Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu eina dóttur sem Ingibjörg hét. Karl og kerling bjuggu í koti sínu þar skammt frá; þau áttu einn son er Sigurður hét. Hann var snemma námfús og lærði bæði að lesa og skrifa. Einu sinni var hann á gangi úti í skógi og mætti þar manni al-rauðklæddum. Sá spurði hann að heiti, en Sigurður sagði til nafns síns, en spurði hinn aftur að nafni; hann kvaðst Rauðkufl heita. Rauðkufl spurði nú Sigurð hvort hann kynni að lesa; Sigurður játaði því. Því næst spurði Rauðkufl hvort hann kynni að skrifa og játaði Sigurður því einnig. „Þá vil ég þig ekki,“ sagði Rauðkufl. Síðan kvaddi hann Sigurð og hélt í burtu, en Sigurður hélt heim. Brátt fór hann samt að iðrast eftir því að hann hefði sagt manninum satt, og næsta dag gekk hann út á skóg með þeim ásetningi ef hann fyndi Rauðkufl að segja honum þá öfugt við það sem hann hafði sagt honum fyrst og vita þá hvernig færi.
Þegar hann hafði gengið dálitla [stund] mætti hann Rauðkufl. Rauðkufl spurði hann nú sömu spurninga og daginn áður, en Sigurður sagðist nú hvorki kunna að lesa eður skrifa; en Sigurður kvaðst hann heita. „Varst það ekki þú sem ég mætti hérna í gær?“ spurði nú Rauðkufl. „Nei,“ sagði Sigurður. Rauðkufl sagði að að minnsta kosti hefði hann þó verið allt að einu. „Það hefir líklegast verið strákurinn hann Siggi bróðir minn,“ sagði þá Sigurður; „hann var eitthvað að segja frá manni sem hann hefði mætt í skóginum.“ „Kann hann að lesa og skrifa?“ „Já, eða að minnsta kosti er hann ævinlega eitthvað með bækur; eða heitir það ekki að lesa?“ „Jú,“ sagði Rauðkufl. Spurði hann svo Sigurð hvort hann vildi ekki vera vinnumaður hjá sér eitt ár. Ójú, Sigurður var til með það, en samt bað hann hann að lofa sér að fara heim fyrst og kveðja. Rauðkufl lofaði honum það, en sagði að hann yrði að mæta sér þar á sama stað næsta dag.
Næsta dag kom Sigurður á tiltekinn stað. Var þar þá Rauðkufl kominn. Fór hann nú með Sigurð til heimilis síns sem ekki var langt frá koti karlsins. Þar var fullt upp af alls konar galdrabókum og átti Sigurður að passa þær svo þær skemmdust ekki. Þegar Rauðkufl hafði sagt Sigurði hvað hann ætti að gjöra fór hann frá honum.
Í húsinu var stúlka ein sem þjónaði Sigurði; en það þótti honum undarlegt að hann sá hana aldrei nema niður að miðju, en þar fyrir neðan sást ekkert. Ekkert sagði hún Sigurði um hagi sína, enda var hún mjög fámálug.
Var nú Sigurður þarna í húsinu í eitt ár. Sá hann aldrei aðra menn en stúlkuna; hafði hann ekkert að gjöra nema að passa bækurnar. Lærði hann nú nokkuð af göldrunum sem voru í bókum Rauðkufls. Á sumardaginn fyrsta kom Rauðkufl heim og fékk Sigurði hundrað dali í kaup og bað hann að vera hjá sér næsta ár; lofaði Sigurður því með því móti að hann fengi tvö hundruð dali í kaup. Rauðkufl lofaði því. Sigurður fór nú heim í kot föður síns með peningana og sagði honum hvernig sér liði og sagðist hann ætla að verða hjá honum næsta ár. Karl lét vel yfir því.
Næsta ár var Sigurður í húsi Rauðkufls og bar ekkert til tíðinda nema að Sigurði fór töluvert fram í galdrinum. Á sumardaginn fyrsta kom Rauðkufl og fékk Sigurði tvö hundruð dali í kaupið. Bað hann hann svo að vera hjá sér þriðja árið. Sigurður lofaði því, en bað hann leyfis að mega fara heim til föður síns með peningana; það leyfði Rauðkufl.
Segir nú ekkert frá Sigurði þriðja árið nema það að hann varð fullnuma í fjölkynngi. Vissi hann nú vel hvað Rauðkufli leið; var hann hjá bræðrum sínum sem hétu Grænkufl og Blákufl í húsi einu langt þaðan í burtu; einnig vissi hann að þeir ætluðu að drepa hann þegar þriðja árið væri útliðið.
Miðvikudaginn fyrir sumar kemur þjónustustúlka Sigurðar til hans og segir: „Bágt áttu Sigurður.“ „Ég á ekkert bágt,“ sagði Sigurður; sagðist hann vel vita að Rauðkufl ætlaði að drepa sig; en hann sagði að honum skyldi ekki verða að því. Síðan fór hann heim til karls föður síns og sagði honum að það myndi koma til hans maður á morgun í rauðum klæðum og biðja hann að selja sér brúna hestinn sem væri suður í hesthúsinu. Sagði hann að hann mætti það, en hann yrði að muna sig um það að spretta keðjunni áður en hann fengi honum hestinn. Karl lofaði því.
Næsta dag kemur Rauðkufl til karlsins og biður hann að selja sér brúna hestinn sem væri suður í hesthúsinu. Ójá, karl var til með það; svo ætlaði hann að fara að spretta keðjunni, en þegar Rauðkufl sá það sagði hann að þess þyrfti ekki. Tók hann síðan taumana af karlinum, stökk á bak og reið í burtu. Þegar hann var kominn heim með hann setti hún hann inn í hesthús. Þegar Rauðkufl var farinn fór hesturinn — eða Sigurður því að það var hann sem hafði breytt sér í hestlíki til þess að komast undan Rauðkufl — að tala við sjálfan sig og barma sér; en í því kom stúlkan sem hafði þjónað honum, í hesthúsið með mat handa honum. „Sárt ertu nú leikinn, Sigurður,“ sagði hún. Sigurður kvað svo vera, en sagði að allt myndi fara vel ef hún vildi losa keðjuna, en það sagðist hún ekki þora. Samt varð það úr að hún spretti keðjunni og rétt í því kom Rauðkufl inn í húsið með glóandi járntein sem hann ætlaði að drepa Sigurð með. Þegar Sigurður sá Rauðkufl koma inn brá hann sér í drekalíki og flaug út úr húsinu. Rauðkufl brá sér þá líka í drekalíki og flaug út á eftir honum. Fóru þeir síðan saman og flugust lengi á; varð aðgangur þeirra bæði harður og langur, en þó lauk svo að Sigurður gat drepið Rauðkufl. Sigurður tók nú það sem hann vildi af bókum Rauðkufls og fór heim með það í kot til föður síns, en stúlkan varð eftir í húsinu.
Skömmu síðar fór Sigurður heim í kóngsríkið og kom sér í þjónustu hjá honum. Ekki leið á löngu áður en hann kæmist til hárra metorða sökum kunnáttu sinnar og mannkosta. Varð hann brátt æðsti ráðgjafi konungs. Konungur mat ráð hans svo mikils að hann nálega gjörði ekkert nema að spurja Sigurð ráða um það. Sigurður bað konung að taka ekki neinn vetursetumann nema hann vissi af því, og lofaði konungur því.
Einu sinni þegar Sigurður var á dýraveiðum kom maður til konungs og bað hann veturvistar; hann var í bláum klæðum. Konungur var lengi tregur til, en þó kom þar um síðir að hann hét honum vetrarvistinni. Rétt þar á eftir kom Sigurður heim og þegar hann sá hinn nýkomna vetursetumann þekkti hann að þar var Blákufl kominn. Þótti honum nú heldur óvænkast ráðið, en úr því að svo var komið lét hann það svo vera. Þegar fram liðu stundir tók kóngsdóttirin Ingibjörg að þykkna undir belti af völdum Sigurðar. Og þegar að þeim tíma kom að hún myndi fæða kom Sigurður að máli við hana og sagði henni að henni myndi ganga illa að fæða barnið; myndi þá Blákufl verða fenginn að hjálpa henni; þá sagði hann að vel myndi ganga með barnsfæðinguna. Svo sagði Sigurður henni ennfremur að hún skyldi spyrja Blákufl um hvað hann vildi fá fyrir hjálpina; hann myndi þá reka augun í armband það sem hún bæri á hægri handlegg og biðja hana um það. Sagði hann að hún skyldi láta honum það eftir; en þess bað hann hana að láta það detta niður á jörðuna áður en hún fengi honum það. Síðan fór Sigurður burtu og vissi enginn hvað af honum varð.
Nú leið að þeim tíma sem Ingibjörg skyldi ala barnið. Gat hún þá ekki fætt það, hverra ráða sem leitað var. Loks bauðst Blákufl til að hjálpa kóngsdóttur og var það þegið. Þegar hann tók höndum á Ingibjörgu gekk allt vel. Þegar hún var búin að eiga barnið spurði hún Blákufl hvað hann vildi fá fyrir hjálpina. Blákufl sagðist vilja fá armbandið sem hún bæri á hægri handleggnum. Ingibjörg sagði að ekki mætti það minna vera en að hann fengi svo lítið. Blákufl ætlaði þá að taka það af henni, en hún sagðist ekki strax vilja láta hann fá það því að hún ætlaði að láta kveðja þings og láta hann þar fá armbandið svo að allir gæti séð hve óeigingjarn og lítillátur hann væri. Blákufl fellst á þetta. Þegar kóngsdóttir var orðin frísk lét hún kveðja til þings í hallargarðinum. Þar sagði hún öllum frá að Blákufl vildi ekkert fá fyrir hjálpina nema armband eitt. Allir undruðust lítillæti Blákufls, en þegar hann ætlaði að taka við því af Ingibjörgu lét hún það falla á jörðuna eins og hún hefði misst það. Þegar Blákufl sá það varð hann sótsvartur í framan og um leið varð hringurinn líka svartur. Á augabragði varð Blákufl að dreka einum stórum og hringurinn sömuleiðis. Flugu þeir þar hver á annan; varð þar óttalegur aðgangur, en svo lauk að sá drekinn sem varð úr hringnum bar sigur úr býtum og gekk af hinum drekanum dauðum. Þegar drekinn var dauður brást hinn drekinn í mannslíki og var þar þá kominn Sigurður ráðgjafi. Fögnuðu allir honum og þóttust hann úr helju heimtan hafa. Sigurður bað nú kóngsdóttur sér til konu og fékk hana. Bjuggu þau nú saman nokkurn tíma í friði og velsæld; þó var Sigurður ennþá ekki ugglaus um sig því að ennþá var Grænkufl eftir og hann var langmestur galdrahundur og verstur viðureignar.
Þau sváfu saman sér í kastala Sigurður og Ingibjörg og stóð vagga fyrir framan rúm þeirra og lá barn þeirra í henni.
Einn morgun þegar Sigurður vaknar var Ingibjörg horfin úr rúminu og barnið lá hálsskorið í vöggunni. Vissi hann nú ekki sitt rjúkandi ráð því að hann var nú líka búinn að missa alla galdrana. Fór hann nú á fætur frá sér af sorg og sagði kónginum frá þessu. Varð hann mjög hryggur út af hvarfi dóttur sinnar og lét senda menn [í] allar áttir að leita hennar, en hún fannst ekki. Kóngur spurði nú Sigurð hvort hann vissi ekkert hver hefði gjört þetta, en Sigurður sagðist helzt halda að Grænkufl bróðir Blákufls hefði gjört það til að hefna bræðra sinna. Sagði hann honum síðan frá öllum viðskiptum sínum við þá bræður. Sigurður var úrvinda af sorg sem von var. Samt labbaði hann af stað að leita konu sinnar og ætlaði hann ekki að koma heim aftur fyr en hann hefði fundið hana; tók hann aðeins með sér tvo peninga og fór svo af stað. Gekk hann út á skóg og var einlægt að hugsa um hvarf Ingibjargar. Gekk hann svo allan daginn án nokkurrar verulegrar stefnu og kom seint um kvöldið að kofa einum. Þar barði hann að dyrum og kom karl einn til dyra. Sigurður biður hann svo gistingar og var hún til reiðu. Síðan fór Sigurður inn, og var þar þá líka, auk karls, kerling ein sem hann hélt vera konu karlsins. Svo var Sigurði borinn matur og er hann hafði snætt stóð hann upp og fékk þeim karli og kerlingu sinn peninginn hverju. Urðu þau mjög léttbrýn við það og fór nú karl að verða hinn skrafhreifnasti. Spurði hann Sigurð um hagi hans og sagðist hann þá vera að leita að Ingibjörgu konu sinni. Karl spurði hann hvort hann grunaði nokkuð hver hefði tekið hana, en Sigurður kvaðst gruna Grænkufl bróður þeirra bræðra Blákufls og Rauðkufls. Sagði þá karl að hann gæti þess rétt til, en ekki sagði hann að gott myndi verða að ná henni. Þó sagðist hann skyldi hjálpa honum það sem hann gæti. Var nú Sigurður þar um nóttina í góðu yfirlæti.
Um morguninn þegar hann var kominn út og ætlaði að fara að fara sagði karl honum að hús það sem Grænkufl væri í væri þar langt í burtu; í kringum það væri mjög hár skíðgarður sem illt væri að komast yfir, en þó hann kæmist inn fyrir hann þá væri eftir fyrir hann að sjá inn í húsið; en ef hann gæti það þá myndi hann fá galdrana aftur og þá myndi honum verða auðvelt að yfirvinna Grænkufl. Svo kom kerlingin með þrjár baunir og fékk honum; sagði hún að hvergi væri hægt að sjá inn í húsið nema um svolitla rifu sem væri ofan í mæninn á því. Sagði hún að hann skyldi kasta baununum niður í rifuna og myndi hún þá stækka svo að hann gæti vel séð inn í húsið og þá væri hann hólpinn. Sagði hún honum að hann yrði fyrst að seiða til sín sverðið hans Grænkufls því að það væri allra sverða bezt og ekkert biti á hann annað en það. Síðan fór kerling inn í kofann. Rétt á eftir kom svört tík út; ekki hafði Sigurður séð hana þar áður. Hún flaðraði upp um karl og lét vinalega að Sigurði, en karl sagði honum að hann ætlaði að lána honum hana tíksu sína til fylgdar. Sagði hann Sigurði að honum væri óhætt að fylgja henni og hann mætti taka í skottið á henni ef hann vildi þar sem brattast væri. Sigurður þakkaði nú karli allar ráðleggingarnar og hélt svo af stað á eftir tíkinni.
Þegar hann hafði gengið lengi lengi komu þau að skíðgarði einum afar háum og sá Sigurður engin ráð til að komast upp á hann. Tók hann það þá til bragðs að hann tók í skottið á tíkinni og rann hún þegar upp garðinn og Sigurður á eftir. Þegar þau voru komin upp sá hann stórt hús í miðjum garðinum, en þegar honum varð litið á tíkina sá hann að þar var komin kerlingin karlsins sem hann hafði gist hjá. Sagði hún honum nú að hann myndi verða mikill lánsmaður; hann myndi yfirvinna Grænkufl og ná Ingibjörgu. Síðan skildust þau með kærleikum.
Sigurður hélt nú að húsinu og eftir nokkrar tilraunir tókst honum að komast upp á það. Fann hann þá rifuna sem kerlingin hafði vísað honum á og lét hann þá baunirnar niður í hana; víkkaði hún þá svo mikið að hann sá vel inn í húsið. Þá fékk hann allan töfrakraft sinn aftur og töfraði til sín sverðið. Fór hann síðan ofan aftur. Þegar hann kom niður var Grænkufl þar kominn í drekalíki; Sigurður brá sér þá líka í drekalíki og flugust þeir svoleiðis á nokkra stund og hafði hvorugur annan. Brugðu þeir sér nú í alls konar kvikinda- og dýramyndir og voru svo jafnir að hvorugur hafði annan. Loks brugðust þeir í mannslíki og börðust svoleiðis. Ætlaði þá Grænkufl að grípa til sverðsins góða, en Sigurður brá því þá undan skikkju sinni og klauf Grænkufl í herðar niður. Fór hann síðan inn í húsið og fann þar Ingibjörgu og hina fornu þjónustustúlku sína hangandi á hárinu. Var nú stúlkan með réttum líkamsskapnaði. Varð þar mikill fagnaðarfundur sem von var. Stúlkan sagði nú Sigurði að Rauðkufl hefði stolið sér frá föður sínum sem væri konungur; hefði hann viljað láta hana eiga sig, en þegar hún vildi það ekki hefði hann lagt á sig að hún skyldi verða ósýnileg fyrir neðan mitti og skyldi hún aldrei komast úr þeim álögum fyr en þeir væru allir dauðir bræðurnir. Sigurður tók nú allt það sem fémætt var í húsinu og fór svo heim í kóngsríkið með Ingibjörgu og stúlkuna. Stúlkan eða kóngsdóttirin fór heim í ríkið til föður síns, en Sigurður og Ingibjörg ríktu í ríki sínu þegar gamli kóngurinn var dáinn og unnust þau til elli og áttu börn og burur o. s. frv.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bls. 170–174.