Helga karlsdóttir

Einu sinni voru karl og kerling; þau bjuggu í garðshorni. Þau áttu dóttur eina barna er Helga hét; hún var kvenna fríðust.

Nú kemur að því að kerling heldur að hún muni deyja. Kallar hún þá dóttur sína til sín og segir henni að mæðusöm muni ævi hennar verða með köflum, en lítið gæti hún aðstoðað hana. „Þó vil ég gefa þér al þenna,“ segir kerling, „og muntu geta látið hann segja já ef þér liggur á.“ Síðan deyr kerling.

Eitt kvöld biður karlinn Helgu dóttur sína að sofa hjá sér; það vill hún ekki, en hann leitar á því fastara. Hún kveðst hafa gleymt að fela eldinn og segist þurfa að gera það. Nú fer hún til eldhúss, stingur alnum í vegginn og segir honum að segja já, en sjálf hleypur hún út í myrkrið. Karlinn kallar á Helgu dóttur sína, en alurinn gegnir og segir alltaf já. Þessi játan leiðist karlinum, hleypur ofan og út og leitar að dóttur sinni, en finnur ekki, fer síðan heim og er hann nú úr sögu þessari.

Það er af Helgu að segja að hún hljóp út á skóg og gengur alla nóttina. Þegar birtir af degi kemur hún að húsi einu litlu og laglegu. Þar gengur hún inn og sér mann sem er að tefla við sjálfan sig. Maðurinn býður henni að koma inn og segir að það sé réttast fyrir hana að vera hér hjá sér og þjóna sér því að hann sé einn. Helga þiggur þetta. Hún spyr hann að nafni, en hann kvaðst Herrauður heita.

Nú líður nokkur tími og verður Helga barnshafandi. Herrauður var á veiðum um daga, en heima um nætur. Þegar líður á meðgöngutímann kemur Herrauður alltaf seinna og seinna heim og eitt kvöldið kemur hann ekki. Þá er Helga lasin og sofnar.

Þá dreymir hana móður sína; þykir henni hún koma til sín og segja við sig: „Nú er Herrauður búinn að svíkja þig, hefur tröllskessa tælt hann til þess sem hann ætlar að eiga, skaltu nú fara úr húsinu, setja á þig öfuga skó og fara í jarðhús sem hér er skammt frá; því skessan mun sitja um líf þitt.“

Eftir þetta vaknar Helga, bindur á sig öfuga skóna og fer í jarðhúsið. Að litlum tíma liðnum kemur hundur og leitar eftir Helgu, nasar um förin fram og aftur, en finnur ekki og fer við það burt. Síðan heyrir hún dynki mikla og dunur. Sér Helga út um glufu á jarðhúsinu að þetta er tröllskessa. Hún leitar fram og aftur eftir sporunum og þegar hún finnur ekkert fer hún burtu.

Fram af þessu fer Helga úr jarðhúsinu og gengur út á skóg. Hún gengur lengi þangað til hún kemur að læk; þar kemur barn að læknum og sækir vatn. Helga lætur gullhring í vatnsfötuna hjá barninu.

Að lítilli stundu liðinni kemur dvergur til Helgu. Hann þakkar henni fyrir barnið sitt og býður henni heim til sín. Þau koma að steini miklum; lýkst steinninn upp og ganga þau þar inn. Þar situr kona dvergsins og þakkar Helgu fyrir barnið sitt. Í steininum fæðir Helga fagurt sveinbarn.

Dvergurinn mælti til Helgu: „Nú er Herrauður að gifta sig í dag; ætlar hann að eiga skessu og ef þú vilt horfa á brúðkaupið þá skal ég hjálpa þér að komast þangað.“

Helga kvað sig langa til að fara. Dvergurinn fer þá með henni þangað til þau koma að helli nokkrum; þá bregður hann yfir hana skikkju svo enginn sjái hana; segir hann henni að hún skuli taka eftir hvað brúðurin hafist að á hverju kvöldi þegar hún gangi út, en seinasta kvöldið skuli hún sýna Herrauði hvað hún hafist að, því veislan muni standa yfir í þrjá daga. Seinast segir dvergurinn að hún skuli nefna sig ef henni liggi á og við þessi orð hverfur hann.

Nú horfir Helga á veisluna og fer hún fram með stórkostlegri gleði og glaum. Brúður situr nett og fögur á brúðarbekk og er ekki stærri en meðalkvenmaður og Herrauður er hinn kátasti.

Um kvöldið gengur brúðurin út og vill engan mann hafa með sér. Hún gengur skammt frá hellinum, snýr sér þrisvar í hring og segir: „Verði ég eins og ég á að mér.“

Þá verður hún að stórri tröllskessu. Hún mælti þá: „Komi hér þríhöfðaður þussi, bróðir minn, með fullan stóra sáinn með hrossakjöt og manna.“

Þá kemur þussinn með sáinn og taka þau bæði til snæðings.

Að þessu búnu snýr skessan sér þrisvar í hring og mælti: „Verði ég eins og ég var,“ og verður hún þá aftur nett stúlka.

Annað kvöldið fer brúðurin eins að. Þriðja kvöldið sækir Helga Herrauð, og þekkir hann hana þó ekki, og leiðir hann til skessunnar meðan hún er að snæða; bregður honum þá mjög við, hnýtir snöru í hellisdyrnar og gengur inn.

Þegar brúðurin kemur festist hún í snörunni; kallar hún á bróður sinn og kemur þá hinn ógurlegi þríhöfðaði þussi. Nefnir nú Helga dverginn og sér hún þá fugl koma og kljúfa alla hausana á þussanum svo hann er þegar dauður, en brúðurin hengdi sig í snörunni og þótti Herrauði hún þá ekki vera fríð sýnum þar sem hún lá fallin.

Nú sér Herrauður Helgu og verður glaður við, biður hana fyrirgefningar og segir að skessan hafi með kukli tælt sig til að svíkja hana. Flytja þau Herrauður og Helga í húsið á skóginum og héldu síðan brúðkaup sitt. En dvergurinn kom með son þeirra og lagði í kjöltu Helgu á brúðkaupsdegi og launaði Herrauður dvergnum vel alla hjálp hans. Herrauður og Helga unnu hvort öðru til elli og lýkur svo sögu þessari.

© Tim Stridmann