Dauði Arnþórs

Þegar Arnþór lá banaleguna sagði hann svo fyrir að þegar hann væri dauður skyldi meðhöndla líkið sem vanalega og kistuleggja, en róta svo kistunni ekki úr stað, heldur segja presti til, og hann mundi koma og verða líkinu samferða til legstaðarins, og lagði mikið ríkt á að þessari fyrirsögn væri vel fylgt, ella kvað hann ekki mundi þurfa að hafa fyrir að jarða sig. En það bar til þessa að einhver vættur, líklega vinkonan hans, hafði beðið hann eftirláta sér líkamann eða leyfa sér að ná hönum þegar hann væri dauður, en Arnþór vildi ekki leyfa það, en hún hafði heitið að hún skyldi ná honum samt, og þess vegna hafði hann þessa fyrirsögn um meðferð á líkinu og líka hafði hann sagt prestinum frá þessu öllu saman.

Nú þegar Arnþór var dauður var farið að öllu með líkið eins og hann hafði fyrir sagt, en þegar fara átti á stað að sækja prestinn gjörði þvílíkt fjörráðsveður að ekki var kviku úti líft, og gekk þetta í þrjár reisur þegar sækja átti prestinn og var því altíð snúið aftur. Loksins var lagt á stað með líkið og var þá veður gott, en þegar líkfylgdin var komin suður fyrir völlinn þar sem heitir í Krubb — við hraunið — mætti presturinn þeim og gekk hann þá strax að kistunni og lyfti upp einu horninu og spurði þá sem með fóru því þeir væri að flytja kistuna tóma. Var kistan þá upp slegin og var hún þá tóm. En prestur veitti þeim er með fóru þungar átölur fyrir það að þeir biðu hans ekki eða rótuðu kistunni nokkuð fyrr en hann kom.

Í vallarhorni á Sandi heitir Draugatótt því þar hafði Arnþór eitthvert sinn sett niður draug.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 597–598.

© Tim Stridmann