Mannsrifið

Þegar séra Eiríkur1 var hér prestur á Hofi í Álftafirði var hér vinnukona sem Oddný hét og var hún trúlofuð hér manni í sveitinni. Einu sinni var grafið hér og þá sáu líkmennirnir að þessi Oddný kom út að gröfinni og fór að róta í moldinni, og eftir að hún hafði rótað í henni nokkra stund fór hún inn í bæ aftur, en þeir gáfu þessu engan gaum.

En nóttina eftir þótti síra Eiríki maður koma til sín og biðja hann að útvega sér beinið sitt sem Oddný vinnukona hans hefði tekið úr moldinni, og kvaðst hinn dauði maður hafa beðið Oddnýju um það, en hún hefði ekki viljað láta það af hendi og ekki sagzt hafa tekið það. Og síðan fór hann í burtu.

Morguninn eftir gengur prestur á Oddnýju og segir henni að hún hafi tekið mannsbein úr moldinni og býður henni að láta það af hendi við sig, en hún vill það ekki og verður uppi og bálvond svo prestur hættir að ganga á hana.

Næstu nótt kemur hinn dauði aftur til prests og biður hann endilega að ná beini sínu frá Oddnýju og segist endilega verða að fá bein sitt. Og síðan fer hann burtu.

Þegar prestur vaknar og er kominn á fætur þá er Oddný að þvo föt við lækinn hér á túninu, og gengur prestur til hennar og heimtar af henni beinið eða mannsrifið, en hún neitar að hún hafi tekið nokkurt bein, en prestur tekur hana þá, afklæðir hana og finnur beinið eða mannsrifið vafið inn í grárri ull í barmi hennar.2 Hann tekur beinið, strýkir stelpuna og lætur beinið aftur í kirkjugarðinn í gröfina. En hann segir kærasta Oddnýjar frá þessu tiltæki hennar og hvernig háttalag hennar sé og segir honum að íhuga hvort hann taki hana að sér, en hann giftist henni samt, og bar ekkert á henni síðan.


1 Eiríkur Rafnkelsson var prestur á Hofi í Álftafirði 1778–1785 [Ísl. æviskrár].

2 Sbr. tilbera og tilbúning þeirra III, 2. gr., 417. bls. o. áfr.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 230–231.

© Tim Stridmann