Árni er var bóndi í Botni í Helgafellssveit [var] skýr maður og margfróður. Hald manna var að hann hefði kunnugur verið álfafólki. Hann svaf á sumrum einn út í skemmu sinni sem margra bænda siður var. Það var einn dag um sumarið að Árni var ei heima og ei var hans heim von fyrri en daginn eftir. En um kvöldið komu þar ferðamenn er beiddust húsa hvað þeir og strax fengu. Var sá helzti þeirra látinn hátta í rúmi Árna í skemmunni. Þegar hann var háttaður og til svefns lagður, en enginn maður þar inni, kom kvenmaður í skemmuna og ætlaði að Árni væri sá er í rúminu var; sté hún því upp í rúmið og fór undir fötin og lagðist niður. Þá hún hafði legið mjög litla stund stendur hún upp og segir: „Hvört er ei Árni minn hér?“, gengur síðan út að óupplokinni hurðinni eins og hún hafði inn komið. Maður þessi talaði ei neitt við hana; mjúk viðkomu sagði hann hún hefði verið. Maður þessi sagði að hún hefði huldukona verið. Hann var sagður óskreytinn.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 100.