Vofan

Einu sinni voru hjón sem áttu eina dóttur barna. Á þeim bæ var líka vinnumaður sem hafði hug á henni, en það var henni móti skapi og var hún honum afundin. Það bar til einn jóladag, þegar fólk fór til tíða að vinnumaður vildi reiða bóndadóttur yfir á sem var á leiðinni. Það vildi hún ekki og bað heldur gamlan mann er þar var í ferð að reiða sig yfir ána og það gjörði hann. Þá sagði vinnumaður: „Ég skal reiða þig um önnur jól þó þú viljir ekki.“

Eftir jólin dó vinnumaður og bar ekki til tíðinda fyrr en á jólanótt hina næstu var barið á dyrum hjá bónda. Út var gengið og sást enginn maður. Sona fór þrisvar og í fjórða sinni er barið var sagði gamli maðurinn við bóndadóttur: „Nú mun sá kominn er vill finna þig, sá sem hét að reiða þig til kirkju, og mun þér bezt að ganga út til hans, en ekki skalt þú svara því, þó hann tali til þín.“ Hún gjörir so, gengur út og sér hún gráa vofu á hlaði. Sú tók til hennar og setti hana á hest fyrir aftan sig. Þá segir hann: „Í holu, í holu.“ Sona reiddi hann hana langa leið og sagði: „Hvað hangir í hnakka mínum Gárun, Gárun?“ En þegar hann kom að kirkjugarðshliðinu reið hann þar inn um, en þá fleygði hún sér ofan, og skildi þar með þeim.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 272–273.

© Tim Stridmann