1. Meistari Virgilíus hefir samansett marga fræði til skemmtanar mönnum í bók þeirri er Saxafræði heitir. En sögu þá sem nú munu vér byrja fann hann skrifaða á steinvegginum borgar þeirrar er Licibon heitir í Frans. Sá kóngur hét Vilhjálmur enn örvi. Hann átti dóttur kóngs af Lumbardi og er hún eigi nefnd. Þeim varð auðið að eiga tvö börn. Son þeirra hét Hermann. En Herborg hét þeirra dóttir. Hún var fríð og kurteis, vitur og trúlynd, og kæn við allar kvenligar listir. Hermann kóngsson var mikill vexti, fríður sýnum, sterkur að afli, og stöðugur í heitum. Hugþekkur og hæverskur og svo vinsæll að allir unnu honum hugástum. Roðgeir hét jarl er ríki hélt af Vilhjálmi kóngi og sat í kastala þeim er Granukkatis heitir. Hann var spekingur að viti og íþróttamaður svo mikill bæði á bóklistir og riddaraskap að engi maður komst til jafns við hann. Son átti hann þann er Jarlmann hét. Hann var líkur föður sínum bæði að afli og íþróttum, visku og vænleika. Þangað sendi Vilhjálmur kóngur son sinn að nema margháttaða fræði og hæverska hirðsiðu. Og hvatligan riddaraskap. En er kóngs son kom til jarlsins var honum sæmiliga fagnað. Setti jarlinn son sinn honum til þjónustu og öllum sínum mönnum hann að heiðra. Mjög var nær um aldur þeirra kóngs sonar og jarls sonar. Sátu þeir báðir í skóla. Gerðist með þeim kærleikur mikill. Þeir voru næmir. Og skjótir í skilningu. En þá er þeir höfðu yfir farið sjö liberales lét jarlinn kenna þeim riddarligar íþróttir og voru þeir svo fljóttækir að á lítilli stundu var engi sá riddari að nokkura íþrótt þyrfti við þá að prófa. Þeir voru svo jafnir sín í milli að hvergi bar í milli. En þá er þeir voru sextán vetra gamlir þá fannst engi fyrir norðan Grikklands haf sá er þeim væri jafn að fríðleika og íþróttum. En afl og vöxt báru þeir yfir aðra menn. Og með þessu gjörast þeir fóstbræður. Hér með unnust þeir svo mikið að hvorgi þóttist þráliga af öðrum sjá mega. Og héldu það lengi.
2. Það ber nú fyrst til tíðinda að kóngurinn Vilhjálmur tekur sótt þá er hann leiddi til bana. Og var hans útferð sæmiliga ger sem kristnum kóngi heyrði. Voru þá menn gjörðir til roðgeirs jarls að Hermann kóngs son skyldi heim koma og taka sitt ríki. Og þegar bjóst jarlinn heiman og með honum kóngs son og hans fóstbróðir með fríðu föruneyti. En er þeir komu til Savis var þeim sæmiliga fagnað.
Urðu allir fegnir heimkomu kóngs sonar. Var þá þing stefnt og Hermann til kóngs tekinn yfir öll þau ríki er faðir hans hafði styrt. Jok hann þegar nafnbætur mörgum mönnum og gerði sér góða menn að vinum. Litlu síðar fór rodgeir jarl heim til síns lands með sæmiligum gjöfum. Skildu þeir kóngur með vináttu en Jarlmann var eftir og margir riddarar með honum hjá kóngi. Setur hann nú og semur sitt ríki sem góðum kóngi sómir. Herjar á heiðnar þjóðir og eykur svo ríki sitt og varð af slíku ágætur og sigursæll. Eitthvert sinn hélt kóngur ríka veislu. Var þá gleði mikil í kóngs höll. Hermann kóngur mælti þá til manna sinna “hvar viti þér góðir drengir þá tvo menn að jafnast megi við okkur fóstbræður eður nokkurn svo ríkan kóng að jafnast megi við vort ríki”. Flestir sögðu að sá mundi eigi auðfundinn. Jarlmann gaf sér fátt að. “því leggur þú ekki til fóstbróðir” segir kóngur. “þau eru mörg orð” segir Jarlmann “að eigi ligja svör til. Því ef þarfleysa er töluð. Þá hæfir mönnum eigi að róma þann”. “því viltu óvirða mín orð” segir kóngur. “eigi vil eg það gjöra” segir Jarlmann. “en með orlofi yðru mun eg svör gefa yðru máli og máttu til þess ætla að fleiri menn þykjast nokkurs verðir en þú einn. Veit eg að þú hefir marga hluti fyrir aðra menn. En þó er sá hlutur er þig vantar. Og síst má góður höfðingi missa. En það er kvonfang er mest bætir hvers manns ráð, ef gæfan vill með ganga”. “eigi veit ek” segir kóngur “þá konu að mér sé happ í þó að eg fenga. En nefna muntu mega nokkura”. “með því að þú vilt þetta til umtals leggja. En það er svo um konur sem um karla að allir þykjast nokkurs verðir þó að eigi sé þínir líkar. Ein jungfrú er út í Myklagarði er heitir Ríkilað. Hennar faðir heitir Dagur. En öðru nafni Michel. Hann er keisari fyrir utan hafið. Í hvern stað mundi vaxa yður virðing ef þér fengið þessa jungfrú. Því það hefi eg með sönnu frétt að engi í veröldu er henni jafnfríð. Né svo listug á allar menntir. Hún er svo góður læknir að hún vinnur bót hvers manns meinlæti ef lífs verður auðið. Á hennar handarbaki enu hægra er einn kross litur sem gull. Með því marki var hún fædd. Til hafa orðið kóngar og kónga synir að biðja hennar og hefir hún öngvan viljað eiga. En faðir hennar hefir gefið henni orlof til að eiga þann er hún vill. Þann sem honum þykir sér smánarlaust að eiga fyrir mág”. Kóngur brosti að orðum hans. Og féll tal þeirra niður að sinni.
3. Litlu síðar voru þeir fóstbræður á einmæli og mælti kóngur svo til Jarlmanns “eigi er mér alþingis úr minni fallin jungfrú sú er þú nefndir fyrir mér. Og það mikla hól er þú settir á hana. Og því vil eg senda þig til Miklagarðs að forvitnast hvort hér er svo mikið til haft sem frá er sagt, og biðja hennar mér til handa. Ef þér líst mér það nokkur sómi. Því að þú kannt þessa hluti glögt að sjá, en eg trúi þér betur en öðrum mönnum bæði um þetta og alt annað”. “Skyldur er eg að fara” segir Jarlmann “þangað sem þú sendir mig. En ekki kanntu stórlæti hennar ef þú ætlar að hún muni með sendiboðum unnin verða”.
“ekki vil eg lengi vera vonbiðill hennar” segir kóngur “en ef þér líst hún vel og þó eigi við mitt hæfi, þá máttu biðja hennar þér til handa, og mun eg veita þér þar til minn styrk”. “Ekki þarf til þess að tala” segir Jarlmann. “en vel þætti mér ef sjá ferð tækist vel þínna vegna”. En hvort sem þeir tala hér um fleira eður færra, þá réðst Jarlmann undir ferð þessa. Og býst hann nú af landi í burt með v skipum og miklum fékostnaði og góðu föruneyti. Tekur hann nú orlof af kóngi þegar að hann er búinn. Hann gekk í kastalann til systur hans og bað hana vel lifa. Hún spurði hvert hann skyldi fara. Hann segir henni af eð ljósasta. “mikið ætli þið ykkur” segir hún. “enda eru þið miklir. Ekki hefir hún laus legið fyrir hingað til. En mikið happ væri í að fá slíka. Hér er gull er eg vil fá þér. Og ef þú kemur því á fingur henni og heldur að svo orni þá mun hún þeim unna sem þú vilt. En til þessa skylda eg öngum manni trúa nema þér”. Síðan skildu þau. Því næst var Jarlmann á skipi og báðu allir menn hann vel fara og heilan aftur koma. Létu þeir í haf og fórst þeim vel. Og segir ekki af þeirra ferð fyrr en þeir komu við Grikkland. Lagði Jarlmann skipum sínum í leynihöfn nokkura og lést vera kaupmaður. Hann segir sínum mönnum að hann vildi ganga í borgina, og kvað ekki á dag um nær hann mundi aftur koma. Bað hann þá bíða sín þar til er hann kæmi aftur og gjöra lítið um sig. Síðan fer Jarlmann í borgina og breytir nú nokkuð sínum háttum. Hefir hann óríkmannligann búning, gengur við staf, og lætur krankliga. Fréttist fyrir hversu hann mun auðveldliga ná fundi jungfrúinnar. En honum var sagt að engi útlendur maður mætti koma í hennar kastala. Hann spurði til hverrar kirkju að hún gengi oftast til messu og það fékk hann að vita. Og til þeirrar kirkju fór hann að næsta hátíðisdegi og sat þar fyrir kirkjudyrum.
4. Þenna næsta morgin sem sólin skein á borgar turna sér hann opnast þann kastala sem kóngs dóttir sat í. Komu þar út fyrst alls konar leikarar með öll þau hljóðfæri er menn kunna að nefna. Þar næst gengu fjörtigir vopnaðra manna að ryðja fram veginn. Þá gengu xv munkar og sungu processio.þeir voru allir geldir og gamlir. Þar næst gengu sextigir meyja m og þar utan hjá xii stívarðar og báru eitt pell á stöngum. Þar næst riðu iiii markgreifar og reiddu einn glerhimin. Og þar upp yfir fló fuglinn Fenix. Er fegurstur er allra kinda í veröldinni. Og hér undir gekk jungfrúin Ríkilað. Iiii hofmenn leiddu hana hennar náfrændur. Hér eftir gekk allur almúginn. Margar ríkar frúr héldu upp hennar klæðum. Þessi skari nálgaðist skjótt musteris dyrnar. En hversu sem stungið var eður stappað, stautað eður bautað. Sat Jarlmann sem áður þó að aðrir hrykki frá. Allt þar til að jungfrúin kom þar gagnvert sem hann var. Kastar hann sér niður fyrir hennar kné og biður hana fyrir guðs skyld að veita sér nokkura miskunn. Segist vera mjög krankur maður. Hún leit til hans og bað eina af sínum meyjum að fylgja honum heim til síns kastala. Og svo gerði hún. En jungfrúin stóð að tíðum uns lokið var. En svo var hennar andlit sveipað með silki og lín að engi maður mátti hennar ásjónu sjá. Síðan gengur hún heim í sinn kastala. En því næst var matur til reiða. Sat jungfrúin til borðs fram yfir miðjan dag. En síðan gekk hún í sjúkra manna hus og skoðaði meinlæti þeirra manna sem undir hennar lækningu voru. En því næst spurði hún að þeim kranka manni að hana hafði fyrir skemmstu beðið miskunnar. Jarlmann gekk fram og laut henni. Hún spurði hann að nafni, og hvað manna hann væri. Hann kveðst vera einn kaupmaður ættaður af Frakklandi. Hún spurði hvað honum væri til meins. Hann kvað sér margt að meini. En kveðst þó ógjörla vita upprás sóttar sinnar, því að hann kveðst hafa hroll mikinn og svefnleysi.
5. Nú settist Ríkilað niður hjá honum og skoðaði sóttarfar hans, augnabragð og andardrátt. Hún horfði á hann lengi og mælti síðan. “eigi get eg fundið sótt í líkama þínum nema sú að þú gjörir þér upp. Og sé það hugsótt þín eður þú vilir gjöra til ginninga við mig”. “Ekki er eg til þess fær frú” segir hann. “en nærri geti þér því að eg hefi hugsótt. Og væntir mig að þér getið hana læknað”. “þú munt vera góðra manna” segir hún, “því að þú hefir mikilfengligt andlit og yfirbragð. En nafn þitt hefir þú eigi sagt mer”. “eg vil hvortveggja gjöra í yðru orlofi” segir hann. “vel má eg það heyra” segir hún. “Jarlmann er nafn mitt” segir hann. “en Roðgeir heitir faðir minn, jarl í Saxlandi. En hugsótt mín er mest af því að eg hugsaði um hversu eg skylda ná yðrum fundi. Og hefir nú mikið hægst um síðan eg náði yðrum fundi. En þó er en eigi fullbætt fyrr en eg veit hver mín erindis lok verða”. “nóg hefir þú til unnið” segir hún “að þú skilaðir eigi fleirum erindum, svo sem þú hefir mig svikið. Og að því mun þér verða. Ef faðir minn verður var við”. “ef eg er fyrir þetta drepinn” segir hann, “þá mun skammt að bíða áður en mín mun grimmliga hefnt verða, en þér mun lítill heiður í aukast. Þó að þú látir drepa mig, þann sem gengið hefir á þitt vald sjálfviljandi. Væri hitt tiltækiligra að freista ef eg gæti nokkura bót á unnið því meini sem mörgum þykir þú mjög söknuð í”. “það kom mér í hug” segir hún “þegar eg sá þig í fyrsta sinni að þú mundir eitthvert mikið erendi til mín eiga, hvernin sem það lyktast. Því skaltu dveljast hér nokkura stund og tala í orlofi það sem þér vel sómir. Og seg oss tíðindi af öðrum löndum”. Jarlmann þakkar henni. “en ekki mun eg lengi fresta að birta yður mín erendi. Mig sendi til yðar sá kóngur er Hermann heitir. Hann ræður fyrir Frakklandi, hverjum manni vænni og merkiligri. Hann vill biðja yðvar. Ef yðar vili vildi þar til falla með samþykki föður yðvars og væntir mig að eigi muni önnur jungfrú betur gift, því að hann veit eg alla hluti þá til hafa sem réttan höfðingja má prýða, vöxt og vænleika. Hæversku og riddaraskap ber hann langt af öllum þeim mönnum sem eg hefi sé’”. “heyrt hefi eg” segir Ríkilað “það sagt, og leyfa þann mann margir menn en þó hafa til orðið þeir menn að leita þessara mála við oss að bæði eru ríkari og oss kunnigri að mörgum góðum hlutum. Og þóst eigi ofgóðir að tala sitt erendi og hefir oss eigi sýnst það ráð upp að taka”. “sagt hefir mér það áður verið” segir Jarlmann. “og þykir mörgum manni yður það mjög yfirgefast. Og mjög óvísligt að neita gæfunni þá er hún býðst en vita ei hvað við tekur. Yðar faðir er nú gamall og veit eigi nær frá fellur, og við hvað er þá að styðjast, neita mörgum hæverskum manni. Og er þar þá ekki vináttu von. Ef þér þurfið nokkurs við. En dælla mun þykja við að leika ef þú ert ein til forstöðu. Tak heldur ráð mitt. Gifst heldur mínum fóstbróður, og máttu þá óhrædd um þig vera fyrir hverjum manni í veröldunni”.
“Mjúka tungu hefir þú” segir hún “og mikinn fullting veitir þú þínum fóstbróður. En eigi munu við þessu ráða svo skjótt”. En því næst var þeim tekið öl og matur, og töluðu þann dag allan, og var jafnan eð sama í skrafi þeirra. Spurði hún hann margra hluta þeirra er fróðleikur var í. Og leysti hann það allt sköruliga. Og fannst Ríkilað mikið um vitsmuni hans og klerkdóm.
6. Þrjár nætur var Jarlmann í kastalanum hjá jungfrúinni. En því næst beiddi hann orlofs og mælti svo til hennar “nú vil eg frú” segir hann “ganga til lokins um mitt erendi”. “Sveinn” sagði hún. “eg sagða þér það að eg mundi eigi játast þeim manni sem eg hefi aldri séð og ekki nema spurn eina af haft. En ef hann væri svo að öllu sem þú segir frá þá mundi eg eigi framar kjósa”. “það veit trú mín” segir hann “að eg hefir eigi ofsögum af honum sagt. En ef þú vilt selja mér trú þína til þess að gifta þig eigi fyrr en þú sér hann”. “það vil eg gjöra fyrir okkarn vinskap. Ef eg er sjálfráð” segir hún. “Sel mér þar til þitt fingurgull. En eg þér mitt í gegn, að eg skal yður aldri bregðast í trúskap”. “það vil eg gjöra” segir hún. “En ekki veðset eg mig heldur en áður”. Og nú skipta þau sínum gullum. Og dregur hann sitt gull upp á hennar hönd, og heldur að svo að ornar. En síðan gefur hann henni góðan dag og skildu þau að svo mæltu. Fer hann síðan leiðar sinnar, en Ríkilað situr nú eftir. Og finnur hún að hennar skaplyndi er mjög brugðið úr því sem verið hafði, því að hennar lyndi er jafnan þar sem Hermann kóngur er er Jarlmann hafði lofað fyrir henni.
7. Segjum nú frá Jarlmann. Hann fer sína leið, og allt þar til er hann kemur til manna sinna. Hann sér nú menn ríða í móti sér. Þeir voru xii saman, og var einn svo stór að hann hafði öngvan hans líka séð. Jarlmann gekk fyrir þá á veg og heilsaði þeim og spurði þann mikla mann að heiti. “eður hvert ætli þér að fara”. En mikli maður sagðist Starkus heita. “En eg ætla að fara til Miklagarðs og biðja frúr Ríkilað fyrir kóngs son þann er Ermanus heitir utan af Pul”. “þú vart heldur seinn” segir Jarlmann. “því að hún er manni gefin. Og máttu vel aftur ríða” segir hann. “Hver hefir hana fengit” segir Starcus. “Hermann kóngur norðan af Frakklandi. Skal eg nú fara að sækja hann til brúðlaups síns”. “eigi vilda eg að þér sætið einir að því brúðlaupi” segir Starcus. “ekki óttunst vér það” segir Jarlmann. Eftir það skildu þeir. Og sneri Starcus aftur til móts við Ermanus kóngsson þar sem hann lá í höfninni með her sinn. Hann hafði betur en c skipa. Hann segir kóngs syni þessi tíðindi. En hann svaraði. “mjög ertu auðtryggur” segir hann “að þú trúir hverjum hégóma. En þó að satt væri þá skulu vér eigi að síður sækja hana og drepa þá alla sem fyrir vilja standa”. Lætur hann nú leysa sinn skipaflota. Jarlmann kemur nú til sinna manna, og biður þá draga upp strengi sem tíðast. Vinda þeir á segl og sigla þeir til Stólpasunda. Teikna til að þeir eru friðmenn. Er nú upp lokið grindunum. Leggja þeir bryggjur á að fara á land. Jarlmann bað sína menn reisa herbúðir, en hann gekk í borgina við xii mann. Þeir voru vel búnir að klæðum, en vopn höfðu þeir engi. Jarlmann gekk fyrir kóng og kvaddi hann. Kóngur tók vel kveðju hans, og spurði hann að hvað manna hann væri. Hann nefndi sig og föður sinn og sitt ættland. “en þau erendi sem eg á við yður vil eg í yðru lofi einsliga segja yður”. Kóngur kvað það vel mega vera, og bað hann sitja hjá sér. Tóku þeir tal með sér. Segir hann kóngi sitt erendi, slíkt sem hann sagði Ríkilað áður. Og ætla eg að hann hafi fullmjúkliga um talað. En kóngur segir að mikið væri undir henni hvert gjaforð hún hlyti. Jarlmann kvað það mikla gæfuraun að neita oft því sem vel er boðið. “en segja kann eg yður þá sögu hversu sem þér takið mínum erendum. Að óvígur her er kominn í ríki yðvart, og þyki mér sem fari þessara erenda. Og veit eg eigi hvort yður gegnir betur”. “hverir munu þeir vera” segir kóngur. “það er kóngs son utan af Pul, og heitir Ermanus, fullur kaps og metnaðar. Og ekki ætla eg að honum sýnist borgarmenn þínir mjög bláeygir. Ef hans erendum er eigi vel svarað. Hefi eg fulla vissu af því að hann hefir með sér berserki. Og bannsett illþýði”. En er þeir hafa þetta að tala, þá komu menn fyrir kóng og sögðu honum að hafið allt var fullt af herskipum svo vítt sem þeir máttu augu reka. Kóngur bað menn sína vopnast og ganga í kastalana er voru við sundið, og læsa járngrindurnar. Þeir gjörðu svo, og því lá herinn utan grinda um nóttina.
8. Þessu næst komu xiii menn ríðandi fyrir kóng. Þar þekkti Jarlmann Starcus. Hann mælti til kóngs. “sit heill kóngur” segir Starcus. “en öngva var mér skipað þér að bera. Kóngs son sá er Ermanus heitir, hann vill fá yðra dóttur. Ef þér vilið hana með góðvilja gifta. En ef þér vilið þetta eigi, þá megi þér til þess ætla, að yðvart ríki liggur undir ófriði, en yður sjálfum ráðinn dauði. En ef þér hafið lofað hana öðrum manni sem það eð lymska höfuð sagði sem þar situr hjá þér, bað hann yður koma á sinn fund og færa honum þína dóttur. Og yðra kórónu. Og mun hann gjöra yður slíka miskunn sem honum líkar. En öngum þeim manni munu þér hana lofað hafa þeim er honum þykir nokkuð gott til koma”. Þá svaraði Jarlmann. “fleiri menn kunna að hafa stóryrði en þú einn. En svo líst mér á þig að þau muni lítt hjá standa áður en þú fer burt af Grikklandi”. “það mundi eg vilja” segir Starcus “að þú vissir hvern þú hefðir dárað áður en eg kæmi í mitt land”. “ekki er síðar vænna” segir Jarlmann “því að nú er samt í milli okkar”. Kóngur svaraði. “ekki skal níðast á sendimönnum” segir kóngur. “ekki er hann til mín sendur” segir Jarlmann. “hitt er rá’” sagði kóngur. “að Starcus fái nokkura vissu um sín erendi. Og máttu segja það kóngs syni að eigi færi eg honum mína dóttur og eigi mína kórónu. Og eigi hann og engi annar skal kúga mig hér heima í Miklagarði meðan einn skjöldur er óbrotinn”. “heimskur ertu”, sagði Starcus “og illur sjálfum þér. Ekki veistu mikið af vorum styrk. Bláland og Bolgaraland og Svíþjóð enu köldu hefir hann undir sínu valdi. Og ekki skulu þér þora út fyrir yðrar dyr að koma svo langt sem þér gangið yðra erendi. Og þar sem nú hugfestir þú og húkir þar skaltu á morgin bundinn vera og háðuliga dreginn”. En síðan sneri hann í burtu og á móti sínum höfðingja.
9. Jarlmann talar þá til kóngs. “lítt þyki mér þessir menn vanda kveðjur að þér, en mér líst styrkur þínn veikligur. Vil eg nú vita hver svör þér gefið mér um mitt mál og erendi”. “vér munum nú fyrst” segir kóngur “hafa til við vora dóttur og vora ráðgjafa. Skulu þér þá fá yðra vissu”. Síðan lét kóngur kalla sína dóttur og birtir henni af sögðu efni, og bað hana gefa til gott ráð. “því að þú ert bæði vitur og góðgjörn”. “hamingjan mun hér mestu um ráða” segir hún. “ef yður mætti nokkur friður í kaupast þá mundi eg minn vilja þar til sveigja sem yðru skapi gengi næst”. Jarlmann talaði þá “nú er kóngi kunnigt og svo yður jungfrú mitt erendi. Og ef það skal nokkurn framgang fá þá mun eg ganga í lið með kóngi með öllu mínu liði og berjast fyrir skuld míns fóstbróður, og vinna honum svo til konu. En ef þér vilið ekki á mín erendi líta þá mun eg hjá mér leiða þetta stríð en þó skal Ermanus kóngs son eigi hafa frú Ríkilað heim með sér að mér lifanda. Hræðunst eg lítt heiðingja, þó að þeir sé nokkuru fleiri en vér”. Kóngur svaraði. “mín dóttir þætti mér vel gift þótt hún ætti slíkan mann sem mér líst þú vera. Og því leitar þú þessara mála heldur fyrir annan en sjálfan þig”. “því” segir hann “að eg vil eigi vera drottins sviki. En sá maður er heldur við hennar hæfi en eg”. Þá mælti Ríkilað. “þó að vér berjunst við heljarmenn þessa, þá mun oss öngum griðum heitið ef þeir fá sigur. En ef yður verður sigurs auðið þá megu vér Jarlmann tala vort mál í náðum”. “Öngan drátt vil eg þar í hafa” segir Jarlmann. “legg eg hvorki mig né mína menn í hættu við blámenn fyrr en eg veit hvað eg skal upp taka”. En því að Ríkilað var snúið til ástar við Hermann kóng síðan gullið kom á hennar fingur, en margir studdu undir að þetta væri eð mesta happaráð, því keypti hann jungfrúna til handa fóstbróður sínum, og gekk síðan í lið með kóngi. Líður nú af nóttin.
10. Þenna morgin voru menn snemma uppi og tóku ráðagerðir sinar. Jarlmann bað kóng fylkja líði sínu svo nær borginni að þeir mætti hafa gagn af valslöngum þeim sem í turni uppi væri. En hann kveðst mundu fara til skipa sinna, “og veita þaðan áhlaup slíkt sem eg get”. Kóngur gerði nú svo. Nú eru heiðingjar komnir að borginni. Og var það svo mikill fjöldi að allir vellir voru þaktir af herbúðum. Þessu næst kveða við lúðrar. Og því næst flugu spjót og örvar svo að eigi mátti heiðan himin sjá. En gnýr var svo mikill að heyrði xxx mílna. Ermanus kóngs son lætur nú fram bera sitt merki. Og fylgdi sá maður er Runga hét. Hann var hálfþrítugur að hæð xv álna þurfti hann um sig. Þar sem hann var mjóstur. Sá maður bar merki keisarans er Arjus hét manna vaskastur. Tekst nú bardagi og mikið mannfall. Arius ber fram drengiliga merki keisarans. Hann mætir enum sterka Runga. Voru þeirra viðskipti alldrengilig. Arius hjó til Runga og kom á höndina og tók af fyrir framan olbogann. Runga lagði þá til Arius og í gegnum hann og vegur hann upp á spjótinu og merkið með honum og kastar honum langt á völlinn. Keisarinn var þar nær staddur og fleygði gaflaki að Runga og kom í augað og út um hnakkann. Féll Runga þá dauður. Nú kemur Jarlmann með sínum mönnum í opna skjöldu. Og losna blámenn nú á velli. Verður nú mannfall ógurligt. Starcus sér nú hvað Jarlmann hefst að og ríður í móti honum, og leggur hvor sínu spjóti til annars. Og svo hart komu þeir saman að báðir gengu þeir af sínum hestum. Því næst brugðu þeir sínum sverðum. Í fyrsta höggi hjó Jarlmann fjórðung af hjálminum og af Starcus eyrað og kinnina. Svo að jaxlarnir skinu við berir. Starcus hjó í móti og klauf skjöldinn að endilöngu og hljóp sverðið í jörðina. Og tók af Jarlmann tvær tærnar á vinstra fæti. Jarlmann neytti þess að Starcus laut, og setti sverðið á háls honum, svo að höfuðið kom fjarri niður. Þá varð óp svo mikið að blámönnum þótti við því búið að þeir mundi af ganga vitinu. Ermanus sér þessi tíðindi. Eirir honum illa. Hann ríður að keisaranum og lagði til hans svo fast að hann fauk langt í burt af hestinum. Og meir en níu feta stóð fastur hjálmurinn í vellinum, og lá við sjálft að hann mundi hálsbrotna, áður en hans menn gátu hjálpað honum. Xxx riddara drap Ermanus í þessari ferð, og ekki stóð við honum. Jarlmann hefir nú nóg að vinna, því að aldri gefur hann upp að drepa menn. Og nú hefir hann drepið móðurbróður Ermanus kóngs sonar, er Gneisti hét, og fengið hefir Jarlmann nú þrjú sár. Og nú kemur að honum Ermanus kóngs son. Og hjó til hans mikið högg á hjálminn og tók af allt það er nam. En það var hvolfið sem fyrir ofan er höfuðið. Og fylgdi þar svörðurinn, og var það ekki mikið sár, en þó vildi Jarlmann hefna þess. Hjó hann nú til kóngssonar, og af honum höndina hægri fyrir ofan olbogann. Sneri kóngs son þá á flótta. En Jarlmann elti hann meir en tólf ördrög áður en hann náði sverðs höggi til hans, og höggur nú um hans þverar herðar, en hesturinn bar hann undan högginu. Því tók hann í sundur fyrir aftan söðulbogann og af kóngs syni bæði hælbeinin, og féll Ermanus þá, en Jarlmann reið ofan á hann, og brotnaði hann á háls, og lauk hann svo sínu lífi. Brestur nú flótti á heiðingjum, en Jarlmann rekur flóttann. En heiðingjar stefna til skipa sinna, en Jarlmann hafði sett þar fyrir sína menn, og var þeim þangað eigi greiðfært. En Jarlmann sótti svo hart eftir þeim að af öllum þeim mikla her komst engi maður lífs á burt. Og á Jarlmann nú sigri að hrósa. Fara nú heim til borgarinnar, en keisarinn er nú stirður mjög. En svo mikið manntjón hafa þeir fengið að eigi var c manna liðfært af öllum þeirra her. Skiptu þeir nú sínu herfangi, og var það svo mikið gull að pundum mátti telja, en eigi smærra. Ríkilað tekur nú að lækna Jarlmann og marga aðra þá sem mest voru sakaðir. Látum þá nú liggja í sárum meðan auðið verður.
11. Tökum nú til heima í Frakklandi að Hermann kóngur situr í sinni höll einn blíðan dag. Þá lukust upp hallar dyr. Koma þar inn þrettán menn vel vopnaðir. Landres hét sá er fyrir þeim var. Hann kvaddi kónginn. Og mælti síðan. “látið gefa hljóð, meðan eg tala mín erendi. Hér við yðrar hafnir er kominn sá kóngur er Romanus heitir. Hann ræður fyrir Blökkumannalandi. Hann hefir nýtekið við föðurleifð sinni. Hann vill nú sér kvonfangs leita. Hefir hann spurt að þér eigið eina systur unga og listuga, og hafði hann ætlað biðja hennar. En nú hefir hann frétt að þér trúið á hvíta Krist. Vill hann yður tvo kosti gjöra. Annað hvort að þér kastið kristni eður gangið á hans vald, ellegar eyðir hann yðvart land með herskildi, en kúgar yður sjálfa frá kristni, en hefir yðra systur fyrir frillu. Hefir hann hér svo mikinn að þér eigið öngrar hjálpar von. Þrjú hundruð galeiða og xv drómunda hefir hann, og mikið lið annað. Hefir hann bílagt yðra borg svo að engi er von að nokkur lifandi maður megi yður við hjálpa. Vorar örvar eru herðar í eitri. Og vor sverð eru svo hvöss að þau bíta jafnvel stál sem klæði. Vor högg eru svo þung að enginn lifandi maður má þau standast. Því ger skjótan úrskurð á voru máli, því að dauðinn er fyrir dyrum. Ef þér vilið nokkuð í móti oss tauta”. “þú hefir mikið tungubragð” segir kóngur. “en á morgin áður sól er í lands suðri skal eg finna yður á vígvelli. Og gjöra yður þann úrskurð að þér skuluð aldri síðan krefja lands né kvenna. Hefi eg bæði heyrt stór orð og séð stóra menn. Og hræðunst eg aldri heiðnar mannsskræfur”. “vel er” sagði Landres “þó að sá hafi brek er beiðist. Því að nú kýstu sjálfum þér dauða, en systur þínni svívirðing”. Síðan sneri Landres á burt, og finnur Romanus sinn herra, og segir honum sem komið var. En Romanus varð glaður við það og bað hann menn sína vopnast, og ganga að borginni og eyða allt með oddi og eggju og taka jungfrúna í burt.
12. Þetta sama kveld kemur Roðgeir jarl til hirðar Hermanns kóngs og vissi ekki þessa ófriðar von. Hann hafði eigi meir en c manna. Hermann kóngur segir jarli þessi tíðindi, og spurði hann hvert ráð nú skyldi upp taka. En Roðgeir jarl svaraði. “um það var eg hræddur lengi að eg mundi deyja inni á paltrjám mínum, og þótti mér sá dauði ekki vegligur. Sé eg nú að býst undir því að eg má karlmannligann dauða, að falla í stríði með réttum kóngi. Og aldri skulu vér hræðast heiðna menn þó að þeir hafi lið mikið því að jafnan sigrast þeim illa. Því skulu vér ganga út af borginni með öllu liði voru, og gjöra þeim svo harða hríð enu fyrstu að þeir vikni fyrir því með skjótum atburð mættu vér sigrast. En ef vér berjunst til mæði, þá fellur oss þyngra”. Nú var svo háttað sem jarlinn vildi, og mátti á þessarri nátt heyra mikið brak og umbrot, að hver bjó sig og sín vopn. Um morgininn snemma leiddu þeir sinn her út af borginni, og fylkti liði kóngsins Roðgeir jarl. Heiðingjar voru þá komnir, og var það lið svo mikið að þakti alla völlu. Þar mátti sjá margan dramblátan dreng. Svo var til farið þar sem bardaginn átti að vera að hálsbrekka nokkur gekk fyrir ofan grundina, og voru lægðir miklar að baki hálsinum og mátti þar eigi sjá þó að margur maður leyndist þangað. Lét Roðgeir jarl þangað c. Manna. Þeir höfðu þrjú merki mjög glæsilig. Þeir höfðu c hvella lúðra. Þangað lét Roðgeir jarl safna mörg hundruð nauta og hrossa, og breiða klæði á hornin, og gerði svo ráð fyrir þegar höggorusta tækist, þá skyldu þeir setja upp merkin, og láta langt bil í millum þeirra. Merkin mátti sjá frá bardaganum, en eigi hversu margt lið undir var. Hann biður þá blása í alla sína lúðra og gjöra sem mest glamm af sér og vita hvort heiðingjar losna ekki á velli, ef þeir sjá þessa tiltekt.
13. Þessu næst mátti heyra mikinn lúðra þyt að hrópið kom upp. Flugu þá örvar og spjót svo þykkt að hvergi sá heiðan himin. Kóngur bað sína menn hlífa sér fyrir skotum, en hlaupa á heiðingja sem harðast, og vita ef þeir viknaði við. Þeir gjörðu svo og tókst nú höggorusta. Hermann kóngur ríður fram alldjarfliga, og höggur bæði menn og hesta, og stendur ekki við honum og á lítilli stundu hefir hann fellt meir en c af blámönnum. Og nú mætir hann merkis manni Romanus. Og höggur til hans. Það kom framarliga á hjálminn, og tók af nefbjörgina og allt andlitið af riddaranum, og báðar hendurnar, og hestinn í sundur fyrir framan söðulinn. Og þetta eð mikla högg óttast blámenn, og þorði engi í móti honum að ríða. Nú heyra heiðingjar lúðrablástur að baki sér. Líta nú þangað til og sjá hvar fram koma merki, og því næst annað, og eð þriðja, og heyra þangað gný mikinn. Þótti þeim sem þar mundi fjöldi manna fylgja. Kemur nú Roðgeir jarl í opna skjöldu, og er eigi ruðulaust. Losnar nú fylkingin, og stökkva heiðingjar undan honum sem vargur undan hundi, því hann hjó aldri sínu sverði svo fram að eigi yrði mans bani, eður tveggja. Nú kemur í móti honum Landres er fyrr var nefndur, og höggur af honum allan skjöldinn. Sverðið kom á fótinn, og tók af í ristarliðnum. Roðgeir jarl hjó í móti til Landres svo af fauk höfuðið yfir þrjá þá sem næstir voru. Þá kom þar ríðandi Romanus kóngs son og lagði í gegnum hann svo að fjögra álna stóð út um bakið, og fleygði honum dauðum langt á völlinn. Í þessu kom ríðandi Hermann kóngsson, og lagði spjóti til Romanus, og í gegnum skjöldinn og brynjuna fyrir utan síðuna svo hart að þrjú rifin brotnudu. Hann gat eigi aftur kippt spjótinu. Romanus hjó í hjálm hans svo að laufin öll með gimsteinunum komu fjarri niður á vellinum. Sverðið stökk af hjálminum og á háls hestinum svo að af tók höfuðið, en kóngur stökk af fram, og varð höggið svo þungt að blóðið féll bæði af munni hans og nösum. Hann greip þá til Romanus og kippti honum svo hart af hestinum að hjálmurinn kom fyrst niður, og stóð fastur í vellinum svo að kóngs son brotnaði á háls, og lauk svo hans ævi. Nú slær felmti miklum á heiðingja, en þó tóku þeir svo fast í móti að við því var búið að þeir mundi fá sigur. En svo hart lék kóngur við þá að engi af þeim mikla fjölda komst með lífi á burt. Var Hermann kóngur þá svo móður og sár að hann varð á skjöldum heim að bera. Eigi var það betur en c manna að liðfært var í hans flokki og voru þeir þó allir sárir. En herfang það sem þeir áttu var svo mikið að því kom varla í lóg. Síðan voru bundin sár manna, en grafnir þeir sem dauðir voru, en heiðingjum sökkt niður í sjá.
14. Tökum nú þar til sem Jarlmann er í Miklagarði, og er gróinn sára sinna. Hann er nú á tali við keisarann og hans dóttur Ríkilað og segir þeim að hann vill fá orlof að fara heim til síns lands. Og vill hafa Ríkilað með sér. Kóngur biður hann staðfestast þar, og segist munu gefa honum Ríkilað. Kvað hann makligastan hennar að njóta fyrir þann sigur sem hann hafði unnið. En Jarlmann bað hann ekki tala ódrengskap til sín. “og mun mér illa líka ef eg fæ ekki mitt erendi”. Kóngur segir að það skal ekki af sér standa. “ef dóttir mín verður því samþykk”. En Ríkilað hafði þar engi mótmæli í móti, því að hugarfar hennar var mjög frá því sem verið hafði. Því er nú búin ferð þeirra með miklum fékostnaði, gulli og silfri og góðum gripum, og með glæsiligum skipum og hæversku hoffólki, og hreinligum meyjum er Ríkilað skyldi þjóna. En það mikla herfang er Jarlmann átti og hafði aflað voru hlaðnir með þrír drómundar. Skilur Ríkilað við sinn föður, og siglir burt af Miklagarði með fimmtán galeiðum. En við þeirra skilnað var engi svo harður karlmaður að óklökkvandi væri.
15. Jarlmann kemur nú heim í Frakkland í þann tíma sem Hermann kóngur og hans menn lágu í sárum þeim sem þeir höfðu fengið í fyrr sögðum bardaga, og var kóngi þá í afturbata. Gekk hann í móti sínum fóstbróður með allmikilli gleði, og var þar allmikill fagnafundur, og sagði hvor öðrum slík tíðindi sem gjörst höfðu, og fyrir litlu hafa lesin verið. Jarlmann sýndi honum jungfrú Ríkilað, og fannst honum mikið um vænleik hennar, og þakkaði honum mikiliga fyrir þessa ferð. Fóru síðan í borgina og reis þar upp ágæt veisla, og drukku fagnaðar öl í móti frú Ríkilað. Og síðan tók Ríkilað að græða sár Hermanns kóngs, og þeirra fleiri manna sem hættligastir voru, og tók þá öllum skjótt að batna. En þegar kóngur var heill orðinn, þá býst hann við brúðlaupi sínu, og sendir í hvern kaupstað að kaupa þau föng sem best voru, og býður til sín öllum sínum vinum. En það þótti honum á vanta að hans höll var eigi svo mikil sem hann vildi. Ríkilað kemur sér nú vel bæði við systur kóngsins og aðra menn alla, og mátti svo kalla að allir ynni henni hugástum, en öngvan mann gjörir hún sér jafnkæran sem Jarlmann. Það er nú þessu næst að Hermann kóngur tekur fáleika svo mikla að fáir menn fengu orð af honum, og fór svo fram nokkura stund. Eitt sinn talaði Ríkilað við Jarlmann, og spurði hvað valda mundi ógleði kóngs. En hann kveðst það eigi vita, og sagði að henni væri best að forvitnast. Hún kveðst það eigi voga, og kvað sér eigi kunnigt skaplyndi kóngs, og bað hann eftir frétta. Hann kveðst þess vera ófús. Hún kvað það betur til heyra. “því að mig grunar” segir hún “að nokkuð standi af okkur um fáleika hans”. Jarlmann segist nú skulu forvitnast um það. Og litlu síðar var hann á tali við kónginn, og mælti svo til hans. “mjög undrast menn hvað veldur ógleði yðvarri, því að margir hyggja að yður muni flest að óskum ganga. Hafið nú fengið kvonfang gott, og unnið mikinn sigur í bardaga. Eður ertu reiður einhverjum manni”. Kóngur segir að það sé fjarri. “en það er fornt mál að sá er skyldur að leysa annars vandræði sem eftir spyr. En það sem mér er að angri þori eg varla upp að kveða, en þó skal þig ekki því leyna að mér þykir ofmikið um kærleik þinn við Ríkilað, og uggir mig að þú munir fífla hana fyrir mér”. Nú svaraði Jarlmann. “nú finn eg það” segir hann “að ástin er hvarkvæm, því að hún blindar hugskot hyggins manns. Eg kann þér það að segja, þá er eg var í Miklagarði mátti eg eigi Ríkilað, svo sem þá var standanda fyrir þeim, og því þarftu ekki að ætla mér þann ódrengskap, að eg muni vilja svíkja þig nú fyrir því að þar þoldi eg fyrir þína skuld bæði heitt og kalt. Og ekki hefðir þú Ríkilað fengið, ef þú hefðir ekki mín við notið. En þetta vandræði þitt má eg vel leysa, því að eg skal héðan í burt fara, og eigi aftur koma til þess að spilla ykkrum ástum. Og gefi guð að þeir komi í stadinn að þér sé betur viljaðir en eg”. “það er mér óbætiligur skaði að missa þín” segir kóngur. “ekki má nú við öllu sjá” segir Jarlmann. Gekk hann þá í burtu mjög reiður. Síðan kallaði hann sína menn, og bíður þá búa þeirra hesta, og vill hann ríða heim í Granukkatis. Ekki segir hann Ríkilað frá skrafi þeirra kóngs. Og því næst eru þeir á hestum, og ríða í burtu leið sína, og undruðust menn mjög þessa hans tiltekju, því að engi vissi hvað undir bjó. Kemur Jarlmann nú heim í sitt ríki, og verða honum allir menn fegnir. En í kóngs garði hörmuðu allir hans bruttferð, og mest frú Ríkilað. Kóngur tók aftur sína gleði, og líður svo fram.
16. Litlu síðar en Jarlmann var í burtu farinn frá kóngi, komu til hirðar kóngsins tólf menn og voru allir í svörtum kuflum, og með öðrum nöfnum sínum, og sögðust þeir allir kuflungar kallaðir. Kóngur spurði hvað mönnum þeir væri. Þeir sögðust vera vestan af Affríka, og vera múrmeistarar, og töldu upp fyrir kóngi margar borgir og kastala að þeir hefði gjört. Þeir kváðust og frétt hafa að kóngur vildi gjöra sér höll, og kváðust því þangað farið hafa að þeir vildi bjóða honum að smíða ef kóngur vildi það nýta. En kóngur sagði að þeir skyldu ekki féskarða verða, ef þeir gjörði sem honum líkaði, og væri búin að veturnóttum. En þeir voru svo mjúkorðir og málsnjallir að öllum mönnum þótti svo allt sem þeir töluðu. Þeir tóku nú til hallar gjörðar. Þeir voru svo hagir og fljótvirkir. Þeir höfðu og nóga þjónustumenn, og gekk þeim hallar smíðin bæði vel og skjótt. Þeir voru bæði forvitnir og fávísir. En fá tíðindi kunnu þeir að segja nema úr öðrum löndum. Lítið var Ríkilað um þá, og sagði að þeir mundi illa raun gefa. Kóngur kveðst það eigi ætla. Heldur hann nú á mikilli sýslu að búast við sínu brúðlaupi, og var það mjög jafndrjúgt, að kóngur hafði aflað allra þeirra fanga sem honum þótti þurfa, og er kuflungar höfðu af lokið hallar smíðinni. Voru þá komnir allir þeir menn sem kóngur hafði til sín boðið, og lofuðu allir þetta smíði.
Ríkilað hafði gjört tjöld til hallarinnar, og þótti þau ekki með minna móti. Nú hefir Hermann kóngur kuflunga á tali með sér, og bíður þá kjósa sér laun fyrir hallar smíðina. En þeir sögðust hafa nóg peninga, og sögðust þar svo verið hafa að þeim hefði best þótt. Og því sögðust þeir vilja verða hans menn. Og honum trúliga þjóna. “en ef yður þykir eigi brýnna fyrir liggja”. Þá bjóðast þeir til að gefa að drekka í brúðlaupinu, og að geyma kjallarann. En ef honum þætti nokkurs verð þeirra þjónusta, þá mætti hann gjöra þeim nokkurn heiður, ef hann vildi. Kóngur sagði að svo skyldi vera sem þeir vildi. Voru þeim þá í hendur fengið bæði kjallari og lyklar og ölgögn, og um flestar féhirðslur kóngs höfðu þeir umýslu, og skyldu svo öllu breyta sem þeir vildi. Þessu næst er brúður á bekk sett og höfðingjum í sæti skipað, og öl og sendingar inn bornar. Mátti þá heyra allskonar hljóðfæri, og sungu kuflungar með svo mikilli list að allir undruðust, og fengu þeir því almennings lof. En þegar eð fysta kveld báru þeir öl svo ákaft, að allir menn urðu mjög drukknir, og féll þar niður hver maður sofinn sem kominn var í borginni. Jafnvel brúðurin og brúðguminn.
17. Næsta morgin eftir vakna menn í höllinni og var þá brugðið nokkuð úr því sem um kveldið hafði verið. Brúðurin er horfin og öll fegurð hallarinnar, en hallargólfið sprungið í sundur, en kominn upp kolblár sjór í staðinn. Var nú farið um borgina, og leitað brúðarinnar og fannst hún eigi. Horfnir eru allir kuflungar og flestar gersemar kóngs. Var nú leitað nær og fjarri, og finnst eigi til þeirra, og enginn er svo fregnviss að vissi hvaðan kuflungar voru að komnir. Og var hér margt rætt um hvað af þeim mundi orðið. Sumir ætluðu að kuflungar mundu vera fjandur, og sokkið þar niður sem sjárinn var upp kominn. Sumir sögðu að tröll myndi hafa tekið. En hvað sem um er talað fannst hún eigi því heldur. Þetta fékk kónginum svo mikils að hér af leggst hann í rekkju, og gáir eigi ríkis síns. Snýst nú veislan upp í hryggð og hörmung. Frú Herborg gjörir nú boð til Jarlmanns, og biður hann meira virða eiða sína og manndóm heldur en tilverknað kóngs. Segir að líf kóngs liggur við, ef hann kemur eigi. Jarlmann fer nú til þess er hann kemur til Savis og urðu honum þar allir menn fegnir. Hann gekk að því lofthúsi er kóngur lá í og sló það upp, gekk inn og gaf kóngi góðan dag. En hann var svo máttdreginn að varla skildi hvað er hann sagði. Jarlmann talaði til hans. “bæði er” segir hann “að þér munuð mjúkt eiga að spenna, enda verður yður nú legult”. “dára mig nú eigi fóstbróðir” segir kóngur. “slá heldur burt mitt höfuð. Því að mér er nú ljúfara að deyja en lifa eftir þann mikla skaða er eg hefi fengið”. “það er af litlu brjósti að syrgja eftir skaða sínum” segir Jarlmann. “er hitt mannligra að rísa upp og leita eftir henni. En ekki mundi Ríkilað í burt horfin ef eg hefða hér verið”. “því var misráðið” segir kóngur “að eg gaf yður sakir. En eigi örvænti eg mér sigurs, ef þú vilt vera í ráðum með mér”. “heldur mun eg það gjöra” segir Jarlmann. “heldur en þú sveltir þig í hel. Gjöri eg það meir fyrir Ríkilað en þig”. Kóngur rís nú upp, og gjörir eftir því sem Jarlmann vildi. Tók hann skjótt að hressast með umsjá systur sinnar og Jarlmanns. En síðan tóku þeir tal sín í milli og ráðagjörðir og biður kóngur Jarlmann fyrir bindast að leita eftir Ríkilað. En hann kvað það torvelda ferð. “og fæ eg eigi fyrir mun um séð hvort drjúgara verður gæfa Ríkilaðar eður fjölkynngi þeirra er hana sóttu”. Kóngur bað hann hafa svo marga menn sem hann vildi. Hann kveðst ekki mundu hafa fjölmenni í þessa ferð. “og mun eg hafa xxx manna og eitt langskip.” og þá þjónustumenn sem þar til þurfti. En gull og silfur hafði hann svo mikið að enginn fékk talið. En síðan mælti hann til kóngs. “nú mun eg fara í burt hvort sem mér verður afturkomu auðið eður eigi. En þess vil eg þig biðja ef minn boðskapur kemur til þín þá skulu þér fara til móts við mig, og hátta svo öllu sem eg gjöri ráð fyrir. Og máttu til þess ætla að þar liggur við líf Ríkilaðar og svo mitt”. Kóngur lofaði fögru um það. Og eftir það skildu þeir.
18. Nú siglir Jarlmann í burt af Frakklandi. Hann hafði á sínu skipi vaska menn og vel siðaða, þá sem honum höfðu lengi þjónað. Siglir hann nú leið sína, og féll honum jafnan byr í hag. Hann hafði sjálfur leiðsögn, og er ekki um hans ferð getið fyrr en hann kemur út af Serklandi enu mikla að borg þeirri er Pampilonia heitir. Þar réð fyrir sá kóngur er Rudennt hét. Hann var svo gamall að engi maður í því landi vissi nær hann hafði verið til kóngs tekinn, því að það var löngu fyrir þeirra minni. Son átti hann þann er Rodjan hét. Hann var mikill sem risi. En áður en Jarlmann lagði til hafnar þá átti hann tal við menn sína. “nú er á yðru valdi góðir drengir komið líf vort allra, því að eg vil yður kunnigt gjöra ráðagjörð mína. Þér skuluð nefna mig Austvestan, og aldri öðru vís. En hvað sem eg mæli eður gjöri þá skulu þér það allt sanna. Og eiða frammi láta ef þess er beitt. Mun oss lítill háski af leiða hverja eiða sem vér sverjum heiðnum mönnum en þar liggur líf vort allra við ef þér bregðið nokkuð af minum ráðum”. Þeir lofuðu þessu allir. Því næst lögðu þeir skipi sínu til hafnar. Jarlmann gekk fyrir kóng með öllum sínum mönnum. Þeir voru allir í gullskotnum klæðum, og sýndist flokkur þeirra allskrautligur, og þeir sem fyrir voru þóttust eigi hafa séð vænni menn. Jarlmann kvaddi kóng vel og kurteisliga. Kóngur tók vel kveðju hans og spurði hvað manna hann væri. Hann sagðist vera einn kóngs son vestan af Affríka lalt undan sólarsetri. “en nafn mitt er Austvestan. Eg á mér einn bróður og heitir Norðsunnan, en nöfn okkur eru tekin af aðferð okkarri. Við höfum þess heit strengt að þjóna öngum þeim kóngi nema þeim einum að okkur þætti ekki að vera, hvorki til höfðingsskapar né hversdagligrar náttúru, og höfum við nú kannað allan heiminn, hann norður og suður, en eg austur og vestur, og hér af höfum við nafn tekið. Höfum við enn hvergi þess komið að okkur hafi ekki að þótt. Nú höfum við frétt til yðvarrar tignar, og lystir okkur að forvitnast um yðvarn höfðingskap, og höfum sammælst að finnast hér að öðru hausti. Og því vildu vér hafa hér hjá yður friðland og torg til matkaupa”. Kóngur svarar “torg set eg þér ekki. Og skaltu vera vel kominn upp á minn kost, með alla þína menn, eður hversu margt fólk hafi þer”. “hér megi þér það sjá” segir hann “fyrir utan matsveina vora”. “það er mikill kostnaður” segir kóngur “ok sitið og drekkið með oss”. Austvestan segir. “vér viljum fyrst sjá fyrir skipi voru og vorum varningi”. Kóngur skipar sínum mönnum að taka skip þeirra og varning, og búa þar um sem þeir vildi, en færa föng þeirra til borgarinnar, og var þeim fengin ein stór steinhöll. Og skipaði Austvestan sínum mönnum að tjalda hana og búa sem ríkmannligast og svo gjörðu þeir. En hann sat í sæmiligri veislu þrjár nætur með öllum sínum mönnum. Fer Austvestan nú í sína höll. Þar voru mörg lofthús, og bjuggust þeir þar um, og sváfu þar á nætur. En dagliga gengu þeir til borðs í kóngs höll, og fannst kóngi og mörgum öðrum mikið um hæversku þeirra og lítilæti. Þurfti og engi maður íþróttir við þá að reyna. En Austvestan bar svo af öllum mönnum að kóngur þóttist öngvan slíkan séð hafa.
19. Nú er Austvestan kominn í sína höll. Hann býður nú kóngi til veislu með c manna og fannst kóngi mikið um bæði borðbúnað og tjöld hallarinnar, drykk og matgjörð og hæversku þeirra er þjónuðu. Austvestan gekk í sitt lofthús, og kom inn aftur. Sveinar hans báru stórar töskur. Þeim lauk hann upp og tók gull og silfur. Þeim sem við hallardyr sat gaf hann digran gullhring, öðrum gullsylgju, þeim brynju er það vildu, þeim skjöld og sverð er það vildi. Hann bað það hvern kjósa er hafa vildi. Kóngi gaf hann þann lúður að svo var hvellur að heyrði um fimmtán kónga ríki, og þar til eitt gullstaup. Þakkaði kóngur stórmannliga veisluna. Nú kvaddi Austvestan sér hljóðs og mælti til kóngs. “eigi má einn varast nema viti. Eg vil segja yður kóngur” segir hann “og öllum þeim heyra vilja hver löstur á mér er. Eg er svo forvitinn maður að eg vil allt vita. Stend eg upp um nætur. Og hlusta eg til hvar sem menn hafa launtal. Stend eg á hleri hvar sem eg kemst að, og má engi vita hvar eg kem fram. En ef eg frétti nokkuð, þá má eg öngu leyna. Látið opinbera þenna minn löst um alla borgina því að eg vil yður hvergi svíkja, og öngvan þann sem mér trúir”. Kóngur var honum svarandi og kvað fá menn þetta mundu sagt hafa. “þyki mér hverjum manni sjálfrátt að tala það sem hann hirðir aldri hver er heyrir”, en kvað honum þó gott til ganga. Fór kóngur til hallar sinnar, og sat hann þar um veturinn framan til jóla, og var svo vinsæll að hann átti öngvan öfundarmann. Kóngur hélt jóla bod mikið, og var svo fjölmennt að miklu jók við það sem áður var vant, og var þar drykkjuskapur mikill. En eð fyrsta kveld jólanna þá eð fólk var gengið að sofa gekk Austvestan undir eitt loft og hlýddist um hvað talað var sem hann var vanur. Hann heyrði að þar töluðust við þrír riddarar. Einn þeirra mælti svo “gott mun hér að öðrum jólum”. “því þá heldur en nú” segir annar. “því að kóngur heldur þá brúðlaup sitt” segir hann. “hver er brúðurin” segir hann. “ekki segi eg þér það” segir annar. En þriði mælti “talið þar ekki til” segir hann “því að kóngur leggur við lífs grið og lima ef nokkur segir frá. En oft er í holti heyrendur nær”. “eigi þurfu vér að hræðast Austvestan” segir hann, “því að eg fylgdi honum til sængur í kveld. En þér hafið því heitið mér að hver vor skyldi vita með öðrum allan trúnað. En þú vart eigi kominn til kóngs, þá er hann lét sækja Ríkilað enu fögru norður í Frakkland að svo er fögur að af gulli er á henni handarbakið”. “hverir sóttu hana” segir hann. “þeir hétu kuflungar, og voru galdra menn svo miklir að þeir máttu allt það vinna er þeir vildu”. “hvar eru menn þessir” segir hann “að þeir hafa aldri mér fyrir augu borið”. “enn er þar saga til” segja þeir. “þá þeir komu heim með brúðina gekk kóngur í móti þeim, og fagnaði vel brúðinni og þakkaði þeim ferðina. Hann beiddist að kyssa Ríkilað, en hún sagðist honum aldri viljug skyldu vera, hvorki um það né um annað, nema hann léti drepa alla kuflunga fyrir augum henni. Og samdist það með þeim að hann lét drepa þá alla. En hún hét honum að vera honum að öllu viljug, ef hann frestaði brúðlaupi þeirra til ennu þriðju jóla. Og fór þetta fram”. “Ill laun þótti mér þeir taka” segir hann. “eður hvar er þessi jungfrú geymd” segir hann “að engi skal vita til hennar”. “þetta er ekki að almennings vitorði gjört, eður veistu eigi að kóngurinn á sér hálfsystur, og heitir Þorbjörg en digra. Hún býr í fjalli því er Baldak heitir. Það er hæst fjall í þessu landi. Ekki tröll veit eg meira í heiminum. Þar er Ríkilað geymd í einum skyggðum glersal. Skal hún þaðan aldri út komast fyrr en hún er sett á brúðbekk”. “nú er nógu margt talað” sagði Austvestan og rak upp hlátur mikinn, og hljóp í burtu, og til sinna manna. En riddararnir hver ávítaði annan um sína margmælgi.
20. Næsta morgin eftir gekk Austvestan fyrir kóng, og kvaddi hann, og bað hann í málstofu ganga, og kveðst frétt hafa þau tíðinda að hann mætti ekki yfir þegja. Kóngur gjörði sem hann bað. Hefir hann þá uppi alla sögu sem áður hefir sögð verið. Kóngur spurði hver þetta hefði sagt, en hann kveðst það eigi vita. Kvað þá menn mjög drukkna verið hafa og talast við sín í milli. “og vissi ekki hvar eg var, og ekki fyrir líf sitt hefði þeir það talað, ef þeir hefði vitað að nokkur hefði það heyrt”. “hér hefi eg mestan varnað á borið” sagði kóngur. “en þó eru þessi tíðindi sönn og vildi eg að þau væri sem óvíðast borin”. “ekki þarf eg” segir Austvestan “um þau að glósa. Þyki mér þegar vel er eg veit með öðrum”. Svo gat Austvestan hagað sínu máli að engi eftirleitan var höfð um riddarana. Nokkuru síðar var Austvestan á tali með kóngi, og mælti svo. “mikil forvitni væri mér á að sjá festarmey þína, eður mun nokkuð ráð til standa að það mætti fást”. “eigi má það fást” segir kóngur “nema með miklum fékostnaði. Þar verður að gjöra til leik þann er padreinsleikur heitir, á velli þeim er á Padreini heitir, en það kostar mig hálfa lest gulls”. “gullið vil eg til leggja” segir Austvestan “má eg því víðara bera yðvart lof sem þér eruð mér efterlátari”. “þá muntu eið sverja” segir kóngur “að svíkja hvorki mig né frúna”. “þann eið vil eg sverja” segir hann “að svíkja aldri frúna. En eg og allir mínir menn skulu þér þjóna, svo lengi sem þú lifir nema eg deyja fyrr”. Þenna eið sór Austvestan og allir hans menn. En litlu síðar hvarf kóngur í burtu, og var hann í burtu fimm nætur, en síðan kom hann heim. Austvestan spurði hvar hann hefði dvalist, en kóngur kvað hann þess skjótt vísan mundu verða. Um morguninn spáseraði kóngur burt frá borginni, og Austvestan með honum, og allir hans menn, og öll hirð kóngsins. Þeir komu að dal einum djúpum. Þar voru vellir sléttir. Kóngur bað menn setjast niður í fjalls hlíðinni, og bíða sín þangað til að hann kæmi aftur. En þeir Austvestan gengu tveir í dalinn, og stóð þar fyrir eitt tjald undarliga fagurt og voru reitir ristnir um kring. Kóngur settist í tjaldið, og Austvestan hjá honum. Kóngur hafði eina gullpípu, og blés í hana hátt. Þá sá Austvestan að opnuðust holt og holar, þufur og steinar. Komu þar út álfar og nornir, dvergar og huldumenn. Kóngur tók fésjóð fullan af gulli og kastaði út á völlinn. En þeir tóku við sem úti voru, og skiptu í sundur með sér að jafnaði. Kóngur blés í pípuna annað sinn. Opnuðust þá hamrar jöklar og fjalltindar. Komu þar út þussar og risar og bergbúar, og allra handa óþjóðir og sóttu þangað á völlinn. Kóngur tók þá annan fésjóðinn, og kastaði út til þeirra, en þeir tóku við og skiptu í sundur. Kóngur blés eð þriðja sinn í pípuna. Sér Austvestan að þá opnast fjallið Baldak, og komu þar út svo mörg tröll að það var lítils vert sem áður var komið. Þar fylgdi kona svo stór að hann hafði öngva slíka séð, og bar þó digurð hennar af meir en hæð, og var þó hvortveggja með miklu móti. Eigi var hún svo ófríð sem hún var augnamikil og munnvíð. Hún leiddi eftir sér einn glersal með gullfesti, og lék á hjólum. Ítarliga var hún búin, en er þau nálguðust þangað á völlinn stendur kóngur upp í móti þeim, og minntist við frændkonu sína, og tók einn digran fésjóð, og stakk í hönd henni, og bað hana nú leika padreinsleik. Kvað kominn til sín einn ágætan mann, og lysti að sjá leik þenna. Hún sagði að oft væri vansénir útlendir menn, en kveðst skyldu gjöra sem hann vildi. Hann bað hana nú allt við hafa. Hann tók glersalinn til sín og leiddi að tjaldinu. Þekkti Austvestan Ríkilað. Og svo hún hann, og gladdist hún við. Spurði kóngur nú hversu honum litist á hana. En Austvestan sagði að þar mætti eigi ofsögum af segja. Kemur honum nú í hug að drepa kónginn, og vita hvort hann kæmist í burt. En Ríkilað sá hvað honum bjó í skapi og teiknar til hans að það væri bani þeirra allra meðan Þorbjörg væri til.
21. Þorbjörg stóð upp og kallaði saman fólkið, en það kom allt fyrir hennar hné og féll fram. Hún bað fólkið launa kóngi fégjafir, og hafa til skemmtanar nokkuð, og bað hvern vinna það sem vanur væri. Álfar stóðu upp og frömdu dansleika á allar lundir, og þótti Austvestan þetta gaman. Dvergar frömdu sviðsleik, en þussar höfðu knattleika, og hlupu eldóð, og komu þá bæði byltur og búkhögg. Bergbúar vörðu steik, og var það grár leikur og gangmikill. Fossbúar og nornir slógu hörpu, og allra handa hljóðfæri. Voru þeir næst tjaldinu, en það fólk sem eigi var til annarrar skemmtanar léku fyrir, og var þetta góð skemmtan og gangmikil. Tröllkarlar eltu ref í holu, og höfðu hrosshúðir stórar fyrir höggskinnin og urðu af þessu stór högg og dunur miklar. Þorbjörg bað tröllkonur upp standa og leika padreinsleik. Þær dvöldu eigi við. Stukku þær upp og stóðu á höfði, og ráku fætur í sundur. Og mátti þar sjá marga mjög lítt vaktaða, og mjög misjafnt fagurt skapaða. En síðan hljóp að ein með vota hafurstöku. Og sletti í klof þeirri er næst henni stóð. En hún kastaði fótunum fram yfir höfuðið, en greip hafurstökuna og lék þetta þeirri sem henni var næst. Og þetta gerði hver annarri. Og gekk þetta framan til þess að sól var komin í útsuður. Og var sá engi stadur á vellinum að ei væri nokkur leikur framinn. En yfir dalnum í loftinu komu fram allra handa skip. Sumir börðust, en sumir frömdu kaupskap. Sumstaðar gengust að fylkingar, og drap hver annan. En blóðið rann niður í dalinn. Þessu næst tóku tröllkonurnar hafurstökurnar og drápu niður í blóðið, og lamdi hver aðra. Og gjörðist þar af úr og gustur svo mikill að skipin hurfu öll, en leikarnir gáfust upp á vellinum. Þorbjörg bað þær hætta sínum leik. En síðan stóð hún upp og afklæddi risana, og lét þá glíma. Tókust þá byltur svo stórar að öll jörðin skalf. En er því gamni létti þá bauð Þorbjörg að dans skyldi upp taka. En er Austvestan heyrði hljóð þeirra þá var við sjálft búið að hann mundi eigi standast eður eigi. Mörg orð hafði kóngur talað við Ríkilað á meðan leikurinn var, og þótti honum vænkast við það er hún var með glöðu bragði. En ekki vildi hún við Austvestan tala. Kóngur spurði Austvestan hvort ekki væri tíð heim að fara. En hann kveðst vilja bíða leiks loka, og spurði hvort systir hans kvæði ekki, eður væri vön að kveða. En kóngur sagði að það væri lítil skemmtan, en kvað hana þó vana að skemmta, og kveða. En því næst gafst upp karladansinn og var þá Þorbjörg beðin að kveða. Hún kveðst fyrir löngu hafa af lagt, en kveðst þó eigi vilja synja þeim. Völdust menn þá til að kveða undir með henni. Eigi þóttist Austvestan ólætin heyrt hafa fyrr en hún byrjaði sinn dans. Þetta var hennar kvæði. Karl skröggvaði undan hörpu sinni. En þá er hún gaf upp þá hneigðu henni allir og var þá hljómur svo mikill sem allir fjandur væri þar komnir. Stóð þá upp einn karl sá sem setið hafði allan daginn og kastaði niður slegju svo stórri að öll jörðin skalf, og greip í hönd Þorbjörgu, og byrjuðu þau hringbrot, og var það eigi ganglaust. Jötunn sá kvað við hringbrotið að svo var hvellur að dvergmála kvað í hverjum hamri. Tekur nú jörðin að skjálfa. Þá mælti kóngur við Austvestan, og spurði hvort þeir skyldi ekki heim fara. Hann kveðst vilja bíða leiks loka. Kóngur kveðst ekki þess fús vera. En því næst heyrðu þeir brest. Sprakk þá í sundur jörðin og komu þar upp fjandur, og fóru þegar í leikinn. Með þeim komu þá fram drekar í loftinu, og allra handa skrípi, og blésu eitri. Losnuðu þá björgin. Og hlupu skriður úr fjöllunum. Kóngur stóð upp og bað Austvestan bíða lengur ef hann vildi, en hann kveðst ekki mundu bundinn bíða lengur. Stóð kóngur þá upp, og hafði á rás. Austvestan kveðst þá eigi nenna að hann færi einn saman. Ekki sá hann færi sitt á að taka Ríkilað, því að hann hræddist fjölkynngi tröllanna. Heim voru stokknir menn þeirra allir, og höfðu hræðst ódæmi þessi. Jörðin skalf svo að þeir urðu að styðja sig við spjót sín. Heyrðu þeir á bak sér aftur dunur svo miklar að þeir ætluðu að fjöllin mundi ofan steypast, og hélt því til sólar falls. Komu nú heim til borgarinnar. Þakkaði Austvestan kóngi skemmtan þessa.
22. Nokkuru síðar tók Austvestan fáleika svo mikla að hann át hvorki né drakk, og öngva skemmtan hafði hann við aðra menn. Þetta þótti kóngi mikið, og spurði hann eftir einn tíma hvað til slíks bæri. En Austvestan svaraði “þig hefði eg helst til kjörið eftir að frétta. Því að það er forn mæli að sá er skyldur að leysa annars vandræði er eftir spyr”. “úr flestu ráða betur tveir en einn” segir kóngur “og lát mig heyra”. “eigi skal þess dylja” segir Austvestan. “síðan eg sá Þorbjörgu frændkonu þína. Því að minn hugur er hjá henni bæði nætur og daga, og nær ætla eg að það gangi mínu lífi. Og munda eg þá halda þig framar en aðra kónga, ef þú ynnir mér þessa ráðahags”. “lát þér eigi svo margt í hug koma” segir kóngur “því að það er ekki mennskra manna að standast hennar áfanga. Og leitum okkur betra kvonfangs, og þér makkligra”. “höldum ekki á því” segir Austvestan “gull og silfur og hollusta mín og míns bróður Norðsunnans skal yður þá aldri bregðast. Höfum við og fundið þá og þann kóng að okkur þykir sæmd í að þjóna”. Kóngur þagnaði og mælti síðan. “mikið hefði eg til gefið að þú hefðir þetta aldri talað. En þótt hér gangi til ríkið og allt það er eg kann, og þyki mér þó óvist að þetta fáist”. Austvestan dró þá gull af hendi sinni, og mælti svo til kóngs. “kom þú gulli þessu á hönd henni, og mun okkur þá auðvelt verða um svör hennar”. “mikið vogar þú” segir kóngur. “því voga eg mikið” segir hann “að eg trúir þér kóngur betur en öðrum”. Kóngur bað hann þá geyma ríkið, en hann kveðst mundu burt fara að reka hans erendi, og vera eigi skemur heiman en mánuð. Kóngur segir sínum mönnum að þeir skulu ekki forvitnast um hann á þessum tíma. Síðan hverfur kóngur í burt, og veit engi hvað af honum verður. En Austvestan tekur að gleðjast nokkuð. Mánaði síðar kom kóngur heim. Gekk Austvestan glaðliga í móti honum. Sagði kóngur honum sín erindis lok, og kveðst hafa fengið heitorð Þorbjargar, og brúðlaupin skyldu vera bæði saman, og gefið honum hertugadæmi, það sem hún vildi kjósa fyrir hann. En sagði hún að henni sýndist hann eð mesta lítilmenni. “en gull það er þú sendir henni sagðist hún vita að saman mundi draga með ykkur. Og kveðst það vita að þú mundir það öngum manni sent hafa nema þeim einum er þú vildir allan trúnað undir eiga”. “rétt gat hún þess” segir Austvestan. Þakkar hann nú kóngi mikiliga. Kóngur bað að þeir skyldu sem minnst gjöra um þetta. Líður nú á veturinn. En þegar eð veðráttu hægir lætur Austvestan setja fram skip sitt, og sendir menn sína í móts við bróður sinn, með bréfum, og kunngjörir honum alla hluti þá sem nú voru sagðir, og biður hann flýta sér í móts við sig. Þar með hátta svo öllu sem hann gerði ráð fyrir. Kvað þar liggja á líf sitt og Ríkilaðar. Lét hann kóng vita þann boðskap sem hann sendi bróður sínum en faldi þann leyniliga sem honum þótti mestu varða. Fóru þeir nú og fram komu, og fundu Hermann kóng, og sýndu honum bréf Jarlmans og jarteignir og brá kóngur þegar við skjótt, og hafði eitt skip og þrjátigi manna, og voru þeir allir vel búnir að vopnum og klæðum, og reyndir að hreysti og harðfengi. Og er um þeirra ferð ekki getið fyrr en þeir komu út á Serkland, og var það nærri vetri er þeir komu þar.
23. Austvestan gekk í móti fóstbróður sínum, og fagnaði honum vel og kennir honum nú hversu hann skal haga sér og sínum mönnum og vera ósmálátan í útlátum og eigi torveldan í eiðum ef kóngur krefði þeirra. En síðan gengur hann fyrir kóng, og kvaddi Norðsunnan kóng vel. Kóngur tók vel kveðju hans. Austvestan mælti þá “hér er nú kominn bróðir minn sá sem eg hefi þér frá sagt, og þætti mér mikið undir um að þér takið honum vel”. “vill hann vera mér slíkur sem þú. Og binda það eiðum. Þá skal eg hans sóma mikinn gjöra”. Norðsunnan dvaldi ekki það, og sór kóngi þann eið að hann skyldi aldri við hann skilja fyrr en dauðan, og öll þau verk gjöra sem kóngur skipaði honum. Kóngur lét sér vel skiljast. Háttar Norðsunnan svo öllu sem Austvestan hafði áður gefið honum ráð til. Og varð hann nú svo vinsæll að öllum þotti lítils vert um Austvestan hjá honum. En kóngur lagði svo mikinn trúskap á hann að hann sagði honum allan sinn trúnað, og sagði honum frá sinni brúði, hversu hann hafði hennar aflað. Austvestan lofaði mjög fyrir honum sitt kvonar efni, en sagði honum í trúnaði að honum þótti þeim vísari dauði en líf. En kveðst því þetta ráð tekið hafa að Þorbjörg hefði þeim aldri trúað nema hann hefði þetta unnið, og kveðst þó hræddur um vera hversu fara mundi. Eru þeir nú oft á tali, og leið nú svo til jólanna. Hefir kóngur nú saman komið svo mörgu fólki sem hann lysti til síns brúðlaups að hafa. Er það nú vili kóngs að Norðsunnan standi fyrir veislunni, og skyldi svo öllu breyta sem hann vildi. Roddian kóngs son var fenginn að þjóna Austvestan og líður nú til affanga dags jóla, og var þá skipað mönnum í sæti, hallirnar tjaldaðar, ölgögn inn borin. Settist þá kóngur í hásæti, en Austvestan eð næsta honum. Norðsunnan skipaði fyrir hverir öl skyldi bera og í kjallara að vera. C manna rúm var ætlað í höllunni, og hásæti svo stórt að nóg var vii mönnum. Síðan tóku menn til drykkju, og voru þá allra handa strengleikar frammi hafðir. En litlu síðar gekk Norðsunnan út, og kóngs son með honum, og var þá bosúnað í hverjum turni. Kom þá Þorbjörg ríðandi í garðinn með c. Manna og voru þeir allir stórkostligir. Var hún þá af baki tekin. Og let Norðsunnan sjá fyrir reiðskjótum þeirra. En þeir kóngs son leiddu Þorbjörgu í höllina, og rann glersalurinn með henni. Kóngur stóð upp og fagnar frændkonu sinni og þeir Austvestan báðir. Var þá opnaður glersalurinn og Ríkilað á bekk sett, og undruðust allir vænleik hennar. Þorbjörg sat eð næsta henni, og þurfti hún ótæpt sex manna rúm, og varð mönnum starsýnt á hana. Hennar hoffólki var niður skipað. Tókst nú drykkjuskapur og gleði en mesta, og lofuðu allir hversu Norðsunnan þjónaði hæverskilega. Leið nú svo enn fyrsti dagur veislunnar, og fóru menn í sængur, og sváfu af þá nótt. En að morgni voru menn snemma á fótum, og fór hver til sinnar gleði. En því næst fóru festar fram af hendi brúðgumanna, en gjafir þær sem þá fóru fram er eigi auðvelt að telja. En síðan voru full ker inn borin, og skorti þá eigi gleði mikla. Austvestan var svo glaður að hann lék við allt það sem hjá honum var, og drakk oft á brúðirnar, en Þorbjörg reigðist í móti. Í öngum ráðagjörðum mátti Austvestan vera með bróður sínum, og leið svo að kveldi.
24. Norðsunnan hefir nú sína menn í starfi þegar er dimma tók. Fram hafa þeir nú sett skip hans, og snúið stöfnum frá landi, og bjuggu svo um allt sem greiðligast væri ef skjótliga þyrfti til að taka. X menn lét hann fara með sjónum, og meiða öll skip, svo að ekki eð fyrsta var sjófært. Xii menn hafði hann í borginni, og báru þeir út gull og gersimar þær sem kóngurinn átti, en xx. Tóku við, og báru til strandar, en þjónustumenn tóku við og hlóðu skipin. Xx þjónuðu í kóngs höll. Og er nú svo mjög á komið kveldi að þá voru brúðirnar fram leiddar. Hjónin skyldu liggja í sínu lofti hvor, og eigi enn þriði maður til. Norðsunnan segir sínum mönnum nú að þeir skyldi taka borðbúnað þann sem bestur var, og bíða sín á stræti vopnaðir því sem til bryggjunnar liggur, en hann fylgir kóngi að sofa. Og verður nú flest seinna en segir. En er þeir komu í það loft sem brúðurinn Ríkilað lá í einum silkiserk mjög grátin. Kóngur settist niður í sængina, og dró Norðsunnan af honum klæðin. Fer þá fólk allt í burtu, en Norðsunnan gefur kóngi að drekka eina vínskál. En síðan grípur hann það sax sem kóngurinn hafði á linda sér. Það eitt beit hann. Hann kippti honum fram á stokkinn, og hjó af honum höfuðið, og snaraði því út um glugginn, og greip Ríkilað í fang sér, og ber hana til sinna manna, og bíður þá flýta sér til skips, og bíða ekki lengi eftir sér ef hann kæmi seint aftur í móts við þá.
25. Segjum nú frá Austvestan. Hann kemur nú að þeirri sæng sem hann á atð liggja. Þorbjörg lá þar fyrir, og hefir hann svo sagt að þá hefði honum helst gefið á að líta að hann skyldi niður leggjast hjá henni. Kóngs son dró af honum klæðin. Síðan gekk fólk allt í burt, en kóngson breiddi á þau klæðin. Gekk síðan burt og setti lás fyrir loftit. Austvestan tók niður með stokkinum. Þar hafði Norðsunnan geymt sverð hans. Hann leggur sverðinu fyrir brjóst Þorbjörgu svo að stóð í hryggnum, kastar sér á bak aftur ofan úr sænginni, en Þorbjörg náði sinni hendi um hvorn fót og vildi slöngva honum á múrinn. En hann hélt meðalkafla sverðsins, og vannst henni það ekki. Hún rak upp hljóð mikið svo að heyrði um alla borgina og ætluðu flestir að ófagnaðurinn mundi laus orðinn. Kóngs son sneri aftur, og lauk upp loftinu. En er hann laut inn um dyrnar kom Norðsunnan og hjó hann sundur í míðjunni og aldri hefði hann inn í það loft komist ef eigi hefði lásnum upp verið lokið, svo var það rammgjört. Hann sér hvað Þorbjörg hefst að, og höggur þegar á hálsinn svo að af tók höfuðið, og snaraði út um dyrnar, og var það manns bani, en snorglaði í því lengi. Hann hjó báðar hendur af Þorbjörgu. Austvestan var þá í óviti. Tok hann hann þá í fang sér, og hljóp út með hann. Komu þá að honum vopnaðir menn og sóttu að honum öllumegin. Hann varð þriggja manna bani, og stökk ofan fyrir múrinn, og var það hálfþrítugt. Hann kom standandi niður. Stefndi þá til skipa sinna, og var þá ekki meir en ein bryggja á landi, en allir menn á skip komnir. Gekk hann þegar út á skip, og lustu við árum, og drógu segl upp, og létu ganga út á haf. En menn í borginni fundu kónginn dauðan í öðru loftinu, en Þorbjörgu í öðru. Hlupu þeir nú til skipa. Og vildu halda eftir þeim. Þeir voru allir ölóðir, og fundu ekki fyrr en skipin fyllti undir þeim, og drukknuðu þar margir menn. En þeir sem lífið þágu náðu landi með nauðum, en fólk allt í borginni var staðlaust orðið af hljóðum Þorbjargar. Tökum nú til hjá þeim fóstbræðrum að þeir eru í haf komnir. Jarlmann var svo máttdreginn að þeir vissu trautt hvort líf var með honum eður eigi. Tók Ríkilað að næra hann, og tók hann brátt að lifna. En svo hafði Þorbjörg fast lagið hendur að fótum hans að holdið var undan gengið niður að beini, og varð að lðða af hvern fingur hennar, og fylgdi þrjú gull hverjum fingri. Sigla þeir nú leið sína, uns þeir koma heim. Verða þeim allir menn fegnir, og þykjast þá úr helju heimt hafa. Er Jarlmann nú gróinn. Lætur kóngur nú búast við brúðlaupi, og er nú allt í flýti haft. Og að þessari veislu gefur kóngur Jarlmann sínum fósturbróður frú Herborg sína systur, og þar með helming allrar sinnar eigu, og sagðist honum þó aldri launað geta þá mikla dygð sem hann hafði honum sýnt. En að liðinni veislunni voru allir með gjöfum á burt leystir. Og fór þá Jarlmann heim í Granukkatis, og var ásamt við konu sína fimm vetur. Þau áttu þrjú börn. Síðan gaf hann hana í klaustur, en gekk sjálfur í annað, og kveðst því heitið hafa í sínum nauðum, og endu þau fagurliga sitt heit. En Hermann kóngur stýrði sínu ríki til dauðadags, og er margt stórmenni frá þeim komið. Með þeim voru ástir góðar, en aldri varð Hermann kóngur samur síðan er hann stökk ofan fyrir múrinn. En í enda ævi sinnar gengu þau bæði í klaustur, og endu þar líf sitt. En son þeirra tók ríki eftir þau sá er Vilhjálmur hét. Og lúku vér þar þessu ævintýri, og hafi þann þökk eð fyrir sagði. En sá önga er klórað hefir. Guð gefi oss alla góða daga utan enda. AMEN.
Текст подготовил к публикации на сайте Hrafn Hvíti.