Eiða-Setta

Í tíð Brynjólfs biskups Sveinssonar kom í Skálholt margt umferðarfólk meðal hvörs að var kerling ein að nafni Sezelja sem vandi komur sínar þangað oftlega, og höfðu skólapiltar við hana ýmsar glettingar og var einn hvað mest fyrir þeim í þessu, að nafni Eiríkur, og dugði ei þó biskup aðvaraði hann að erta ekki kerlingu upp. Og eitt sinn þegar hún ætlar á stað tekur Eiríkur fiskdálk og setur undir tagl hesti hennar. En þegar hún er komin á bak verður hesturinn ær og óður og hleypur með kerlingu fram og aftur unz hún fellur af baki og meiðist mikið. Er hún síðan flutt til bæjar og deyr hún eftir lítinn tíma. En bráðum kom kerling á flakk aftur og sókti að Eiríki, en biskup fékk honum varnir svo hann gat lært út, og kom honum síðan austur í Fljótsdalshérað og kvað hann mundi verjast ef enginn ættingi hans kæmi austur yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi; en ef svo bæri við að hún kæmist austur skyldi hann láta sig vita það sem fyrst.

Litlu síðar veittust Eiríki Eiðar í Suður-Múlasýslu, en að nokkrum árum liðnum kom líka kerling og sókti sem fastast að presti. Nú sendir hann til biskups og sendir hann hönum aftur Ketil nokkurn Jónsson til aðstoðarprests og til að verja hann fyrir Settu því mælt er að Ketill hafi vitað fleira en almenningur, og við komu hans bregður svo að kerling hættir að sækja að presti og aldrei getur Ketill prestur séð hana. Líða svo þrjú ár. Þá setur Eiríkur prestur séra Ketil á Snjóholt sem er næsti bær fyrir framan Eiða. En þegar hann er kominn burt verður bráðum vart við kellu og sækir nú sem fastast að presti, en hann sendir ætíð eftir séra Katli þegar fram úr keyrir. En eins er það og fyrri að ekki getur prestur séð hana því ævinlega þegar hann er kominn á hlaðið hverfur hún frá séra Eiríki. Líða svo nokkur missiri. Eitt sinn þegar hún tekur að kvelja prest sendir hann að vanda eftir séra Katli og hittir sendimaður hann á hlaði og segir honum að hún hafi aldrei sókt jafnfast að presti sem nú. Hann skiptir ekki orðum við manninn, en tekur undan honum hestinn og ríður svo að hann verður að ganga af hestinum framan í svonefndum Borgarhól í Eiðatúni; hleypur síðan til bæjar og hittir þá kellingu í bæjardyrum og er froða í greipum hennar. Var hún þá búin að kyrkja séra Eirík. Þá segir prestur: „Nú gat ég séð þig, bölvuð!“ Síðan tók hann hana og gekk frá henni í skálahorninu, og er mælt þar hafi orðið vart við reimleika fram undir næstliðin aldamót [1800]. — Sálm hef ég séð eftir séra Ketil sem mælt er hann hafi ort og setið á meðan undir stúlku sem besetin var af einhvörju óhreinu og hafi við það horfið.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 328–329.

© Tim Stridmann