Draugurinn í prentsmiðjuhúsinu

Bogi bóndi í Hrappsey keypti prentsmiðju í Kaupmannahöfn og hafði heim til sín og reisti skammt frá bæ sínum og lét sem alkunnugt er prenta þar bækur.

Hús þetta með áhöldum þess fékk Bogi með góðu verði því það var selt eftir dauðan mann, og hafði hann hengt sig í húsinu og þókti reimt eftir og því var húsið selt. Í Hrappsey bar ekki mikið á reimleikanum enda var ekki búið í húsinu á nóttum.

Um hausttíma í góðu veðri vóru gestir margir komnir í Hrappsey svo þröngt var um híbýli heima á bænum og urðu dætur Boga tvær, Ingveldur og Ragnheiður yngri, aflögu að fá rúm.

Kom þeim saman um að fara í prentsmiðjuloftið og búast þar um. Bjuggu þær sig út með ljós og fóru í loftið, drógu stóra kistu ofan á stigahlerann og lögðust að sofa, en gátu strax ekki fest svefn; svo bættist það á að ljósið dó.

Lágu þær svo nokkra stund og heyrðu þá vaxandi brak og bresti niðri í stofunni; var það líkast og brokkað væri á stígvélum um gólfið og ýmisligt hark og ryskingar heyrðust. Þetta gekk alla nóttina fram til dags; fengu þær engan svefn og vóru mjög hræddar, Ragnheiður var þó hræddari.

Þá er dagur rann hvarf reimleikinn og var þess ekki oftar freistað að sofa í húsinu um nætur. Var það fyrir satt haft að þetta væri svipur eftir prentsmiðjueigandann gamla.

© Tim Stridmann