Stúlka hjálpar álfkonu í barnsnauð

Þegar álfkonur geta ekki fætt þá þarf ei annað en mennskir menn leggi hendur yfir þær og vita álfar vel ráð þetta. Það bar við einu sinni að kvenmaður var um kvöld að taka inn þvott sinn. Þá kemur að henni maður og biður hana að fara með sér því sér liggi mikið á. Stúlkan fer og koma þau að hól einum í vellinum; lýkst þá upp hóllinn og leiðir maðurinn stúlkuna inn. Hún kemur þá í baðstofu sem var byggð á palli og var sinn pallur í hvorum enda. Maðurinn leiðir nú stúlkuna upp á annan pallinn og sér hún þar konu liggja á gólfi; ekki sá hún þar fleira manna. Hjálpaði hún þá konunni og laugaði barnið. Tekur þá maðurinn glas eitt og bað hana bera á augu barnsins úr því, en varast að láta það í augu sín. Hún tók við glasinu og bar á augu barnsins. Langaði nú stúlkuna til að vita hvað þetta mundi þýða. Drepur hún þá fingurgóminum á auga sitt hið hægra; bregður þá svo við að hún sér fjölda fólks í kringum sig í hinum enda baðstofunnar. Þykist hún nú sjá að þessi áburður var til þess að sjá álfa, en í því kemur maðurinn inn. Fær þá stúlkan honum barnið og glasið, en hann þakkar henni fyrir; kveður hún þá konuna og gengur burt. Maðurinn fylgir henni og segir hún muni gæfukona verða. Eitthvað gaf hann henni að skilnaði og fór hún svo heim.

Seinna varð kona þessi prestskona. Hafði hún jafna mikið gagn af því að hún sá álfa því hún gat mikið hagað sér eftir búnaðarháttum þeirra, t. a. m. með heyvinnu á sumrum. Einu sinni kom prestskona í kaupstað og var álfamaðurinn þar, því það er alkunnugt að álfar fara í kaupstað eins og vér og verzla við álfakaupmenn þó ei sjáum vér þá. Hún heilsar þá manninum, en honum verður bilt við og bregður fingrinum í munn sér og svo auga konunnar. Sá hún þá engan álf og aldri var hún skyggn þaðan í frá.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann