Þá ég var á Arnarstapa plássbóndi var það á einu nýjársdagskvöldi að þrennt eður fernt af fólki mínu fór út, og sá þá það út kom hvar lest fór ofan plássið; ekki taldi það hestana hvað margir þeir vóru; en fullt tíu sagði það að þeir hefðu verið fyrir utan þá er á var riðið. Þrjár konur höfðu riðið í söðlum; fóru þessar konur og lestin að hól einum er var þar út á klettunum fyrir ofan eina gjá er Pumpa er kölluð, og hvarf þetta allt að því sýndist inn í hólinn. Þetta var reyndar huldufólk er flutti sig búferlum.
Það formerkti ég þá ég var á Stapa og [við] Hellna að huldufólk var þar víða í óbrunnum klettum, en ei veit ég til að það í brunnu grjóti eður hraunum búi eður haldi sig. En ei er ég fjærri þeim þanka að í hraunum haldi sig annarslags tegundir, sérdeilis einslags landvætta kennsli er sig saman laga dauðra manna verum, gjörandi oft grillur og ótta huglitlum mönnum sem um þá vegi fara er þar í gegnum liggja sem mörg dæmi þar um má finna forn og ný, og hefur mörg manneskja misst sitt líf af þess slags sveimingi. Það er sumra þanki að huldufólk geti haldið sig í háum hraunum og þar búi, en ei hef ég heyrt þá með neinum duganlegum rökum eður dæmum það sanna.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 28.