Andrahaus

Í Skarðslöndum fyrir vestan er eyja ein sem Hólaey heitir. Norður úr henni gengur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú að ekki mætti slá hann. Þessi trú helzt enn og hefur þróazt við það að sá sem bjó á Skarði, hver sem það nú var, lét einu sinni slá hausinn og hirða af honum heyið. En haustið eftir vildi svo til að margt af Skarðsfénu flæddi og drapst, ekki einungis það sem gekk í Hólaey og Andrahausi, heldur og það sem var í hinum eyjunum, og þótti það fremur tiltökumál. En vinnufólkið á Skarði þóttist hafa séð bergrisa einn sem menn ætluðu að væri Andri karl vaða þaðan í hinar eyjarnar þangað sem féð drapst og þótti með því sýnt að risinn vildi láta bóndann á Skarði komast að keyptu fyrir sláttinn á Andrahausi sumarið áður. Síðan hefur Andrahaus aldrei verið sleginn og haft er það eftir Kristjáni Magnusen kammerráði sem nú er á Skarði að aldrei skuli sér verða það að láta slá hann.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 465.

© Tim Stridmann