Barnið með blettinn á kinninni

Svo bar til einu sinni seint á sumri að barn fimm eða sex ára gamalt var skilið eftir eitt saman heima á bæ nokkrum, en allt heimilisfólkið fór á engjar til heyvinnu. Þegar fólkið kom af engjunum um kvöldið var barnið horfið, en tinkanna sem því hafði verið léð til að leika sér að fannst í bæjardyrunum. Undireins var við brugðið og farið að leita að barninu alstaðar sem mönnum hugkvæmdist; var leit þessari framhaldið í nokkra daga. Það kom fyrir ekki; barnið fannst ekki. Loksins varð það til bragðs tekið að fá Latínu-Bjarna til að segja hvað af barninu væri orðið. Hann kvaðst vita það, en ekki segja. Var hann þá beðinn að ná barninu ef það væri lifandi; það tókst hann á hendur og kom með það skömmu síðar, en var ófáanlegur til að segja hvert hann hefði sókt það. Barnið var þegar það heimtist aftur að öllu leyti eins og það var þegar það hvarf nema blár blettur var á hægri kinn þess. Þegar það var spurt að hvernig hvarf þess [hefði] atvikazt sagði það svo frá:

„Ég var að leika mér að könnunni minni fram í bæjardyrum og kveða kvæðin mín og þá kemur hún móðir mín til mín þegjandi, tekur í hendina á mér og leiðir mig með sér út úr bænum. Ég sagði : „Æ, kannan mín varð eftir.“ Hún gegndi því engu og hélt svona þegjandi áfram með mig þangað til hún kom að einhverjum undarlegum bæ sem var ólíkur bænum mínum. Ég sá þar margt fólk og þekkti það ekki; þá sá ég líka að konan var ekki móðir mín, heldur einhver ókunnug kona, en þó nokkuð lík móður minni. Ég fór þá að gráta, en konan huggaði mig og léði mér allra handa falleg gull ógnarlega skrýtin. Allt fólkið var gott við mig og þó undi ég mér ekki; mig langaði til hennar móður minnar og heim á bæinn minn. Einu sinni vildi ég ekki drekka mjólkina sem konan gaf mér; þá hastaði hún á mig og sló dálítið á kinnina á mér.“ Svona sagði barnið frá veru sinni hjá þessu fólki. Barnið vissi ekki af bláa blettinum, en benti einmitt á hann þegar það sýndi hvar konan hefði slegið á vangann á sér. Þennan blett bar það alla sína ævi án þess því yrði neitt meint við.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann