Vestfirzki galdramaðurinn

Galdramaður einn mikill var fyrri á tímum á Vestfjörðum. Var hann mjög nafntogaður fyrir fjölkynngi sitt og héldu allir að hann væri sá mesti á landinu. Barst það í tal við sjálfan hann, og sagði að sér sviði það mjög að hann væri ekki mestur því annar væri sér meiri í Hreppunum (ↄ: í Hnappadalssýslu) og kvaðst hann mundi reyna hvert ekki væri svo.

Einhverju sinni var kunningi galdramannsins í Hreppunum kominn til hans. Það var um vetrartíma og sátu allir við vinnu um kvöldið. Var þá barið að dyrum, en ekki nema eitt högg. Buðust menn nú til að fara til dyra, en bóndi (ↄ: galdramaðurinn) bað alla menn vera kyrra og kvað þann er kominn væri víst eiga erindi við sig einan. Fór hann nú ofan og kemur inn aftur og fer inn undir baðstofupall og er þar eitthvað að bauka. Þegar góð stund var liðin kemur hann upp og fer til iðju sinnar. Spurði komumaður hvað það hefði verið er komið hefði. Sagði bóndi það hefði draugur verið frá Vestfjörðum og hefði hann bundið hann „hérna undir pallinum“. Þetta þótti komumanni kynlegt og sagðist hafa ímyndað sér að hann mundi hafa sent hann aftur, en hinn kvað það ekki hafa verið ráðlegt, heldur ætlaði hann að geyma hann þangað til á sumardaginn fyrsta, þá ætlaði hann að gefa hann þeim sem hefði sent hann í sumargjöf, og skyldi hann þá koma til sín og sjá hvert honum hefði mjög mikið aftur farið í vistinni hjá sér eða hvert hann væri ekki léttur á sér. Hann kvaðst mundi svo til haga að komumaður gæti séð hann.

Leið nú af veturinn. En á sumardaginn fyrsta kom maðurinn aftur. Losaði þá bóndinn púka sinn og gat maðurinn glögglega séð hann. — Í fyrsta sporinu stökk hann stekkjarveg, öðru bæjarleið, en í því þriðja hvarf hann. Seinna átti að hafa frétzt að Vestfirðingurinn hefði dáið á sumardaginn fyrsta.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 329.

© Tim Stridmann