Skarðhóll hjá Látraseli

Maður hét Gunnlaugur Árnason er bjó í Hvallátrum á Breiðafirði. Guðrún Ámundadóttir hét kona hans; áttu þau margt barna og eru sum lifandi enn. Launson Guðrúnar hét Sveinn; var hann tólf eða þrettán vetra í seli með móður sinni og mær sú nær tvítug er hét Ingibjörg Pétursdóttir. Kippkorn frá Látraseli er hóll sá er Skarðhóll heitir; trúðu margir að huldufólk byggi í honum. Sveinn átti að reka kýr hjá hól þeim kvöld og morgna og var þá oft með hávaða og glensi því heldur var hann óstýrilátur þó móðir hans bannaði honum það margsinnis. Var það þá eitt kvöld að hann kom eigi heim frá kúarekstrinum að venju. Undraðist móðir hans þá um hann og fór hún og Ingibjörg að leita hans; fundu þær hann hjá Skarðhól villtan og sem frá sér. Fékk móðir hans ei orð af honum fyrri en morguninn eftir heima í selinu. Sagði hann þá að bláklædd kona hefði komið til sín við hólinn, hringlað framan í sig lyklum mikillega, gripið síðan til sín og snúið sér í snarkringlu kringum sig. Þótti hann aldrei fullheill síðan og komst undir tvítugt.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 35.

© Tim Stridmann