Skarðs-Skotta

Þessi Skotta var oft höfð til sendinga og hún var seld mansali. Bjarni ríki Pétursson sem bjó á Skarði í byrjun 18. aldar tók við Skottu af öðrum manni sem var orðinn leiður á henni og lét hann gefa sér fé til. Síðan fargaði Bjarni henni aftur og gaf manni hangikjötskrof til að taka við henni. Þessu reiddist Skotta svo að sama kveldið sem hann seldi hana og Bjarni sat og uggði sér einskis var honum rekinn löðrungur svo að kjálkinn brotnaði í honum; var það Skotta og hefndi sín þannig á Bjarna fyrir vistabrigðin.

Nú er Skotta þessi dauð. En í tíð þeirra manna sem nú lifa hét Skottuskot undir stiganum í gamla Skarðsbænum; þar var rúm Skottu meðan hún var uppi og var henni skammtað því hún hafði verið vakin upp kvik. Af henni ganga margar sögur.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 352–353.

© Tim Stridmann