Álfkonan og áfaaskurinn

Gyríður er var í Búðardal hjá Þorsteini sál. Pálssyni, prests- eður prófastsdóttir að austan undan Eyjafjöllum, ólygin og ráðvönd að allra þeirra vitund er til hennar þekktu, hún sagði frá því að þá hún var fyrir austan hafi verið þjónustustúlka, mig minnir á Bergþórshvoli eftir því er minn sál. faðir þar frá sagði, og var í Búðardal hjá frænda sínum Þorsteini sál. Pálssyni og heyrði nefnda Gyríði frá segja, að þessi þjónustustúlka hafi gengið þá hún fór lín að þvo hjá einum mjög stórum steini eður klett og þar oft hvíldir tekið og burt hreinsað frá klettnum hestagadd og þrekk. Einu sinni þá hún hafði með þvotta farið og gekk hjá þessum klett heyrði hún að í klettnum var verið að strokka, og gekk svo sinn veg með þvotta sína að læknum sem hún var vön í að þvo, en þá hún var búin að þvo gekk hún þá til baka með þvottana, þó með lösnum burðum því henni hafði illt orðið við lækinn, og komst so undir klettinn og settist þar niður. Þá hún var niður setzt sá hún að kona kom út úr klettnum og hélt á aski hvítum með rauðum gjörðum; hún gengur þar til er stúlkan sat og réttir askinn að henni og segir: „Taktu við að drekka; þú heldur jafnan hreinu kringum hús mitt og bæ.“ Stúlkan þorði ei annað gjöra en taka við askinum og drekka; voru það þá volgar áfir er í honum var. Við það batnaði stúlkunni og rétti aftur askinn að konunni þegjandi. Konan tók við og fór inn í klettinn, en stúlkan fór heim óhindruð.

Öngvar missýningar voru þetta, heldur góðhjartaður jarðarbúi, og fleiri þess kyns eru góðsinnaðir.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 11.

© Tim Stridmann