekki þar.»

Haraldur gekk þá að sofa og vildi ekki fleira við hann eiga. Þetta var í Ósló.

En eftir um morguninn þá er lokið var formessu reið Magnús upp í götur. Hann gerði orð Haraldi að koma þannug. En er hann kom var hann svo búinn, hafði skyrtu og ilbandabrækur, stuttan möttul, hött írskan á höfði, spjótskaft í hendi. Magnús markaði skeiðið.

Haraldur mælti: «Of langt ætlar þú skeiðið.»

Magnús ætlaði þegar miklu lengra og sagði að þó var of skammt. Mart var manna hjá. Þá tóku þeir skeið fram og fylgdi Haraldur jafnan bæginum.

En er þeir komu til skeiðsenda mælti Magnús: «Þú heldur í gagntakið og dró hesturinn þig.»

Magnús hafði gauskan hest allskjótan. Þeir tóku þá annað skeið aftur. Rann þá Haraldur allt skeið fyrir hestinum.

En er þeir komu til skeiðsenda þá spurði Haraldur: «Hélt eg nú í gagntakið?»

Magnús segir: «Nú tókstu fyrri til.»

Þá lét Magnús blása hestinn um hríð en er hann var búinn þá keyrir hann sporum hestinn og kom hann skjótt á hlaup. Haraldur stóð þá kyrr.

Þá leit Magnús aftur og kallaði: «Renn nú,» segir hann.

Þá hljóp Haraldur og skjótt fram um hestinn og langt frá fram og svo til skeiðsenda. Kom hann miklu fyrr svo að hann lagðist niður og spratt upp og heilsaði Magnúsi er hann kom. Síðan fóru þeir heim til bæjar. En Sigurður konungur hafði verið meðan að messu og vissi hann þetta eigi fyrr en eftir mat um daginn.

Þá mælti hann reiðulega til Magnúss: «Þér kallið Harald heimskan en mér þykir þú fól. Ekki kanntu utanlandssiðu manna. Vissir þú það eigi fyrr að utanlandsmenn temja sig við aðrar íþróttir en kýla drykk eða gera sig æran og ófæran og vita þá ekki til manns? Fá Haraldi hring sinn og apa hann aldrei síðan meðan mitt höfuð er fyrir ofan mold.»

28. Frá sundför

Þá er Sigurður konungur var eitt sinn úti á skipum og lögðu þeir í höfn og kaupskip nokkuð hjá þeim, Íslandsfar. Haraldur gilli var í fyrirrúmi á konungsskipi en næst honum fram frá lá Sveinn Hrímhildarson. Hann var sonur Knúts Sveinssonar af Jaðri. Sigurður Sigurðarson var lendur maður ágætur. Hann stýrði þar skipi.

Það var einn fagran veðurdag, var heitt skin, fóru menn á sund margir bæði af langskipum og af kaupskipinu. Íslenskur maður einn, sá er á sundi var, henti gaman að því að færa niður þá menn er verr voru syndir. Menn hlógu að því. Sigurður konungur sá það og heyrði. Síðan kastaði hann af sér klæðum og hleypur á sundið og lagðist að Íslendingi, grípur hann og færði í kaf og hélt niðri og þegar annað sinn er Íslendingur kom upp færði konungur hann niður og hvert sinn eftir annað.

Þá mælti Sigurður Sigurðarson: «Skulum vér konung láta deyða manninn?»

Maður segir að engi var allfús til að fara.

Sigurður mælti: «Verða mundi maður til ef Dagur Eilífsson væri hér.»

Sigurður hljóp síðan fyrir borðið og lagðist til konungs, tók til hans og mælti: «Týn eigi manninum. Sjá nú allir að þú ert miklu betur syndur.»

Konungur mælti: «Lát mig lausan Sigurður. Eg skal bana honum. Hann vill kefja menn vora.»

Sigurður svarar: «Við skulum nú leika fyrst en þú Íslendingur leita til lands.»

Hann gerði svo en konungur lét Sigurð lausan og lagðist til skips síns. Svo fór og Sigurður. En konungur mælti, bað Sigurð eigi verða svo djarfan að koma í augsýn sér. Það var sagt Sigurði og gekk hann upp á land.

29. Frá Haraldi og Sveini Hrímhildarsyni

Um kveldið þá er menn fóru að sofa léku sumir menn uppi á landi. Haraldur var í leikinum en bað svein sinn fara út á skip og búa hvílu sína og bíða sín þar. Sveinninn gerði svo. Konungur var sofa farinn. En er sveininum þótti lengjast þá lagðist hann upp í rúmið Haralds.

Sveinn Hrímhildarson mælti: «Skömm mikil er að fara til þess heiman frá búum sínum dugandismönnum að draga hér knapa upp jafnhátt sér.»

Sveinninn svarar, segir að Haraldur vísaði honum þangað.

Sveinn Hrímhildarson mælti: «Oss þykir engi ofgæðakostur í að Haraldur liggi hér þótt hann dragi eigi hér þræla og stafkarla» og grípur hann upp riðvöl og laust í höfuð sveininum svo að blóð féll um hann.

Sveinninn hljóp þegar upp á land og segir Haraldi hvað í var orðið. Haraldur gekk þegar á skip út og aftur í fyrirrúmið. Hann hjó með handöxi til Sveins og veitti honum sár mikið á hendi. Gekk Haraldur þegar á land upp. Sveinn hljóp upp á land eftir honum. Drifu þá til frændur Sveins og tóku Harald höndum og ætluðu að hengja hann. En er þeir bjuggu þar um þá gekk Sigurður Sigurðarson út á skipið Sigurðar konungs og vakti hann.

En er konungur brá augum í sundur og kenndi Sigurð mælti hann: «Fyrir þetta sama skaltu deyja er þú komst í augsýn mér því að eg bannaði þér það» og hljóp konungur upp.

Sigurður mælti: «Kostur er þér þess konungur þegar þú vilt en aðrar sýslur eru nú fyrst skyldri. Far sem skjótast máttu upp á land og hjálp Haraldi bróður þínum. Rygir vilja nú hengja hann.»

Þá mælti konungur: «Guð gæti nú til, Sigurður. Kalla lúðursveininn, lát blása liðinu upp eftir mér.»

Konungur hljóp upp á land en allir er hann kenndu fylgdu honum og þar til er gálginn var búinn. Tók hann þegar Harald til sín en allt fólk þusti þegar til konungs með alvæpni er lúður hafði við kveðið. Þá sagði konungur að Sveinn og allir hans félagar skyldu útlagir fara en við bæn allra manna fékkst það af konungi að þeir skyldu hafa landsvist og eignir sínar en sárið bótalaust.

Þá spurði Sigurður Sigurðarson ef konungur vildi að hann færi þá í brott.

«Það vil eg eigi,» segir konungur, «aldrei má eg þín án vera.»

30. Jartegnir Ólafs konungs

Kolbeinn hét maður, ungur og fátækur, en Þóra móðir Sigurðar konungs Jórsalafara lét skera tungu úr höfði honum og var til þess eigi meiri sök, en sá hinn ungi maður, Kolbeinn, hafði etið stykki hálft af diski konungsmóður og sagði að steikari hafði gefið honum en hann þorði eigi við að ganga fyrir henni. Síðan fór sá maður mállaus langa hríð.

Þess getur Einar Skúlason í Ólafsdrápu:

Göfug lét Hörn úr höfði
hvítings um sök lítla
auðar aumum beiði
ungs manns skera tungu.
Þann sáum vér er vorum,
válaust numinn máli,
hoddbrjót, þar er heitir
Hlíð, fám vikum síðar.

Hann sótti síðan til Þrándheims og til Niðaróss og vakti að Kristskirkju.

En um óttusöng Ólafsvökudag hinn síðara þá sofnaði hann og þóttist sjá Ólaf hinn helga koma til sín og taka hendi sinni í stúfinn tungunnar og heimta. En er hann vaknaði þá var hann heill og þakkaði vorum drottni feginsamlega og hinum helga Ólafi konungi, er hann hafði heilsu og miskunn af þegið, hafði farið þannug mállaus og sótti hans heilagt skrín en þaðan fór hann heill og skorinorður.

31. Jartegnir Ólafs konungs

Ungan mann nokkurn, danskan að öðli, tóku heiðnir menn og fluttu til Vindlands og höfðu þar í böndum með öðrum herteknum mönnum. Nú var hann um daga í járni einn saman varðveislulaus en um nætur þá var sonur bónda í fjötri með honum, að hann hlypist eigi frá honum. En sá aumi maður beið aldrei svefn né ró fyrir harms sakir og sorga, hugleiddi marga vega hvað til hjálpar væri, kvíddi mjög ánauð og hræddist bæði sult og píslir og vænti engrar afturlausnar af frændum sínum, fyrir því að þeir höfðu tvisvar sinnum áður leystan hann af heiðnum löndum með fjárhlut og þóttist hann því vita að þeim mundi þá þykja bæði mikið fyrir því og kostnaðarsamt að ganga undir hið þriðja sinn. Vel hefir sá maður er eigi bíður slíkt illt þessa heims sem hann þóttist þá beðið hafa.

Nú gerðist honum engi annar til en hlaupast í brott og komast undan ef þess verður auðið. Því næst ræður hann til á náttarþeli og drepur son bónda, höggur af honum fótinn og stefnir svo til skógar með fjötri undan. En um morguninn eftir er lýsti, þá verða þeir varir við og fara eftir honum með hundum tveimur er því voru vanir að spyrja þá upp er undan hljópust, finna hann í skógi þar sem hann lá og leyndist fyrir þeim. Nú taka þeir hann höndum og berja og beysta og leika alls konar illa. Síðan draga þeir hann heim, ljá honum lífs að hvoru nauðula og engrar annarrar miskunnar, draga hann til písla og settu hann þegar í myrkvastofu þar er fyrir voru áður inni sextán, allir kristnir menn, bundu hann þar bæði í járnum og öðrum böndum sem fastast máttu þeir. Svo þótti honum vesöld og píslir þær er fyrr hafði hann haft sem það væri skuggi nokkur þess alls hins illa er fyrr hafði hann haft. Engi maður sá hann augum í þessi prísund, sá er honum bæði miskunnar. Engum manni þótti aumlegt um þann vesaling nema kristnum mönnum er þar lágu bundnir með honum. Þeir hörmuðu og grétu hans mein og sína nauð og ógæfu. Og um dag nokkurn lögðu þeir ráð fyrir hann, báðu að hann hétist hinum helga Ólafi konungi og gæfist til embættismanns og hans dýrðarhúsi ef hann kæmist með guðs miskunn og hans bænum úr þeirri prísund. Nú játaði hann því feginn og gafst þegar til þess staðar sem þeir báðu hann.

Nóttina eftir þá þóttist hann sjá í svefni mann einn, ekki hávan, standa þar hið næsta sér og mæla við sig á þá leið: «Heyrðu hinn aumi maður,» segir hann, «hví rístu eigi upp?»

Hann segir: «Lávarður minn, hvað manna ertu?» segir hann.

«Eg em Ólafur konungur er þú kallaðir á.»

«Ó, hó, lávarður minn góður,» segir hann, «eg vildi feginn upp rísa ef eg mætti en eg ligg járnum bundinn og þó í fjötri með þeim mönnum er hér sitja bundnir.»

Síðan heitir hann á hann og kveður svo að orðum: «Stattu upp skjótt og æðrast ekki um. Víst ertu nú laus.»

Því næst vaknaði hann og sagði þá sínum félögum hvað fyrir hann hafði borið. Síðan báðu þeir hann upp standa og freista ef satt væri. Upp stendur hann og kenndi að hann var laus. Nú sögðu félagar hans aðrir og kváðu það honum fyrir ekki koma mundu, því að hurð var læst utan og innan.

Þá lagði orð til gamall maður er þar sat meinlega haldinn og bað hann ekki tortryggja þessa manns miskunn er hann hafði lausn af fengið «og svo að því mun hann jartegn við þig gert hafa að þú skulir hans miskunnar njóta og héðan laus verða en eigi þér til meiri vesaldar og písla. Nú lát við fimt,» segir hann, «og leita dura og ef þú mátt út komast, þá ertu hólpinn.»

Svo gerði hann, finnur dyrnar þegar opnar, stekkur út jafnskjótt og brott í skóginn. Þegar þeir urðu varir þessa þá slógu þeir hundum sínum og fóru eftir sem snúðulegast en hann liggur og leynist og sér gerla, vesall karl, hvar þeir fara eftir honum. Nú villast hundar þegar farsins er þeir liðu að honum en þeim öllum villtist sýnin svo að engi maður mátti finna hann og lá hann þar fyrir fótum þeim. Ventu þeir þá heim aftur þaðan og veinuðu mjög og hörmuðu er þeir máttu eigi fá staðið hann.

Ólafur konungur lét honum ekki tortíma er hann var til skógar kominn, gaf honum heyrn og heilsu alla er þeir höfðu áður barið höfuð allt á honum og knosað til þess er hann deyfði. Því næst komst hann á skip með kristnum mönnum tveim, þeim er lengi höfðu þar verið píndir, og neyttu þá allir saman þess farskostar sem ákafast og fluttust þá áleiðis af þeim hlaupstígi. Síðan sótti hann til þess helga manns húss, var þá heill orðinn og herfær.

Þá iðraðist hann sinna heita, gekk á orð sín við þann milda konung og hljópst þá á brott um dag og kom að kveldi til bónda eins, þess er honum veitti herbergi fyrir guðs sakir. Síðan um nóttina er hann var í svefni sá hann meyjar þrjár ganga til sín, fríðar og fagurbúnar, og ortu orða á hann þegar og börðu hann miklum ávítum er hann skyldi svo djarfur gerast að hlaupa frá þeim góða konungi er honum hafði svo mikla miskunn veitt, fyrst er hann leysti hann úr járnum og allri prísund, og firrast þann ljúfa lávarð er hann hafði á hönd gengið.

Því næst vaknaði hann felmsfullur og stóð upp þegar árdegis og sagði húsbúanda en sá góði búandi lét hann engu öðru við koma en venda heim aftur til þess helga staðar. Sá maður ritaði að upphafi þessa jartegn er sjálfur sá manninn og á honum járnastaðinn.

32. Efldur haupstaður í Konungahellu

Sigurður konungur lét svo mjög efla kaupstaðinn í Konungahellu að þá var engi ríkari í Noregi og sat þar löngum til landsgæslu. Hann lét húsa konungsgarð í kastalanum. Hann lagði á öll héruð, þau er í nánd voru kaupstaðinum, og svo á býjarmennina, að á hverjum tólf mánuðum skyldi hver maður níu vetra gamall eða eldri bera til kastalans fimm vopnsteina eða aðra fimm staura og skyldi þá gera hvassa í annan enda og fimm alna háva.

Þar í kastalanum lét Sigurður konungur gera Krosskirkju. Hún var trékirkja og mjög vönduð að efnum og smíð. Þá er Sigurður hafði verið konungur fjóra vetur og tuttugu var vígð Krosskirkja. Þá lét konungur þar vera kross hinn helga og marga aðra helga dóma. Sú var kölluð Kastalakirkja. Þar setti hann fyrir altari tabolu er hann hafði gera látið í Grikklandi. Hún var ger af eiri og silfri og gyllt fagurlega, sett smeltum og gimsteinum. Þar var skrín er Eiríkur eimuni Danakonungur hafði sent Sigurði konungi og plenarium ritinn gullstöfum er patríarki gaf Sigurði konungi.

33. Andlát Sigurðar konungs

Þremur vetrum síðar en Krosskirkja var vígð fékk Sigurður konungur sótt. Þá var hann staddur í Ósló. Hann andaðist þar einni nótt eftir Maríumessu í föstu. Hann var jarðaður að Hallvarðskirkju, lagður í steinvegginn utar frá kórinum hinum syðra megin.

Magnús sonur Sigurðar konungs var þar þá í býnum. Tók hann þar þegar allar konungs féhirslur er Sigurður konungur andaðist.

Sigurður var konungur yfir Noregi sjö vetur og tuttugu. Hann var að aldri fertugur. Og var hans öld góð landsfólkinu. Var þá bæði ár og friður.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann