Dala-Rafn

Á 14. öld bjó á Úlfsdölum vestan við Siglufjorð bóndi sá er Rafn hét. Hann var mjög ríkur maður og veiðimaður mikill. Hann hélt og marga vinnumenn. Það var einu sinni eitt vor að vinnumenn hans réru til seladráps á ísum. Þegar þeir vóru komnir nokkuð út í ísinn sýndist þeim vestanuppgangur í lofti og snéru aftur veiðilitlir. Þegar þeir komu að, atyrti Rafn þá mjög og réri á stað sjálfur með syni sína út í ísinn. Brast þá vestanveðrið á og týndist Rafn ásamt skipi sínu og sonum í ísunum. Skömmu síðar rak lík Rafns upp í Ólafsfirði og var hann jarðaður þar að Sandkirkju. Hún var niður við sjó og er nú fyrir löngu niður lögð.

Sagt er að Rafn hafi átt peninga mikla og borðbúnað úr silfri og kastaði valdsmaðurinn eign sinni á allt silfur hans við uppskrift eða skipti eftir hann, með hvörjum rökum eða yfirskini er óljóst. En svo brá við eftir dauða Rafns að fram undan Úlfsdölum sást á sjónum skrímsli. Héldu menn það mundi vera Rafn og kölluðu það Dala-Rafn. Skrímsli þetta sést enn endur og sinnum undan illviðrum skammt fram undan Dalalandi. Er það stundum líkast hval með tveimur kryppum upp úr, en stundum er það líkast löngu tré með rót á enda. Til hefur borið að menn hafa róið til að vitja um þetta stóra tré, en þá hefur það horfið. Sýn þessi er kölluð Dala-Rafn.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann