Kristín á Hofi

Seint á 18. öld uppólst á Hofi á Höfðaströnd kvenmaður sem Kristín hét. Hana langaði ógn að sjá huldufólk. Einu sinni var hún að leita að ám uppi í fjalli; leggur hún sig fyrir og sofnar undir stórum steini. Dreymdi hana þá að til hennar kom kvenmaður unglegur og fallegur og segir: „Þig hefir lengi langað til að sjá okkur, nú sérðu eina okkar; ég skrapp ettir ánum þínum hérna upp í hnjúkinn, og renna þær hérna ofan með steininum.“ Að svo mæltu hvarf konan inn í steininn, en Kristín vaknaði og runnu þá ærnar hennar ofan eftir.

Nú liðu langar stundir. Kristín var í vist á bæ einum. Þar var eitt [sinn] gefin heit mjólk í kvöldmatinn og geymdi Kristín sér oft kvöldmatinn. Eina nótt dreymdi hana að kona kom til hennar með trébyttu og bað hana að gefa sér mjólk í þetta. Kristín þóktist þekkja að þetta væri sama huldukonan og hafði sagt henni til ánna forðum. Hellti hún þá úr askinum sínum í trébyttuna og sagði huldukonunni hún mætti taka úr askinum þegar hún vildi. Huldukonan þakkaði henni fyrir, „og skaltu nefna mig ef þér liggur eitthvað á“. Um sumarið hvarf mjólkin oft úr aski Kristínar, því huldukonan sókti hana í trébyttuna á nóttunni. Nú liðu enn nokkur ár. Fær þá Kristín æxli sem varð mjög stórt og var enginn vegur til að lækna það. Eitt kvöld hugsar hún með sér að gaman væri nú að reyna að nefna huldukonuna og segir: „Nú vildi ég blessuð huldukonan mín væri komin að hjálpa mér.“ Nú sefur Kristín nóttina og verður einkis vör; en þegar hún vaknar um morguninn finnur hún eitthvað kalt við kinnina á sér. Þetta var þá kringlótt glas með einhverju fagurrauðu í álíka þykku og síróp. Gleðst hún nú mjög yfir þessu því hún er fullviss um að huldukonan hefir sent sér þetta til að bera á æxlið. Ber hún það svo á æxlið einu sinni á dag í hálfan mánuð. Er þá æxlið horfið og áburðurinn líka búinn úr glasinu. Geymdi Kristín síðan glasið alla ævi.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann