Grettir, griðkonan og huldumaðurinn

Á bæ einum á Íslandi var það venja að ávallt var einhver af vinnufólkinu hafður að olbogaskel og var þeim hinum sama vísað burt úr baðstofunni með harðri hendi aðfangadagskvöld jóla og látinn gista fram í rúmbóli í bæjardyrum. Sérhver sá er dæmdur var til þessarar gistingar hvarf á jólanóttinni og hugðu menn eigi einleikið. Svo hafði það ávallt farið að mannhvarf varð jólanótt hverja.

Svo bar við eitt sumar að griðkonur voru að mylkja ásauð á stöðli. Bar þar þá að mann einn háan vexti og afar þreklegan; bað hann eina mjaltakonu að gefa sér að drekka sauðamjólk og kvaðst vera þyrstur mjög. Hún spurði hann að nafni, en hann kvaðst heita Grettir Ásmundsson. Hún kvaðst eigi þora að gefa honum af sauðamjólkinni því þá mundi hún sæta vítum stórum hjá húsmóður sinni er hún sæi að mjólkin væri minni en vant væri. Komumaður kvaðst mundi verða bjargvættur hennar er henni lægi mest á ef hún synjaði sér ekki drykksins. Lét hún þá að bæn hans og rétti að honum fötuna, en hann drakk sleitulaust. Síðan hvarf hann mjaltakonum. En er griðkonan kom heim átaldi húsfreyja hana mjög fyrir mjólkurmissi þann er hún kvað orðinn, og hafði hana upp frá því að hornung og rak hana í dyr fram jólakveldið. Og er vinnukona hafði verið þar skamma hríð kom þar huldumaður og bað hana að játast sér til eiginkonu, en hún neitaði. Síðan hvarf hann stutta stund, en kom að vörmu spori tvívegis aftur til hennar og leitaði eftir gjaforði við hana og kvaðst mundi ráða hana af dögum ef hún synjaði, og ætlaði að vega að henni, en í því kom Grettir og hörfaði álfurinn þá á brott jafnskjótt, en Grettir lagðist í kjöltu mærinnar og svaf þar um nóttina, og varð hún engra vætta vör.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann