Litluborgar-Toppur

Að norðanverðu við Vesturhópsvatn og skammt suður frá Borgarvirki stendur bærinn að Litluborg. Á dögum Páls lögmanns Vídalíns bjó þar bóndi einn; hann átti dóttur er Guðfinna hét.

Það var eitt sumar að maður af Vesturlandi réðist í kaupavinnu á bæ einum í Vesturhópinu. Eigi hefir maður þessi lengi verið í kaupavinnunni áður hann ríður heim að Litluborg og biður bóndadóttur. Bóndadóttir tók því fjærri og bað hann ekki leita þess máls oftar. Kaupamaður reiðist mjög og kvað hana skyldi einhvern tíma gjalda þess hve illa hún hefði tekið máli sínu, ríður við það burt. Litlu síðar biður annar maður bóndadóttur er Guðmundur er nefndur. Var því vel tekið og giftast þau þegar um sumarið. Réðist Guðmundur þá til bús að Litluborg. Kaupamaður unir nú verr við en áður, lætur þó lítið á bera. Um haustið fer hann úr kaupavinnunni vestur og eigi löngu síðar fer að bera á afturgöngu á Litluborg. Sækir hún svo að Guðfinnu að hún má aldrei ein vera og verður að vaka yfir henni hverja nótt. Var henni þá komið til Páls lögmanns að Víðidalstungu og hann beðinn að koma draugnum fyrir. Lögmaður fékkst við drauginn og gjörði hann engum mein eftir það, en ekki kvað lögmaður hægt að setja drauginn niður því hann væri svo magnaður að hann ætti að fylgja ætt Guðfinnu í níunda lið, og þókti það rætast síðan. — Það er sagt að hárið hangi niður eftir draugnum að framan svo að ekki sjái framan í hann, og hafi hann því verið kallaður Toppur.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann