Einu sinni var kóngur í ríki sínu og skammt þaðan kelling í garðshorni. Hún átti einn son sem hét Hyrnir. Hann var mesti bjáni eins og heyra má af þessari sögu. Oft gekk hann á daginn heim í kóngsríki til að forvitnast um hvað þar gjörðist.
Eitt sinn kom hann þar að sem konungsmenn vógu gull og veitti þungt að hefja upp reizluna. Þá sagði hann: „Léttist um helming!“ Það varð svo, en við það reiddust kóngsmenn og börðu strák hlífðarlaust. Hann skreið þá hrínandi heim til móður sinnar. Hún spurði hvað að honum gengi, en hann sagði eins og var. „Mikill álfur varstu, drengur minn, að tala þetta,“ sagði kelling. „Hvað átti ég þá að segja?“ sagði strákur. „Þyngist um helming!“ sagði kelling. „Ég skal segja það á morgun, móðir mín,“ sagði hann.
Næsta dag gekk strákur heim í kóngsríki og hitti svo á að líkmenn báru kistu til grafar og veitti erfitt. Þá sagði hann: „Þyngist um helming!“ Við þetta brá svo að líkmenn misstu kistuna niður og meiddi þá suma. Þeir reiddust af þessu og börðu strák, en hann hljóp heim og sagði móður sinni. „Mikill heimskingi varstu,“ sagði kelling, „að tala svona þegar dauður maður var borinn til grafar.“ „Hvað átti ég þá að segja?“ sagði hann. „Guð blessi sálu hins dauða!“ „Ég skal segja það á morgun, móðir mín,“ sagði strákur.
Daginn eftir gekk hann enn á fund konungsmanna og hitti tvo er hengdu hund sem stolið hafði stórum. Þá segir strákur það sem hann lofaði móður sinni. Nú hlógu kóngsmenn og hugði strákur að þeim hefði líkað vel orð hans, fer heim og segir móður sinni. Ekki þótti kellingu að enn hefði tekizt bezt og ávítaði son sinn. „Hvað átti ég þá að segja þegar þetta dugði ekki?“ „‚Svei þér! Þú áttir heimangengt, þjófurinn þinn!‘ áttirðu að segja.“ „Ég skal gjöra það á morgun, móðir mín,“ sagði hann.
Næsta dag kemur hann heim í kóngsríki, en þá var þar ys mikill og harmur því konungur var fallinn frá. Þegar strákur sá líkið sagði hann: „Svei þér! Þú áttir heimangengt, þjófurinn þinn!“ Þessu reiddust konungsmenn svo að þeir börðu strák í hel svo honum gat nú ekki oftar orðið mismæli.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bls. 278–279.