Prestsdóttirin

Á Prestbakka á Síðu í Skaftafellssýslu bjó einu sinni prestur sá sem Einar hét. Hann var auðugur og átti fjölda barna. Hann trúði ekki að huldufólk væri til og lastaði það mjög. Sagði hann að aldrei hefði neinir álfar verið til og manaði þá að sýna sér að þeir væru til ef þeir gætu. Hældist hann oft um að þeir þyrðu ekki að ráðast á sig. Eina nótt dreymdi hann að maður kom til hans og sagði: „Hér sér þú nú huldumann og hefir þig lengi langað til þess; hefir þú oft talað illa um oss álfa og manað oss til að finna þig. Heimskinginn þinn, þú þykist vita það sem þér er ekki af eigin rammleik unnt að vita og neitar tilveru álfa. Nú skaltu ekki neita því hér eftir, því hér sér þú huldumann og skaltu hafa það til sannindamerkis þar um að ég hefi nú burt með mér elztu dóttur þína og skaltu aldrei fá að sjá hana framar.“

Þegar hann hafði sagt þetta hvarf hann og sýndist presti í því hann vaknaði eins og svipur hins voðalega álfs liði frá rúmi sínu. Hann fór á fætur og var þá dóttir hans tólf ára gömul horfin í burtu. Var hennar víða og lengi leitað, en fannst ekki.

Leið svo til næstu nýársnætur og var prestur oft hugsandi út af fávizku sinni og atburðum þessum. En þessa nýársnótt dreymdi hann að dóttir hans kom til hans. Var hún glöð í bragði og lét vel yfir sér. Sagðist hún mega koma til hans á hverri nýársnótt í draumi, en ekki sagðist hún geta frætt hann greinilega um hagi sína. Sagði hún að það væri allt svo undarlegt og skrýtið sem hún sæi og heyrði. Eftir þetta dreymdi hann hana á hverri nýársnótt og síðast oftar eftir að fóstri hennar gamli var dáinn eftir því sem hún sagði. Einu sinni sagði hún föður sínum að hún ætti að giftast að morgni og eiga prestsson álfa. Eftir það dreymdi Einar prest dóttur sína aldrei framar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann