G. Jóla- og nýjársgleðir álfa

Einna mest ber á álfum um jólaleytið og nýjárið og virðist fleira en eitt bera til þess. Bæði er skemmtanatími þeirra mestur um það leyti ársins þó einnig finnist dæmi til þess að þeir haldi bæði til páska og sumardagsins fyrsta;1 en um jólin hafa þeir samsæti og veizlur, hljóðfæraslátt og dansferð ýmist í mannahíbýlum eða í álfabyggðum, og þar að auki halda þeir fardaga sína um nýjárið2 og var þá ávallt nokkuð um dýrðir fyrir þeim, og er einkum sagt að þeir hafi farið á nýjársnótt úr einum stað í annan vistferlum og búferlum. Því var sú venja hér lengi höfð að konur og húsmæður létu ljós loga í hverju horni og hverju húsi á bæ sínum svo hvergi bæri skugga á alla nóttina. Allar dyr áttu að standa opnar upp á gátt og allt að vera sópað og hreint svo hvergi sæi sorp né duft í krók eða kima. Síðan skyldi kona eða húsmóðir sjálf ganga til og frá um allan bæinn og segja: „Veri þeir sem vera vilja,“ eða „komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.“

Una álfkona

Geir er maður nefndur. Hann bjó austur undir Eyjafjöllum á bæ þeim er Rauðafell heitir og átti gott bú. Hann var ungur maður og ákafamaður. Hann var þá nýbúinn að missa konu sína þegar þessi saga gjörðist. Það var einu sinni um sumarið um sláttinn að ljá var orðin mikil hjá rakstrarkonunum því eftirvinnan var lítil. Sér hann þá hvar kona ein kemur í slægjuna og fer að raka ljána. Hún var ungleg og vel vaxin. Ekki talaði hún orð við neinn mann, en skjótt gekk þá raksturinn er hún var komin. Þótti bónda hún kunna að fara með hrífuna. Burtu hvarf hún um kvöldið. Daginn eftir kom hún aftur og rakaði þann dag allan. Svona gekk þetta allt sumarið að konan kom og rakaði ljána, en enginn talaði við hana og enginn vissi hvaðan hún kom eða hvert hún fór.

Seinasta daginn í slættinum gekk bóndi að henni, heilsaði henni og þakkaði henni fyrir vinnuna. Hún tók því vel. Þau töluðu lengi saman, og svo fór að bóndi réði hana til sín fyrir bústýru. Síðan hvarf hún á braut. Morguninn eftir var hún komin heim til Geirs og hafði hún ekki með sér flutning nema kistu eina mikla. Kistan var sett í skemmu bónda. Konan tók þá við ráðskonustörfum og hafði þau um veturinn. Líkaði bónda vel við hana því hún var rösk og vel stjórnsöm. Ekki vildi hún segja bónda hvaðan hún væri komin, en Una kvaðst hún heita. Aldrei fór hún til kirkju og ámálgaði bóndi það þó oft við hana. Það var það eina sem honum líkaði ekki í fari hennar því hann var maður kirkjurækinn.

Nú leið svo fram að jólum. Þá sóttu menn aftansöng og létu einn mann geyma bæjarins. Una vildi ekki fara og var það mjög í móti skapi bónda. Varð hún þá ein eftir heima og segir ekki af henni. Kirkjufólkið kom aftur um morguninn og var hún þá búin að öllu sem hún átti að gjöra. Svona dvaldi Una þrjá vetur hjá bónda og var hún þá orðin honum mjög kær. Var það það eina sem fældi hann frá að eiga hana að hún fór aldrei til kirkju, og gramdist honum það mjög. Ýmsar voru getgátur manna um konu þessa hvaðan hún væri, en það var almanna rómur að enginn væri þar jafngóður kvenkostur og hún í þeirri sveit. Líður nú að jólum hinn þriðja vetur og verður Una enn heima. En þegar kirkjufólkið var skammt á leið komið verður vinnumanni bónda snögglega illt. Hann leggur sig þar niður og kveðst ætla að vita hvort ekki líði af sér ógleðin. Varð hann þar eftir, en bóndi hélt áfram með hitt fólkið.

Þegar vinnumaðurinn sá að fólkið var komið í hvarf reis hann á fætur og sneri heim aftur til bæjarins; því veikina hafði hann gjört sér upp. Sér hann þá hvar Una er að sópa allan bæinn og hreinsa og keppist mjög við að ljúka starfi sínu. Hann leyndi sér og lét Unu ekki verða vara við sig. Þegar Una er búin að öllu sem gjöra þurfti fer hún út í skemmuna og lýkur upp kistu sinni. Þar tekur hún upp klæði mjög vönduð og klæðir sig. Þóttist hann þá aldrei hafa séð jafnvænlega konu og fagra. Því næst tekur Una upp feld einn rauðan og bregður undir hönd sér. Læsir hún þá kistunni og skemmunni og gengur út. Rennur hún þá niður völlinn og vinnumaðurinn á eftir. Ekki léttir Una fyrr hlaupunum en hún er komin að dýi nokkru; þar slær hún út feldinum og stígur á hann. Vinnumaðurinn komst með naumindum á hornið á feldinum. Liðu þau þá niður í jörðina og var það líkast reyk er þau fóru um. Ekki sá Una manninn og komust þau á völlu nokkra græna. Þá tók Una feldinn og brá undir hönd sér. Þar sér vinnumaðurinn bæ mikinn og reisulegan á völlunum. Þangað fór Una og hann á eftir. Var þar fyrir fjölmenni mikið og kom það út á móti Unu og tók við henni tveim höndum. Allt var þar búið til veizlu og fágað og prýtt. Settust menn þá niður og var matur á borð borinn. Þar koma fram ýmsir réttir og vín og allt ríkmannlega. Vinnumaðurinn gat náð einu síðurifi af hangnu sauðakjöti. Tók hann það og geymdi því jafnfeita síðu hafði hann aldrei séð fyrri. Þegar menn höfðu matazt var tekið til að leika ýmsa leiki og fór það allt fram með list mikilli og snilld. En er leið að degi sagði Una að nú mundi hún verða að fara því bráðum kæmi bóndi frá kirkjunni. Kvaddi hún þá alla með miklum virktum og rann á braut. Vinnumaðurinn fór eftir henni og komst á feldinn. Liðu þau svo upp aftur um jörðina og að dýinu. Tekur þá Una feldinn og fer heim. Gengur hún þá í skemmuna og læsir klæði sín og dúkinn niður í kistuna aftur. Síðan gengur hún inn í bæinn. Fer þá vinnumaðurinn aftur þangað er hann hafði eftir orðið um kvöldið og leggst niður.

Kemur þá bóndi frá kirkjunni og finnur hann og spyr hvernig honum líði. Vinnumaður segir að sér sé að mestu batnað. Gengur hann þá heim með bónda. Fagnar Una þeim vel og er nú setzt að borðum. Var þar fram borið hangið kjöt eins og siður er til í sveitinni. Tekur þá bóndi sauðarsíðu mikla og segir: „Hefur nokkur yðar séð jafnmikla síðu sem þessa?“ „Vera má að svo sé,“ segir vinnumaðurinn og tekur fram síðu þá er hann hafði séð um nóttina. Þegar Una sá það skipti hún litum og hvarf þegjandi á burt og hefur ei sézt síðan.


1 Sjá Álfakóngurinn í Seley, 86. bls.

2 Þó hafa menn sögur af því að álfar flytji búferlum endrarnær, sjá Flutningurinn, 120. bls.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 100–102.

© Tim Stridmann