Saga af Bertram með baunina, músina og maskínuna

Einu sinni var kall og kelling. Þau áttu son er Bertram hét; hann var að líkamaatgjörvi hinn efnilegasti, en að gáfum þótti honum miður farið. Hann var á unga aldri er þessi saga gjörðist. Lítt vandist hann til vinnu.

Þegar hann var nokkuð vaxinn tók faðir hans sótt þá er hann leiddi til bana og lét kona hans gjöra útför hans heiðarlega, því þau vóru vel við efni; og að því gjörðu tók hún til búsforráða og átti Bertram að sjá um með henni, en lítið varð úr því; var hann latur og lítilvirkur og hugsaði ei um annað en makindi og munað og eyddist skjótt fé þeirra. Varð hún þá að setja bæ þeirra í pant fyrir skuld og að endingu fór svo að þau áttu ekki eftir óeytt af eigunum nema þrjár kýr.

Segir nú móðir Bertrams við hann einn dag að hann skuli fara með lökustu kúna á torg og selja fyrir peninga svo þau geti komizt enn af um hríð. Bertram tekur nú þessu vel og heldur af stað með kúna í bandi, og segir nú ekki af ferðum hans fyrr en að maður kemur á móti honum og spyr hvað hann ætli með þessa kú. Bertram kveðst eiga að selja hana. Aðkomumaður spyr hvað hún eigi að kosta. „Tíu dali,“ segir Bertram. „Viltu ekki kaupa af mér baun?“ segir aðkomumaður. Bertram sagði: „Er hún nokkuð öðruvísi en aðrar baunir eða viltu ekki lofa mér að sjá hana?“ Aðkomumaður tók þá úr vasa sínum gulllita baun og sagði: „Þessari baun fylgir sú náttúra að ef henni er sáð niður einhvurs staðar vex á lítilli stundu upp af henni mikið tré.“ Bertram kvað hana hið mesta gersemi — „og vil ég láta þig hafa kúna fyrir hana ef það er falt.“ Aðkomumaður sagði það mundi verða svo að vera. Er ekki að orðlengja það að þeir skipta kúnni og bauninni að sléttu og þóttist Bertram vel hafa keypt. Heldur hann nú heim til móður sinnar og segir henni hvað gott kaup hann hafi gjört. Hún kvað hann hið mesta fífl að láta óráðvanda menn fara þannig með sig.

Líður nú lítill tími þar til hún biður hann að fara með aðra kúna og tekur honum nú harðan vara fyrir að láta nú ekki flæða á sama skeri og áður, að láta þessa kú fyrir ekki neitt, og lofar Bertram öllu fögru um það. Heldur hann leið sína þar til maður kemur á móti honum og spyr hvað hann ætli með þessa kú. Bertram segir: „Ég á að selja hana og á hún að kosta tuttugu dali.“ Aðkomumaður segir: „Viltu ekki kaupa af mér mús sem er vel vanin og kann að syngja ýmisleg lög?“ „Gaman hef ég af að sjá hana,“ segir Bertram. Hinn tekur þá mús úr barmi sínum og lætur hana þar á þúfu rétt hjá þeim og tók hún þá til að syngja mjög listilega. Þókti Bertram það hin mesta furða og dáðist mjög að listum dýrs þessa og spyr aðkomumann hvurt hann vilji hafa við sig skipti á kúnni og músinni, en hann kvað já við. Skipta þeir þessu nú að sléttu og þóttist Bertram vel hafa veitt. Kemur hann nú heim til móður sinnar, og spyr hún hann eftir peningunum; en hann segir allt sem farið hafði. Verður hún þá harla reið og segir að ekki taki hann sér fram þó að hann verði fyrir sneypu — „og væri réttast ég ræki þig burt fyrir allar þínar athafnir“.

Nú eftir þetta líður enn nokkur tími þar til að kelling segir við hann að nú sé ekki annað fært en að selja þessa einu kú sem eftir er — „og verður þú að fara með hana; en næst þínu lífi skal ég ganga ef þú lætur hana fyrir einhvurn hégómann eins og hinar fyrri báðar.“ Bertram segist hennar ráðum hlíta vilja og fer af stað með kýrtetrið. Verður enn sem fyrr að honum mætir maður og spyr hvað hann sé að ferðast með þessa kú. Bertram sagði sem satt var að hann ætti að selja hana — „og skal hún,“ segir hann, „kosta þrjátíu dali“. Hinn segir það sé nú ekki dýrt, — „en viltu ekki að ég sýni þér verkfæri sem ég hef meðferðis? Það er svo lítið að vel má bera í vasa sínum, en þó er hægt að fella með því bæði þig og kúna og halda ykkur föstum.“ Bertram segir: „Þessu trúi ég naumlega; en gaman hef ég að sjá verkfæri þetta.“ Hinn tekur þá úr vasa sínum maskínu af járni; hún var mjög lítil fyrirferðar, en yfirmáta vel til búin. Fer hann þá að skrúfa hana sundur í mörgum stöðum og varð hún við það ótrúlega stór. Undraði Bertram þetta allt mikillega. En er minnst varði hleypir aðkomumaður vél þessari á bæði Bertram og kúna og lágu þau bæði fallin og gátu ekki hreyft sig. Bertram biður aðkomumann að losa sig, og gjörði hann það strax. Þegar Bertram er upp staðinn biður hann aðkomumann að selja sér maskínuna hvað svo sem hún yrði dýr. Aðkomumaður kvaðst skyldi láta hann hafa hana fyrir kúna, og þótti Bertram það góð kjör. Var nú þessu keypt. Fer aðkomumaður með kúna sinn veg, en Bertram heim með maskínuna og þykist aldrei jafnvel keypt hafa.

Þegar hann kemur heim spyr kelling hvar peningarnir séu sem hann hafi fengið fyrir kúna. Bertram sýnir henni þá maskínuna og lætur mikið af kostum hennar. Verður kelling fokreið og eys yfir hann bitrustu skömmum og brigzlyrðum svo að honum leiddist raus hennar og tók sér aðsetur í loftherbergi einu í bænum þar sem hann var sem minnst á vegum kellingar. Var það mesta afþreying hans að láta músina syngja fyrir sig og æfa sig í að skrúfa sundur og saman maskínuna og var hann orðinn mjög æfður í því.

Nærri þessum tíma bar það við að til kellingar komu þrír menn er hún var skuldug við og hafði veðsett þeim bæ sinn. Ætluðu þeir nú að reka hana með allt sitt út á kaldan klaka, en taka að sér öll yfirráð yfir bænum. Þegar kelling heyrði þetta varð hún bæði hrygg út af því að lenda á vergang, en reið við Bertram á ný, því hún kenndi honum um að svona var komið. Segir hún við þá að þeir skuli nú gjöra það fyrir sig að taka ögn í lurginn á Bertram fyrir allt athæfi sitt. Þeir verða fljótir til þess og vaða upp í loftið þar sem Bertram var fyrir ugglaus og skamma hann mestu undur fyrir leti og sóun á eigum móður sinnar. Hann svarar fáu, en hugsar með sér að það sé þó illt að þeir eigi ekki erindi, skrúfar í snatri sundur maskínuna, og er minnst varði hleypir hann henni á þá og lágu þeir fallnir með það sama og gátu ekki hreyft sig. Biðja þeir nú Bertram að leysa sig, en hann lét sem hann heyrði það ekki. Þetta var snemma dags. Líður nú þar til um kvöldið. Biðja þeir Bertram auðmjúklega að losa sig og kváðust skyldi láta hann hafa bæinn ef að hann gjörði það. Bertram sagði að ekki væri alllangt síðan að nóg var gort og hávaði í þeim og því mundi þeim ekki veita af að hvíla sig. Líður svo af nóttin. Um morguninn biðja þeir Bertram enn að sleppa sér og sögðust skyldi gefa honum auk bæjarins sína tvö hundruð ríkisdalina hver til þess. Bertram sagðist kunna að gjöra það ef þeir vildu sverja sér það að borga þetta fé refjalaust og í annan stað að láta aldrei sig eða nokkurn sinna gjalda þessarar skapraunar í orði eða verki. Þeir vóru fúsir til þess og að því afloknu leysti Bertram þá. Guldu þeir féð jafnsnart og héldu svo heim með skaða í bak, en skömm í fyrir, og eru þeir úr sögunni.

Nú er það þessu næst frá Bertram að segja að þegar hann var búinn að fá féð hjá skuldheimtumönnunum tók hann í sig mannlegan metnað og fór að vinna meira en hann hafði áður gjört og græddist honum brátt fé mikið. En móðir hans hafði nú á honum hinar mestu mætur er hún sá hvað gott lag var komið á búskapinn.

Ekki alllangt frá þessum bæ er Bertram var á var aðsetursstaður konungs og drottningar er réðu fyrir þessu landi. Þau áttu eina dóttur fríða og fallega og mörgum mannkostum búna og var hún gjafvaxta er hér var komið sögunni.

Það bar þessu næst til tíðinda að í þetta land kom risi einn. Hann var hið ferlegasta tröll og vóru við hann hræddir allir menn. Hann tók sér aðsetur á skóg einum skammt frá borg kóngs og settist þar að í kastala einn, en drap alla þá er í honum vóru fyrir, nema fáeina er komust undan með flótta og sögðu kóngi tíðindin og kváðu hina mestu þörf á að slíku óvætti væri stökkt úr landinu. Lætur kóngur nú flokk vel vopnaðra hermanna fara út á skóg til að drepa jötuninn. Er ekki að orðlengja það að þeir börðust við hann og lauk svo að hann drap þá alla og varð þar eftir hálfu verri viðskiptis en áður og máttu menn ekki fara um skóginn fyrir hans yfirgangi. Kóngi þykir þetta hið mesta mein, en gat þó ekki að gjört. Lætur hann það verða heyrum kunnugt að hann skuli gefa hvurjum þeim manni dóttur sína og hálft ríkið meðan hann lifði, en allt eftir sinn dag, er færði sér höfuð risans. Þótti mörgum gott að geta fengið kóngsdótturina, en treystu sér þó ekki til við jötuninn. Liðu nú svo stundir.

Nú víkur aftur sögunni til Bertrams þar sem hann býr með móður sinni og gengur allt að óskum. Fréttir hann nú orð kóngs og þykir fýsilegt ef hann gæti fengið dóttur hans og þar með kóngdóm og ríki; segir því við móður sína að hann ætli að fara og reyna að drepa risann. Hún sagði það væri hin mesta ofdirfð fyrir hann. En hann kvað ekki mundi tjá að letja sig. Þegar kelling heyrði það varð hún mjög döpur, en sagði þó að ef honum ætti að verða það til lukku þá væri gott að taka því, en ef það yrði hans bani þá mundi ekki vera hægt feigum að forða.

Býr hann sig nú af stað og kveður móður sína og bað hún einkar vel fyrir honum. Segir nú ekki af ferðum hans fyrr en að hann kom að kastalanum þar sem risinn átti heima. Það var um miðjan dag og var hann á dýraveiðum, en stúlka var heima; það var hertogadóttir ein er risinn hafði tekið nauðuga og lét hana matreiða handa sér. Bertram finnur hana og spyr hún hvað manna hann sé; hann segir henni sem var um það. Gefur hún honum síðan að borða og segir svo við hann að honum muni vera vissara að hafa sig sem hraðast í burt aftur, því þeim sé öllum dauðinn vís sem fyrir risanum verði. Bertram sagðist verða að bíða eftir honum og þakka honum fyrir matinn. Fer hann nú að leita sér að fylgsni og felur sig þar í einu horni í kastalanum þar sem mikið var af ílátum og ýmsu hrasli, en hafði þó rifu svo hann gæti séð hvað fram færi í húsinu. Líður nú þar til farið var að húma; þá heyrast úti dunur og dynkir og því næst kemur risinn inn með dýr á baki, en fuglakippu í fyrir. Hann kastar niður byrðinni og viðrar í ýmsar áttir og segir: „Hér hefur einhvur komið í dag.“ „Já,“ segir stúlkan, „hér kom einn af mönnum kóngs og fór undireins af stað aftur.“ Risinn segir: „Það var honum gagn að hann varð ekki á vegi mínum, því það vildi ég að kóngsmenn ættu óþarft erindi til híbýla minna.“ Setti nú stúlkan fyrir hann fullt matartrog og þótti Bertram hann taka ærið stórkostlega til matar síns. En þegar hann var mettur lagðist hann til svefns í rúm er var þvert um fyrir enda hússins, en upp yfir höfðalaginu var gluggi og þar úti fyrir afar hár veggur. Hann hafði sverð biturlegt og reisti það við fótagafl rúmsins. Tekur hann bráðlega að hrjóta mjög tröllslega. Gjörir þá Bertram hark mikið og hraut risinn sem áður. Fer nú Bertram úr hæli sínu og út og klifrast upp á vegginn úti fyrir kastalaglugganum og sáir þar niður bauninni góðu. Að því afloknu fer hann aftur inn í kastalann og finnur stúlkuna og segir henni að passa sig að verða ekki á leið risans ef hann kynni að koma á fætur. Tekur hann nú sverð risans og stekkur upp á rekkjustokkinn og leggur sverðinu tveim höndum í kvið risans og út um bakið svo í beði stóð og lætur sverðið standa í sárinu, en smýgur sjálfur út um gluggann. Var þá vaxið tré nokkuð hátt upp af bauninni og hljóp hann upp eftir því og gat stokkið úr toppnum og á mænir kastalans.

Nú er af risanum að segja; hann vaknar við vondan draum, en hyggst þó að hefna sín áður en lífinu ljúki. Heyrðist honum vegandinn fara út um gluggann og vildi fyrir hvurn mun komast á eftir, en þá varð glugginn of lítill og varð hann að brjóta út frá honum og komst svo loksins út. Slengdist hann þá á eikina, en hún lét undan og brotnaði, en jötunninn steyptist ofan fyrir vegginn og lét þar líf sitt með miklum umbrotum. Var Bertram meðan á því stóð upp á húsmænirnum, en fór ofan er hann hugði risann dauðan, og hjó af honum höfuðið og ætlaði að hafa það með sér til sannindamerkis þegar hann hitti konunginn. Þá kemur stúlkan og þakkar honum fyrir frelsun sína og segist ætla að biðja hann að vera hjá sér það sem eftir væri næturinnar og var Bertram fús til þess. Fara þau nú inn og leggjast til svefns og sofa með góðri værð allt til morguns. Kveður nú stúlkan Bertram mjög vingjarnlega og fer af stað til sinna heimkynna. En Bertram hyggst nú að hraða ferðinni heim til borgar og ætlar að taka með sér haus risans, en hann var þá allur á burt. Bregður honum nú allilla við og þykist vera grátt leikinn; en þó ræður hann það af að fara heim til borgar og vita hvurt hann heyri þar ekkert nýstárlegt.

Þegar hann kemur til borgarinnar er þar hinn mesti glaumur og gleði. Spyr hann hvað því valdi; en honum er sagt að nú sé í borginni almenn gleðihátíð yfir því að nú sé búið að drepa risann er flest spillvirki hafi unnið og allir verið við hræddir. Bertram spyr hvur svo hafi verið frægur að ráða þvílíkt tröll af dögum. Honum var svarað að það hefði gjört einn riddari kóngs og ætti nú í dag að vígja þau saman kóngsdóttur og hann. Bertram þótti þetta allt mikil tíðindi og sér ei hagkvæm, en herðir þó upp hugann og gengur fyrir kóng og segist vera þar kominn þess erindis að vita hvurn sóma hann vilji gjöra sér fyrir það að hann hafi jötuninn af dögum ráðið. Kóngur varð forviða er hann heyrði orð Bertrams, en segir þó að sig furði mikillega á dirfsku hans að ætla að eigna sér afrek annars manns sem öllum sé orðið kunnugt. Bertram sagði sér dytti það engvan veginn í hug og segir svo kóngi allt sem farið hafði frá því fyrst er hann kom að kastalanum og til þess er þá var komið. En er hann þagnaði tók riddarinn mágsefni kóngs þannig til orða: „Alllíklega getur þú logið, það heyri ég á þessum framburði þínum; en ei ætla ég að kóngur sé svo grunnhygginn að trúa slíkri lygi. Mun hann heldur láta refsa slíkum falsara að maklegleikum.“ Kóngur kvað það satt er hann mælti; því næst skipaði hann að fara með Bertram í ljónagröf og átti hann þar að taka gjöld fyrir lygi sína. Er nú Bertram tekinn og kastað í ljónagröf. Þar vóru fyrir tvö ljón. En er hann kom niður í gröfina skrúfaði hann sundur sem fljótast maskínu sína og hleypti henni á bæði ljónin svo þau lágu fallin; en svo var gryfjan djúp að ei gat hann komizt upp aftur, en nógan hita hafði hann [af] ljónunum, og var honum þar ekki hætt við neinum skaða nema af sulti.

Nú víkur aftur sögunni heim til borgar að þar var allt á tjá og tundri. Lætur kóngur gefa saman dóttur sína og þann fræga riddara er fyrr var frá sagt. Var þar svo sett brúðkaup með glaum og gleði; og um kvöldið er tími var til vóru brúðhjónin leidd til einnar virðuglegrar sængur eins og nærri má geta. Segist nú ekki um það meir. En um nóttina vaknar riddarinn og er hann þá búinn að útata allt rúmið með saur sínum. Hann veit ei hvað slíku veldur. Í því vaknar kóngsdóttir við ærið illan draum og kvað hann mundi hinn mesta óþokka. Talar hún nú á þernur sínar og lætur taka sængurklæðin þau óhreinu og láta önnur hrein í staðinn. Líður svo af sú nótt og dagurinn og kemur önnur nótt. Eru brúðhjónin til sængur leidd; en um nóttina vaknar kóngsdóttir við það að rúmið er hálfu verr verkað en nóttina áður. Hún verður þá hálfreið og segir að slíkan sóttarbekra geti hún ekki barizt við, enda segist hún vera viss um að hann hafi ekki unnið slíkt afreksverk sem að vinna risann. Riddarinn fór að afsaka sig með mestu auðmýkt og sagði sér væri ómögulegt að gjöra að þessu, því sér fyndist eitthvurt kvikindi vera að pikka sig og kvelja svo hann hefði engan frið í rúminu fyrr en svona væri komið; enda var nokkuð hæft í því er hann sagði, því að músin hans Bertrams fór á hvurri nóttu úr gröfinni til að kvelja riddarann. Lét nú kóngsdóttir enn hafa fataskipti og líður svo þar til þriðju nóttina er þau vóru saman. Er ekki að orðlengja að þá fór langverst. Verður nú kóngsdóttir bálreið og segir að þeirra sambúð muni ekki geta orðið lengri þar hann sé svo mikill óþokki að slíkur muni valla finnast — „og er mjög ólíklegt að þú hafir unnið risann; og þykir mér líklegt að maður sá er kastað var í ljónagröfina hafi verið sá rétti vegandi“. Að svo mæltu fór hún burt frá riddaranum og tjáði ei þó hann bæði hana auðmjúklega fyrirgefningar.

Um morguninn er bjart var orðið kvaddi hún með sér mikla fylgd manna, bæði karla og kvenna, og fer til ljónagrafarinnar er Bertram var í og spyr hvurt þar sé nokkur maður með lífi. Bertram sagði til sín og skipaði hún þá að draga hann upp og var svo gjört. Og er hann var upp kominn heilsar hann henni mjög hæversklega, en hún tekur því vel og spyr hvað hann heiti og hvurra manna hann sé. Bertram segir henni það. Hún segir þá við hann: „Segðu mér nú satt og rétt um það sem á dagana hefur drifið fyrir þér frá því að þú fórst að heiman.“ Bertram kvaðst svo gjöra skyldi. Segir hann nú allt sem farið hafði. En er hann þagnaði segir kóngsdóttir að hann skuli nú koma með sér heim til borgar og vita hvað þá gjörist. Hann tók því þakksamlega; og er heim kom til borgarinnar lætur kóngsdóttir bera honum vín og vistir og fær honum góð klæði. Síðan fara þau á fund kóngs og segir hún þá við föður sinn: „Það hygg ég að þessum manni er þér létuð kasta í ljónagröfina hafi verið gjört rangt til og vil ég að þér prófið betur mál hans. Þykir mér hann miklu líklegri til að hafa drepið risann heldur en mannskræfa sú er þér giftuð mig.“ Kóngur segir að það muni bezt að láta að orðum hennar. Er þá sent eftir riddaranum. Kom hann þegar og var allhræddur um sitt mál, því sök bítur sekan. Er hann þegar krafinn til sagna. Þorði hann þá ekki annað en að segja sem var um hans athæfi. Kvaðst hann hafa komið af tilviljun til kastalans um nóttina og séð hausinn af risanum og tekið hann þegar og farið með heim til borgar. Kóngur kvað hann hafa fyrirgjört lífi sínu með falsi þessu. Var hann þegar dæmdur til dauða og síðan hengdur á gálga. En kóngur tók við Bertram með hinni mestu blíðu og bað hann að forláta það er hann hafði orðið fyrir röngu og gjörði hann það fúslega.

Er nú þegar að nýju við brúðkaupi búizt og gefur kóngur Bertram dóttur sína. Var veizlan hin sköruglegasta. Lét Bertram sækja móður sína og varð hún glaðari en frá megi segja er hún vissi hvur gæfumaður sonur hennar var orðinn. Veizlan stóð í marga daga; og að henni endaðri vóru allir heldri menn með gjöfum út leystir.

Kóngur lét mennta Bertram, gaf honum svo hálft ríkið meðan hann lifði, en allt eftir sinn dag. Vóru samfarir Bertrams og kóngsdóttur hinar beztu og unntust þau bæði vel og lengi.

Lyktar svo þetta ævintýri. — Endir.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bl. 162–168.

© Tim Stridmann