c. Dularfull ökuferð.

Veturinn 1931 dvaldi eg í Reykjavík. Vann eg að því að skrásetja og hreinrita að nokkru allmikið safn af ljóðum og lausavísum eftir ýmsa höfunda, fyrir einn af kunningjum mínum þar, sem safnar miklu af slíku tagi. Eg var einn míns liðs, því að fjölskylda mín dvaldi norður á Sauðárkrók, þar sem hið eiginlega heimili okkar var.

Eg kom alloft þenna vetur í hús eitt á Hverfisgötunni og kynntist eg þar konu einni giftri, er Soffía hét. Hún var kona rúmlega þrítug að aldri, myndarleg í sjón, greind vel, glaðvær og skemmtileg. Þar kynntist eg einnig annarri stúlku, Ástu að nafni, sem var vinkona Soffíu og kom oft til hennar. Ásta átti heima á Skólavörðustígnum, og minnir mig, að hún væri ekkja. Ásta var einnig glaðlynd og greind. Hún kom mjög oft til Soffíu, og voru þær miklar vinkonur.

Það var nú kvöld eitt um veturinn, að eg var á leið inn Hverfisgötuna, og þegar eg kom á móts við hús það, sem Soffía átti heima í, hittist svo á, að þær Soffía og Ásta komu þar út úr portinu. Þær heilsuðu mér glaðlega að vanda og voru hinar kátustu. „Veiztu það, Gísli,“ segir Soffía, „að það er auglýst ball og gömlu dansarnir í Iðnó í kvöld? Þú ættir nú að bjóða okkur þangað.“ — Eg tók þessu fjærri í fyrstu, en þær höfðu gaman af að stríða mér á því, að eg tímdi því ekki. Eg bauð þeim að láta þær fá aura fyrir aðgöngumiða, en slíkt sögðust þær ekki taka í mál; eg yrði að koma með þeim. Eg hafði ekkert við bundið þetta kvöld, svo að það varð úr, að eg lét undan nauði þeirra. Gengum við svo öll niður í Iðnó. Keypti eg aðgöngumiða handa okkur, og dönsuðum við svo fram eftir kvöldinu og skemmtum okkur vel.

Að áliðnu kvöldi hættum við dansinum, tókum yfirhafnir okkar og fórum út í þeim vændum, að halda heim til okkar. — Þá var kominn rokstormur og úrhellis rigning. Eg segi við stúlkurnar, að eg verði að reyna að ná í bíl til að aka okkur heim, því að annars verðum við öll holdvot. Þær færðust undan því og sögðu, að eg væri búinn að eyða nógu, þótt ekki bættist bílakstur við. Eg hélt þó fast við mitt og fór að svipast um eftir bíl. — Þarna stóðu nokkrir bílar, sem biðu eftir fólki af dansleiknum. Meðal þeirra var einn ljósbrúnn á lit og stóð hann lítið eitt til hliðar. Eg gekk að bíl þessum, og stúlkurnar komu á eftir mér. Bílstjórinn sat inni í bílnum. Það var ungur maður og myndarlegur; var hann snöggklæddur, í hvítri eða mjög ljósri skyrtu, og veitti eg því eftirtekt, að í skyrtuermunum voru stórir, kúlulagaðir víravirkishnappar úr silfri, sérkennilegir nokkuð. Eg drap fingrum á bílrúðuna, og vatt bílstjórinn hana þegar niður. Eg spurði hann, hvort hann gæti ekið okkur heim, og játaði hann því. Í þessu kom Soffía þarna að. — „Nei, Steini! Ert það þú?“ sagði hún, og það var í senn bæði undrun og gleði í röddinni. „Já,“ sagði bílstjórinn, „og ert þetta þú, Soffía? En hvað nú er langt síðan að við höfum sézt! Jú, eg held eg aki þér heim. Komdu inn í bílinn. Þú situr hérna í framsætinu hjá mér.“ — Soffía settist svo inn hjá bílstjóranum, og við Ásta í aftursætið. — „Hvar áttu heima nú?“ spurði bílstjórinn Soffíu. Hún sagði honum það, og hann ók þegar af stað inn Hverfisgötuna. Þau töluðust hljótt við þá litlu stund, sem það tók að aka þangað. Þau virtust vera vel kunnug og mjög ánægð yfir því, að fundum þeirra hafði borið saman þarna óvænt. En leiðin var stutt inn Hverfisgötuna, og fyrr en varði vorum við komin að heimili Soffíu. — „Þú kemur nú líklega inn, Steini, og drekkur kaffisopa með okkur,“ sagði Soffía. — Nei, hann kvaðst ekki mega vera að því og svo þyrfti hann líka að koma okkur Ástu heim til okkar. Soffía vildi greiða honum fyrir aksturinn, en við það var ekki komandi. Við kvöddum Soffíu, og bað hún okkur Ástu að koma daginn eftir og drekka hjá sér kaffi og bílstjórann bað hún endilega að heimsækja sig bráðlega; tók hann vel í það, þegar hann hefði tíma til þess.

Þegar bílstjórinn og við höfðum kvatt Soffíu, spurði hann, hvert hann ætti að aka. Ásta gaf honum upp heimilisfang sitt, og ók hann þangað. Hún vildi einnig borga honum aksturinn, en bílstjórinn vildi ekki taka við greiðslu. — „Hvert á eg nú að aka þér?“ spurði hann mig, eftir að Ásta hafði kvatt okkur. Eg gaf honum upp heimilisfang mitt, en það var uppi á Njarðargötu. — „Eg er ekki viss um, að eg muni nú, hvar þetta er,“ sagði bílstjórinn. Hann virtist hugsa sig um andartak og sagði svo: „Jú, nú man eg, hvar það er,“ — og síðan ók hann af stað upp eftir, en hann staðnæmdist lítið eitt neðar í götunni en eg átti heima. „Er það ekki hér, sem þú býrð?“ sagði hann. Eg sagði honum, að eg ætti heima tveimur húsum innar í götunni, og benti honum á húsið. Það var líkt og hann hikaði ofurlítið, og svo sagði hann: „Eg var bara að athuga, hvort eg gæti snúið við hérna, en eg ek bara niður á næstu götu“. — Svo ók hann heim að bústað mínum. Eg tók upp peninga og ætlaði að greiða honum fyrir aksturinn, en hann vildi ekki taka við borgun. Eg kvaddi hann svo og þakkaði fyrir aksturinn, og hann ók burtu og hvarf mér út í næturmyrkrið. —

Það var orðið það áliðið kvöldsins, að fólkið í húsinu var háttað. Enn rigndi óhemju mikið, og stormurinn geisaði um auðar göturnar. Eg flýtti mér inn, klæddi mig úr kápunni í forstofunni, hengdi hana á snaga og lét þar eftir skóhlífarnar. Svo fór eg upp í herbergi mitt og háttaði. Eg sofnaði strax og svaf vært til morguns.

Um morguninn, þegar eg var kominn á fætur, hitti eg húsráðanda. Hann fór að spauga við mig, eins og hann gerði oft, um það, að það væri fallegt lag á mér, að koma ekki heim fyrr en komið væri fram á nótt, — „eða varstu nú með einhverri stúlkunni í gærkveldi?“ — „Já,“ svaraði eg, „og heldur með tveimur en einni.“ — „Varstu ekki votur, önnur eins ósköp og rigndi í gærkvöldi,“ spurði hann. Eg sagði honum, að eg hefði látið aka mér heim í bíl. Hann furðaði sig á því, að hann hefði ekki heyrt í bílnum. „Hvaða bíll kom með þig?“ — Eg sagði honum, að það hefði verið ljósbrún drossía frá bílastöð, sem eg nafngreindi, og að bílstjórinn hefði verið kallaður Steini, — líklega heitið Þorsteinn. Húsráðandi minn hafði um mörg ár haft atvinnu við benzín-útsölu í Reykjavík og þekkti því alla bílstjóra, eða flesta þeirra. Hann segir nú: „Eg þekki nú alla bílstjórana í bílastöðinni, sem þú nefndir, en það er enginn þar, sem heitir Steini, en hjá Steindóri er einn, sem er kallaður Steini. Eg man ekki heldur eftir ljósbrúnum bíl á bílastöðinni, sem þú nefndir. Varstu nokkuð undir áhrifum víns, svo að þetta hafi ruglazt í þér?“ — Eg sagði honum, að eg hefði ekki bragðað áfengi í marga daga, og það var satt. Við skildum svo. Eg tók kápuna mína og skóhlífarnar í forstofunni; kápan var alveg þurr og skóhlífarnar hreinar. —

— Síðara hluta dagsins fór eg í kaffið til Soffíu. — Ásta var þar fyrir. Þær tóku mér glaðlega að vanda, og Soffía fór strax að leggja á borðið. Meðan hún var að því, sagði hún við mig: „Þú fórst laglega að ráði þínu, Gísli, í gærkveldi við okkur Ástu“. — „Nú, hvernig þá“ svaraði eg. — „Að hlaupa frá okkur niður við Iðnó í hellirigningunni. Þú varst allt í einu horfinn, og við stóðum þarna eftir í óveðrinu og héldum, að þú værir að ná í bíl, eins og þú talaðir um, en svo komst þú aldrei aftur, og við neyddumst til að ganga heim og komumst heim hraktar og holdvotar,“ sagði Soffía, og Ásta tók undir þetta. — „Nú, hvað gengur eiginlega að ykkur báðum?“ sagði eg, „eruð þið eitthvað miður ykkar? Eða eruð þið búnar að gleyma því, að okkur var öllum ekið heim í bíl, — ljósbrúnum bíl frá …… bílastöðinni,“ — og eg nefndi nafn stöðvarinnar. — „Eg fer nú að halda, að það sért þú, Gísli minn, sem ekki ert með sjálfum þér“, sagði Ásta, „fötin okkar sýna sig, því að þau eru ekki orðin þurr enn“. — Eg lýsti nú bæði bílnum og bílstjóranum eins vel og eg gat og bætti svo við: „Og þú, Soffía, sem þekktir hann svo vel og nefndir hann alltaf Steina. Þú sazt í framsætinu hjá honum, en Ásta í aftursætinu hjá mér. Þið virtust mjög glöð við að hittast og vera gamalkunnug, og þið voruð að hvíslast á eins og gömul kærustupör. Vitaskuld létuð þið ekki okkur Ástu heyra, hvað ykkur fór í milli. Tókstu ekki eftir því, að hann var í hvítri eða ljósleitri milliskyrtu og með stóra víravirkishnappa, kúlulagaða, í ermunum?“ — Soffía hafði hellt kaffinu í bollana, og við sátum yfir því, en vorum ekki byrjuð að drekka það. Þegar eg nefndi víravirkishnappana, hallaði hún sér fram á borðið og brast í sáran grát. — Samtalið þagnaði strax. Við Ásta sátum bæði þögul og undrandi og skildum ekkert í því, hvað valdið gæti þessum geðhrifum Soffíu. — Hún stóð svo upp frá borðinu og gekk grátandi fram í eldhúsið.

„Hvað gekk að Soffíu?“ spurði eg Ástu, þegar Soffía var gengin fram. — „Þú spyrð mig þar um meira en eg get svarað,“ sagði Ásta, „en þetta er ekki líkt Soffíu. En Gísli, eg botna ekkert í þessu. Þú mátt til að trúa mér; við vorum ekki í neinum bíl í gærkveldi; við gengum heim í óveðrinu og urðum holdvotar. Reyndu að átta þig á þessari vitleysu um bílinn, en annars skulum við ekki tala meira um þetta núna, vegna Soffíu“. — Ásta fór svo fram til Soffíu, og eftir dálitla stund komu þær báðar inn aftur. Soffía var grátbólgin og mjög föl, og báðar voru þær fámæltar. Við drukkum kaffið, en úr samræðum varð lítið, og glaðværð öll var horfin. — Eg kvaddi því bráðlega og fór heim til mín.

Um kvöldið var eg inni hjá húsráðanda. Hann braut að fyrra bragði upp á að tala um bílinn og bílstjórann. — Eg hef spurzt fyrir á öllum bílastöðvunum um bílstjórann. Það er enginn Steini þar til, sem lýsing þín geti átt við, en þó finnst mér eg kannast við lýsinguna. Lýstu honum aftur fyrir mér“. Eg lýsti nú manninum enn fyrir honum og svo greinilega, sem mér var unnt. — Húsráðandi hlýddi á lýsingu mína með mikilli athygli. Hann sat hljóður um stund; svo sagði hann: „Lýsing þín á í öllum minnstu atriðum við einn bílstjóra, sem eg hef þekkt, en — hann er dáinn. Hann ók fram af hafnarbakkanum fyrir nokkrum árum — í ljósbrúnum bíl, eins og þú lýsir bílnum, sem þú telur að hafi ekið þér í gærkveldi. Steini var látinn, þegar bíllinn náðist upp, og hann var snöggklæddur inni í honum, alveg eins og þú lýstir honum áðan“. —

— Nokkrum dögum síðar hitti eg Ástu, og við tókum tal saman. — „Hvernig datt þér í hug, Gísli, að finna upp á allri þessari vitleysu, sem þú sagðir okkur á dögunum um bílferðina?“ sagði Ásta. — Eg sagði henni, að það væri sannfæring mín, að það, sem eg sagði þeim um það, hefði í öllum atriðum verið sannleikanum samkvæmt. Ásta taldi þetta fjarstæðu. „Þú heldur því þó víst ekki fram í alvöru, að Soffía hafi boðið þér og bílstjóranum í kaffið daginn eftir?“ — Jú, eg hélt því fram. — „Nei“, sagði Ásta, „þú mátt trúa mér til þess, að Soffía bjóst ekki við þér í kaffið, af þeirri einföldu ástæðu, að hvorki hún eða eg skipti orðum við þig, eftir að við misstum af þér niður við Iðnó um kvöldið“. — Eg benti Ástu á þá staðreynd, að kápan mín var alveg þurr um morguninn og að það hefði hún ekki getað verið, ef eg hefði gengið heim á sama tíma og þær, því að mín leið hefði verið lengri en þeirra, og þær hefði, að hennar sögn, orðið holdvotar. Svo bætti eg við: „Hvernig stóð annars á því, að Soffíu varð svona mikið um, þegar eg var að lýsa bílstjóranum fyrir ykkur og þegar eg nefndi ermahnappana?“ — „Æ, minnztu helzt aldrei á þetta framar við aumingja Soffíu“, sagði Ásta, „það fær svo mjög á hana. Það ýfir upp gamalt, illa gróið sár. Áður en hún giftist, var hún trúlofuð pilti, sem var kallaður Steini, og hún hafði gefið honum hnappa eins og þú lýstir, skömmu áður en hann dó“. — „Hvernig dó hann?“ spurði eg. — „Hann drukknaði hérna í höfninni“, sagði Ásta; „hann var bílstjóri og hann ók fram af hafnarbakkanum. Hnapparnir, sem Soffía hafði gefið honum, voru í skyrtuermunum hans, þegar lík hans náðist upp með bílnum“. —

Nöfnum er breytt í sögu þessari.

Источник: Gríma XVIII. Tímarit fyrir íslenzk þjóðleg fræði. Ritstjórar: Jónas Rafnar og Þorsteinn M. Jónsson. Útgefandi: Þorsteinn M. Jónsson. Akureyri. 1943. Bl. 72–79.

OCR: Speculatorius

© Tim Stridmann