Einu sinni var konungur og drottning í ríki sínu og gekk þeim flest að óskum nema það að þau áttu ekki barn, og þótti þeim það mein mikið, en einkum drottningunni. Fer hún þá til völvu einnar eða vísindakonu og leitar ráða hjá henni til þess hún mætti verða barnshafandi. Valvan færðist undan að kenna henni ráðið, en drottning sótti því fastara eftir; og er spákonan sá að hún mundi ei þar undan komast þá spyr hún drottningu hvert hún vili þó eiga dóttur að hún viti til sanns að drottning deyi frá henni á æskualdri, en dóttir hennar verði síðan fyrir álögum og illum þrautum. Drottning lézt eiga vilja dótturina allt að einu. „Þá er það sýnt,“ segir kunnga konan, „að þú elskar og metur meir augnagamansyndi þitt en sanna velferð dóttur þinnar og er það þó ei góðmóðurlegt.“ En þó fer so að hún kennir drottningu ráðið og er þess ei getið hvert var; og verður nú drottning þunguð og elur á tækri tíð meybarn mikið og fagurt. Elst mærin sem nefnd er Viðfinna upp með móður sinni unz hún er fjórtán ára; þá tekur móðir hennar sótt og deyr síðan.
En konungur leitar sér annars kvonfangs og fær aftur drottningar er Vala er nefnd og var hún allfríð á að sjá; en þó var það alþýðurómur að Viðfinna væri enn fríðari og var hún því almennt nefnd Viðfinna Völufegri. Og af þessu fær drottning leynt hatur til Viðfinnu og vill fyrir hvern mun fyrikoma henni.
Og einn tíma er konungur var ei heima lokkar Vala Viðfinnu með sér út á skóg og er in blíðasta. Gefur hún þá Viðfinnu að drekka af horni ólyfjan blandinn svefndrykk so hún dettur strax í djúpan svefn. Skilur drottning þar við hana og ætlar hún að Viðfinnu skuli endast það til bana, enda verða þar síðan uppetin af vörgum og villidýrum.
En dvergar tveir er voru bræður áttu þar byggð skammt frá og voru í veiðaleit í skóginum og koma þeir litlu síðar en drottning var heim farin þar að sem Viðfinna lá dauðsvæfð í skóginum og undrast þeir mjög að finna þar so fagra mey þannig stadda og leita ýmsra bragða að vekja hana og tekst þeim það að lyktum; og er hún þá mjög máttvana; og frétta þeir hana hins sanna um þenna aðburð allan og kenna í brjósti um hana og bjóða henni heim til byggðar sinnar og þiggur hún það þakksamliga. Gefa þeir henni þá vín og vist so hún nær aftur mætti sínum.
Næsta dag fara þeir á veiðar, en fá Viðfinnu til skemmtunar allt hvað þeir áttu fágætt í steini sínum, en vara hana við að fara ekki út úr steininum né heldur lúka upp fyrir neinum þó þess biðja kynni.
Vala drottning átti ker eitt með sannsagnaröndum er sögðu henni allt hvað hana forvitnaði um. Og næsta morgun eftir að þetta bar til tíðinda gengur drottning að sannsagnarkeri sínu og segir:
„Seg þú mér það, kerið mitt góða gulli búna,
hve má hún Viðfinna Völufegri núna?“
Þá gegnir í kerinu:
„Vel má hún Viðfinna Völufegri;
ala hana dvergar tveir í steini;
verður henni flest að gleði, en fátt að meini.“
Drottningu bregður so við þetta að hún skiptir litum og líkjum og þýtur þegar af stað. Getur ei fara hennar fyrr en hún kemur að steininum er Viðfinna sat í. Biður hún Viðfinnu lúka upp fyrir sér og kveðst við hana eiga nauðsynjaerendi. En Viðfinna segir sér hafi verið strengiliga bannað að opna fyri nokkrum manni. Sú in ókunna konan segir hún skuli þá ekki hafa betra af að heldur. Brýtur hún þá gler frá glugg einum litlum er á var steininum og hleypir þar inn um á einni er þar rann skammt frá so steinninn fyllist innan af vatni, og ætlar so að drekkja Viðfinnu og fer á braut síðan. En að aftni er dvergarnir koma heim finna þeir Viðfinnu þar á floti og ætla hana dauða vera og verða mjög aumir af. Bera þeir hana þá út á þurran grashól og leita lífs með henni og vinnst að endurlífgva hana og verða þá ærið glaðir. Síðan veita þeir braut ánni og búa so um að ei verði auðvelt að hleypa henni aftur í steininn og eru nú kyrrir heima inn næsta dag meðan Viðfinna er að hressast við aftur. En annars dags eftir fara þeir enn á veiðar og vara enn Viðfinnu vandlega við að opna steininn fyri engum þó þess verði beiðzt.
Nú víkur aftur sögunni til Völu drottningar að hún gengur einn dag að sagnarandakeri sínu og spyr enn sem fyrr er ritað, og fær aftur beint sama svar sem áður úr kerinu og kemur henni það mjög á óvart. Bregður hún þá enn við og skiptir litum og líkjum og heldur af stað og er ei getið ferða hennar unz hún kemur að dvergasalnum. Er hún þá í líking roskinnar konu, allásjáligrar og velbúinnar, og hyggur hún inn um ljóra einn er á var steininum og sér þar Viðfinnu og biður hana upp lúka fyri sér. Viðfinna segir sér sé vandliga bannað að opna steininn fyri nokkrum manni. Þá segir konan: „Ég hefi hér glófa gullfjallaða, ena dýrustu kvengersemi er ég vildi gefa þér, því mér lízt so afbragðsvel á þig; og sé ég á fegurð þinni og öllum klæðabúnaði að þú munir vera in dýrasta mær og konungborin þó mér þyki undarligt að þú skulir hér alein búa daglengis; enda sé ég þig ekki skorta, nema höndur þínar eru berar og sæma þér því vel þeir enir gullofnu glófar er ég hefi hér að gefa þér.“ Bregður hún þá glófunum undan belti sér og sýnast Viðfinnu alleigulegir og kemur henni ekki í hug að það geti verið Vala drottning stjúpa hennar er hún eigi tal við; og rennur henni nú girndarhugur til glófanna, en þó kveðst hún fyri engi mun þora að opna steininn. Þá segir konan: „Eigi gerist þörf að þú lúkir opinn steininn alls þér er það bannað; ég má vel handselja þér glófana inn um ljórann sem hér er á steininum. Hér er og gullkambur einn er ég læt glófunum fylgja og ætla ég til engra launa fyrir að þessu sinni.“ Sýnir hún henni þá gullkambinn og þykist konungsdóttir enga slíka gersemi þess kyns séð hafa og leikur henni hugur á að eignast. Opnar hún nú glugginn og tekur við gripunum og þakkar vel fyrir. Lætur hún nú kambinn í hár sér, en dregur glófana á hendur sér; og að so búnu kveður konan hana og hverfur. En sem Viðfinna hefir skamma hríð haft hanzkana og hárkambinn á höndum og höfði þá finnst henni sem ólífis-aflleysi líði um alla sig og tekur nú að gruna hvers kyns vera muni; og er þess ei langt að bíða að hún líður út af í dauðadá og liggur hún þannig sem dauð væri er dvergarnir komu heim; og verða þeir nú daprari en frá megi segja og skoða nú vandliga líkið og sjá þeir skjótt glófana og hárkambinn og verður þeim fyrst fyrir að draga það úr hári og af höndum henni. Því næst ausa þeir köldu vatni í andlit og á ber brjóst henni og bera lyktarsterk meðul að vitum hennar og tekur hún þá að rakna og réttast við unz hún verður allífa. Og gleðjast nú dvergarnir allmjög.
Líður nú enn um hríð unz Vala gengur einn dag til kers síns og spyr á sömu leið sem fyrr og fær enn sem fyrr ið sama andsvar þaðan; og verður hún við það bæði hrygg og reið og leggur enn af stað og léttir ei fyrr en hún kemur á liðnum degi að steininum þar sem Viðfinna sat í. Er hún þá í líki ins fegursta konungssonar, allskrautliga búins og ber boga og örvamæli. Og er hann kemur að steininum og sér ina fögru mær gegnum glugginn heilsar hann henni allhæverskliga, en hún tekur kurteisliga kveðju hans. Spyr hann þá hví hún sé hér einmana. En hún segir með fæstu orðum þar af ið ljósasta. Spyr hún þá um ferðir hans; en hann kveðst vera konungsson og lagt hér við land skipum sínum, en gengið á skóg að skemmta sér og skjóta dýr á skóginum — „eða ertu ekki Viðfinna Völufegri?“ Og dylur hún ekki að so sé. Þá segir þessi konungsson: „Það heitstrengi ég að ég skal þig eiga eða enga konu ella og skal ég nú þegar í stað fara og biðja þín hjá föður þínum ef þú veitir þar ekki afsvör um.“ Viðfinnu leizt vel á konungsson og hugði gott til ráðanna og so að leysast úr útlegð og umsátraeinverunni og gaf hún glaðliga jáyrði til. Þá mælti konungsson: „Helzt kysi ég að mega fá þig nú þegar og flytja þig með mér til skipa minna og samrekkja þér í nótt; en þó skal hér nú ei so bráðan bug að vinda, heldur skal nú fyrst finna föður þinn og segja honum hvað títt er um þitt ráð og so mun ég sem fyrst aftur koma og sækja þig. En so þú hafir nokkurn pant og minjagrip eftir mig þá vil ég gefa þér gullbelti það er ég ber hér á brjósti mér og vil ég biðja þig að spenna því um þig nú þegar; og væntir ég að þú gefir mér að launum einn koss, því varar okkar ná vel saman hér gegnum gluggann.“ Konungsdóttir gerir nú þetta glaðliga. Er hún hefir spennt um sig beltinu og kysst konungsson þenna þá bregður so við að hann hverfur þegar og kennir nú Viðfinna í hans stað þar komna Völu drottningu hina vondu, og segir við konungsdóttur: „Það mæli ég um og legg ég á að belti það er þú hefir nú spennt að þér verði að járni og harðni og þrengi æ meir og meir að þér unz það sprengir þig eða gengur gegnum þig þér til bana, og skal engum unnt verða það að leysa nema samkynja gull sem var í nistum beltisins sé að því borið. En ef þeir bræður (dvergarnir) vilja bjarga þér úr þessum nauðum þá skal það verða bani beggja þeirra“ Og að so mæltu hverfur Vala á braut. En konungsdóttir finnur þegar að beltið tekur að herða að lífi hennar og þolir hún ekki af sér að bera um kveldið er dvergarnir koma heim og getur hún aðeins sagt þeim ummæli Völu um gullið í nistum beltisins. Taka þeir nú konungsdóttur og bera hana á hól einn nálægt steininum; síðan taka þeir allt það gull og gersemar er í var steininum og bera að beltinu. En er þetta fær ei dugað fellst þeim þar so mikið um að þeir springa þar báðir af sorg upp yfir henni. En næsta morgun er Vala árla á fótum og verður það nú fyrst fyrir að ganga til frétta við kerið sitt segjandi að vana:
„Seg þú mér það, kerið mitt góða gulli búna,
hve má hún Viðfinna Völufegri núna?“
Þá kveður við í kerinu:
„Dauðir eru nú dvergarnir
þeir sem dugðu Viðfinnu,
en sjálf pínist hún nú til nauða
og nærri komin dauða.“
Og líkar nú Völu ið bezta; en Viðfinnu lakast æ því meir so hún æpir sem kona í barnnauð.
En þenna sama morgun kom þar við land einskipa konungsson einn ágætur úr öðru landi. Gekk hann þar á land með tveimur mönnum sínum. Heyra þeir læti undarlig og geta að líta hólinn er konungsdóttir liggur á; ganga þeir þann veg. Og er kóngsson þessi getur að líta yfirlit Viðfinnu verður hann ásthugafanginn af fegurð hennar þótt hún væri illa aðtekin og fréttir hana skjótt hvað olli eymd hennar og getur hún naumliga sagt honum sem allra stytzt þar frá. Biður hann hana þá að lofa sér að ná til nistanna beltisins, því hann hafði á hægri hendi sinn gullhring á hverum fingri og síns kyns gull í hverum. Viðfinna vill það fegin lofa; og er konungsson hefir um hríð handfitlað beltið finnst henni það linast um sig og sér hægja. Og litlu síðar tekst konungssyni að spretta af henni beltinu og verður það þá aftur að glóanda gulli sem áður en hún spennti það um sig. Verður nú Viðfinna og konungsson fegnari en frá megi segja og ber hann og sveinar hans Viðfinnu í fangi sér til skips, og leggur konungsson hana í hvílu sjálfs sín og situr yfir henni; og hressist hún skjótt, so á þriðja degi er hún alheil orðin.
Siglir nú konungsson heim og vill þegar drekka brúðkaup til Viðfinnu, en hún biður hann hitta fyrst föður sinn so hún geti glatt hann með þessum tíðindum, enda kveðst hún aldrei óhrædd um líf sitt meðan Vala sé lífs; og vill hann so gera og býr þegar ferð sína með fríðu föruneyti.
En nú er að segja frá því að einn morgun gengur Vala að fréttakeri sínu og spyr að vanda um Viðfinnu og er nú in kátasta og hlakkar mjög til að fregna nú fullan bana Viðfinnu. En oft bregðast ætlan kann, því nú segir í kerinu:
„Viðfinna lifir í vænsta ágæti;
klappar og hana kyssir
konungssonurinn mæti.“
Þá reiddist Vala ákafliga og mælti við kerið: „Ekki skal þú nú oftar ljúga mér til skapraunar.“ Tekur hún þá kerið og ber það fram á sjávarhamra er hyldýpi var undir og kastar því þar fram af.
En þeim konungssyni tekst vel ferðin og hittir nú Viðfinna föður sinn og segir honum allt sem gerst um sitt ráð og verður hann grátfeginn að sjá hana aftur heimta úr helju so margfaldliga. Konungsson átti fóstru eina fjölvísa og unni hvert öðru mikið og beiddist hún að fara með honum för þessa og lézt vilja sjá Völu; og vildi hann það gjarna. En er þau Viðfinna og konungsson voru leidd til hallar og Vala gat að líta hana féll hún með öllu forviðra í stafi og vissi ei hvað hún skyldi af sér gera. Þá mælti kerling fóstra konungssonar: „Ei man ég skapa þér so ill afdrif sem þú ættir skilið fyri öfund og illsku þína; en það læt ég um mælt að þú fylgir keri þínu og farir í sæinn og verðir að hinum ófrýnasta fiski kvenkenndum og munir æ hvað þér olli þessum hamaskiptum.“ Og er so sagt að Vala yrði síðan að vogmeri, en ker hennar að ígulkeri; en úr sagnaranda þeim er í var kerinu yrði eiturkvikendi það er nefnist „alfríið“(!). Og lýkur so þessri sögu.
Það er og sagt að Viðfinna léti taka lík dverganna bjargvætta sinna og steypa gullumgjörð um þá alla utan og so látið út höggva líkan þeirra í hinn hvítasta marmara og haft þetta hvort tveggja sem dýrustu minjagripi í höll sinni. En aðrir segja að Vala hafi lagt á þá seinast að
vildi þeir enn Viðfinnu úr nauð hjálpa
skyldi þeir með blóði og beini
báðir verða að marmarasteini.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org