Hjónin í Skál á Síðu

Einn tíma bjuggu hjón í Skál, gift fyrir nokkrum árum þá þessi saga gjörðist. Eitt haust kom að konunni annarlegleiki sá að hún mátti eigi sjá dags- né ljósbirtu. Enginn mátti til hennar koma og ekki þáði hún mat né drykk af nokkrum manni. Þetta gekk í þrjú ár og sáu þeir sem skyggnir vóru að ungbarn eða reifastrangi var borinn frá henni á ári hvörju þennan tíma, en maðurinn var næstum afsinna af þessum hennar veikleika því hann mátti ei til hennar koma heldur en aðrir menn.

Eina nótt dreymdi bónda að til hans kom kvenmaður og kvaðst hafa þungar búsifjar vegna konu hans því bróður sinn ætti vingott við hana, drægi til hennar það bezta úr heimilinu, en flytti upp á sig börnin þeirra og væri þrjú til sín komin. Manninum brá við þetta illa og kvaðst ei vita ráð við þessu, en hún réði honum til að bera hana út í birtu, hafa ljós hjá henni og flytja hana til kirkju, þó mundi henni þetta allt illa falla, og aldrei mannlausa láta hana vera. Þetta ráð brúkaði hann; síðan lagaðist fyrir þeim og henni batnaði mikið að lyktum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 74.

© Tim Stridmann