Miklabæjar-Solveig

Stúlka ein er Solveig hét var hjá séra Oddi Gíslasyni á Miklabæ.1 Hvort sem prestur hefur þá verið milli kvenna eða verið búinn að missa konu sína er óvíst, en hitt er víst að stúlka þessi lagðist á hugi við prest og vildi umfram allt að hann ætti sig, en prestur vildi ekki. Af þessu varð stúlkan sturluð og sat um að sálga sér er henni gafst færi á. Kona ein svaf hjá henni á næturnar sem Guðlaug hét Björnsdóttir, systir séra Snorra á Húsafelli, til að verja henni að fara ofan, en á daginn höfðu allir heimamenn gát á henni.

Eitt kvöld í ljósaskiptunum komst Solveig þó ofan og stökk þegar út í tóftarbrot er var á túninu. Vinnumaður var hjá presti er Þorsteinn hét; hann var ötull og ófyrirleitinn. Hann varð var við Solveigu er hún hljóp úr bænum og veitti henni þegar eftirför. En svo var hún handfljót að hún var búin að skera sig á háls í tóftinni er hann kom að. Þá er sagt að Þorsteini hafi orðið að orði er hann sá hvernig blóðið fossaði óstöðvandi úr hálsinum á henni: „Þar tók andskotinn við henni.“ Solveig svaraði því engu, en svo mikið skildi hann af því sem hún sagði að hún bað hann að skila til prests að grafa sig í kirkjugarði. Eftir það blæddi henni út svo hún dó. Þorsteinn sagði tíðindin heim og bar presti kveðju hennar og bæn um legstað í kirkjugarði. Prestur leitaði til þess leyfis hjá yfirboðurum sínum, en fékk afsvar þar eð hún hefði farið sér sjálf. Á meðan þessu fór fram stóð lík Solveigar uppi, en nóttina eftir að prestur hafði fengið afsvarið dreymdi hann að Solveig kæmi til sín og segði: „Fyrst þú vilt ekki unna mér legs í vígðri mold skaltu ekki njóta þar legs heldur.“ Var hún þá með reiðisvip miklum þegar hún vasaði burtu. Eftir þetta var lík Solveigar dysjað utan kirkjugarðs og án yfirsöngs. En skömmu síðar fór að bera á því að hún ásótti séra Odd þegar hann var einn á ferð, hvort sem hann reið á annexíuna að Silfrúnarstöðum eða annað. Þetta varð mjög héraðsfleygt svo hver maður gjörði sér að skyldu að fylgja honum heim einkum ef hann var seint á ferð eða einn.

Einu sinni reið séra Oddur á annexíu sína, en aðrir segja að Víðivöllum, og leið svo dagurinn að hann kom ekki. Heimamenn voru óhræddir um hann af því þeir vissu að presti var ávallt fylgt ef hann var seint á ferð. Það var og í þetta skipti að presti var fylgt heim að túninu á Miklabæ; annars var vant að skilja ekki við hann fyrr en hann var kominn á fund heimamanna. Þá sagði hann við fylgdarmanninn að hann þyrfti nú ekki að fara lengra því nú mundi hann komast klaklaust heim og þar skildi fylgdarmaðurinn við prest eftir því sem hann sagði síðan sjálfur frá. Um kvöldið á vökunni heyrðu heimamenn á Miklabæ að komið var við bæjarhurðina, en af því þeim þótti nokkuð undarlega barið fóru þeir ekki til dyra. Síðan heyrðu þeir að komið var upp á baðstofuna í mesta snatri, en áður en sá fékk ráðrúm til að guða sem upp kom var hann dreginn ofan aftur eins og tekið hefði verið aftan í hann eða í fæturna á honum; jafnframt þóttust menn þá heyra hljóð nokkurt. Síðast er komið var út um kvöldið sáu menn að hestur prestsins stóð á hlaðinu og var keyrið hans og vettlingar undir sessunni í hnakknum.2 Varð mönnum nú mjög órótt af þessu öllu því menn sáu að prestur hafði komið heim, en var nú allur horfinn. Var þá farið að leita að honum og spurt eftir honum á öllum bæjum sem líkindi þóttu að hann hefði að komið og fékkst þá sú fregn að honum hefði verið fylgt heim að túngarðinum um kvöldið, en hann ekki viljað fylgdina lengur. Eftir það var gjörður mannsöfnuður og hans leitað í marga daga samfleytt. En allt kom það fyrir ekki. Síðan var leitinni hætt og töldu flestir það víst að Solveig mundi hafa efnt orð sín og séð svo fyrir að hann fengi ekki leg í kirkjugarði og að hún mundi hafa haft hann með sér í dys sína, en þó var þar aldrei leitað.

Þegar allri leit var hætt ásetti Þorsteinn vinnumaður prests sér að hætta ekki fyrr en hann yrði þess vísari hvað orðið hefði um húsbónda sinn. Þorsteinn þessi svaf í rúmi rétt á móti konu þeirri er sofið hafði hjá Solveigu og var hún bæði skýr og skyggn. Þorsteinn tekur sig til eitt kvöld, safnar saman fötum og ýmsu sem var af prestinum, leggur það undir höfuð á sér og ætlar að vita hvort sig dreymi hann ekki, en biður Guðlaugu að liggja vakandi í rúmi sínu um nóttina og vekja sig ekki þó hann láti illa í svefni, en taka eftir því sem fyrir hana beri; þar með lét hann loga ljós hjá sér. Leggjast þau svo bæði fyrir; Guðlaug verður þess vör að Þorsteinn getur með engu móti sofnað framan af nóttinni, en þó fer svo um síðir að svefninn sigrar hann. Hún sér þá að litlu seinna kemur Solveig og heldur á einhverju í hendinni sem hún sá ekki glöggt hvað var; gengur hún inn á gólfið og að skör fyrir framan rúm Þorsteins, því götupallur var í baðstofunni, og grúfir yfir hann og sér að hún myndar til á hálsinum á Þorsteini eins og hún vildi bregða á barkann á honum. Í því fer Þorsteinn að láta illa í svefninum og brýzt um á hæl og hnakka í rúminu. Þykir henni þá að svo búið megi ekki lengur standa, fer því ofan og vekur Þorstein, en vofa Sólveigar hopar fyrir henni og fékk ekki staðizt augnaráð hennar. En það sér Guðlaug að rauð rák var á hálsinum á Þorsteini þar sem Solveig hafði myndað til skurðarins. Síðan spyr hún Þorstein hvað hann hafi dreymt; hann sagði að sér hefði þótt Solveig koma til sín og segja að ekki skyldi sér þetta duga og aldrei skyldi hann vísari verða hvað orðið hefði um séra Odd, þar með hefði hún lagt á sig hendur og ætlað að skera sig á háls með stórri sveðju og kenndi hann enn sársaukans er hann vaknaði. Eftir það hætti Þorsteinn þeim ásetningi sínum að grafast eftir hvar prestur væri niður kominn.

Lítið hefur borið á Solveigu síðan. Þó hafði séra Gísli sem síðast var prestur að Reynistaðarklaustri (1829-1851), sonur séra Odds, sagt frá því að fyrstu nóttina sem hann svaf hjá konu sinni hefði Solveig ásótt sig ákaflega svo hann hefði þurft að hafa sig allan við að verjast henni, en hann var heljarmenni til burða sem faðir hans. Aðrar sögur hafa ekki farið af Solveigu.


1 Hann var þar prestur 1767-86.

2 Aðrir segja að keyrið og annar vettlingurinn hafi fundizt á bæjarkampinum og lokkur úr faxi hestsins utan um.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann