Solveig á Sauðanesi og álfafólkið

Það bar til einu sinni á Sauðanesi að þar var stúlka að nafni Solveig. Það var eina nýársnótt að hún var mikið lasin og hafði ljós. Allir voru sofnaðir nema hún ein því hún var niðrundir lofti þar í afskekktu húsi og reis upp við herðadýnu og var að lesa í bók. Þá heyrðist henni eins og gengið sé um frammi; svo kemur inn í húsið maður og kona á eftir og hafði þrjú börn, tvö stálpuð, en eitt ungt og konan hélt á því. Svo fer það að taka upp borðbúnað úr poka og mat og leggja á borðið. Á meðan þau eru að því er konan einlægt að nudda við mann sinn, en hann tekur lítið undir það. Þegar þau eru setzt að borðum stendur konan upp og tekur disk Solveigar og lætur á hann mat og segir: „Taktu við, Solveig.“ Hún tekur við og lætur diskinn upp á hillu því hvörki hafði hún lyst á að borða það og svo þorði það ekki vel, því henni leizt ekki á það og einkum þótti henni brauðið skrýtið; snerti hún hann því ekki. Þegar þau standa upp frá borðum tekur konan diskinn og ryður af honum ofan í pokann og klípur Solveigu svo fast í handlegginn að hún fer að hljóða, og rýkur svo út og börnin á eftir, en maður seinast, en áður hann fer strýkur hann fast um handlegginn á henni svo allur verkur fór úr, en um morguninn þegar hún vaknar þá var blár blettur á handleggnum á henni eftir einn fingurinn á konunni því maðurinn hafði ekki strokið þar. Hún hafði óþolandi verk þar í og þetta gat hún sýnt um morguninn. En skömmu síðar dó stúlka þessi.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 184.

© Tim Stridmann