Mývatns-Skotta

Við Mývatn, á Arnarvatni, bjuggu bændur tveir sem vóru galdramenn, en það var heldur mikill illur kur í bændunum.

En það bar til á vetri einum að stúlkuvesalingur dó úti í hríð vestur þar á heiðinni, fyrir vestan Helluvað, en annar fyrrnefndur bóndi hafði grun af hvað gerðist og fór um nóttina vestur á heiði og vakti stúlkuna upp áður en hún var köld orðin, fór síðan með hana heim til sín um morguninn og lét hana fara á undan sér inn í bæinn og sagði henni að drepa mótbýlismanninn.

Hún fór síðan inn og hann stuttu á eftir, en þegar hún kom inn settist bóndi snögglega upp í rekkjunni og skipaði henni að taka þann sem á eftir henni kom, og það gerði hún; þegar hann kom inn greip hún hann og kastaði honum sem öðrum sopp innan um baðstofuna, en hinn sat í rekkju sinni og hló að; samt lét hann hana ekki drepa hann út af og því var hún á flakki og fylgdi ættinni lengi síðan, til dæmis þegar Illugi Helgason var að yrkja rímur af Ambales ásótti hún hann svo stundum að hann gat ekkert kveðið tímum saman.

Hún fylgdi lengi Arnþóri nokkrum sem var í Reykjadal, en þegar hann var dauður kom hún á kvíavegg til konu sem var að mjólka, og sagði: „Hvert skal nú fara, nú er Arnþór dauður.“

Þá mælti konan: „Farðu til fjandans og fylgdu ættinni!“

Síðan hefur hún farið flöktandi og fylgt ýmsum.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann