Huldumaðurinn og stúlkan

Einhvern tíma var unglingsstúlka nokkur á vist með móður sinni er var búandi ekkja og gætti fjár hennar. Einn morgun snemma gekk hún hjá hól nokkrum. Stóð maður hjá hólnum með döpru bragði og beiddi stúlkuna að hjálpa sér og ganga í hólinn og fara höndum um konu sína í barnsnauð því þá yrði hún léttari. Nefndi huldumaður nafn sitt og kvaðst heita Arnljótur. Ekki vildi stúlkan verða við bón hans. En um daginn þegar hún hitti móður sína sagði hún henni frá því er fyrir hana hafði borið og réði móðir hennar þá til þess að hún yrði við bón huldumanns ef hann leitaði oftar hins sama og átaldi dóttur sína fyrir það hvað óbónþæg hún hefði verið. Morguninn eftir leitaði huldumaður hins sama, en stúlkan synjaði. Hinn þriðja morgun kom hann enn og kvað konu sína aðframkomna. Lét stúlkan þá tilleiðast og fæddi álfkonan þegar þrjú börn, en dó síðan. Stúlkan laugaði síðan börnin og reifaði þau, lagði þau öll í eitt rúm, las gott yfir þeim og signdi yfir þau. En þegar hún ætlaði að snúa frá rúminu hrasaði hún svo hún féll á eitt barnið og kramdi það til heljar. Arnljótur fylgdi henni síðan út og kvað hana nú sjá að betur hefði farið ef hún hefði gjört bón sína fyrr og slysalega hefði henni farið með barnið, en þó gæfi hann henni ekki sök á því þar eð það hefði verið óviljaverk. Gaf hann henni þrjá gripi að skilnaði og beiddi að heilsa móður hennar og þakkaði henni fyrir góðar tillögur sínar því þegar stúlkan hafði neitað Arnljóti tvívegis kvað hún hana ekki oftar skyldi koma fyrir augu sér ef hún neitaði í þriðja sinn. Litlu síðar hitti Arnljótur stúlkuna aftur og bað hana að ganga í hólinn með sér og eiga sig því ella dæju börnin í höndum sér. Lagði hann mjög að henni, en hún aftók það í alla staði.

Nokkru seinna kom ókunnugur maður til þeirra mæðgna og falaði að þeim gripina er álfurinn hafði gefið þeim fyrr og bauð aðra glæsilegri í staðinn. En stúlkan aftók það og kvaðst ekki láta þá gripi af hendi er Arnljótur sinn hefði gefið sér. Daginn eftir hitti Arnljótur stúlkuna enn þar sem hún var að rífa hrís. „Vel gjörðir þú,“ sagði hann, „að þú fargaðir ekki gripum þeim er ég gaf þér og sýndir þú í því tryggð þína við mig. Gjörðu nú sem ég bið þig og kom með mér og búðu hjá mér; skal þig þá ekkert skorta og ekkert að þér ganga.“ Þessu neitaði stúlkan þverlega. Þá mælti álfmaður: „Þverlynd ertu og svo muntu fleirum reynast, en ekki skaltu hafa betra af því og muntu auðnulítil frá þessu, en jafnan skal þeirri konu borgið er þú situr yfir og af því skaltu jafnan hafa uppeldi þitt.“ Síðan hvarf huldumaðurinn. Þegar stúlkan kom heim var móðir hennar og gripirnir horfnir og hafði Arnljótur numið þau burt til sín. En ummæli Arnljóts urðu að áhrínsorðum; var stúlkan auðnulaus og eirði hvergi, en atkvæða yfirsetukona.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 23–24.

© Tim Stridmann