Lepsa

Jón hét maður, kallaður rassband. Hann hafðist við í Ísafjarðarsýslu og þar kvongaðist hann. Átti Jón oft þung kjör vegna fátæktar. Hann var hjátrúarfullur og hnýsinn í kukl og þar kom að menn kölluðu hann galdrasnáp.

Þegar Jón var orðinn gamall var það eitt vor að hann gætti fangs í Bolungarvík vestra fyrir tvær skipshafnir. Hét formaður annar Sigurður. Var hann mikill aflamaður, ríkur og kallaður meðallagi góðgjarn við suma. Einu sinni fór Sigurður heim með fiskfarm á skipi sínu laugardag og var heima þar til aðfaranótt mánudags. Þegar hann kom til Bolungarvíkur hittir hann Jón og fréttir að allir höfðu róið til hákalls um miðaftan á sunnudaginn; þykist illa við kominn að hafa ekki getað róið sem aðrir, en menn hans svefnþurfar. Kallar hann Jón til tals við sig og býður smjörfjórðung og sauðarskammrif ef hann nú gjöri þann storm að þeir verði að halda til lands og gilti einu, kvað Sigurður, þó einhvur fengi nóg. Jón fer undan og kallar slíkt óráð; bætir Sigurður við hann rjólpundi og einum potti brennivíns. Þá segir Jón: „Reyna skal ég að rugla undir þeim; en vaka verður þú í nótt og kom nú með mér.“ Tekur Jón þá jafnmarga kræklinga og skipin vóru, setur á tjörn eina fyrir ofan búðirnar og biður Sigurð vera þar yfir og taka eftir hvurt þeir komist allir yfir tjörnina, eins líka hvurt nokkur sökkvi, en vitja sín ekki fyr en allar eru skeljarnar af tjörninni. Lofar Sigurður því. Fer Jón þá upp í lág eina þar skammt frá og hefur kver nokkurt með sér. Þegar þeir skildu var logn so mikið að ekki blakti hár á höfði, en að litlum tíma rak á storm norðan og umhverfðist tjörnin. Sukku þá tvær skeljarnar, en hinar fuku upp á bakka tjarnarinnar. Fór þá Sigurður að leita Jóns og fann hann í láginni berhöfðaðan og grátandi; segir Jóni hvar komið er. Jón svarar: „Þá hefur þú fengið vilja þinn.“ Ganga þeir niður til búða og er þá Ísafjarðardjúp fjalla milli í einu roki og litt sem blóð. En af sjómönnum er það að segja: sumir komust til miða, aðrir sneru aftur og náðu engir lending í Bolungarvík. Hleyptu flestir á Súgandafjörð og Önundar. Tveir sexæringar týndust, en aðrir komu þrekaðir heim á þriðja degi. Var þá Sigurður róinn og hlóð skip sitt lifur; en so vóru allir aðrir þreyttir að ei gátu róið. — Þessa sögu er sagt að Jón segði þegar hann lá banalegu og iðraði hann verksins því náfrændi hans væri formaður annars skipsins er fórst.

Jón rassband var á yngri árum brattgengur mjög. Var hann oft fenginn að ná fé úr klettum þar öðrum gekk ekki. Tindur einn er á fjallinu milli Skutils- og Álftafjarða sem Kofri heitir. Er hann framarlega á fjallsbrúninni og til að sjá egg ein. — Það er sögn að Jón gengi upp til topps Kofrann og tíndi þar steina fáséða. Þóttist hann þekkja nátt[úr]ur steina og grasa, en ekki veit ég hvurjar nátt[úr]ur hann eignaði þeim.

Þessi sami Jón kom sníkjuferð til Kollafjarðarness þegar þar bjó Einar Jónsson dannibrogsmaður. Var þar þá ungur maður, Gísli að nafni Gíslason. Biður Jón hann sem aðra ölmusu. Gísli var þá fátækur og kvað Jón ekki þurfa það að nefna og atyrti hann fyrir betlið. Líka varð Gísli þess var að Jón vildi reyna að stela, hvað Gísla líkaði illa, því bæði var hann frómur og hollur húsbónda. Gísli var málhaltur mjög og skildu hann ekki vel ókunnugir. Þeir Jón áttu margt saman í orðum og ekki gott. En áður Jón færi burt segir hann við Gísla: „Þú skalt ekki stama sona annað haust um þennan tíma.“ Gísli gaf því ekki akt. Líður vetur til þess eftir jól. Gísli var fjármaður og svaf ekki í baðstofu heldur bæjardyralofti og var einn því ekki var hann þá myrkhræddur. Eina nótt kemur þar stúlka nokkur til Gísla og vill draga hann ofan úr rúminu, en hann þæfist fyr[ir] og biður hana burtu verða. Klæðist Gísli þá nærfötum og sokkum. Getur hann ekki bundið nema annað leggband sitt því stúlkan þrífur til hans. Tekur hann móti, en þar sem [hann] fer höndum um fjanda þann er sem gjúga ein og missir hann tökin. Signir Gísli sig þá á bak, hliðar og brjóst og manar hana til aðgöngu, en hún þorir ekki. Fer þá Gísli til baðstofu, vekur fólk og er kveikt ljós. Klæðist hann og gegnir starfa sínum þann dag. Seint um kvöldið rekur hann fé til húsa og vill láta inn. Er þá Lepsa fyrir í hvurjum dyrum; so kallaði Gísli vofuna. Eftir langar eltingar kemur hann fénu inn og fer til bæjar. Er hann þá undarlega órór í skapi, en dylur sem má. Ekki gat hann sofið um vökuna sem þó var vani hans. Síðan fer hann til rúms, en óðar er þar komin Lepsa og leitar á Gísla. Vakir hann í rúmi til miðrar nætur og er þó ekki gott. Sér hann þá hvar hún opnar fótagafl rúmsins. Stekkur Gísli upp og fer út um heilt eftir henni. Þegar út kom á tún manar hann Lepsu sem ýmist snýr að eða frá. Reiðist Gísli nú ákaflega og [segir]: „Ég skal þó yfirvinna þig!“ Hlaupa þau nú bæði og nær Gísli henni fram á dal þeim er upp liggur utan Kollafjarðarness og Hvalsárdalur heitir. Þar nemur hún staðar og ræður á hann við gljúfur eitt. Vill hún færa leikinn í foss einn í gljúfrinu. Sagðist Gísli þá hafa gjört sem kunni bæði með höndum og munni, en að skilnaði kallaði hann sig snara Lepsu niður í fossinn og biðja hana aldrei upp koma. Var þá kominn dagur. Fer Gísli heim og er mjög lerkaður, en ekki meiddur að öðru en bláir blettir á handleggjum.

Ekki kemur Lepsa til hans aftur þann vetur, en næsta vetur sækir hún að honum og vill kyrkja hann í svefni; og því heldur hún þar til Gísli fær varnir hjá manni sem hét Sveinn og var Eiríksson, hagmæltur maður og kallaður margfróður. En sagt hefur verið að æ fylgdi hún Gísla, konu hans og börnum, og þóttust kallar og kellingar vita fyrir komu þeirra.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 402–403.

© Tim Stridmann