Einar H. Kvaran

Fyrirgefning

Sigga litla bældi sig niður í rúmið, andfætis við aðra vinnukonuna. Hún togaði snarpa vaðmálsrekkjuvoðina og þungr og hart brekanið upp yfir höfuð sér og hélt brúðuslitrinu upp að brjóstinu á sér. Æfinlega hafði hún getað sofnað, þegar hún hafði brúðuna í faðminum. En nú gat hún það ekki.

Því að húsfreyjan var dáin, hún Ólöf.

Það gerði nú minst til, þó að hún Ólöf væri dáin. Að minsta kosti var Siggu litlu engin eftirsjón að henni. Hún Gunna átti nú að verða ráðskona, stúlkan, sem Sigga litla svaf hjá — það hafði hún sagt henni sjálf. Og hún hafði aldrei verið vond við hana áður og líka lofað að vera ekkert vond við hana framvegis.

Nei, það gerði Siggu litlu ekkert til, þó að hún Ólöf væri dáin… En hún Ólöf hafði verið svo vond, svo fjarskalega vond. Sigga litla sá, að það gat ekki annað verið, en að hún færi í vonda staðinn.

Hún Ólöf hafði sagt henni það svo oft, henni Siggu litlu, að hún færi til helvítis þegar hún væri dáin, ef hún gerði nokkuð ljótt eða talaði nokkuð ljótt. Og Ólöf sjálf hafði gert svo margt ljótt og alt af verið að tala svo ósköp ljótt. …Og nú var hún dáin…

Sigga litla hafði líka heyrt það í lestrinum — eða hún hafði heyrt einhvern segja það, hún mundi ekki hvern — að Jesús Kristur hefði sagt, að það, sem mennirnir gerðu einum af hans minstu bræðrum, það gerðu þeir honum… Hún var nú reyndar ekki bróðir Jesú Krists, það sá hún. En hún var áreiðanlega systir hans… Og það gat ekki verið neitt betra að berja litlar stúlkur en litla drengi — svona gríðarlega eins og hún Ólöf hafði barið hana.

Og hún hafði ekkert til unnið… Hún hafði ekki getað gert að því, að undirskálin brotnaði, þegar hún var að þvo bollapörin. Það var brestur í allri undirskálinni á undan. Hún hafði séð það sjálf, áður en hún fór að þvo upp. Það mátti ekkert við hana koma. Hvernig gat hún þá gert að því þó að undirskálin hrykki sundur, þegar hún fór að þurka hana?

Og svo hafði hún Ólöf barið hana utan á vangann, svo að hún rauk um koll þarna á búrgólfinu; og svo hafði hún barið hana aftur í bakið á búrgólfinu; og svo hafði hún líka stigið ofan á fótinn á henni, svo henni var ilt í fætinum lengi á eftir.

Það var ekki fallegt að berja Jesúm Krist svona og stíga svona ofan á fótinn á honum… og það var alveg sama sem hún hefði farið svona með hann, fyrst hún hafði farið svona með hana, þó að hún væri ekki bróðir hans, heldur bara systir hans. Það var svo sem auðvitað, hvernig fyrir henni Ólöfu færi, þar sem hún hafði verið svona óttalega vond.

Og hvað gat hún gert að því, þó hún væri rennandi vot á kveldin, þegar alt af var verið að segja henni að sækja vatn? Ekki gerði hún það að gamni sínu að láta skvettast út úr fötunni ofan á sig og standa svo í votu allan daginn og vera svo skömmuð og stundum flengd á kvöldin fyrir að vera vot.

Barnshugurinn varð harður eins og gömul syndarasál. Sigga litla gleymdi alveg brúðunni og bylti sér á allar hliðar í rúminu, án þess að hirða minstu vitund um hana.

Hún rifjaði upp fyrir sér, hvað Ólöf hefði alt af verið sér vond, síðan hún kom í fyrra á krossmessunni með litla fataböggulinn bundinn við bríkina á söðlinum, sem hún var sjálf bundin í, og brúðuna bundna við þríhyrnuna, sem hún hafði á herðunum.

„Þú verður flengd, kindin, ef þú verður með nokkura óþekt hér“, hafði Ólöf sagt við hana fyrsta kvöldið, sem hún var hjá henni. „Eg hefi haft sveitarkrakka fyr og veit, hvernig þeir eru, ekki sízt þegar þeir eru nýkomnir frá móður sinni, og eg kann líka lagið á þeim. Eg bara flengi þá, ef þeir eru með nokkura óþekt, bara flengi þá“.

Og Sigga litla leit út undan sér á hendurnar á henni — stórar, blárauðar, hnúamiklar krumlur — og henni fanst, að Ólöf mundi aldrei nota þær til neins annars en að flengja með þeim lítil börn.

Oft hafði hana deymt þessar blárauðu hendur — dreymt, að þær kæmu inn um vegginn hjá rúminu og ætluðu að fletta ofan af henni fötunum til að flengja hana — að hún stæði frammi á klettasnös og að þær kæmu upp á brúnina og ætluðu að kippa henni ofan — og svo margt og margt fleira um þær. Og alt af ætluðu þær að gera henni eitthvað ilt.

Og ekki hafði hún verið síður hrædd við þær í vöku en svefni. Alt af hafði hún reynt að vera svo langt burtu frá þeim, sem hún gat, Bezt var, þegar hún var send eitthvað út úr bænum, og hendurnar voru einhverstaðar inni í baðstofu eða búri — ágætt að láta senda sig eftir vatni — ef hún bara hefði svo ekki verið flengd fyrir að verða blaut. Og hún hafði falið sig fyrir þeim, hve nær sem hún gat komið því við, ýtt sér inn í eitthvert skot, ef nokkurt skot var nálægt henni hve nær sem hendumar fóru fram hjá.

Seinast kvöldinu áður en Ólöf dó, hafði hún komið inn, meðan Sigga litla var að borða grautinn úr skálinni sinni, og önnur höndin hafði tekið framan í brjóstið á henni og hin hafði tekið af henni grautarskálina, og hún fann enn eymsli á brjóstinu eftir höndina. Og svo hafði Ólöf lotið að eyranu á henni, og Siggu litlu hafði fundist kuldi fara inn um eyrað á sér og inn í höfuðið og ofan í herðarnar og niður alt bakið. Og hún Ólöf hafði hálf-hvíslað þessu að henni:

„Eg ætla nú að flengja þig á morgun, kindin, fyrir að svíkjast um og láta ærnar fara í túnið. Eg ætla að flengja þig dálítið fastara en eg er vön. Þú getur nú hugsað um það í kvöld í rúminu og líka á morgun, meðan þú ert að klæða þig, hvernig það muni vera, að vera flengd fastara en eg er vön að flengja þig“.

Og hún hafði þó ekki getað gert að því, að ærnar fóru í túnið. Því að þær höfðu farið í túnið, meðan hún var að bera móinn úr skálanum inn í eldhúsið. Og henni hafði verið sagt að bera móinn.

En hún hafði ekki verið flengd daginn eftir. Þegar hún var vöknuð um morguninn og farin að hugsa um, að nú ætti í dag að flengja sig fastara en áður, þá hafði hún tekið eftir því, að fólkið, sem var inni í baðstofunni, talaði svo lágt og læddist á tánum, ef það gekk nokkuð um. Og svo hafði hún Gunna komið til hennar og sagt í hálfum hljóðum, að ósköp væri hún nú búin að sofa lengi, tetrið, enginn hefði munað eftir að vekja hana. Og það væri af því, að hún Ólöf væri dáin, hefði orðið bráðkvödd um nóttina.

„Langar þig til að sjá hana, Sigga litla?“ hafði Gunna sagt svo.

„Getur maður flengt, þegar maður er dáinn?“ hafði Sigga litla sagt þá. En Gunna hafði sagt henni, að vera ekki að þessari dæmalausri vitleysu; hvort hún skildi það ekki, að hún Ólöf væri dáin, komin til guðs. — Og Sigga litla sá það strax, að þetta var dæmalaus vitleysa; það getur enginn maður flengt, þegar maður er dáinn.

Og Gunna tók hana upp úr rúminu og sagðist skyldi bera hana. Hún var alt af svo góð við hana, hún Gunna. Hún bar hana inn í húsið hennar Ólafar. Ólöf lá þar á fjöl með brekan yfir sér, og Sigga litla sá móta fyrir fótunum. Óttalega voru þeir stórir, og þungt að láta þá stíga ofan á sig. Klútur var ofan á andlitinu á henni, og Gunna brá honum frá. En hvað nefið á henni var stórt. Hendurnar voru undir brekaninu. Það var gott, að hún Gunna fletti ekki ofan af þeim.

Sigga litla sá opna bók ofan á brjóstinu á henni Ólöfu. — „Til hvers er þessi bók þarna?“ spurði hún. „Hún Ólöf les aldrei í bókum“.

„Það eru Passíusálmarnir, barn“, sagði Gunna. „Þeir eru lagðir þarna til þess að ekkert óhreint komist að líkinu.

„Hvernig óhreint? Engin óhrein föt?“

„Nei, barn. Engir illir andar“.

Það var gott, að hún Ólöf var dáin. Það var alveg rétt handa henni. Nú gat hún ekki flengt hana framar, af því að þegar maður er dáinn þá getur maður ekki flengt. Nú var búið að bera hana fram í stofu og láta hana þar ofan í kistu. En það var ekki búið að láta lok yfir kistuna. Það átti að gera á morgun, hafði Gunna sagt henni. Og þá átti að fara burt með hana Ólöfu og láta hana ofan í gröf… Og ljóti karlinn tók hana í gröfinni og fór með hana heim til sín… Það var ekki satt, sem Gunna hafði sagt, að hún Ólöf væri komin til guðs. Það vissi Sigga litla vel, af því að hún Ólöf hafði verið svo vond. Og það var alveg mátulegt handa henni, fyrst hún var svona vond. Og hún var líka þarna fram í stofunni í kistunni, en ekki hjá guði.

Það var óttalega vont að vera hjá ljóta karlinum — lifandi-skelfing heitt… Það var líklega eins heitt eins og í hvernum fyrir utan túnið… Eða eins og í sjóðandi grautarpotti… Og maður komst aldrei upp úr… aldrei nokkurn tíma. …Og svo gat maður líklegast ekki sofið þarna lifandi vitund, vakti þarna dag og nótt… þar sem var svona lifandi-skelfing, óttalega, óttalega heitt… Og komst aldrei upp úr…

En guð minn góður… Ekki mátti láta hana Ólöfu fara þarna ofan í hverinn eða grautarpottinn, og komast aldrei upp úr. Hún hafði ekki verið svo vond. Hún hafði ekki alt af verið að flengja hana. Hún hafði gefið henni að borða. Og einu sinni, þegar hún hafði verið óttalega vot og henni var óttalega kalt — meira kalt en nokkurn tíma annars — hafði hún ekki flengt hana og ekkert verið vond við hana, heldur sagt henni að fara að hátta og hjálpað henni úr fötunum og breitt ofan á hana rúmfötin og gefið henni flóaða mjólk í rúmið.

Nei, nei… hún Ólöf mátti ekki með nokkuru lifandi móti fara í vonda staðinn.

„Jesús Kristur, gerðu það fyrir mig, láttu hana ekki fara þangað“.

Hvað var orðið af brúðunni? Hún hafði gleymt henni. Æfinlega hafði hún getað sofnað, þegar hún hafði brúðuna sína hjá sér. Það var undarlegt, að hún skyldi ekki geta það nú. Brúðan var komin langt niður í rúm og Gunna lá með fótinn ofan á höfðinu á henni… En að hún skyldi ekki hafa kafnað, aumingja brúðan.

Hún Ólöf hafði nú einu sinni verið að hugsa um að taka þessa brúðu af henni — láta hana ekkert hafa af henni, nema hausinn. Hún hafði sagt, að það væri nær, að kasta þessum dulum á eitthvert gatið á leppunum hennar. Mikið skelfing hafði Sigga litla orðið hrædd þá. Hvernig gat brúðan verið bara haus? Ekkert barr var bara haus? Þá var hún ekki lengur nein brúða.

Upp frá því hafði Sigga litla aldrei verið með brúðuna á daginn, svo að hún Ólöf skyldi ekki sjá hana, ekki muna eftir henni. Hún hafði falið hana undir undirsænginni í rúminu hennar Gunnu, og ekki tekið hana, fyr en hún var lögst út af á kvöldin. Þá var svo gott að sofna með hana í faðminum.

En að hún færi nú og gæfi henni Ólöfu brúðuna, léti hana í kistuna til hennar, fyrst hana hafði langað til þess að eiga hana… Þá gat vel verið, að hún gæti betur sofnað í vonda staðnum… Ekki veitti henni af að geta sofnað, aumingjanum… Henni var velkomið að fá brúðuna.

Nei, nei… brúðuna!… Gefa henni Ólöfu brúðuna!… Láta brúðuna sína í blárauðar, stóru hendurnar á henni… Og láta hana fara með hana í vonda staðinn og vera þar vonda við hana… Nei, það gerði hún aldrei. Það var ekki heldur til neins. Henni Ólöfu þótti ekkert gaman að brúðu. Hún gat ekkert betur sofnað, þó að hún hefði brúðu. Hana langaði ekkert til að eiga brúðu. Hún ætlaði bara að slíta utan af henni fötin og rífa hana alla sundur, til þess að bæta með henni föt.

Og Sigga litla vafði brúðunni upp að sér fastar en nokkuru sinni áður.

En hvað átti hún að gera? Ekki mátti Ólöf fara í vonda staðinn. Siggu litlu fanst það alt af voðalegra og voðalegra, varð alt af hræddari og hræddari við hugsunina.

Hún las faðir vor og blessunarorðin og signdi sig. Meira hafði hún ekki lært. Og svo bætti hún þessu við:

„Jesús Kristur, gerðu það fyrir mig, láttu hana ekki fara í vonda staðinn… Þá skal eg æfinlega lesa faðir vor á kvöldin og æfinlega vera góð. Það gerir ekkert til, þó að hún væri vond við mig, og þó að hún stigi ofan á mig, og þó að hún flengdi mig. Láttu hana ekki fara þangað, þó að hún gerði þetta. Eg fyrirgef henni það alt saman.“

En það var ekkert víst, að Jesús Kristur gæti afstýrt því, að hún Ólöf færi í vonda staðinn. Ekki átti hann heima niðri í jörðinni… En ljóti karlinn átti heima niðri í jörðunni. Það hafði hún svo oft heyrt. Og hún hafði líka sjálf heyrt til hans þar. Þegar hún hafði farið suður að jarðfallinu þá um vorið, þá hafði hún heyrt til hans langt, langt niðri. Hann hafði sagt „gol-l — gol-l“, alt af verið að segja það. Og þá hafði hún orðið svo óttalega hrædd og hlaupið heim og sagt stúlkunum frá því. Og stúlkurnar höfðu sagt henni, að þetta hefði líklegast verið Ljóti karlinn, og henni væri bezt að fara aldrei þar að jarðfallinu… Og ljóti karlinn, sem átti heima niðri í jörðunni, hann átti allar vondar manneskjur, þegar þær voru komnar í gröfina, og fór með þær heim til sín. Það hafði hún Ólöf sagt henni sjálf… Hvernig átti þá Jesús Kristur að geta hjálpað henni Ólöfu?

Aftur harðnaði hræðsla Siggu litlu. Aftur gleymdi hún brúðunni sinni, bylti sér á alla vegu í rúminu, settist jafnvel upp og hlustaði grandgæfilega á andardráttinn og hroturnar í sofandi fólkinu í baðstofunni, eins og hún ætlaði að fá að heyra hjá því, hvað hún ætti að gera.

Svo lagðist hún aftur út af, tók brúðuna í faðm sér, ýtti sér sem lengst niður í rúmið og togaði brekanið upp yfír höfuð. En sofnað gat hún ekki. Hún gat ekki með nokkuru lifandi móti hætt að hugsa um, hvað hún Ólöf ætti bágt, ef ljóti karlinn færi með hana ofan í þennan óttalega hita, og hún gæti aldrei, aldrei sofnað og kæmist aldrei, aldrei nokkurn tíma upp.

Eftir langa mæðu mundi hún eftir Passíusálmunum aftur. Hún Gunna hafði sagt henni, að þeir væru látnir á brjóstið, til þess að vondir andar kæmust ekki að manni. En þeir höfðu ekki verið látnir ofan á hana Ólöfu í kistunni. Fólkið hafði sungið á þá, áður en hún var borin fram í stofuna í kistuna. En hún hafði tekið eftir því, að svo voru þeir látnir upp á hillu yfir rúminu hennar.

Nú sá hún hvað hún átti að gera, til þess að ljóti karlinn kæmist ekki að henni Ólöfu í gröfinni og Jesús Kristur hefði einhver ráð með að ná henni til sín.

Hún læddist upp úr rúminu, undur-hægt, svo að Gunna skyldi ekki vakna. Og hún laumaðist líka hægt inn eftir baðstofunni og inn í húsið hennar Ólafar, sem nú var mannlaust, og vakti engan. Svo staulaðist hún upp í rúmið hennar og teygði sig upp á hilluna eftir Passíusálmunum. Eftir drykklanga stund var hún komin með þá fram í stofuna.

Ábreiða var lögð yfir kistuna. Sigga litla fletti henni ofan af. Ólöf lá þar undir í nærfötunum. Hendurnar voru krosslagðar fyrir neðan brjóstið, og voru ekki lengur blárauðar, heldur bláhvítar. Sigga litla var ekkert hrædd við þær.

Hún lagði bókina fyrir ofan hendurnar.

Vorsólin var komin upp, skein inn um stofugluggann og varpaði sama geislanum á glóbjartan kollinn á Siggu litlu og bláhvítar hendurnar á Ólöfu. Því að guð lætur sól sína skína á góða og vonda.

— Gunna kiptist við í rúminu, þegar Sigga litla kom við hana með járnkaldar fæturna, en vaknaði ekki að fullu. En hvað Siggu litlu þótti gott að koma ofan í hlýjuna. Og nú sofnaði hún vært með brúðuna í faðminum.

1901

OCR: Stridmann

© Tim Stridmann