Ævilok Gunnlaugs Árnasonar

Þá tíð er Hrafnkelsdalur var í auðn og engin byggð í honum notuðu Brúar- og Eiríksstaðabændur hann framan af vetri til beitar fyrir fé og hesta. Á þessum tíma var fjármaðurinn frá Brú sem gekk í dalinn Gunnlaugur Árnason; ættaður úr Skriðdal. Hann var manna bezt vaxinn að stærð og limalagi, hugaður og kallmenni því alrætt var að hann hefði tveggja manna afl. Eigi vitum vér hvert hann þá var tekinn við búsforráðum á Brú, en þá var hann trúlofaður yngisstúlkunni Solveigu Þorkelsdóttir á Eiríksstöðum, og skyldi brúðkaupið fara fram þennan vetur fyrir nýár. Gunnlaugur var hinn mesti skrautmaður í klæðaburði eftir þátíðaranda; hann hneppti öll sín föt og þókti afbrigði og státs í þá daga, því til þessa vóru hér öll föt krækt, og var hann einmitt sá fyrsti maður sem tók upp á að brúka hnappa á kallmannsföt á Jökuldal.

Þennan sama vetur dreymdi hann milli veturnátta og jólaföstu að dökkklædd kona koma til sín og segja stutt við sig: „Gakk þú ekki í dalinn, Gunnlaugur, fyrir jól í vetur ,“ (þ. e. Hrafnkelsdal) og hvarf síðan. — Þennan draum sagði Gunnlaugur mörgum og réðu nokkrir honum að ganga ei í dalinn á þessu tímabili, en hann lagði sjálfur engan trúnað á hann.

Þessi vetur var hinn bezti jarðavetur og gekk allt fullorðna féð í dalnum frá Brú og hestur frá Eiríksstöðum, og ekki gekk Gunnlaugur nema tvisvar í viku til fjárins. Nú leið allur veturinn til jóla, en á Þorláksdag gekk Gunnlaugur einsaman út eftir dagsetur og kom aftur litverpur inn og sagðist hafa orðið var um eitthvað ónáttúrlegt úti. Á aðfangadaginn átti hann von á manni frá Eiríksstöðum til að ganga í dalinn með sér, en þetta brást einhverra orsaka vegna og maðurinn kom ekki so Gunnlaugur gekk þann dag einn til fjárins. Nú leið dagurinn og allt fram á vöku að Gunnlaugur kom ei heim og fóru menn þá að gruna að eigi mundi einleikið um burtuveru hans, en hundur hans kom áður lagzt var að Brú. Nú var strax sendur maður út að Eiríksstöðum og Hákonarstöðum til að safna mönnum til að gjöra leit í dalinn því allir urðu felmtsfullir og var sem menn vöknuðu af svefni og myndu eftir draumnum so ekki var árætt að gjöra leitina nema með fjölmenni.

Á jóladagsmorguninn var leitin hafin af ellefu mönnum. Þeir gengu fram allan dalinn að svokallaðri Hústóft sem nú eru beitarhús frá Aðalbóli hér um bil í miðjum dal. Þar urðu þeir fyrst varir við för eftir Gunnlaug sem þar hafði komið framan dalinn. En þegar hann hafði komið út á millum sokallaðra Hústóftarmela litlu utar í dalnum sáu þeir að lágu austan yfir ána mjög ókennileg för sem eigi líktust nokkurrar annarar skepnu. Þau vóru kringlótt, en líkust kvartilsbotni á stærð. En þar sem fundi Gunnlaugs og þessa óvættar hafði borið saman lá stafur hans í þremur pörtum, en Gunnlaugur að því búnu lagt á rás ofan dalinn so stórkostlega að leitarmenn urðu að stíga einu sinni á millum faranna til að ná hinu næsta. Þessari ferð hafði hann haldið til þess er varð fyrir honum grjótmelur; þar hafði hann leyst upp freðið grjótið og borið að óvættinum, en þegar það þraut hafði hann lagt á stað og komizt enn nokkru neðar í dalinn á sokallaðan Skænadalstanga. Þar hafði óvætturinn náð honum og þeir tekizt á og borizt vítt um unz Gunnlaugur hafði hnigið dauður. Öll föt hans vóru sundur rifin og líkami hans snúinn úr öllum liðamótum. Leitarmenn röktu slóð óvættsins til baka fram dalinn og upp undir sokallað Urðarteigsfjall (þ. e. fjallshlíðin að austanverðu í dalnum með klettabelti efst), en enginn átti að vera so hugaður að þora upp í fjallið af leitarmönnum eftir slóðinni. Blóðdrefjar sáust víða í snjónum og líkast því (að sagan segir) að óvætturinn hefði nú dregið eftir sér slóða líkt og getur um djöfulinn er banaði Glámi, í Grettis sögu.

Allir hörmuðu þessi afdrif Gunnlaugs, en gamli Þorkell tilvonandi tengdafaðir hans á Eiríksstöðum sagði þá hann heyrði þetta: „Svona fara þessir hnappagikkir!“

Til merkis um þennan atburð hafa allt til þessa sézt krosssteinar á tanganum þar sem Gunnlaugur fannst. Hrafnkelsdalur byggðist ekki fyrr en kortum þrjátíu árum eftir að þetta skeði. Urðarteigsfjall er í Aðalbólslandi og segja ábúendur sem þar hafa verið allt fram á þennan dag að sé ásauðum haldið þar til beitar um brundtíma þá komi meira og minna vansköpuð lömb vorið eftir, og höldum vér þá sögu meir en munnmæli.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 66–67.

© Tim Stridmann