Kjálkarnir mínir

Einu sinni var prestur á kirkjustað. Hann hafði þann sið að hann lét taka allan gröft sem kom upp úr kirkjugarðinum hjá sér og brenna honum. Einu sinni sem oftar var lík grafið að kirkju hans, kom þá fyrir gröftur og var hann hirtur af eldakonunni eftir boði prests. En með því gröfturinn hafði vöknað, annaðhvort af rigningu eða snjókomu er hann var tekinn upp, gat eldakonan ekki brennt honum þegar og varð að hafa hann við eldinn og á hlóðarsteinunum til að þurrka hann. Meðan á þessu stóð heyrði eldakonan er hún var að elda í rökkrinu að sagt var með veikri röddu einhvers staðar nærri hlóðunum: „Kjálkarnir mínir, kjálkarnir mínir.“ Þessi orð heyrði hún í annað sinn tvítekin. Fór hún þá að svipast um mannabeinin er lágu kringum hlóðin hjá henni hvað þessu mundi olla, en fann þar engan mannskjálka. Þá heyrir hún sagt í þriðja sinni með enn eymdarlegri röddu en áður: „Æ, kjálkarnir mínir, kjálkarnir mínir.“ Fer hún þá og leitar enn betur og finnur tvo samfasta barnskjálka er þokazt höfðu af hlóðarsteininum ofan í annað hlóðarvikið og voru nærri farnir að brenna. Skilur hún að svipur barns þess er átti kjálkana muni ekki hafa viljað að þeir brynni. Síðan tekur hún kjálkana og vefur þá í líni og kemur þeim ofan í gröf er næst var grafið í kirkjugarðinum. Eftir það bar ekki á neinum reimleika.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann