Einu sinni var karl og kerling í koti. Þau áttu ekkert barn; þótti þeim það mjög leiðinlegt, en gátu ekki að gert. Þeim varð oft sundurorða út af þessu, og kendu hvort öðru um. Að lokum varð fullkomið ósamlyndi á milli þeirra og rifrildi, því að hvorugt vildi meðkenna, að það væri sér að kenna, að þau gátu ekki eignast krakka. Karlinn fór þá í burtu í reiði sinni, og kvaðst skyldi ganga næst lífi hennar, ef hún yrði ekki komin í burtu, þegar hann kæmi heim aftur. Þegar hann var farinn, lagðist kerling upp í rúm og grét beisklega, því að henni þótti vænt um bónda sinn. Þegar hún hugði að tími væri kominn til þess að sjá fyrir miðdegismatnum, reis hún á fætur og fór að sækja vatn í á, sem rann nálægt kotinu. Þegar hún kemur að ánni, sér hún lágan mann, rauðskeggjaðan, sitja á steini í miðri ánni. Hann kastar kveðju á kerlingu og spyr: »Hversvegna liggur svo illa á þér?« Hún svarar: »Bóndi minn er svo vondur við mig, af því við eigum ekkert barn, og nú hefir hann skipað mér í burtu. Þetta hryggir mig mjög mikið.« — »Viltu að eg hjálpi þér?« segir hann. — »Eg held eg verði fegin,« segir kerling, »en ekki hafði eg ætlað að hafa fram hjá karli mínum.« — »Ekki muntu þess þurfa, þó að eg hjálpi þér,« segir Rauðskeggur og glottir við. Seildist hann þá ofan í ána og tók þar silung og fekk henni. Síðan sagði hann: »Þú skalt sjóða silunginn og éta; en þú mátt hvorki drekka soðið af honum né eta beinin. Þegar þú hefir etið silunginn, munt þú verða barnshafandi, og eignast son. Hann verður þú að gefa mér, þegar hann er sjö ára, og mun eg þá vitja hans.« Kerling lofaði að gera alt, eins og hann vildi, og með það skildu þau. Kerling fór svo heim með silunginn, sauð hann, og át síðan. Henni þótti hann góður, og langaði í beinin og soðið. „Það getur ekki gert neitt til, þó eg smakki á soðinu og bíti í beinin,« hugsaði hún; »þetta hefir náttúrlega verið eintóm sérvizka úr honum Rauðskegg mínum,« og með það át hún hvorttveggja. — Þegar þessu var lokið, lagðist hún upp í rúm og lá þar, þar til karl hennar kom heim. Þegar hann sá hana, varð hann afar-reiður, og segir: »Þú ert þá hér enn, ólukku dækjan.« — »Vertu góður við mig, karlinn minn, því að nú finst mér vera skift um hagi mína,« segir hún. »Vertu mér þá velkomin,« segir hann.
Nú líður að þeim tíma, að kerling verður léttari, og fæðir sveinbarn frítt og efnilegt. — Þetta varð til mikillar gleði fyrir karl og kerlingu, og kom þeim nú mjög vel saman, eftir að barnið kom til sögunnar. Það var mjög frábært, og hét Báráður eftir vilja foreldranna; var hann yndi þeirra og augasteinn. Segir nú ekki af þeim, fyr en drengurinn var nærri því sjö ára. Þá tekur móðir hans ógleði mikla. Þeir feðgar spyrja, hvað valdi hrygð hennar. Hún var lengi treg til að segja, en þó fór svo, að hún sagði þeim frá rauðskeggjaða manninum og kaupum þeirra. Báráður hló að þessu og sagði, að þau mætti verða fegin að losast við sig, því að hann væri þeim að eins til þyngsla. — Karl og kerling eru nú mjög hnuggin og sorgbitin út af því, ef þau þurfi nú að sjá á bak syni sínum, sem þeim þótti svo vænt um. — Nú líður, þar til afmælisdagurinn kemur. Þá segir Báráður, að það sé bezt fyrir þau karl og kerlingu að fara út í skóg í dag, því að þeim þyki líklega ekki svo skemtilegt að sjá, þegar Rauðskeggur fari með sig í burtu; en til þess að þau geti eitthvað gert, sagði hann þeim að fara með rekkjuvoðirnar úr rekkjum sínum og tína úr þeim flær og lýs. Þau kvöddu þá son sinn með miklum harmi, og lögðu af stað með rekkjuvoðirnar. Þegar þau vóru farin, fór Báráður inn, settist á pallinn og var alls ókvíðinn. Að stundu liðinni var drepið á dyr, og gekk Báráður til dyra. Sá hann þá að lágur maður rauðskeggjaður stóð við bæjardyrnar. Hann kastar kveðju á Báráð og segir: »Heill sértu, sonur góður.« — »Svo sértu líka; en eg er ekki þinn sonur, heldur karls og kerlingar,« segir Báráður. — »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át, því að hvorki ætlaðist eg til að yrði í þér aflið né vitið,« segir Rauðskeggur. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir strákur. »Eru karl og kerling heima núna?« spyr Rauðskeggur. »Nei,« svarar Báráður. »Hvar eru þau?« — »Þau eru út í skógi,« segir strákur. »Hvað eru þau þar að gera?« — »Þau ætluðu að skilja eftir það, sem þau fyndu, en koma með það, sem þau fyndu ekki,« sagði strákur. »Að koma með það, sem þau finna ekki, en skilja það eftir, sem þau finna, það skil eg ekki, eða hvernig getur þú heimfært mér það, sonur góður?« segir karl. »Ekki er eg þinn son, og ekki segi eg þér neitt um þetta, nema þú lofir mér að vera sjö ár hjá móður minni enn þá,« segir Báráður. »Það má eg ekki,« segir karl. »Jæja þá, þú færð þá ekkert að vita,« segir strákur. Þeir þráttuðu dálítið um þetta, en svo lauk að Rauðskeggur lofaði Báráði að vera sjö ár hjá móður sinni enn þá, ef hann fengi að vita það, sem hann spurði um. »Jæja þá,« segir Báráður. »Þau fóru með rekkjuvoðirnar sínar út í skóg, og ætluðu að tína úr þeim flærnar og lýsnar, og eins og þú getur skilið, skilja þau eftir það, sem þau finna, en koma heim með það, sem þau finna ekki í rekkjuvoðunum.« — »Ó, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át: hvorki ætlaðist eg til þess, að í þér yrði aflið né vitið,« segir karl um leið og hann fór.
Um kvöldið komu karl og kerling heim. Urðu þau glaðari en frá megi segja, þegar þau sjá son sinn kyrran heima. Spurðu þau hann, hvort enginn hefði komið. — »Jú,« segir hann. »Hann kom, þessi rauðskeggjaði maður, sem þú sagðir okkur frá; en hann ætlar að lofa mér að vera sjö ár enn þá hjá ykkur.« Þau urðu mjög glöð af þessum tíðindum, og óskuðu, að þau þyrftu aldrei að sjá af honum. — Nú liðu árin, tíðinda lítið, þar til Báráður er langt kominn á fjórtánda árið, þá taka þau karl og kerling ógleði mikla, og kvíða því, ef þau þurfi nú að missa Báráð. Hann hughreysti þau eftir mætti, og sagði, að þau mættu verða því fegin, að hann færi frá þeim, en þau tóku því allfjarri.
Nú kemur afmælisdagurinn, þegar Báráður er fjórtán vetra gamall. Var hann nú talinn afbragð allra annarra ungra manna, bæði að líkamlegu atgervi og vitsmunum. Má því nærri geta, að þau karl og kerling unnu honum hugástum. Segir þá Báráður við foreldra sína, að það sé bezt fyrir þau að fara út í skóg, og vera þar um daginn, því að þeim þyki að líkindum lítil skemtun, þegar Rauðskeggur fari með hann. Ennfremur sagði hann þeim að fara með svínin þeirra með sér. Þau vóru ellefu að tölu, og vóru höfð í stíu undir baðstofupalli. »Ekki þurfið þið samt að hleypa þeim út, því það geri eg sjálfur.« Þegar hann hafði þetta mælt, skundaði hann til stíunnar, og tók öxi mikla í hönd sér. Hjó hann þá eitt svínið sundur í miðju, og batt annan helminginn á bakið á öðru svíni, en hinum helmingnum kastaði hann í stíuna. Síðan héldu karl og kerling af stað með svínin, en Báráður settist í mestu makindum inn á pall. Eigi leið langt áður drepið var á dyr; Báráður gengur út, og sér hann þá hvar Rauðskeggur er kominn, sem hann átti tal við fyrir sjö árum. Hann kastar kveðju á Báráð og segir: »Heill sértu, sonur góður.« — »Það sértu líka, en ekki er eg þinn son, eg er sonur karls og kerlingar.« — »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að í þér yrði aflið eða vitið,« segir Rauðskeggur. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður. »Ósköp ert þú nú orðinn stór, sonur góður,« mælti Rauðskeggur. »Ó, ekki held eg það geti nú heitið,« segir Báráður.
»Eru þau heima, karl og kerling?« spyr Rauðskeggur. »Nei.« — »Hvar eru þau nú?« — »Þau fóru út í skóg í morgun.« — »Hvað starfa þau þar?« — »Þau fóru með hálft ellefta svín þangað, og ætluðu að gæta þeirra.« — »Með hálft ellefta svín,« segir Rauðskeggur; »það er ómögulegt; annaðhvort hafa þau hlotið að vera tíu eða ellefu, eða hvernig getur þú fullvissað mig um það, sonur góður, að það hafi verið hálft ellefta svín, sem þau fóru með?« — »Eg segi þér það ekki, nema þú lofir mér að vera sjö ár enn hjá móður minni,« segir Báráður. »Það má ég alls ekki,« mælti Rauðskeggur, »því að þá verður þú orðinn mitt ofurefli.«
Hvort sem þeir þráttuðu lengur eða skemur um þetta, þá fór svo að lokum, að Rauðskeggur lofaði Báráði að vera sjö ár enn hjá móður sinni, ef hann segði sér hvernig það væri lagað með svínin. Báráður er þá ekki seinn á sér, hleypur inn í svínastíuna, tekur hálfa svínið, fleygir því í Rauðskegg og segir: »Þarna er hálft svín, hinn helminginn batt eg á bak á einu lifandi svíni, svo að þau fóru með hálft ellefta svín út í skóginn.« — »Ó, svei kerlingunni sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að í þér yrði aflið né vitið,« segir Rauðskeggur, og rýkur af stað. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður, og sat nú inni þar til karl og kerling komu heim. Urðu þau mjög glöð, þegar þau sáu Báráð, og spurðu hvort enginn hefði komið. Hann sagði þeim, sem var, og það með, að Rauðskeggur ætlaði að lofa honum að vera hjá þeim sjö ár enn. Gleði þeirra karls og kerlingar var ósegjanlega mikil yfir þessu óvænta láni.
Skamt frá kotinu var kóngsríki; þangað gekk Báráður oft, því að honum þótti dauflegt heima; bar þar margt fyrir augu hans, sem honum þótti gaman að sjá, en sérstaklega hafði hann gaman af að líta eftir öllu smíði, einkum húsasmíði. Einu sinni fór hann til kóngsins og bað hann að gefa sér spýtur. Kóngur spurði hvað hann ætlaði að gera með þær. Báráður kvaðst ætla að reyna að smíða hús úr þeim. Konungur gaf honum þá eins mikinn við og hann vildi í húsið, og smíðatól. Tekur Báráður þá að flytja viðinn heim að kotinu og byrjar á hússmíðinu. Er hann að þessu smíði í sjö ár. Húsið var fremur óbrotið og lítið, með einum glugga, og lágu stigar tveir upp í hann; annar inni í húsinu, en hinn úti, og náðu þeir saman uppi í glugghúsinu.
Þegar þessi sjö ár eru liðin, og afmælisdagurinn kemur, þegar Báráður er 21 árs, segir hann við karl og kerlingu: »Nú verður sjálfsagt ekkert undanfæri; eg verð að fara með Rauðskegg þegar hann kemur. Eg held að það sé bezt, að þið séuð heima í dag, því að í sjálfu sér gildir það einu, hvort þið sjáið mig fara eða ekki.« Þau kváðust það gera mundu fyrir hans orð, og óskuðu nú af heilum hug að hann þyrfti ekki að fara frá þeim. Þau sitja nú öll inni og bíða átekta. Áður langt er liðið á daginn, er barið, Báráður fer til dyra, og sér að Rauðskeggur er kominn. »Heill sértu, sonur góður,« segir hann. »Það sértu einnig, en eg er ekki þinn son, því að eg er sonur karls og kerlingar,« segir Báráður. »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að yrði í þér aflið né vitið.« — »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður. »Ósköp ertu búinn að smíða þarna fallegt hús, sonur góður,« segir Rauðskeggur. »Og, ekki held eg það geti nú heitið,« segir Báráður; »eg hefi verið að dunda við þetta að gamni mínu.« — »Hvað ætlarðu annars að gera með húsið?« segir Rauðskeggur. »Eg ætla að hafa það til þess að tala við hálfan inni og hálfan úti,« segir Báráður. »Tala við hálfan inni og hálfan úti; hvernig ferðu að því, sonur góður?« — »Það skal eg sýna þér. Gáttu hérna upp stigann,« segir Báráður við Rauðskegg, en hljóp sjálfur inn í húsið og upp stigann, sem inni var, og var fljótari upp en karl. Þegar karl kemur upp í gluggann, beygir hann sig inn í húsið, en þá höggur Báráður með öxi um þvert bakið, svo að sundur tók manninn í miðju, en sinn veg féll hvor hlutinn. »Svona er nú farið að tala við hálfan inni og hálfan úti,« segir Báráður.
Eftir það fór hann inn og sagði karli og kerlingu hvernig komið var, og bað þau að hjálpa sér að brenna karlinn. Þau urðu glöð við þetta, og þökkuðu Báráði mjög vel fyrir verkið. Var síðan gert bál mikið og Rauðskeggur á það lagður, og brendur upp til kaldra kola. Síðan fréttist þetta um kóngsríkið og kom til eyrna konungi. Honum þótti þetta svo snjalt af strák, að hann býður honum heim til sín, og lætur kenna honum alt það, sem þá þótti fróðleikur í. Gekk það alt vel. Féll kóngi mjög vel við Báráð, og svo fór, að hann gaf honum dóttur sína. Báráður tók svo við ríkisstjórn eftir tengdaföður sinn og ríkti vel og lengi. Þau kóngshjónin unnust hugástum, áttu börn og buru, og svo kann eg ekki þess sögu lengri.
Источник: Þjóðtrú og þjóðsagnir (1908), Oddur Björnsson, I. bindi, bls. 303–309.