Huldumaður með poka

Á einum bæ var landslagi svo háttað að stór grashóll með klettum á einn veg var rétt hjá fjárhúsunum og lá sá orðrómur á að eitthvað mundi búa í hólnum.

Einu sinni bar svo undir að greind og sannorð kona ætlaði að finna heimamenn sem vóru staddir við fjárhúsin, en í því hún gengur frá bænum sér hún ókunnugan mann bláklæddan með hvítan poka bundinn yfir öxlina standa þar hjá heimamönnum, og studdist hann fram á göngustaf og var tilsýndar sem hann væri að tala við heimamenn.

Henni stóð einhvern veginn stuggur af þessum manni og hætti við ferðina. Þegar heimamenn síðan komu heim spyr hún þá strax eftir hinum ókunna manni, en þeir brugðust ókunnuglega við og kváðu engan til sín komið hafa.

Grunaði hana þá hver verið hefði, því bæði hafði henni áður sýnst stundum fólk, bæði karlar, konur og börn, vera hjá hólnum sem hún vissi ekki hvernig á stóð og líka hafði henni stundum heyrst mannamál inn í hólnum, en meira gat hún aldrei orðið áskynja um.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

© Tim Stridmann