Mókollur

Einu sinni bjó bóndi á Útnyrðingsstöðum á Völlum; Guðrún hét kona hans. Þau áttu eina dóttur barna er Guðrún hét og ólst hún upp þar til hún var tólf vetra; tók hún þá við smalamennsku því faðir hennar var vesæll og hafði fátt manna. Liðu svo fram stundir þangað til bóndi dó. Eitt kvöld fór Guðrún að vanda sínum til lamba, í molludrífu svo að hún villtist. Hitti hún þá mann nokkurn; spurði hún hann að heiti; en hann kvaðst Mókollur heita; hann bauð henni að fara með sér og sagði að skemmra væri heim til sín en hennar; þekktist hún það, en sagði þó að sig langaði að finna lömbin; sagðist hann vera búinn að hýsa þau og væri þeim óhætt. Fór hún þá með honum og komu að húsi nokkru, lýkur hann því upp og þar sér hún lömbin inni. Síðan fara þau heim að bænum og tekur hann af henni snjófötin og leiðir hana síðan inn í baðstofu; engan mann sá hún þar nema kerlingu eina og var hún heldur ófrýnleg að sjá. Biður Mókollur stúlkuna að gefa ekki gaum að þessu og segir henni að það sé móðir sín. Sagði hann að móður sinni væri ekki um komu hennar; lét hann stúlkuna sitja hjá sér á rúmi sínu, en kerling lét heldur en ekki síga brýnnar; fór hún þó fram að sækja þeim mat og kom inn aftur með tvo diska, setti þá upp á pallinn, og fóru þau þá að borða. Þar var hún í þrjá daga og var þá birt upp veðrinu. Kemur þá Mókollur til hennar og segir að nú muni hún vilja halda heim, og sagði hún að svo væri. Fer hún þá á stað og fylgir hann henni heim á túnið á Útnyrðingsstöðum. En þegar Mókollur kveður hana biður hann hana að gjöra eina bón sína og lofaði hún því ef hún gæti; beiddi hann hana þá að fara til sín um vorið ef það væri vilji móður hennar og lofaði hún því. Skildust þau við það og fór hún heim; varð þar fagnaðarfundur og spurði móðir hennar hana hvar hún hefði verið. Sagði hún allt hið sanna frá ferðum sínum og lét móðir hennar vel yfir.

Leið nú veturinn fram á útmánuði. Kom þá maður að Útnyrðingsstöðum að nafni Sigurður er beiddi Guðrúnar eldri; tókst það ráð og fór hann þangað um vorið og átti Guðrúnu. Varð hún þess brátt vör að hún fékk engu að ráða fyrir manni sínum; kom því ósamlyndi milli þeirra því Guðrún var vön að gjöra gott.

Nú víkur sögunni til Mókolls; hann kom um vorið og beiddi Guðrúnar yngri. Tók móðir hennar því vel, en þegar bóndi heyrði það varð hann fár við og lagði á móti því þangað til hann heyrði að Mókollur kærði sig ei um neinn arf með henni. Fór Guðrún þá á stað með Mókolli og ber ekkert til tíðinda fyrr en um haustið; komu þau þá og færðu öllum gjafir á Útnyrðingsstöðum nema Sigurði bónda; gekk svo tvisvar. Sótti Mókollur Guðrúnu báða þessa vetur til að sitja yfir konu sinni. Þetta líkaði Sigurði illa og þegar leið að þeim tíma er Mókollur var vanur að koma veturinn eftir lokaði Sigurður konu sína inni í húsi svo að Mókollur næði henni ekki. Um veturinn kom Mókollur og ætlaði að fá Guðrúnu með sér, en bóndi þverneitaði; lagði Guðrún að bónda sínum mjög og sagði að líf tveggja eða þriggja lægi við, en Sigurður kvaðst ekki hirða um það og sagði sér stæði á sama þó það dræpist allt í hrúgu. Varð Mókollur mjög hryggur við það og fór á burt.

Leið nú veturinn fram að páskum; en á páskadaginn þegar fólk var komið til kirkju og prestur ætlaði að ganga í kirkjuna sjá menn að virki á hjólum veltur fram úr fjallinu og stefnir það að kirkjugarðinum og nemur þar staðar; ganga menn þar að að skoða þetta mikla smíði; sjá menn þá líkkistu í virkinu og mann fram með henni dauðan á grúfu. Spurði þá prestur hvort nokkur vissi deili á þessu, en allir kváðu nei við. Gengu þá að hjónin frá Útnyrðingsstöðum og þekkti Guðrún þar Mókoll og segir hún allt hvernig farið hefði. Er þá Sigurður bóndi settur í varðhald, en Guðrún fór til bæjar Mókolls og fann þar tvö börn, annað í vöggu og bundið band yfir, en hitt á pallinum, bundið líka. Tók hún þar bæði börnin og allt sem fémætt var innanbæjar; fór hún heim til prests með börnin og ól hann þau upp. En af Sigurði bónda er það að segja að hann var tekinn og drepinn, en Guðrún bjó á Útnyrðingsstöðum til elli.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 73–74.

© Tim Stridmann