Árni Eyjafjarðarskáld

Á þeim árum er Sveinn lögmaður Sölvason var á Munkaþverá bjó á Rifkelsstöðum bóndi nokkur Jón að nafni. Hann var fátækur, en frómur og ráðvandur. Hann var forsöngvari. Hann átti mörg börn og dóu utan tveir piltar og fjórar stúlkur. Piltarnir hétu Árni og Hannes. Það var einu sinni að Jón bóndi fór með fólk sitt og elztu dæturnar til grasa fyrir sláttinn, en konan var eftir heima með yngstu börnin. Hún skildi þau eftir einsömul heima eitt kveld meðan hún var að mjalta, en þegar konan kom inn [var] Árni horfinn, annar drengurinn. Konunni verður hverft við, fer til næsta bæjar og fær sér fólk til að leita, en fannst ei. Næsta morgun eftir fór smalamaður frá Munkaþverá að leita að kvíám er var vant um kveldið og leitaði hann fram á svo nefndar Munkaþverártungur. Þá heyrði hann handan við ána eins og barnsgrát, en hann gat ekki komizt yfir um ána fyrir vatnavexti. Hann fer heim, getur um þetta. Það fara svo nokkrir menn með honum og ganga fram á tungur. Þar finna þeir barnið á einum mel. Barnið var svo ungt að ómögulegt var að það hefði sjálft komizt tíunda hluta leiðarinnar og var farið að spyrja það um þetta. Það sagði að það hefði vaknað og farið fram á rúmstokkinn og ætlað að hitta móður sína sem þá hefði komið, tekið sig í fangið og borið sig út og hefði það þenkt hún mundi bera sig fram á kvíar, en gekk allt annan veg og lengur en það þenkti. Þá setti hún það niður og ætlaði að skipta um handleggi; þá leit barnið framan í hana og sá að hún var ekki móðir sín, en búnaður hennar var þó eins og móður hans; hún var á grænu pilsi. Hún tók svo barnið aftur á hinn handlegginn og hélt áfram, en drengur barðist um á hæl og hnakka og orgaði þangað til hún [sleppti] honum niður á melinn er hann fannst á. Lengi var barnið utan við sig eftir þetta og hræddur að vera einn. Drengur þessi varð skáldmæltur og var kallaður Árni Eyjafjarðarskáld. Hannes bróðir hans fór suður í Hafnarfjörð, varð gamall maður og mun hafa verið lengst á Urriðakoti.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 78–79.

© Tim Stridmann