Hleiðrargarðs-Skotta

Hér um bil 1740–1770 bjó í Hleiðrargarði í Eyjafirði bóndi nokkur að nafni Sigurður Björnsson; þótti hann skynsamur maður og mikilhæfur í skapi.

Það er sagt, að hann færi eitt sinn á öndverðu sumri, þegar hann var á yngri árum sínum, til fiskikaupa vestur undir Jökul; vildi þá svo til, að honum og manni nokkrum, er hann átti kaup við, kom ekki saman í viðskiptunum; varð út úr því deila með þeim og síðan áflog. Sigurður var hraustmenni og harðfengur í viðskiptum og snaraði hinum undir sig og gaf honum nokkur högg. Þegar maðurinn stóð á fætur, heitaðist hann við Sigurð og kvaðst mundu launa honum, áður jafnlengdin kæmi, fór síðan burtu, en Sigurður ásamt lagsmönnum sínum sneri heim aftur og settist í bú sitt.

Á þessum tíma bjó á Krýnastöðum, næsta bæ við Hleiðrargarð, maður sá, er Hallur hét, kallaður Hallur sterki; var hann skyggn og hafði oft séð drauga og fengist við þá. Svo er sagt, að Hallur þessi væri staddur úti á bæjarhlaði sínu eitthvert kvöld um haustið næsta á eftir sumri því, sem Sigurður kom úr skreiðarferðinni; sá þá Hallur koma draug í stelpulíki utan götuna; var hún lítil á vöxt, með rauðan bol, í mórauðu pilsi, sem náði aðeins í knésbætur, með skúflausa skotthúfu og snöggklædd.

Þegar stelpan sér Hall, ætlar hún að víkja úr vegi, en hann gekk í veg fyrir hana og spyr, hver hún sé. Hún segist hafa heitið Sigga. Hann spyr, hvaðan hún kæmi og hvert hún eigi að fara.

Hún segir: „Að Hleiðrargarði.“

„Hvað ætlarðu að gjöra þangað?“ segir hann.

„Að drepa Sigurð Björnsson,“ segir hún. Hljóp hún svo veg sinn, og tindruðu neistar úr sporum hennar.

Þetta sama kvöld svaf Sigurður í rúmi sínu, og hagaði svo til, að gluggi var yfir því. Hitt fólkið í baðstofunni var vakandi.

Sigurður spratt snögglega á fætur og spyr: „Hver kallaði til mín?“

Honum var sagt, að enginn kallaði til hans. Leggur hann sig upp í rúm aftur og sofnar, en sprettur upp aftur, þegar er hann var sofnaður, og segir, að víst hafi nú einhver til sín kallað. En honum er sagt, að það hafi eigi verið; leggur hann sig fyrir enn að nýju og sofnar ekki.

Þegar hann hefur legið litla stund, sjá menn hann líta út í gluggann og heyra hann segir: „A! er því svona varið?“

Sáu menn honum þá mjög bregða í andliti; gengur hann síðan fram að baðstofudyrum og víkur sér til hliðar við dyrnar, og heyra menn hann segja hátt: „Ef hér er nokkur, sem vill finna Sigurð Björnsson, þá er hann þarna,“ og bendir um leið með hendinni á niðursetningsdreng, Hjálmar að nafni, sem sat og táði á skák móti baðstofudyrunum.

Óðar er drengnum fleygt ofan af skákinni á gólfið; veltist hann þar um með ólátum og ósýn, sem verið væri að kyrkja hann; heimtar Sigurður þá vönd og flengir drenginn í krók og kring; hægðist honum þá lítið eitt, og var hann lagður upp í rúmið aftur; sýndist þá kroppur hans bólginn og marinn; fékk hann þessi áföll þrisvar eða fjórum sinnum um nóttina og smátt og smátt upp frá því, þangað til snemma um veturinn, að drengurinn dó í einu þessu flogi, og þótti líkami hans mjög svo þrútinn og uppblásinn með auðsjáanlegum svörtum fingraförum draugsins.

Eftir þetta fylgdi draugurinn Sigurði og börnum hans og jafnvel öllu fólki frá Hleiðrargarði. Oft sáu skyggnir menn stelpu þessa, sem kölluð var Hleiðrargarðs-Skotta og kennd við húfu sína, því skottið stóð upp af hausnum; var hún oftast, þegar hún sást, upp um einhvern bita, helst í bæjardyrum manna, og fló þar kött, sem kallað er.

Alltaf varðist Sigurður henni sjálfur, en drepa fór hún smátt og smátt búfé hans og jafnvel fé af næstu bæjum; þótti það þá mjög marið og blátt og hvervetna óætt. Eignað var henni að hafa drepið einn mann, Sigurð í Nesi, góðan bónda; fékk hann flogaveiki og dó úr henni.

Þegar yfirgangur hennar fór nú að verða svona svæsinn og menn óttuðust hann mundi aukast, svo til vandræða horfði, vildi sú heppni til, sögðu menn, að húsgangur nokkur undan Jökli kom í sveitina, að nafni Pétur, og var almennt kallaður Jökla- Pétur. Hann var göldróttur mjög, en fór ætið vel með listina.

Sigurður í Hleiðrargarði var mannlundaður og greiðugur og gjörði Pétri því góðan greiða og sagði honum frá, að eigi þyrfti hann samt að njóta sveitar sinnar, því sér hefði þaðan verið sendur draugur, sem mikinn skaða gjöri sér og öðrum og líklega hafi líf sitt að lokum.

Pétur sagðist mundi hjálpa honum frá þessum djöfli og tók sig burt eina nótt, tók með sér drauginn og batt hann við stóran, jarðfastan stein á þeim stað milli Strjúgsár og Vallna í Saurbæjarhrepp, sem nefndur er Varmhagi; gat svo draugurinn ekki um langan tíma mein unnið, en oft heyrðist væl hans um nætur, og ekki máttu menn fara þar nærri; fengu þeir þá ógleði, höfuðsvíma og villu, jafnvel um bjarta daga.

Á árunum 1806-1810 byggði presturinn í Saurbæ, sem hét síra Sigurður og lifir enn, beitarhús ekki alllangt frá þessum stað, því hér var útbeit góð. Fyrstu nótt, sem hýst var í húsi þessu, var ein kind drepin og fleiri þar á eftir; kenndu menn þá sama útlit og viðskilnað á kindarskrokknum eins og þau, sem draugurinn hafði áður haft, og fóru því að hugsa, að á honum væru farin að slakna bönd. Veikindi og dauði á sauðfénaði fór að smádreifast út um allan Eyjafjörð og kallast pest, en fyrir löngu er þó sú vantrú orðin innrætt hjá fólki, að það muni vera af draugsins völdum.

© Tim Stridmann