Jón Árnason og huldukonurnar

Um miðju næstliðinnar aldar var sá maður uppi er Jón hét og var Árnason; hann var ungur og ógiftur er þessi saga gjörðist og þá til heimilis hjá foreldrum sínum sem bjuggu í Bárðardal; er svo sagt að Jón væri eftirtektarsamur maður og skilríkur.

Það var einhverju sinni að Jón fór ásamt fleiri mönnum að grafa og flytja brennistein úr Fremrinámum sem liggja í landsuður frá Mývötnum. Næstur áfangastaður við Fremrinámur heitir á Heilagsdal og er þar jafnan áð þegar komið er úr námunum. Segir ekki af ferð Jóns og þeirra félaga fyrri en þeir eru búnir að afljúka störfum sínum í námunum og komnir til baka aftur á Heilagsdal. Þar á þeir hestum sínum og leggjast til svefns. En er þeir eru sofnaðir dreymir Jón að kona kemur að honum mikil vexti og bláklædd. Hún biður hann upp standa og fara með sér og það gjörir hann. En er þau höfðu farið um hríð hugsar Jón með sér að þetta sé eitthvað ekki einleikið og betra sé að snúa aftur en að verr fari og ætlar Jón að snúa aftur, en konan biður hann með mörgum fögrum orðum að fylgjast með sér og skuli hann það ekkert saka, heldur skuli það snúast honum til hinnar mestu gæfu. Jón situr fastur við sinn keip og skilur þar með þeim. En frá félögum Jóns er það að segja að um morguninn er þeir vakna sakna þeir hans og fara að leita að hönum. Og er þeir höfðu leitað um hríð kemur Jón hlaupandi á móti þeim. Spyrja þeir Jón hvað hann hafi farið, en hann segir þeim ekkert um það. Fara þeir svo heimleiðis.

En er Jón hafði heima verið tvær eða þrjár nætur dreymir hann að hin sama kona kemur að honum og fann hann í Heilagsdal. Er hún þá mjög reiðugleg og talar til Jóns á þessa leið: „Illa gjörðir þú Jón er þú ekki vildir fara með mér seinast. Skaltu vita að ég leitaði þín af heilum hug og í nauðsyn minni. Dóttir mín lá á gólfi og mátti ekki fæða nema mennskur maður færi um hana höndum, og hefðirðu orðið hinn mesti gæfumaður ef þú hefðir leyst mig og hana af þessu vandkvæði sem nú hefur dregið hana til dauða með miklum harmkvælum. Væntir mig að þér snúist hér eftir flestir hlutir til mótgangs og armæðu og værirðu þó verra af mér maklegur. Uni ég illa við nema þú berir einhver kennimerki okkra samfunda.“ Eftir það gengur konan að Jóni og tekur annari hendi um háls honum svo fast að hann hrekkur upp og sér á eftir konunni er hún hverfur á burtu, en Jón hefur fengið svo mikinn verk í hálsinn með bólgu og þrota að hann ber ekki af sér. Fer honum einlægt versnandi hverra bragða sem í er leitað og ætla menn að þetta mein muni draga Jón til dauða, en engum segir hann af hverju það er komið.

Og á þriðju nótt dreymir Jón enn að til hans kemur kona, bláklædd og heldur góðmannleg. Hún talar til hans á þessa leið: „Illa ferst systur minni við þig því eigi kunnir þú að vita hvað undir bjó er hún vildi fá þig með sér til heimkynna sinna og líðurðu þannig saklaus. Vil ég nú þetta allt bæta að því er ég megna. Skaltu á morgun ef þú verður ferðafær taka hest þinn og ríða inn í Krosshlíð; hún er að norðanverðu við Ljósavatnsskarð. Þar spretta alls konar grös og er þú kemur að læk einum innar en í miðri hlíðinni þá farðu upp með læknum til þess er þú ert kominn vel upp í miðja hlíðina. Þar í hvammi einum vaxa grös þau er þú skalt taka og leggja við mein þitt. Muntu þekkja grösin eftir minni tilvísan.“ Eftir þetta hverfur konan. Og er Jón vaknar hefur hann aldrei jafnaumur verið. Hann skreiðist samt á bak hesti sínum og ríður hann inn í Krosshlíð; finnur hann grösin eftir tilvísun konunnar. Og er hann hefur lagt þau við hálsinn dregur jafnskjótt úr allan verk. Er þar fljótast frá að segja að Jón varð á fám dögum jafngóður og lifði lengi þar á eftir. En jafnan þótti hann heldur mótlætismaður vera. Er svo sagt að Jón segði ekki þessa sögu fyrri en á efri árum sínum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 21–22.

© Tim Stridmann