Fjárafli Eggerts

Fara nú eigi fleiri sögur af æsku Eggerts. En sem hann þroskaðist gjörðist hann mikill maður fyrir sér og brátt umfram aðra menn að greind, röskleika og atorku. Og sem honum græddist fé keypti hann sér bát og varð síðan hinn heppnasti og ötulasti formaður og græddi bráðum fé mikið. Þá var mjög sótt til fiskjar úr Oddbjarnarskeri er liggur tveim mílum utar en Flatey. Voru þar þá fjörutíu verbúðir eða fleiri og var Eggert þar löngum hlutdrjúgastur. En er svo hafði farið fram um stund og Eggert girntist að fara að búa þá keypti hann hlut í Flatey og setti þar bú saman og gekk mætavel og keypti sér smám saman margar jarðir á landi.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 582.

© Tim Stridmann