Brandur á Þúfu

Á Þúfu á Fellsströnd var unglingspiltur sendur að vitja hesta um haustið, hann fór það að gjöra þá liðinn var að mestu dagur. Og gengur hann þar ofan til í landinu víða og finnur ei hestana; var nú skuggsýnt orðið. Hann sér þá hvar ljós logar og nokkuð rauðleitt; hann gengur á ljósið og er það langur vegur er hann gengur, en ljósið logar glatt og hann nálgast það. En um þetta tímabil leiddist fólkinu eftir piltinum og fór kvenmaður einn hans að leita. Vildi so til að hún leitaði hans í þá átt er hann var, kallandi hátt og oft á piltinn er lifir enn [hér um bil 1840] og heitir Brandur. Og um síðir komst hún so nálægt hönum að hann heyrði kall hennar; var hann þá kominn mjög nálægt hæð þeirri er ljósið í logaði. En þá hann gegndi kalli hennar hvarf ljósið og sá hann það ei framar og gekk hann so heim með kvenmanninum er Gyríður heitir; og var þetta þekkjanlegt ljós í álfabyggð.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 25.

© Tim Stridmann